09.05.1964
Efri deild: 96. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala langt mál um þetta frv. Ég hafði við 1. umr. þess gert nokkrar almennar aths. við það. Auk þess gekk hv. 6. þm. Sunnl. svo frá þessu máli hér í gærkvöld, að það er í raun og veru ekki þar við bætandi, því að hann sýndi í rökfastri ræðu fram á firrur þess, fjarstæður og algert gagnsleysi. Má raunar undarlegt heita, ef stjórnarflokksmenn og þá fyrst og fremst hæstv. ráðh. getur látið sér lynda að sitja þegjandi undir þeirri ræðu og geta ekki með neinu móti andæft þeim rökum, sem í henni komu fram. En ég hef, í stað þess að fara að ræða málið almennt nú á þessu stigi, ætlað mér að bera upp nokkrar fsp. til hæstv. bankamálaráðh., sem sumar eru reyndar að nokkru leyti endurtekning á því, sem ég drap á í frumræðu minni við 1. umr. þessa máls, en þeim hefur ekki til þessa verið svarað af hæstv. ráðh., né heldur kom það fram hjá frsm. meiri hl. fjhn., að n. hefði tekið þau atriði eða þær ábendingar, sem ég gerði þá, til athugunar á fundum sínum. Ég skal svo ekki hafa lengri formála að þessu, en bera upp þær spurningar, sem mér leikur hugur á að fá svar hæstv. bankamálaráðh. að nokkru leyti við.

Þá er það fyrsta spurningin, að í þessu frv. felst það, að bindiskyldan er hækkuð í 25%, 1/4 hluta af öllu innlánsfé í bönkum og sparisjóðum. Ég bið menn vel að taka eftir því, sem raunar auðvitað allir hafa gert sér grein fyrir, að það er ekki þarna um að ræða hlutfall af aukningu sparifjár, heldur er þarna um það að ræða, að það megi binda 1/4 af öllu því fé, sem lagt er í banka og sparisjóði. Og nú er það fyrsta spurning mín til hæstv. ráðh., hvort slík bindiskylda upp á 25%, eða 1/4 hluta af innlánsfé í bönkum og sparisjóðum, sé ekki algert einsdæmi. Ég veit, að hún er algert einsdæmi hér á landi. Ég hygg líka, að hún sé fordæmalaus utan Íslands. En ég veit, að hæstv. ráðh. er mér fróðari um þessi efni, og ef honum skyldi vera kunnugt um einhver fordæmi þess, að það hefði í einhverju landi verið upp tekin þvílík bindiskylda, þá væri fróðlegt að fá það hér fram.

Ég hef áður bent á það, að ég tel þessa bindiskyldu, 25% af öllu því fé, sem lagt er í banka og sparisjóði, hvort heldur er á venjulega sparisjóðsreikninga eða hlaupareikninga, algera fjarstæðu. Ég tel og hef spáð því, að það sé og verði ómögulegt að framkvæma þessa innlánsbindingu. En eigi að síður hlýtur það að vera tilgangur þeirra, sem mál þetta bera fram, að hún verði framkvæmd. En ég segi það, að ef hún verður framkvæmd eftir orðanna hljóðan, ef hún verður framkvæmd þannig, að 1/4 af því fé, sem er lagt í banka og sparisjóði, verður bundinn, þá spái ég því, og ég vil fullyrða það, að ef þannig verður gengið fram, þá mun hún beinlínis steypa einhverjum bönkum og sparisjóðum á höfuðið og þá auðvitað náttúrlega fyrst og fremst hinum yngri stofnunum, sem eiga erfiðara með að standa undir slíkri bindingu. En þegar þessa er gætt, hversu gífurlegt álag er þarna lagt á banka og sparísjóði, þá vekur það alveg sérstaklega furðu mína, að niður skuli vera felld 4. mgr. 11, gr. í seðlabankal. Ég benti á það við 1. umr. málsins. Ég var satt að segja svo barnalegur að halda, að þarna gætu verið einhver mistök á ferðinni, það hefði í raun og veru ekki verið ætlunin að fella niður þessa 4. mgr. Il. gr. seðlabankal., heldur hefði þarna eitthvert gáleysi átt sér stað, og ég lét mér detta í hug, að hv. fjhn. mundi kannske lagfæra þetta eftír þá ábendingu, sem ég hef hér gert, en það hefur nú ekki orðið, og þar af sést, að þetta er beinlínis meiningin, að fella niður þessa 4. mgr. 11, gr. seðlabankal., en sú mgr. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Valdi flutningur innstæðna vegna framkvæmdar 1, og 2. mgr. í upphafi erfiðleikum fyrir ákveðnar innlánsstofnanir, skal Seðlabankinn leitast við að leysa úr því, m.a. með því að yfirtaka samtímis af viðkomandi stofnun verðbréf eða aðrar eignir, sem hann metur gildar.“

Og nú er það önnur spurning mín til hæstv. bankamálaráðh.: Hvaða ástæður liggja eiginlega til þess, að þetta sanngirnisákvæði er niður fellt?

