11.05.1964
Efri deild: 90. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Það hafa ekki. við þessar umr. frekar en í hv. fjhn, fengizt svör við þeim spurningum, sem mönnum eru efst í huga í þessu sambandi. Hæstv. viðskmrh., sem hefur verið hér í d. öðru hverju undir þessum umr., hefur ekki séð ástæðu til þess að svara þeim ýmsu fsp., sem til hans hefur verið beint. Þetta hlýtur að sjálfsögðu að tefja mjög umr. málsins, vegna þess að það leiðir til þess, að menn verða, að ræða þetta mál út frá ófullkomnari upplýsingum en þurft hefði að vera, ef öðruvísi hefði verið á málum haldið frá hálfu hæstv. ráðh.

Þetta haftafrv., sem hér liggur fyrir, og þær brtt. um aukin höft, sem fyrir liggja frá hæstv. viðskmrh., eru í greinilegu framhaldi af þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. virðist hafa tekið sérstaklega nú í seinni tíð, að reyra allt viðskiptalíf landsmanna og fjármálalíf í spennitreyju nýrra og hastarlegri hafta en við höfum áður þekkt í íslenzku efnahagslífi, og er þá mikið sagt. Það var á það bent af minni hálfu og minni hl. fjhn. við 2. umr. þessa máls, þá þegar, áður en brtt. hæstv. viðskmrh. lágu fyrir, að þetta frv. væri glöggt dæmi um það „viðskiptafrelsi“, sem viðreisnarflokkarnir væru nú að innleiða, og ég hef orðið viðskiptafrelsi í þessu sambandi að sjálfsögðu í gæsalöppum.

Það kom fram í grg. með þessu frv., að það hefði verið eitt af meginatriðum þeirra peningalegu ráðstafana, sem gerðar voru í sambandi við efnahagsaðgerðir í febr. 1960, að aukning endurkaupa yrði stöðvuð og þar með sú skuldasöfnun bankakerfisins við Seðlabankann, sem hafði fylgt henni. Þetta varð raunar ekki skilið á neinn annan veg en þann, að það, sem fyrir hæstv. ríkisstj. vekti, væri það, að Seðlabankinn skyldi hætta að aðstoða viðskiptabankana með því að láta þeim í té fjármagn til afurðalánanna, vegna þess að hann gat auðvitað ekki orðið að liði í þessu máli nema leggja fram eitthvert fé til þess. Í grg. kom það enn fremur í ljós, að það var talið, að það stæðist nokkuð á endum, að bundna spariféð nægði til þess að standa undir þeim útlánum Seðlabankans, sem felast í endurkaupunum, en annað ráðstöfunarfé Seðlabankans væri þá til annarra þarfa. Samkv. þessu liggur það þá ljóst fyrir, að Seðlabankinn leggur ekki fram fé af sinni hálfu til þessara þarfa. Hlutverk hans er það eitt orðið að taka fé af viðskiptabönkunum og sparisjóðunum og afhenda þeim það aftur í svolítið öðrum hlutföllum, til þess að gegna því hlutverki, sem er að öllu eðlilegu hlutverk viðskiptabanka, en ekki þjóðbanka eða seðlabanka. Þar sem þetta lá ljóst fyrir, gat tilgangurinn með ákvæðum 1. gr. þessa frv. ekki verið annar en sá að setja viðskiptabankana undir eftirlit, setja þeim Seðlabankann sem fjárhaldsmann. Þetta hlaut að byggjast á því, að viðskiptabönkunum væri algerlega vantreyst til þess að gegna sínu hlutverki. Enn frekara vantraust til þeirra kemur svo fram í brtt. hæstv. viðskmrh., og kem ég eilítið að því síðar.

