06.12.1963
Neðri deild: 26. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

95. mál, vegalög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er ákaflega umfangsmikið, eins og m. a. sést á því, að það tók hæstv. ráðh, nærri hálfa aðra klukkustund að mæla fyrir málinu, og í raun og veru stiklaði hann þó aðeins á stóru eins og hann sagði sjálfur, sleppti mýmörgum atriðum úr. En þessi ræða hæstv. ráðherra er til viðbótar 63 bls. frv. með grg. og heilli bók af kortum. Þetta frv. snertir afar mörg og afar flókin viðfangsefni, og sannleikurinn er sá, að á þeim tíma, sem gefizt hefur, síðan þessu mikla máli var útbýtt, hefur mér a.m.k. ekki vegna þátttöku hér í umr., því að hér hafa verið látlausir fundir og látlausar umræður, meira að segja kvöldfundur, á þeim stutta tíma, sem síðan hefur liðið, — hefur mér ekki gefizt kostur á að skoða þessi gögn svo gaumgæfilega, að ég hafi enn áttað mig á öllum atriðum þessa máls, því fer fjarri, eða afleiðingum þess, ef það yrði gert að lögum.

Það dylst mönnum ekki, að það er margt myndarlegt í sambandi við undirbúning þessa máls, enda mátti við því búast, því að sumir af milliþinganefndarmönnum, að öðrum ólöstuðum, eru þannig settir, að þeir eru líklegir til þess að hafa getað lagt til þessara mála mikla þekkingu, þá mestu, sem hér er hægt að fá, og líklegir til að geta gert skynsamlegar bendingar og till. En ég vil einmitt nota þetta tækifæri til að minna á það, vegna þess að þetta er svo sérstaklega heppilegt dæmi til þess, að minna á, að það er óheppileg stefna að undirbúa öll mál, hvers eðlis sem þau eru, aðeins á vegum ríkisstj. og stjórnarflokkanna og svo embættismanna, sem hafa þagnarskyldu í sínum störfum, í stað þess að undirbúa a. m. k. sum mál í þingkjörnum mþn., ég meina ekki öll mál, ekki þau mál, sem verða að mótast eftir höfði ríkisstjórnarinnar, það er ekki nema eðlilegt, að hún hafi sína menn í þeim málum eina, en hversu óheppilegt það er að taka þá stefnu, sem nú er orðin ofan á, að setja hvert einasta mál í þannig lagaða n., að fulltrúar frá þeim þingflokkum, sem ekki eiga sæti í ríkisstj., geti ekki komið þar nálægt. Sum mál eru þannig vaxin, að það er alveg sjálfsagt að skipa í þau kjörnar milliþn., þar sem fulltrúar frá öllum flokkunum geti borið saman bækur sínar og sett fram sín sjónarmið, og frv., þegar þau koma fram, séu þá einnig á þann veg vel undirbúin, að leitað sé þess samkomulags, sem auðið er að ná um málin. Menn ættu að geta haft allan þann ágreining, sem þeim sýnist, fyrir því, gert fyrirvara í mþn. eða þá kljúfa þær í versta falli, ef svo illa tekst til, að menn ná ekki samkomulagi um meginatriði.

Ef nú þessi háttur hefði verið hafður á varðandi undirbúning vegalöggjafar, þá hefðum við sjálfsagt allir hv. þm. verið kunnugir þessu máli, þegar það kom fram, og það getað sparað mikla vinnu á Alþ., kannske komið í veg fyrir ýmiss konar misskilning, sem kann að koma fram, þegar mönnum er haldið utan við málin, kannske komið í veg fyrir ýmiss konar tortryggni, sem hlýtur að festa rætur, þegar mönnum er algerlega haldið utan við o. s. frv. En því er ég að leggja áherzlu á þetta, að þetta mál er einmitt þannig vaxið, að það er glöggt dæmi um mál, sem hlyti að græða stórkostlega á því að vera í þingkjörinni mþn. Alveg sama, er að segja um samgöngumálin yfir höfuð, t.d. samgöngur á sjó, sem nú á að fara að athuga. Nákvæmlega sama er um það að segja. Það er einmitt mál, sem er sérlega vel fallið til að vera í þingkjörinni mþn.

