14.12.1963
Neðri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

95. mál, vegalög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Vegalagafrv. það, sem hér er til 2. umr., hefur verið undirbúið af stjórnskipaðri nefnd. Sá undirbúningur hefur tekið hér um bil 2½ ár. Því miður átti Framsfl. þess ekki kost að eiga hlut að þeirri endurskoðun vegalaganna. Honum var því með öllu ókunnugt um þær till. að skipan vegamála, sem felast í þessu frv., þar til það var lagt fram hér á hv. Alþingi fyrir 10 dögum. Þetta gerði okkur framsóknarmönnum mjög erfitt fyrir að gera okkur nægilega grein fyrir einstökum atriðum frv. á svo skömmum tíma, sem nefndin hafði til starfa. Hins vegar er það mikið áhugamál okkar, að lagt verði mun meira fjármagn í vegi og brýr í landinu en gert hefur verið. Við viljum því mikið til vinna, að það geti orðið og það þegar á næsta ári. Það er þetta sjónarmið, sem mestu ræður um þátttöku okkar í skyndilegri afgreiðslu þessa frv. nú, en n. hefur aðeins haft 8 daga til starfa.

Við fulltrúar Framsfl. í samvinnunefnd samgöngumála höfum leitazt við eftir megni að fá þær breytingar á frv., sem við teljum æskilegar, en okkur var það ljóst frá upphafi, að til þess þurfti að fara samningaleiðina. Nál. og brtt. samgmn. bera það með sér, að þetta hefur tekizt, samkomulag hefur náðst. En þetta er því að þakka, að fullur vilji til samkomulags um afgreiðslu málsins var fyrir hendi hjá öllum nm. og ekkert síður hjá fulltrúum stjórnarflokkanna en okkur hinum. En mestan og beztan þátt í þessu samkomulagi áttu þeir hæstv. samgmrh. og hv. 1. þm. Austf., formaður Framsfl., en þeir fylgdust stöðugt með vinnubrögðum n. Samkomulag af þessu tagi milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokks í mjög þýðingarmiklu og viðkvæmu máli er nokkur nýlunda, að ég ætla, og ég vil segja, að það væri vel, ef svo gæti tekizt um fleiri vandasöm mál hér á hv. Alþingi.

En þótt þetta frv. verði nú samþykkt ásamt þeim brtt., er n. flytur og stendur einhuga að, þá er ekki málið allt leyst með því. Eftir er að setja vegáætlun með þáltill. síðar á þessu þingi, og það væri æskilegt, að takast mætti slík samvinna um meðferð þess máls eins og nú tókst um þetta frv.

Formaður Framsfl. gat þess í ræðu sinni við 1.umr. þessa máls, að flokkurinn mundi kynna sér, hvort unnt reyndist að ná samkomulagi við hæstv. ríkisstj. um jafnmikla fjárhæð til vega og brúa í landinu og gert er ráð fyrir í þessu frv. án þess að auka álögur á ökutæki landsmanna. En hann tók það jafnframt fram, að jafnvel þótt þetta tækist ekki, mundi Framsfl. fylgja þessu frv. og styðja þá tekjuöflunina, sem gert er ráð fyrir í því. Raunin hefur líka orðið sú, að það var ekki unnt að velja aðra leið í þessu efni en mörkuð er í sjálfu frv. hæstv. ríkisstjórnar.

Ég teldi það mikils virði, ef ekki kæmu nú fram efnislegar breyt. við meginefni þessa frv., en það kalla ég að sé III. kafli þess. Um þennan kafla frv. urðu mest skiptar skoðanir og það eðlilega. En með brtt. n. er greinum þessa kafla komið í það horf, sem fullt samkomulag náðist um. Hins vegar gætu slíkar brtt., sem fluttar kynnu að verða og raska þessu samkomulagi, orðið til þess að tefla málinu í tvísýnu, og það viljum við sízt af öllu, og það segi ég fyrir hönd allra nm. Okkur framsóknarmönnum er ljóst, að hin nýju vegalög verða ekki án ágalla, þótt brtt. n. verði samþykktar. En nm. hafa allir samið um meginefnisatriði frv., annars vegar, en þokað til hliðar smærri ágreiningsefnum hins vegar. Þetta hefur verið gert til þess að ná sem fyrst aðalmarkmiðinu, þ. e. því að fá nú stórum meira fé til vega og brúa í landinu.

Ég vænti þess því fastlega, að hér geti orðið gott samkomulag um afgreiðslu þessa máls, eins og það var í sjálfri nefndinni.