Það liggur nú samkv. þessu, sem hér hefur verið rakið og raunar var miklu ýtarlegar rakið við 2. umr., ljóst fyrir, að sparifjárforðinn í landinu nægir nú miklu verr en nokkru sinni fyrr til þess að mæta þörfum þjóðarinnar og atvinnuvega hennar. Þetta er svona þrátt fyrir það, að á undanförnu árabili hafi orðið töluverð sparifjáraukning í krónum talið, en þær eru nú að sjálfsögðu rýrari en áður var, eins og okkur er öllum kunnugt. En sú geysilega tilkostnaðaraukning atvinnuveganna í landinu, sem leitt hefur bæði af dýrífðarpólitík hæstv. ríkisstj. og þeim gífurlegu álögum, sem hún kvelur atvinnulífið með, þetta hefur allt leitt til þess, að sparifjárforðinn í landinu nægir nú miklu verr en nokkru sinni fyrr til þess að fullnægja þörfum þjóðarinnar.

Það verður ekki með neinu móti séð, að á því sé ráðin nein bót með því að vera að flytja peningana milli bankanna. Ekki leysir það neinn vanda í þessu sambandi. Ekki verður meira fé til ráðstöfunar fyrir það. Það er ekkert, sem getur leyst þennan vanda nema aukin sparifjármyndun, en til þess að tryggja hana þarf að sjálfsögðu breytta stjórnarstefnu, sem endurvekur traust á íslenzkum gjaldmiðli og tryggir sparifjáreigendurna gegn áframhaldandi dýrtíðarholskeflum.

En þetta frv. miðar alls ekki að því að stuðla að aukinni sparifjármyndun. Ef það hefur nokkur áhrif í því efni, hefur það áhrif í gagnstæða átt, vegna þess að á þessu sviði birtist nú frelsið þannig, að menn eiga ekki að fá að ráða því lengur, hvar peningar þeirra eru ávaxtaðir, en það má öllum vera ljóst, að það hefur veigamikil áhrif á sparifjármyndunina, að sparifjáreigendur geti sjálfir ráðið því, hvar þeirra fé er ávaxtað. Það er skoðun mín, að það sé fráleitt, að það geti verið hlutverk Seðlabankans að vera að ráðsmennskast í því, hvaða peningastofnun menn vilja fela það hlutverk að ávaxta sparifé þeirra.

Það er vissulega í sambandi við þetta ástæða til þess að gera sér grein fyrir því, hvað er eðlilegt hlutverk seðlabanka og hvað er það ekki. Það er skoðun mín, að það sé augljóst út frá því skipulagi, sem við höfum á okkar bankamálum, og þeirri löggjöf, sem um það er í landinu, að það sé ekki til þess ætlazt, að Seðlabankinn sé að keppa við viðskiptabankana og fara sífellt lengra inn á þeirra svið og um leið að reyna að beita valdi sínu yfir þeim til þess að torvelda þeim það hlutverk, sem þeim er ætlað, en taka það í staðinn að sér sjálfur. Þetta gaf mér við 2. umr. þessa máls tilefni til hugleiðinga um bankakerfi okkar almennt, og ég skal nú ekki fara út í að endurtaka það allt saman, vegna þess að mér er svo annt um vellíðan hv. þm., að ég vil nú ekki taka meira af nætursvefni þeirra heldur en brýna nauðsyn ber til, en mér virtist, að það væri stefnt að því með þessu frv. þá þegar, áður en breytingar hæstv. viðskmrh. komu til greina, að breyta stórlega uppbyggingu bankakerfisins í landinu og láta Seðlabankann sífellt ganga lengra inn á svið annarra banka og peningastofnana, með það þá væntanlega fyrir augum að gera þær óþarfar og koma í þeirra stað.

Nú er það að vísu alveg rétt, að bankakerfið í landinu er æði viðamikið. Bankarnir eru margir, og það er alls ekki fráleitt, að það sé rétt hjá hæstv. viðskmrh., að þessi mikla bankaþjónusta kosti meira fé en þyrfti að vera, ef úr þessari þjónustu væri dregið. Í því sambandi má benda á, eins og ég hef áður gert, að svipuð sjónarmið eiga að sjálfsögðu við um verzlunarþjónustuna, og í framhaldi af þeim brtt., sem hæstv. viðskmrh. hefur hér lagt fram, þá dettur manni í hug, hvort þess megi kannske vænta, að hliðstæð ákvæði komi fram um það, að ríkisstj. skuli samþykkja stofnun nýrra smásöluverzlana. í þessu sambandi má einnig benda á það, sem hv. þdm. hafa sjálfsagt tekið eftir, að á sumum tímum er lítið að gera hér á fjöldamörgum rakarastofum bæjarins, þó að það sé á þeim á öðrum tímum, og með því að skipuleggja það, hvenær hver maður fari til rakarans, mætti sjálfsagt nýta þessar stofur og þá starfskrafta, sem þar vinna, miklu betur en nú er gert. Kannske má eiga von á frv, til l. um það frá hæstv. ríkisstj. á næsta hausti eða kannske brbl. í sumar.

