02.04.1964
Neðri deild: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. flutt örlitla brtt. við frv. það til l. um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán, sem hér er til 2. umr., og vil ég leyfa mér að gera grein fyrir þeirri brtt. í örstuttu máli.

Eins og hv. frsm. fjhn. tók fram áðan, hafði n. þetta mál til athugunar á nokkrum fundum fyrr í vetur og varð sammála um það að mæa með samþykkt þess, þó að einstakir nm. áskildu sér rétt til að fylgja brtt. við málið. Ég get alveg sparað mér að fara með rökstuðning fyrir því, að þetta frv. eigi rétt á sér, get vísað til þess, sem hv. frsm. n. sagði hér um nauðsyn þess að efla iðnað, þessa þriðju höfuðatvinnugrein þjóðarinnar við hlið landbúnaðar og sjávarútvegs, sem nú hefur vaxandi fólksfjölda í þjónustu sinni og vaxandi þýðingu fyrir þjóðarbúið. Skal ég ekki endurtaka neitt af því, sem um það hefur verið sagt. En í sambandi við þá brtt., sem hér liggur fyrir frá okkur, vil ég geta þess, að hún er flutt til samræmis við þau ákvæði, sem áður hafa verið lögfest um sams konar ráðstafanir til hagræðingar fyrir sjávarútveg og landbúnað: Augljóst er, að það frv., sem hér liggur fyrir, er samið með hliðsjón af þessum lögum, og mér og hv. 1. þm. Norðurl. v. þykir sjálfsagt, að þessi ákvæði, sem brtt. fjallar um, verði einnig tekin upp að því er iðnaðinn snertir, og teljum, að hann eigi ekkert síður rétt á þeirri fyrirgreiðslu, sem í því felst, heldur en hinir atvinnuvegirnir, en brtt. er á þskj. 416 og fjallar um breytingu á 2. gr. frv., þar sem talað er um lánstímann á þeim skuldabréfum, sem ríkissjóði er samkv. þessum lögum gefin heimild til að veita ríkisábyrgð fyrir, og breytingin er sú, að lán út á fasteignir megi vera í 20 ár í staðinn fyrir 15 ár, eins og gert er ráð fyrir í frv., og lán út á vélar megi vera í 10 ár í stað 7 ára hámarks, eins og ráðgert er í frv. Ég minni á það, að í lögum um heimild stofnlánadeildar sjávarútvegsins til að opna nýja lánaflokka segir í 2. gr. um þetta atriði: „Hámarkslánatími skal vera sem hér segir: Lán út á fasteignir 20 ár, lán út skip 15 ár og lán út á vélar 10 ár.“ Og við viljum taka þessi ákvæði upp, að því er snertir skuldabréf iðnaðarins, að því leyti sem þau eiga við.

Fjhn. varð ekki sammála um að standa að þeirri brtt., sem hv. frsm. gerði einnig grein fyrir, en hún er á þá leið, eins og hann lýsti, að breyta ákvæðum 2. gr. eins og segir á þskj. 402. Eins og hv. frsm. gat um, hefur þessi breyting, eins og hann sagði, varla mikla þýðingu í framkvæmd. Við teljum, eða ég tel fyrir mitt leyti a.m.k., að hún hafi enga þýðingu í framkvæmd, og sé enga ástæðu til þess að breyta frv. að þessu leyti, heldur hafa það á sama hátt og gert er í l. um stofnlánsdeild sjávarútvegsins og raunar um stofnlánadeild landbúnaðarins líka.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Eins og ég sagði í upphafi, tel ég ekki ástæðu til þess að undirstrika nauðsyn þess, að iðnaðinum sé rétt hjálparhönd í þeim fjárhagslegu örðugleikum, sem hann á nú í, eins og raunar fleiri atvinnugreinar þjóðarinnar. Þessa fyrirgreiðslu hafa aðrir höfuðatvinnuvegir fengið og ég tel sjálfsagt, að iðnaðurinn fái einnig að njóta hennar. Hér er um tilraun að ræða til þess að létta undir með iðnaðinum, sem ég tei að sjálfsagt sé að gera og eðlilegt, að ríkissjóður veiti þá fyrirgreiðslu, sem í frv. felst, og að Alþingi veiti samþykki sitt til þess.