16.04.1964
Neðri deild: 79. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég lét þess getið við 2. umr. þessa máls, að mér léki hugur á að flytja e.t.v. brtt., og voru m.a. af því tilefni fyrir mín tilmæli teknar aftur til þessarar umr. brtt., sem höfðu verið fluttar. Ég skal nú leyfa mér að gera grein fyrir þessum brtt. Því miður er ekki búið að prenta þær, svo að þeim hefur ekki verið útbýtt enn, en þær eru í raun og veru einfaldar, svo að ég vona, að það komi ekki að sök, þó að ég leggi þær fram skriflega. Atkvgr. gæti að sjálfsögðu beðið, þangað til væri búið að útbýta till. En málið hefur tafizt nokkuð af þessum sökum, og ég vildi helzt ekki verða til þess að tefja framgang þess lengur en nú er orðið.

1. brtt., sem ég flyt, er við 1. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að heimilt sé, að þessi löngu lán, sem um getur orðið að ræða, geti komið í staðinn fyrir lausaskuldir, sem menn hafa stofnað til, vegna þess að þeir hafa ekki fengið nægileg lán til hæfilegs tíma til framkvæmda, sem iðnaðarfyrirtæki hafa ráðizt í á árunum 1957–1961 að báðum árum meðtöldum, — mér finnst eðlilegt, að þetta taki til áranna 1957–1962. Það er ekki farið lengra aftur í tímann en var í sambandi við lögin um sjávarútveginn og landbúnaðinn, en eðlilegra er nú, þar sem þetta hefur dregizt, að einu ári sé bætt þarna við og þá gæti komið til greina það, sem menn hafa ráðizt í á árunum 1957–1962.

Þá geri ég það í öðru lagi að till, minni, að 2. og 3. gr. verði sameinaðar í eina grein, sem hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lán samkv. lögum þessum skulu aðeins veitt gegn veði í fasteignum og vélum iðnfyrirtækja. Áður en lán er veitt, skal fara fram nýtt mat hinna veðsettu eigna, þar sem þær skulu metnar til endurkaupsverðs að frádregnum afskriftum, er miðist við rýrnun eignarinnar frá því, að hún varð til. Vaxtakjör skulu ákveðin af stjórn iðnlánasjóðs, að fengnu áliti stjórnar Seðlabanka Íslands og með samþykki iðnmrh.

Það, sem í þessu felst, er að taka upp alveg sams konar ákvæði og var í sambandi við stofnlánadeildarlögin eða breytingarnar á lausaskuldum sjávarútvegsins, og felst í þessu, að áður en lánið er veitt, skuli fara fram nýtt mat. Það mundi í framkvæmdinni verða eins og í fyrra tilfellinu, að ein matsnefnd mundi samræma mötin, sem yrðu framkvæmd í sambandi við eignir iðnfyrirtækja, sem sæktu um lán, og þá einnig mundi verða í framkvæmdinni með þessu móti stuðlað að samræmdum efnahagsyfirlitum þessara fyrirtækja, og með því móti tel ég, að það skapist öruggari grundvöllur fyrir jafnrétti og sambærilegar lánveitingar milli fyrirtækjanna, og auk þess muni það stuðla verulega að eða greiða fyrir að mínum dómi, að iðnfyrirtækjunum verði þetta raunhæf stoð og þeim veitist auðveldara í samningum við banka að selja þessi bréf, sem iðnlánasjóður gefur út.

Ákvæðin um vaxtakjörin, sem kæmu þá inn í 2. gr., eru sams konar og brtt., sem flutt var á þskj. 402 af Davíð Ólafssyni o.fl. En að öðru leyti felst í þessu sú breyting, að þá eru tekin út ákvæðin um lánstímann, sem nokkur deila hefur staðið hér um, og einnig tekið út úr frv. ákvæðið um það, sem segir í 3. gr., að lán samkv. lögum þessum, að viðbættum veðskuldum þeim, sem hvía á fyrri veðréttum, skal ekki nema hærri fjárhæð en 60% af matsverði veðsins. Þetta ákvæði fer þá einnig út. Það var 70% í l. um lausaskuldir landbúnaðarins, og það var ekki í l. varðandi lánin til sjávarútvegsins, en varð í framkvæmd samkv. reglugerðarákvæði 70%. Ég hygg, að þetta 60% ákvæði hér sé miðað við tilsvarandi ákvæði í l. um iðnlánasjóð, en það er nokkuð gamalt og stafar frá þeim tíma, sem langmest af lánum iðnlánasjóðs voru smálán og með veðum í lausafjármunum eða vélum. Ég held, að það geti verið mjög eðlilegt, að lánsfjárhæðin eða heildarveðin megi vera allt að 70% af hinu nýja matsverði, a.m.k. ef lánað er út á fasteignir, á sambærilegan hátt við það, sem gilti í framkvæmd varðandi lánin til sjávarútvegsins og landbúnaðarins.

Þá er þriðja breytingin, sem af þessu leiðir. Það er smábreyting á 5. gr., að hún orðist svo:

„Ráðh. setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara og skilyrði fyrir lánveitingum, svo sem ákvæði um lánstíma og hámark veðskulda af matsverði veðs að höfðu samráði við bankana.“

Það kom fram í sambandi við umr. hér í d. við 2. umr., að spurt var um, hvernig hugsuð væri framkvæmdin á þessu frv., ef að lögum yrði. Það virtist ekki fært að gefa nánari upplýsingar um það, m.a. vegna þess, að fyrir fram hefur ekki verið í raun og veru unnið að því að gera sér grein fyrir því eða ræða við peningastofnanir um framkvæmd málsins. Það lá hins vegar fyrir í sambandi við lánin til sjávarútvegsins og einnig landbúnaðarins, að ýtarlegar viðræður höfðu farið fram á milli. ríkisstj., sem flutti þau frv., og bankanna, sem hægt var að gefa bæði nefndum og þinginu upplýsingar um, og samkv. þeim viðræðum var hægt að gefa upplýsingar um, hvernig framkvæmdin væri hugsuð.

Nú get ég búizt við, að sumum finnist kannske heldur miður að taka ákvæði um lánstímann út úr. En hitt er það, að ég held, að menn þurfi ekki að óttast, að það verði að neinum skaða, en ég tel heldur heppilegra að láta þetta laust, eins og nú standa sakir, og þá á valdi ráðh. í reglugerð að ákveða það, að höfðu samráði við bankana. Það mundi þýða, að ráðh. mundi beita sér fyrir því, þegar þetta frv. hefði verið samþykkt, að hefja viðræður við bankana um framkvæmd málsins og um lánsskilyrði önnur, sem kynni að þurfa að setja, þ. á m. lánstímann, og þó að mönnum þyki kannske sumum miður að taka það út úr l. nú, þá, eins og ég segi, held ég, að það komi ekki að skaða, og á hinn bóginn er til bóta að taka út úr l. hámarkið um 60%, því að ég hygg, að í mörgum tilfellum sé hægt og væri fulltryggt, að hámarkið yrði nokkru hærra, og þar af leiðandi til hagsbóta fyrir aðila eða iðnfyrirtæki, sem hér eiga hlut að máli.

Ég hef nú lýst þessum skriflegu brtt. og leyfi mér hér með að afhenda hæstv. forseta þær með beiðni um, að hann leiti afbrigða fyrir þeim, svo að þær geti komið hér til umr.