Hugleiðingar minar um bankakerfið við 2. umr. þessa máls snerust aðallega um það, að mér virtist að því stefnt að leggja allar peningastofnanir landsins undir algera harðstjórn Seðlabankans, sem aftur lýtur ríkisstj, í öllum greinum samkv. 4. gr. l. um Seðlabankann, en mig skorti þá algerlega hugmyndaflug til þess að láta mér detta í hug, að það kæmu fram till. eins og þær, sem hæstv. viðskmrh. hefur borið fram um það, að ríkisstj. tæki sjálf að sér að ákveða, hvar hver einstakur banki mætti hafa skrifstofur. Í sjálfu sér er ég ekki andstæðingur þess, að veigamikil svið okkar þjóðlífs séu skipulögð með betri hætti en oft er raun á, en ég tel, að í því sambandi sé nauðsynlegt að komast hjá allt of harkalegum höftum eða beinni harðstjórn, eins og hér á að beita.

Einnig tel ég það liggja ljóst fyrir, eins og bent hefur verið á í þessum umr., að sú skipulagning, sem hér er gert ráð fyrir, er ákaflega vanhugsuð. Það er gert ráð fyrir því, að sá ráðh., sem fer með mál þeirrar peningastofnunar, sem í hlut á hverju sinni, skuli ákveða, hvort þessi stofnun fær leyfi til þess að setja upp útibú eða ekki. Mér telst svo til, að það séu einir 3 ráðh. a.m.k., sem gætu þannig ákveðið, að útibú skyldu sett upp, eða bannað það, og það er ekki gert á neinn hátt ráð fyrir því í þessu frv., að það sé neitt frekara skipulag á því. Margir kokkar, það virðist mér ekki vera sérstaklega gæfulegt, fyrir utan hvað mér finnst svona ófrelsi og haftapólitík eins og hér kemur glögglega fram vera ákaflega ógeðfelld. Þar að auki hafa ekki verið leidd að því nein rök, að þetta sé nauðsynlegt, og allt ber þetta mál því vitni, að því er kastað inn á hv. Alþingi á seinustu stundu, og hefur engin skýring fengið á nauðsyn þess.

Sérstaklega er mér mikil forvitni á því að vita, hver sú brýna nauðsyn er, sem ber til þess, að nú þurfi með þessu offorsi, sem raun ber vitni, að koma inn í seðlabankalögin heimild til að framkvæma verk, sem hann hefur verið að framkvæma mánuðum saman. Út af fyrir sig má segja, að það sé ekkert við það að athuga, að slík heimild sé í seðlabankalögunum. En á hinn bóginn hlýtur Seðlabankinn, og væntanlega einnig ríkisstj., sem hefur verið fyllilega kunnugt um þessa starfsemi Seðlabankans, að hafa gert ráð fyrir, að þessi starfsemi væri heimil, og þess vegna er erfitt að átta sig á nauðsyn þess að fleygja till. um þetta á seinustu stundu inn á hv. Alþingi og ætlast til þess, að það afgreiði hana með algerlega óþinglegri meðferð. En efnislega skiptir þessi till. að sjálfsögðu ekki miklu máli, þar sem hún er aðeins staðfesting á framkvæmd.

