04.05.1964
Efri deild: 79. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Um efni þessa frv., er hér liggur fyrir, leyfi ég mér að vísa til grg. fyrir frv.

Þetta frv. hefur gengið ágreiningslaust gegnum hv. Nd., að því er mér bezt er kunnugt, og eins og nál. fjhn. á þskj. 502 ber með sér, hefur fjhn. orðið sammála um að mæla með frv., þó að einstakir nm. áskilji sér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt. við frv.

Eins og fram kemur í grg, og öllum hv. dm. mun vera kunnugt, hefur lánamálum annarra höfuðatvinnuvega þjóðarinnar en iðnaðarins; þ.e. landbúnaðarins og sjávarútvegsins, verið komið í fast form, en iðnaðurinn ber enn skarðan hlut frá borði hvað þetta atriði snertir. Samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir, leysir að vísu ekki það vandamál, sem þar er um að ræða, því að með samþykkt þess er ekki útvegað það fjármagn, sem þyrfti til þessa. En hins vegar felst í því nauðsynleg umgjörð um slíkar ráðstafanir, heimildir og annað slíkt, svo að hvað sem öðru líður ætti ekki að vera ágreiningur um, að það er spor í áttina til þess að koma þessum málum í æskilegt horf að samþ. frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál að sinni, en nefndin leggur til, að það verði samþ.