Ég sagði áðan, að þetta mál væri mjög yfirgripsmikið og stórt, og það er hverju orði sannara og um það efast enginn, enn fremur mjög flókið. En til viðbótar við annað kemur svo það, sem ég vil benda á, að þetta mál snertir alveg óvenjulega mikið Alþingi sem stofnun, þ.e.a.s. spurninguna um fjárveitingavaldið, hvar það á raunverulega að vera, — snertir meira þetta spursmál en svo að segja nokkurt annað frv., sem hér hefur fram komið á þeim árum, sem ég hef átt sæti hér á Alþingi, — spurninguna um það, hvar fjárveitingavaldið eigi raunverulega að vera og hvernig því skuli fyrir komið. En ég heyri á hæstv. ráðherra, að hann er mjög fús til þess, að þetta frv. verði skoðað gaumgæfilega í n. í þinginu og fús til að athuga um breytingar á því, og þótti mér vænt um að heyra það.

Ég ætla ekki að nota þetta tækifæri til að fara að efna til neinna kappræðna um vegamálin eða ástandið í vegamálunum eða það, sem gerzt hefur í þeim á síðustu árum. Ég held að það sé bezt að halda öllu slíku utan við þetta mál og snúa sér bara beint að efninu, því að ég held það sé mjög þýðingarmikið að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um þetta mál, sjá, hvort ekki er hægt að koma því þannig fyrir, að sem allra flestir gætu staðið saman um höfuðatriði þess. Þess vegna fer ég ekki að efna til kappræðna um ástandið í vegamálunum á undanförnum árum.

Ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra, — hann orðaði það ekki þannig, en það var efnislega það, sem hann sagði, og um það erum við allir sammála, að vegakerfið er í raun og veru alveg að bresta undan sívaxandi umferð og vaxandi þunga farartækjanna og breyttum atvinnuháttum. Vegakerfið er alveg að bresta og má segja í raun og veru brostið undan þessu, og það fé, sem ætlað er til þessara mála eða ætlað hefur verið, er allt of lítið.

Eldri vegirnir eyðileggjast óðfluga, þeir þola ekki hina nýju umferð, og til þess að tryggja vetrarumferð í þeim héruðum, sem hafa tekið upp nýja atvinnuhætti með vaxandi mjólkurframleiðslu, er lífsnauðsyn að veita miklu meira fjármagn en undanfarið til uppbyggingar á eldri vegum sumpart og sumpart bæta nýjum við. Víða er búið að vinna langt fyrir sig fram í vegunum fyrir lánsfé, sem byggðarlögin hafa tekið og borga ærna vexti af, og þannig draga menn á eftir sér slóðann í brúamálunum er ástandið ákaflega alvarlegt, eins og hv. þm. er kunnugt.

Það er því öllum ljóst, að það verður að gera nýtt átak í vegamálunum, og ég vil í því sambandi benda á, að nú fyrir nokkrum árum fluttum við framsóknarmenn hér á Alþingi frv., sem gekk í þá átt að láta sérstaka benzínskattinn allan, þungaskattinn á bifreiðunum og gúmmígjöldin, láta þetta allt eins og það lagði sig renna til nýbyggingar vega og brúa, að ríkissjóður kostaði af öðrum tekjum viðhaldið, en þetta allt gengi til nýbyggingar vega og brúa. Þetta frv. var ekki samþ. þá, en þess í stað farin sú leið að skipa n. til að íhuga málið, og hefur hún unnið að þessu frv., sem hér liggur fyrir og hæstv. ráðh, talaði fyrir áðan.