Þar gegnir öðru máli um fyrri liðinn, þar sem um er að ræða mjög veigamikið atriði í bankamálum þjóðarinnar. Ég hef sýnt fram á það, að þetta frv., eins og það lá fyrir, áður en brtt. hæstv. viðskmrh. komu fram, gat ekki byggzt á neinu öðru en vantrausti hæstv. ríkisstj. á því, að viðskiptabankarnir vildu eða gætu gegnt hlutverki sínu. Þetta vantraust á viðskiptabönkunum hafði orðið til hjá hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir það að hún eigi pólitískt kjörna meiri hl. í öllum bönkum landsins nema einum einkabanka, sem ég get ekki ímyndað mér að hefði verið neinn vandi að fá við skynsamlegt samkomulag um þessa hluti. En hæstv. ríkisstj. virðist hafa verið það mjög í mun að leysa þetta mál með valdboði.

Nú kemur fram meira í þessum till., enn meira vantraust frá hálfu ríkisstj. á bankaráðum viðskiptabankanna, og það kemur vissulega nokkuð á óvart, að svona djúpstætt vantraust ríkisstj. á þessum stofnunum skuli vera fyrir hendi. Treystir hæstv. viðskmrh. alls ekki formanni bankaráðs Útvegsbankans t.d., hæstv. utanrrh., til þess að sjá þessum málum skynsamlega borgið í Útvegsbankanum? Hæstv. viðskmrh. virðist einnig hafa mjög djúpstætt vantraust á formanni bankaráðs Landsbankans, flokksbróður sínum, Baldvin Jónssyni lögmanni. Ríkisstj. hefur sagzt ætla að stjórna efnahagsmálum þessa lands fyrst og fremst með aðgerðum í peningamálum. Það hlutverk er auðvitað fyrst og fremst hlutverk bankanna. Nú treystir ríkisstj. þeim ekki lengur. Manni virðist, að hæstv. ríkisstj. treysti orðið engum nema sjálfri sér og þetta er kannske ekki svo undarlegt. Það er nefnilega þannig í öllum mannlegum skiptum, að traust er yfirleitt gagnkvæmt og ef það glatast á annan veginn, glatast það líka á hinn. Og þess vegna er það kannske ekki svo undarlegt, þó að hæstv. ríkisstj. treysti orðið engum.

Meiri hl. hv. fjhn. þessarar d. neitaði að fallast á tilmæli mín um það, að þessar brtt., sem eru mjög veigamikill þáttur þessa frv., fengju eðlilega meðferð í þingnefnd. Ég hafði þar óskað eftir því að fá tækifæri til að ræða þessi mál við bankastjóra og e.t.v. aðra sérfræðinga um bankamál. Ég taldi það eðlilegt, að n. kannaði, eins og venjulega er gert og gera ber, forsendur frv., kynnti sér forsendur þessara ákvæða, sem þarna er gert ráð fyrir, kynnti sér, hver útibú hafa verið stofnuð, fengi upplýsingar um það, hver þeirra hæstv. ríkisstj. teldi sérstaklega hættuleg þjóðfélaginu, og kynnti sér yfirleitt viðhorf þeirra manna, sem þessum málum eru kunnugastir, til þess, hvaða áhrif samþykkt þessara till. mundi hafa.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. spurði hér í umr. fyrr í kvöld allmargra spurninga, sem hann beindi til hæstv. viðskmrh., og margar þessar spurningar voru svipaðs eðlis eins og ég mundi hafa óskað að spurt yrði í nefnd. Ég hafði einmitt hugsað mér að reyna að kanna þau atriði í nefndarstarfinu, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. spurði um, og ýmis fleiri. Mér virðist þó; að þeim spurningum, sem hv. þm. kom með og lutu að því að fá upplýst, hvar þau útibú væru, sem hæstv. viðskmrh. teldi sérstaklega hættuleg, væri sérstaklega æskilegt að fá svarað, svo að menn geti gert sér betri grein fyrir eðli þessa máls og tilefni.

