19.12.1963
Efri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

63. mál, siglingalög

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér um ræðir. Leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Á s.l. Alþingi voru samþykktar allmiklar breytingar á siglingalögunum frá 1914. Hafði sá lagabálkur þá staðið að mestu leyti óbreyttur um nær 40 ára skeið.

Efni þessa frv. er það, sem fram kemur í grg., en þar segir; með leyfi forseta:

„Í ljós hefur komið í sambandi við heildarútgáfu á nýjum siglingalögum samkv. 15. gr. l. nr. 15 20. apríl 1963, um, breyt. á siglingal., nr. 56 30. nóv. 1914, að í 9. gr. fyrrnefndra laga, 2. tölul., hefur láðst að fella niður 3. málsl. 1. mgr. 225. gr. síðarnefndra laga, en aðeins felldur niður 2. málsl.

Enda þótt bætur þær, sem getið er í nefndum málsl., séu augljóslega úreltar vegna mikilla verðbreytinga, síðan lögin voru sett árið 1914, og jafnvel dómur fallið gagnstætt ákvæði þessu, þykir rétt að afnema það formlega með lögum, áður en siglingalögin eru gefin út sem heildarlög með áorðnum breytingum.“

Þessi grein siglingalaganna, 225. gr., hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ef tjón verður á skipi, pósti eða mönnum af því, er skip rákust á, og sökin liggur öll annars vegar, þá bætir hinn seki skaða þann allan, er af hlauzt. Nú hefur mannsbani hlotizt af árekstrinum, og má þá, ef þess er krafizt, dæma hinn seka, þótt eigi verði álitið, að hann hafi unnið til hegningar, til að gjalda manni eða konu hins dána eða börnum hans bætur fyrir missi þess, sem átti að standa straum af þeim, og skal ákveða í bæturnar tiltekna upphæð í eitt skipti fyrir öll. Hvorki þessar bætur né bætur fyrir líkamstjón mega fara fram úr 4200 kr.“

Það er þessi síðasti málsl., 3. málsl.: „Hvorki þessar bætur né bætur fyrir líkamstjón mega fara fram úr 4200 kr.,“ sem láðst hefur að fella niður, en það gefur auga leið, að þessi upphæð, sem hér um ræðir, er löngu úrelt og þess vegna sjálfsagt að leiðrétta og fella niður, eins og lagt er til í þessu frv., enda er einnig á það bent í grg. fyrir frv., að þessi málsl. hefur ekki verið virtur og dómar hafa gengið í aðra átt.

Eins og fram kemur í áliti sjútvn., mælir n. einróma með, að frv. verði samþykkt óbreytt.