Vil ég víkja að nokkrum meginatriðum frv. Frv. gerir ráð fyrir því að hækka skatta, hækka benzínskatt og þungaskatt á bifreiðum og gúmmígjald og aðra slíka skatta, sem falla beint á benzín og ökutæki, að því er mér skilst, um tæplega 90 millj. kr. og verja því fé til að auka framlög til vega og brúa. Er gert ráð fyrir því, að þessir skattar renni framvegis til að standa undir kostnaði við vega- og brúargerðir. Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir því að veita til viðbótar þessu til veganna nema 47 millj. kr. á næsta ári, og stendur þá dæmið þannig skv. frv., að það er ekki gert ráð fyrir, að neitt nýtt fé komi inn í vegakerfið umfram það, sem verið hefur, nema það, sem nú yrði tekið með nýjum álögum á umferðina. Það á að bæta við því fé einu, sem ætlað er að komi inn með þessum nýju álögum, en ekki gert ráð fyrir, að ríkissjóður geti lagt neitt meira en verið hefur af sínum tekjum til veganna. Þetta eru mikil vonbrigði, þegar þess er gætt, að gert er ráð fyrir að innheimta á næsta ári 2500 millj. í skattfé til ríkissjóðs.

Í þessu sambandi langar mig til þess að benda á, að eftir því sem ég kemst næst, stóð dæmið þannig árið 1962, að benzínskatturinn sérstaki, þungaskatturinn og gúmmígjaldið, ásamt öllum innflutningstollum af bifreiðum, ökutækjum, leyfisgjöldum og verðtolli af benzíni, þ.e.a.s. allir skattar og tollar á umferðina, sem ég mundi vilja kalla, námu á árinu 1962 250 millj. kr. umfram það, sem lagt var til vega og brúa á því ári. Samkvæmt þessu frv., ef það verður samþ. og ef fjárveitingin á fjárl. verður eins og hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir í grg. frv., ca. 47 millj., þá heldur ríkissjóður eftir, miðað við árið 1962, í aðrar þarfir um 200 millj. af tekjum sínum af umferðinni, umfram öll framlög til vega og brúa. M. ö. o.: ríkissjóður sleppir engu af því, sem hann hefur, því að það á ekki að auka framlög til vega og brúa nema sem nemur nýju álögunum. En ef athugaðar eru allar tekjur ríkissjóðs af umferðinni, þar með talinn verðtollur og aðrir tollar, innflutningstollar af ökutækjum og eldsneyti til aksturs, þá lítur dæmið þannig út, miðað við árið 1962, að 200 millj. kr. meira er innheimt en lagt verður í vegina. Það á sem sagt að halda enn þessum 200 milljóna tekjum af umferðinni miðað við 1962 og þó sennilega mun meira miðað við árið í ár.

Nú hefði þurft að vera hægt að fá stóraukin framlög til veganna, þegar svona er ástatt um álögur á umferðina, án þess að leggja nýja skatta á umferðina. Það hefði í raun og veru þurft að vera hægt, það hefði þurft að fá samkomulag um að taka þetta fé að mestu eða öllu leyti, sem raunverulega er lagt á umferðina, og verja því til að auka fjárveitingarnar til veganna án þess að leggja nýja skatta á umferðina.

Nú mun okkar afstaða verða þannig í Framsfl, til þessa þýðingarmikla þáttar í málinu, að við munum kynna okkur það við meðferð málsins hjá stjórnarflokkunum og ríkisstj., hvort það er enn enginn möguleiki til þess að fá það samþ., að meira verði lagt fram til veganna og brúnna, án þess að nýjar álögur komi til, sem sé af þessu mikla fé, sem þegar er tekið af umferðinni.