Eftir því sem þetta frv. hefur verið meira rætt hér í hv. d., verður mér það betur ljóst, að hér er fyrst og fremst um það að ræða að herða kverkatök hæstv. ríkisstj. á peningastofnunum landsins, en að því vil ég ekki stuðla. Gagnrýni mín á þessu máli fyrr við umr. hefur einkum lotið að þeirri málsmeðferð, sem hér er um hönd höfð. Mér virtist það vera fyrir neðan virðingu hv. Alþingis að láta hæstv. ríkisstj. hafa áhrif á sig til þess að flaustra frá verki eins og þessari lagasetningu. Ég vil minna á það aftur, sem ég hef nefnt áður í þessum umr., að ef hæstv, ríkisstj. ætlast til þess, að hv. Alþingi samþykki þetta frv. og brtt. hæstv. viðskmrh., þá er það vissulega lágmarkskrafa af hálfu þm., að tími sé veittur til þess, að málið geti fengið eðlilega, þinglega meðferð. Slík meðferð málsins hlýtur að vera sjálfsögð forsenda þess, tíð Alþingi geti tekið á sig ábyrgð af lagasetningunni. Hins vegar virðist hæstv. ríkisstj. reiðubúin til þess að taka ábyrgð á þessari lagasetningu á sínar herðar. En þá þarf hún ekki heldur að leggja það fyrir Alþingi nú, hún getur haft annan hátt á til þess að koma þessu máli fyrir á þann veg, sem hún telur nauðsynlegt, fyrst ekki eru möguleikar á því, að Alþingi geti fengið þann tíma, sem nauðsynlegur er til þess að gefa málinu þinglega meðferð að þessu sinni.

Ég vil einnig vekja athygli hv. þdm. á því, að hv. 4, þm. Austf., sem bráðum hefur átt sæti á Alþingi í aldarfjórðung og er sá alþm., sem ég þekki, sem er fróðastur um störf og sögu Alþingis á undanförnum áratugum, taldi hér í ræðu sinni áðan, að ef það væri ekki einsdæmi, að brtt. af þessu tagi væru gerðar við svona mál á seinasta stigi þess, eins og hér er gert, þá væru fordæmin a.m.k. afar fá, og hér væri um algerlega óvenjuleg vinnubrögð að ræða að flytja brtt., sem felur í sér mjög viðamikið efnisatriði, við síðustu umr. málsins í síðari d. En fyrir utan það, að hér er farið fram á, að Alþingi afgreiði þetta mál með svo óvenjulegum og að mínum dómi forkastanlegum hætti, þá er málið einnig þess eðlis, að Alþingi ætti ekki að fallast á samþykkt þess. Það er, eins og ég hef áður bent á, til þess eins fallið að herða kverkatök hæstv. ríkisstj. á fjármálakerfi landsins, og það er sprottið af því, að hæstv. ríkisstj. treystir ekki peningastofnunum landsins til þess að sinna sinum hlutverkum. Þetta vantraust hæstv. ríkisstj. á öllum öðrum er afleiðing af því, að nú býr hæstv. ríkisstj. við mjög minnkandi traust sjálf í öllum áttum, og þá grípur hún til þeirra ráða. sem í slíkum tilfellum eru tíð, grípur til harðstjórnar. Hæstv. ríkisstj. ætti að sjá sóma sinn í því að fara nú að skilja það, að skipbrot hennar í efnahagsmálum er svo algert, að slík úrræði eins og hér er um að ræða, að grípa til harðstjórnar og herða kverkatökin, duga ekki til lengdar. Það eitt getur nú komið efnahagsmálum okkar í betra horf, að stjórnarstefnunni sé gerbreytt og tekin upp sú stefna í efnahagsmálum, sem að því miðar að stöðva dýrtíðarflóðið og treysta að nýju trúna á gjaldmiðilinn í landinu. Eins og ég hef bent á, stuðlar þetta frv. ekki að því, heldur þvert á móti, og felur þess vegna ekki í sér neitt annað en þá harðstjórnarviðleitni, sem einkennir þetta mál og fleiri, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið með á prjónunum nú að undanförnu. Ég vil skora á hv. þdm, að fella brtt. hæstv. viðskmrh. á þskj. 647, en samþykkja brtt, mínar og hv. 1, þm. Norðurl. e. á þskj. 648.