11.02.1964
Efri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

88. mál, eyðing refa og minka

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að þræta um þetta mái, það má sjálfsagt gera það aftur á bak og áfram frá ýmsum hliðum. En hv. 9. þm. Reykv. talaði mikið um ómannúðlega aðferð við útrýmingu á refum og minkum, þegar væri viðhöfð eitrun. Og ég skal ekkert mæla því gegn, að það má vel vera, að það takist þannig til, að þessi aðferð lukkist ekki, eins og menn gjarnan vildu. En á það vil ég benda, að þeir aðilar, sem skapa þær reglur, sem á að eitra eftir, eru landb.- og heilbrmrn., og þar tel ég að þeir leiti fyrst og fremst til læknavísindanna um það, á hvern hátt á að meðhöndla þessi meðul. Og ég er ekki neitt sérstaklega að halda með því eiturlyfi, sem notað er nú, þetta stryknínefni eða hvað það heitir. Mér er kunnugt um, að það er um mörg önnur eiturlyf að ræða, og ég geri ráð fyrir því, að heilbrigðisyfirvöldin hér á landi fylgist það vel með í þessum efnum, að þau ráðleggi landsmönnum allajafna það ákjósanlegasta, sem kostur er á og þekking er á í það og það skiptið, án, þess að þau bindi sig nokkuð við sérstök efni, nema því aðeins að reynslan hafi sýnt, að þau séu betri en önnur. En það má vel vera, að það takist þannig til, að eitrið verði að bana ýmsum öðrum en þeim, sem eitrað er fyrir. Og það er að sjálfsögðu skaði, þegar svo tekst til. En mér hefur aldrei fundizt, þegar ég hef verið sjónarvottur að því, þegar refur hefur verið að leika sér í lambfé á vorin eða jafnvel í fullorðnu fé, að þar væru neitt sérstaklega mannúðlegar aðferðir á ferðinni. Ég veit ekki annað en það hafi sézt hálfdauðar kindur í haga, bitnar eftir refi og sömuleiðis með unglömb, og þeir hafa tínt kannske hvert unglambið á fætur öðru, ýmist drepið þau alveg eða hálfdrepið, þannig að ég legg að jöfnu eitrunaraðferðirnar við þær aðferðir, sem refurinn viðhefur, þegar hann er að afla sér sinnar fæðu. Á það vil ég benda líka, að þótt svo þurfi kannske ekki til að takast, veit maður, að það hefur oft mistekizt, þegar skotvopn hafa verið notuð, þannig að dýr hafa ekki fallið samstundis. Þar getur líka verið um það að ræða, að dýr hlaupi særð og séu særð langan tíma og eigi í engu minna stríði undir þeim kringumstæðum heldur en þó að eitur sé viðhaft, þannig að ég sé ekki annað en það sé sama, hvaða aðferð er viðhöfð við útrýmingu þessara dýra, að hún geti undir vissum kringumstæðum valdið einhverlum sársauka, þótt undir flestum kringumstæðum, að ég hygg, muni svo ekki vera.

En ég vil leyfa mér, af því að menn virðast vera fljótir að gleyma, að lesa hér upp ummæli úr þingtíðindum frá 1957, sem tveir þáv. merkir þingskörungar viðhöfðu undir umr. um þessi mál. Annar þeirra var þáv. hv. þm. Borgf., Pétur Ottesen, og hann sagði þar, með leyfi forseta:

„Það er vitað af öllum, sem fást við refaveiðar, að það er talið vera langöflugasta ráðið til að halda bitvarginum niðri að eitra og gera það mjög rækilega. Það kunna að vera nokkuð mismunandi aðferðir aðrar til þess að eyða refnum í landinu, eins og með skotum og þess háttar, en ég held, að það séu hvergi þær aðstæður hér, að ekki sé alveg fyllsta þörf á því, að samhliða þessum ráðstöfunum sé viðhöfð eitrun. Það er vitað, að sums staðar hagar svo til, að það er alveg árangurslaust gersamlega með öðrum hætti að ætla sér nokkuð að ráða niðurlögum refsins eða halda honum í skefjum, — alveg gersamlega árangurslaust, — þar sem um er að ræða hraun og aðra felustaði fyrir refinn, sem hann getur dulizt í og ekki verður að honum komizt með neinu öðru móti en eitra fyrir hann.“

Þá var það annar þingskörungur, hv. 1. þm. N-M., Páll Zóphóníasson, en hann sagði, með leyfi forseta:

,.Ég er ekkert í vafa um það, að þeir menn, sem t.d. fordæma algera eitrun, hafa bara ekki sett sig inn í það, að það eru milli 10 og 20 svæði í landinu, þar sem tófan er ekki nein plága lengur, af því að þar hefur alltaf verið eitrað og alltaf gengið á greni á hverju sumri, þar sem grenjum hefur farið fækkandi á hverju ári og dýrin, sem menn eiga að ráða við, meðan það eru önnur svæði, þar sem ekkert hefur verið um það hugsað og þeim hefur alltaf farið fjölgandi, og það eru þau svæði, sem þeir þekkja, sem framkvæma eitrunina.“

Það er bara þetta, sem ég vildi láta koma fram og benda á það, að menn skuli kynna sér grg. Og þetta segir einn af þeim mönnum, sem undirbjuggu löggjöfina, og ég efast ekki um, að hann hefur kynnt sér rækilega þau gögn, sem fyrir lágu, því að það var leitað umsagnar um þetta mál hjá öllum sveitarstjórnum landsins, og ég held, að flestar hafi gefið einhver svör, og þ. á m. voru allmargar sveitarstjórnir, sem voru þeirrar skoðunar, að það væri útilokað að halda refnum niðri eða útrýma honum á annan hátt en þann að viðhafa eitrun, jafnframt því sem aðrar veiðiaðferðir væru notaðar.

Ég bendi á þetta, að þó að liðin séu nú 6 ár síðan lög þessi öðluðust gildi, þá hefur ekkert það skeð í málinu, sem réttlætir það nú, að við hverfum algerlega frá þessari veiðiaðferð til að útrýma þessum vargi, sem er í landinu. Ég vil líka benda á það, að lögin eru rúm í þessum efnum, og ég fyrir mitt leyti treysti fullkomlega stjórn Búnaðarfélags Íslands og veiðistjóra að breyta reglugerðinni á þann veg, að við getum allir vel við unað í þessum efnum.

Ég held, að það hafi ekki verið farin sú leið að ræða þetta mál við stjórn Búnaðarfélags Íslands eða veiðistjóra, og ég hygg, að ef það hefði verið gert, mundi kannske ekki hafa til þess komið hér á hv. Alþingi, að þetta mál væri þar til umræðu. Og ég tel það skynsamlegustu leiðina hjá okkur til þess að geta sinnt báðum þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, þeim, sem halda sérstaklega og mjög mikið á móti eitruninni, og hinum, sem telja hana óhjákvæmilega, þá sé eina leiðin sú að breyta reglugerðinni og eitra hvergi á landinu annars staðar en þar, sem það er talið nauðsynlegt, til þess að refurinn sé ekki eins mikill vargur í búfénaði landsmanna og hann hefur sýnt sig vera á undanförnum árum oft og einatt.