En ef það kemur enn í ljós við eftirgrennslanir, að ekki er hægt að fá þessu framgengt fremur en áður, að aukin verði verulega og a. m. k. ekki minna en þetta frv. gerir ráð fyrir fjárframlög í vega- og brúargerðir, án þess að leggja á nýjar álögur, — ef það reynist enn ekki mögulegt, þá munum við ljá máls á því að samþykkja nýjar álögur í þá stefnu, sem frv. gerir ráð fyrir, enda sé það þá bundið alveg, að peningunum sé varið í vega- og brúargerðir. Ef við eigum um tvo kosti að velja, þá viljum við heldur nýja benzínskattinn og aðra skatta frv. og eiga þátt í því, að hann verði lagður á og meiri framkvæmdir, en að búa við það ástand, sem nú ríkir, þó að óbreyttir yrðu skattar á umferðina. Ef við stöndum frammi fyrir þessu enn við nýja athugun á málinu, þá er þessi okkar afstaða, enda gerum við þá ráð fyrir því, að það hljóti að nást samkomulag um að taka af öll tvímæli um, að Alþingi ráðstafi raunverulega vegafénu framvegis og ekki verði neinu breytt í því tilliti. Ég vona, að það náist samkomulag um það, og byggi það m. a. á því, sem hæstv. ráðh. sagði um það atriði, og á ég hér við, hvernig gengið verði frá vegáætluninni og hvernig fjárveitingum verði fyrir komið til veganna. Kem ég seinna að þeim kafla málsins, en einmitt um það atriði sagði hæstv. ráðh. greinilega, að hann vildi endurskoða hleypidómalaust ákvæði frv., og þótti mér vænt um að heyra það.

Þá er það um þjóðvegina. Gildandi vegalög eru numin úr gildi, en í þeim lögum eru þjóðvegirnir taldir upp, þeir eru þar taldir upp allir saman og afmarkaðir, eins og við vitum. En ég get ekki varizt þeirri hugsun, að mér finnst dálítið svífandi eftir þessu frv., hvaða vegir teljast þjóðvegir. Mér skilst, að eftir frv. verði þjóðvegir í raun og veru þeir einir, sem teknir eru inn á vegáætlun hverju sinni, þ.e.a.s. á fjárveitingaráætlunina, en að þeir, sem ekki koma inn á fjárveitingaráætlunina, vegáætlunina, það sé nokkuð svífandi, og vafamál, hvort óhætt er að telja þá þjóðvegi og hvort ríkið hafi í raun og veru alveg tekið þá vegi að sér eða ekki. Ég ætla, að það þurfi að athuga þessi ákvæði og það þurfi að koma skýrari og ótvíræðari ákvæði um það í frv., hvaða vegi ríkið tekur að sér og hefur fullar skyldur við. Af grg. virðist mér það vaka fyrir mþn., að allir þeir vegir, sem ekki eru hreinlega einkavegir og sýsluvegir, séu þjóðvegir, en það er samt ekki alveg skýrt ákvæði um, að ríkið taki alla þá vegi hreinlega að sér.

Þá þarf vafalaust að endurskoða regluna um, hvaða skilyrði vegir þurfi að uppfylla til að geta orðið þjóðvegir, sem mun vera í 12. gr., og ég býst við því, að þegar nánar er skoðað, komi í ljós, að menn eigi erfitt með að sætta sig við, að ýmsir af þeim vegum, sem búið er að koma í þjóðvegatölu, verði nú aftur gerðir að sýsluvegum, jafnvel þó að sýslum séu ætluð nokkru meiri fjárráð en áður. Þarf þetta atriði því nákvæmrar skoðunar við. Meira að segja þarf' að velta því fyrir sér, hvort ástæða er til þess að hafa sýsluvegina áfram, eins og þessi mál stefna, og hvort ekki gæti komið til greina að stíga það skref hreint, að allir vegir væru þjóðvegir, sem ekki væru einkavegir. Það væri aðeins um tvenns konar vegi að ræða, annaðhvort einkavegi eða þjóðvegi. Þessi hugsun skýtur upp kollinum hjá mörgum, þegar það er athugað t.d., hversu flókna skattheimtu og mikla þarf til að ná saman þessum 5 millj. eða svo, sem héruðunum er ætlað að leggja fram til sýsluveganna. Það er spurningin, hvort það tekur því að hafa flókið skattakerfi eða innheimtukerfi frá hreppunum til að ná saman ekki stærri fjárhæð inn í vegaframkvæmdaáætlun, sem er upp á einar 250 millj. a. m. k. Ég fullyrði ekki, að það eigi að gera þetta. Ég bendi á, að þetta er atriði, sem þarf að skoða gaumgæfilega, og kom hæstv. ráðh. raunar inn á þetta sama. Yfirleitt bar margt af því, sem hæstv. ráðh. sagði, þess vott, að hann, eins og eðlilegt er, telur fulla ástæðu til að skoða gaumgæfilega þetta frv., áður en það verður gert að lögum.