Það er sagt, að fé það, sem binda á í Seðlabankanum, eigi nú að nota til afurðalána. Það er sagt, að annað ráðstöfunarfé Seðlabankans, eigið fé og annað ráðstöfunarfé, sé nægilegt til þess að standa á móti hæfilegum gjaldeyrisforða, eða þeim gjaldeyrisforða og varasjóði, sem nú er, og það mun enn fremur vera sagt og láta nokkuð nærri, að innlánsbindingin, sem nú er, samsvari afurðalánum, og þó gerir hún nú nokkru betur og talsvert betur, ef farið væri í leyfilegt hámark, eins og það er nú. En það er sagt, að afurðalánin þurfi að auka, — það er rétt, — og því sé aukning bindiskyldunnar nauðsynleg.

Nú verður það þá þriðja spurning mín til hæstv. ráðh.: Er þá ætlunin að nota allt það bundna fé, sem í Seðlabankann inn kemur, sem miðað við óbreyttar aðstæður gæti samkv. hinni nýju bindiskyldu orðið rúmar 1400 millj., 1415 eða 1420 millj., til afurðalána, til endurkaupa á afurðavíxlum? Það er einkennilegt, þegar það er sagt, að þetta bundna fé eigi að nota í þessu skyni, og þegar það er sagt í frv., að megintilgangur með bindingunni eigi að vera þessi, þá er það einkennilegt, að það skuli ekkert svar fást við því, hversu mikið afurðalánin skuli aukin. Það er ekki til of mikils mælst af hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál, að hann geri grein fyrir fyrirætlunum ríkisstj. í þessu efni, hversu mikið eigi að auka afurðalánin, hverjar nýjar tegundir af afurðalánum eigi upp að taka o.s.frv.

Í 2. gr. frv. þess, sem hér liggur fyrir, er Seðlabankanum veitt heimild til að afla fjár með sölu gengistryggðra bréfa. Nú spyr ég, og það er mín fjórða spurning: Er meiningin, að fé það, sem Seðlabankinn þannig aflar, sé lánað út aftur með gengisklásúlu, eða er ætlunin, að Seðlabankinn taki á sig sjálfur gengisáhættuna og gengistapið, ef til kemur, á þessu fé?

Um þetta er ekkert í frv., en það ræður vafalaust miklu um notkun þessarar heimildar, hvor leiðin er farin, hvor hátturinn er á hafður. Ef Seðlabankinn á sjálfur að bera áhættuna, en getur ekki velt henni yfir á aðra, er líklegt, að þessi heimild verði notuð í hófi. Ef aftur á móti Seðlabankinn á að geta lánað þetta fé aftur út með gengisákvæði, þá er áhættunni velt yfir á lántakendur. Þá er líklegt, að miklu meir kveði að notkun þessarar heimildar. Þá er hreint og beint opnuð leið fyrir Seðlabankann til hreinnar samkeppni við viðskiptabankana um spariféð. Og þess vegna spyr ég: Hver er ætlunin að þessu leyti? Og jafnframt leyfi ég mér að spyrja, hvort það muni vera hægt að lána þetta fé situr út með gengisákvæði án sérstakrar heimildar í l., en það er auðvitað mál, að svona veigamiklu atriði í notkun þessarar heimildar hefur seðlabankastjórnin og hæstv. bankamálaráðh. náttúrlega gert sér fulla grein fyrir.

Í ræðu minni við 1. umr, þessa máls vék ég að því, að fyrst á annað borð væri farið að breyta seðlabankal., hlyti sú spurning að vakna, hvort ekki væri í leiðinni rétt að gera aðrar breytingar á seðlabankal., og eitt þeirra atriða, sem ég drap á í því sambandi, var ákvæði þeirra um rétt banka til gjaldeyrisverzlunar. En í 17. gr. þeirra laga er svo mælt fyrir, að rétt til þess að versla með gjaldeyri skuli Landsbankinn hafa og Útvegsbankinn, auk Seðlabankans náttúrlega, en auk þess skuli seðlabankastjórn, sem er skilið svo, að þar með sé átt við bankastjóra Seðlabankans, heimilt að veita fleiri bönkum hliðstæð réttindi.

