29.04.1964
Neðri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

200. mál, vegalög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Út af ræðu hæstv. samgmrh. hér áðan vil ég segja það, að ég hef ekki haldið því fram, að það sé ósamræmi í endurgreiðslunum miðað við lög, sem giltu, þegar vegalögin voru sett, heldur verður ósamræmið, eftir að vegalögin eru komin í gildi og þessi skattur er lagður á benzínbílana, en ekki á dísilbílana. Þetta er að vísu eins og áður var gert, en þá var lágur skattur almennt á dísilbílunum, en nú hefur hann verið þyngdur gífurlega, svo að ósamræmi myndast við það.

Hæstv. ráðh. hafði orð á því, að þetta hefðum við flm. átt að athuga í vetur. Það er því alveg rétt hjá honum, við hefðum átt að athuga þetta í vetur, en það má víst maður manni segja, að það hefði átt að athuga fleira í vegalagafrv. í vetur, því að þá hefði ekki hæstv. ríkisstj, þurft að flytja þetta frv. núna, ef allt hefði verið athugað í vetur. Hann segir, að ef heimild sé í l. til að endurgreiða benzínskatt til jeppabifreiða, þá sé sú heimild í gildi enn þá. Má ég spyrja, hæstv. ráðh., er hún í gildi? Er nokkur heimild í lögum um það að endurgreiða benzínskatt til jeppabifreiða? Það þýðir ekki að tala um „ef hún er til,“ ég spyr: Er hún til? Og ég hef spurt um þetta ráðuneytisstjórann í samgmrn. Er hún til, þessi heimild? Og hann hefur svarað mér alveg afdráttarlaust: Hún er ekki til og hefur aldrei verið til, svo að það er ekkert um það að ræða. Það verður ekki um neinar endurgreiðslur til jeppabifreiða að ræða, af því að hún er ekki til, heimildin. Ráðuneytisstjórinn kvaðst hafa rannsakað þetta í fjmrn., en fengið staðfestingu á því. Slík heimild hefur aldrei verið til, svo að þess vegna er það, sem ég flyt þessa brtt. Ef hún hefði verið til, hefði ég látið mér nægja að fá yfirlýsingu hæstv. ráðh. um, að hún yrði notuð, en af því að hún er ekki til, má ég til með að flytja þessa till.

Hann vék að því, hæstv. ráðh., að hann mundi ekki vilja styðja það að afnema undanþágurnar á þungaskatti til dísiljeppa. Hver er að fara fram á það? Ekki ég. Það er fjarri mér, mér dytti ekki í hug að fara að nefna það að fara að afnema undanþágur á þungaskatti til dísiljeppa. Nei, öðru nær. Það eina, sem ég geri, er að fara fram á sama réttlæti gagnvart benzínjeppunum og hinum og ekkert annað.