Þá er í þessu frv. nýmæli um, að vegir í kaupstöðum og kauptúnum geti einnig orðið þjóðvegir skv. reglum, sem um það eru greindar í frv. Tel ég sjálfsagt, að þetta eigi að koma í lög, og alveg nauðsynlegt, því að reynslan sýnir, eins og bent er á í grg. málsins og kom fram hjá hæstv. ráðh., að ef ekki verður snúið inn á þessa braut, er engin trygging fyrir því, að aðalleiðirnar í gegnum kaupstaðina og kauptúnin verði í nokkru samræmi við vegakerfið að öðru leyti. Auk þess er þetta fullkomið sanngirnismál, að þar sem ákaflega mikið af tekjunum til vegagerðarinnar kemur úr þessum byggðalögum, þá njóti þau einnig góðs af. Það getur verið álitamál í einstökum dæmum, hve langt eigi að ganga í þessu, en út í það fer ég ekki hér nú. En mér þykir líklegt, að till. n. séu nokkuð nærri því að vera það sanngjarnasta í því efni.

Þá kem ég að því, sem ég tel nokkuð vandasamt mál, og það eru hinar nýju hugmyndir, sem í þessu frv, koma fram varðandi meðferð fjárveitinga til vegagerðar, og það er kafli, sem mér finnst þurfa endurskoðunar við. En það er ekkert einkennilegt, vegna þess að þar er að vissu leyti um nýmæli að ræða, sem er máske dálítið vandasamt að koma fyrir og samræma því, að Alþingi missi ekki fjárveitingavaldið frá sér.

Nýmælið er einmitt þetta að gera vegáætlun, og það tel ég til bóta. Ég tel til bóta að gera vegáætlun. Það er að sínu leyti eins og sett var í lög ekki fyrir löngu, að gera áætlun um byggingu skóla, þegar það var ákveðið, að ríkissjóður skyldi ljúka á fimm árum öllum skyldum sínum við hvern þann skóla, sem byrjað væri að byggja og tekinn væri upp á fjárlög. Ég tel það sé til bóta að gera vegáætlun. En ég held, að vegáætlun eigi ekki að vera til fimm ára, ég held það sé of langur tími, og ég held, að það sé ekki hægt að slíta vegafjárveitingarnar út úr fjárl. og þurfi ekki, þó að vegáætlun sé gerð. Ég tel það mundi þurfa að gera vegáætlun í byrjun hvers kjörtímabils, því að það er óhugsandi að hafa fyrirkomulag, sem gæti valdið því, að þm. t.d. sæti heilt kjörtímabit á Alþingi án þess að hafa tækifæri til að fjalla um vegáætlun. Ég hugsa, að það hljóti allir að vera sammála um, að þessu verður að breyta, og mér þætti ekki ólíklegt, að menn kæmust að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt, að vegáætlun væri gerð í upphafi hvers kjörtímabils.