Nú skal ég ekki hafa mörg orð um þetta mál, en minni þó aðeins á það, að þegar seðlabankafrv. var á sínum tíma til meðferðar hér í þessari hv. d., bar ég fram brtt. við það þess efnis, að Búnaðarbankanum yrðu veitt hliðstæð réttindi og Landsbankanum og Útvegsbankanum, og færði fram fyrir þeirri till., að mínum dómi, gild rök, og sýndi fram á, að það væri ekki ástæða til þess að setja þennan ríkisbanka að þessu leyti til skör lægra en hina ríkisbankana. En þessi till. fékk ekki undirtektir þá hér í hv. deild, og þess vegna tók ég hana aftur, vegna þess að mér þótti ekki heppilegt að láta hana þá ganga hér undir atkv. og láta hana falla þar, heldur tók ég hinn kostinn, að sjá, hverju fram yndi í stjórn Seðlabankans um þessi efni. Þar af er skemmst að segja, að það hefur æ ofan í æ verið klifað á þessu í stjórn Seðlabankans, að Búnaðarbankinn fengi hliðstæð réttindi að þessu leyti til við hina ríkisbankana, en sú málaleitun hefur engan byr fengið á þeim stöðum. Mér er í raun og veru alveg óskiljanlegt, hvernig á því stendur, og ég skal ekki hafa fleiri orð um það, enda þótt það megi rekja svo mörg og augljós rök, sem liggja til þess, að það er ekki nokkur ástæða til þess að veita þessum tveimur bönkum þessa forréttindaaðstöðu fram yfir Búnaðarbankann. Ég nefni það alveg sérstaklega, en auðvitað kemur hitt líka til greina, hvort það er nokkur minnsta ástæða til þess að vera að binda þessa grein í bankastarfseminni við ríkisbankana. En það verður ekki séð af nál. og kom ekki fram í framsöguræðum, að hv. fjhn. hafi sérstaklega tekið þessa ábendingu til athugunar, og það er náttúrlega ekki eðlilegt a.m.k., að minni hl. hafi farið að sinna henni, þar sem hann leggur til, að þetta frv. sé beinlínis fellt. En nú langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðh. um það, þó að það megi segja, að það sé ekki beinlínis um að ræða atriði í þessu frv., hver sé afstaða hans til þessa máls. Mig langar til þess að fá það alveg hreint fram. Vill hann, að haldið sé í einokunarforréttindi Landsbankans og Útvegsbankans í þessu efni? Eða telur hann ekki eðlilegt, að Búnaðarbankinn fengi rétt til gjaldeyrisverzlunar? Það er ekki alveg út í bláinn, sem mig langar til þess að fá fram afstöðu hæstv. ráðh. um þetta efni hér, því að ef hann lýsti sig jákvæðan í þessu efni, teldi ég rétt, ef tími ynnist til, að freista þess að koma fram brtt. við þetta lagafrv. þess efnis, að Búnaðarbankinn væri í þessu tilliti settur við sama borð og hinir ríkisbankarnir, og ef hæstv. viðskmrh. tjáði sig meðmæltan slíku hér á þessum vettvangi, þá teldi ég fyrir fram góðar horfur á því, að slík till. næði hér samþykki. Ef hann er hins vegar neikvæður í þessu máli og lýsir því hér, þá má heita vonlaust að vera að koma fram með þvílíka brtt. á þessu stigi. En ég segi það enn og aftur, að það er vitaskuld ekkert réttlæti í því að setja Búnaðarbankann hjá í þessu efni, og eins og ég áðan líka sagði, er mér tregða seðlabankastjórnar í þessu efni algerlega óskiljanleg, og mér er lítt skiljanlegt, hve fastheldin stjórnin er á þessi forréttindi, sem Landsbankinn og Útvegsbankinn hafa að þessu leyti. Þau séu fjarri mér að vera með neinar getsakir í garð þeirra ágætu manna, sem stjórn Seðlabankans skipa, um vísvitandi vilsýni í þessu efni, en það, að þeir eru allir valdir úr einum og sama banka, Landsbankanum; allir komnir í Seðlabankann frá einum og sama banka, Landsbanka Íslands, er vissulega til þess fallið að vekja nokkra tortryggni í þessu efni. Það væri ekki nema mannlegt; að þeir hefðu nokkru hlýrri tilfinningar til síns fyrri banka heldur en annarra banka en núv. seðlabankastjórar hafa áður allir verið bankastjórar við Landsbankann og eru komnir beint úr því sæti í starf sitt við Seðlabankann: Það væri vissulega ekki heppileg regla, ef seðlabankastjórnir ættu æ og ævinlega að koma þannig frá einum og sama banka, Landsbankanum. Það gæti orðið tilefni tortryggni, ekki sízt í sambandi við mál sem þetta, þar sem spurning er um forréttindaaðstöðu Landsbankans og Útvegsbankans. En þetta er sem sagt óskiljanleg tregða í jafnsjálfsögðu máli og þessu, að manni finnst; og það fer ekki hjá því, að af því megi nokkuð marka hug manna til þess atvinnuvegar, landbúnaðarins, sem Búnaðarbankinn er sérstaklega stofnaður til þess að styrkja.

Herra forseti: Ég hef hér borið fram fimm spurningar til hæstv. ráðh., sem ég vænti, að hann muni svara hér á eftir.