Þá held ég, að það þurfi að athuga það mjög gaumgæfilega, að vegáætlun þarf að endurskoða. Ég held, að það þurfi að endurskoða hana í raun og veru árlega. Ég held, að vegáætlunin þyrfti að vera kafli í fjárl., og það mundi ég vilja að væri tekið til athugunar, að vegáætlunin væri kafli í fjárl. og í byrjun hvers kjörtímabils kæmi þessi kafli inn í fjárl. og þar með væri því slegið föstu, að þessi vegur o. s. frv. fengi þessi framlög á næstu árum. Við skulum segja t.d., að það stæði fyrsta framlag af fjórum, ef miðað væri við 4 ár, þá er það hreint og klárt, það er vegáætlun. En vegna þess, hve tekjurnar t.d. af þessum tekjustofnum, sem gert er ráð fyrir að byggja á, eru mismunandi, og mismunandi hvað Alþingi vill leggja mikið til viðbótar þessum tekjum fram í vegagerðir og brúargerðir í heild, þá hlýtur að verða kafli á hverju ári í fjárl. um vegi og brýr. Ég veit ekki, hvort mér hefur tekizt að gera þetta nógu ljóst. Ég meina, að núna t.d. er byrjað með því að áætla tekjurnar 240 millj. eða hvað það nú er, og þar af eru 47 millj. beint af almennum ríkistekjum, en hitt eru þessar tekjur samkv. frv., sem eru fastar til vegamálanna. En nú skulum við segja, að næsta Alþingi vilji veita meira en þessar 47 millj., vilji t.d. fara upp í 100 millj., og þar að auki sé sýnilegt, að tekjurnar af föstu gjaldstofnunum fari verulega fram úr áætlun, þá hlýtur Alþingi að verða að ráðstafa fénu sem viðbótaráætlun, — til viðbótar við þá áætlun, sem búið er að gera. Það er sem sé óhugsandi, að ráðh. eða nokkur aðili utan þingsins geti þá komið til og ráðstafað fénu. Reynslan mun verða sú, að þannig þróast þetta. Jafnvel þó að menn færu að reyna að gera þetta sjaldnar, þá kemur í ljós, að tekjustofninn er svo breytilegur, og það getur verið svo breytilegt, hvað Alþingi vill verja miklu fé til veganna, að erfitt er að slíta þetta út úr fjárl. Og vegakafli í fjárlögunum mundi ekkert reka sig á þessa ágætu hugmynd að lögleiða vegáætlun. Vegáætlunin gæti hreinlega verið kafli í fjárl., eins og ég sagði, og yrði þá greinilega tekið fram við hverja framkvæmd, sem tekin er upphaflega upp í vegáætlunina, hvað til hennar gangi árlega. Þessu vil ég skjóta fram til athugunar. Annars er bezt að athuga þetta í næði og hleypidómalaust.

Ef vegáætlun ætti að vera gerð einu sinni á 5 árum og endurskoðuð aðeins eftir 3 ár, þá koma alls konar vandamál upp, sem ómögulegt er að leysa, án þess að Alþingi missi þá fjárveitingavaldið, og það má alls ekki koma til. Við megum alls ekki láta fjárveitingavaldið frá Alþingi. Það finnst mér, að við ættum öll að geta verið sammála um. Það ætti ekki að þurfa að fara eftir því viðhorf til slíks, hvort menn styðja nú stjórn eða ekki.

En ef menn ætla að fjalla um vegáætlun svona sjaldan, þá koma til vandamál eins og þessi, sem fjallað er um í 16. gr., sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt skal ráðh. að ákveða, að fengnum meðmælum vegamálastjóra, að ráðizt skuli í framkvæmdir, sem ekki er gert ráð fyrir í vegáætlun, er til hafa komið atvik, sem ekki voru fyrirsjáanleg, er áætlun var samin, og ekki þykir unnt að bíða endurskoðunar eða nýrrar áætlunar.“

Þarna er ákaflega víðtæk heimild fyrir ráðh. til að veita fé án samþykkis Alþingis til vegamála, og ég efast ekkert um, að þessi grein er komin þarna einmitt vegna þess, að menn hafa hugsað sér að ganga frá þessu máli á Alþingi til lengri tíma. Og í grg. er líka minnzt á, að vegáætlunin sé hugsuð sem eins konar stefnuyfirlýsing Alþingis, en ríkisstj. hljóti svo að verða að breyta henni meira og minna í framkvæmdinni, með leyfi hæstv. forseta, segir um þetta:

„Enda þótt áætlunin væri þannig sundurliðuð eftir mannvirkjum og árum, mundi framkvæmdavaldið að sjálfsögðu verða að hnika framkvæmdum til eftir því, sem fjárhagsástæður, breytt verðlag og aðrar breyttar ástæður eða nýjar upplýsingar krefðust, án þess að þurfi í hvert sinn að leita til Alþingis um samþykki slíkra breytinga. Því aðeins að um gagngerar breytingar á áætluninni væri að ræða, mundi formleg endurskoðun fara fram.“

En fram hjá þessum skerjum verður auðvitað að synda, og það þurfa menn að athuga gaumgæfilega hér í nefnd. Það má náttúrlega alls ekki koma fyrir að ganga þannig frá þessu, að fjárveitingavaldið sé að verulegu leyti tekið úr höndum Alþingis. Ég vil taka dæmi, bara að gamni, hvernig t.d. 16. gr. gæti verkað, og ég vil taka dæmi af sjálfum mér svona að gamni. Við skulum segja t.d., að ég hefði enn þá verið ráðh. fjármála og kannske vegamála, eftir að síldveiðarnar fóru að aukast við Austurland, og þetta frv. hefði verið orðið að lögum. Ég hefði svo freistazt til að fara að nota 16. gr. og ákveða stórfelld ný vegaframlög til Austurlands með tilliti til þess, að þar hefði orðið alveg atvinnubylting, og hefði mátt færa fyrir því mörg skynsamleg rök, og ég gert þetta utan fjárl. og utan vegáætlunar, notað þetta ráðherravald í 16. gr. En ég er ekki í vafa um, að hv. Alþingi hefði líkað þetta stórilla og talið óeðlilegt með öllu. Ég bendi á þetta sem dæmi til gamans og skýringar því, að það þarf að ganga þannig frá þessu, að fjárveitingavaldið verði eftir sem áður í höndum Alþingis greinilega, en byggja þó á þessari hugmynd um vegáætlun, því að hún er skynsamleg og góð.

Ég ætlaði mér að fara mun ýtarlegar út í þennan kafla, en ætla ekki að gera það, heldur aðeins að benda á þetta með þessum hætti, vegna þess að ég heyri, að þeir, sem standa að frv., eru alveg opnir fyrir því að taka upp athugun á þessu og breytingar.

Ég hef nú í raun og veru minnzt á höfuðþætti þessa máls í örfáum orðum og lýst afstöðu til meginatriða þess, eftir því sem hægt er á þessu stigi. Endanleg afstaða hjá Framsfl. fer að sjálfsögðu eftir því, hvernig tekst að ná samvinnu um þetta mál, og ég vil vona, að það takist vel. Ég skal engu spá um, hversu fljótt verður hægt að afgreiða málið, en fljótt á litið sýnist mér nálega útilokað, að það geti orðið fyrir jól. En enga tilhneigingu hef ég til þess að tefja fyrir málinu, ef hægt væri að ná samkomulagi um það. En það er náttúrlega alveg augljóst, að óhugsandi er með öllu, að málið geti gengið fram með ofsahraða, nema hægt sé að ná samkomulagi um öll meginatriði þess. En ég óttast, að jafnvel þótt það tækist, muni það samt ekki vera mögulegt, því að áreiðanlega eru nefndirnar þó nokkra daga að kryfja þessi atriði öll til mergjar, sem ég og hæstv. ráðh. höfum minnzt á að þyrfti að endurskoða. En það eru eiginlega nokkuð sömu atriðin og sömu kaflarnir í frv., sem við höfum báðir talað um að þyrfti að skoða nánar. Ég óttast, að þó að nefndirnar leggi sig allar fram og sitji yfir þessu lon og don, þá verði ekki mögulegt að kryfja öll þessi mál til mergjar á svo stuttum tíma. En sem sagt, við höfum enga tilhneigingu til að tefja fyrir þessu og viljum leita samkomulags um málið.