16.10.1963
Sameinað þing: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

Olíugeymar í Hvalfirði

Eysteinn jónsson:

Herra forseti. h;g skal fyrst taka það fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að ástæðan til, að ég spyr um þetta utan dagskrár, er sú að fá að vita, hvernig málið stendur núna, ef hægt væri, áður en ákvörðun er tekin um það, hvernig um það verður fjallað af hv. Alþingi. Það er eingöngu að fá að vita, hvernig málið stendur nú.

Hæstv. ráðh. hefur gefið hér nokkur svör, og vil ég af því tilefni segja aðeins fáein orð. Fyrst vil ég segja, að í hvert skipti sem það hefur komið til orða að koma upp nýjum hernaðarmannvirkjum í Hvalfirði, hefur Framsfl. á undanförnum árum verið á móti því. Þetta er alveg ljóst og hefur ævinlega verið svona. Þegar það kom til orða hér á árunum, hvort hægt væri að fá leyfi til þess að setja þarna upp nýjar stöðvar og jafnvel setja upp sprengiefnageymslur í firðinum, þá tókum við alveg hreina afstöðu á móti því. Að okkar dómi hefur slíkt aldrei komið til mála. Hvað hefur verið sett í áætlanir um þessi efni úti í París eða einhvers staðar úti í löndum, kemur okkur ekki við, þetta er hreint og klárt. Og við víkjum einmitt að því í okkar áætlun um þessi efni af þessu gefna tilefni, að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem við beitum okkur á móti þessu, heldur höfum við gert það áður, og hefur hér verið minnzt á, að nokkrum sinnum hafi komið til greina áður að fá að gera þarna viðbótarframkvæmdir af hernaðartagi.

Þá er það auðheyrt á svari hæstv. ráðh., að ríkisstj. getur vel hugsað sér eða hefur í hyggju að leyfa að koma þarna upp nýrri olíustöð og því, sem hann kallar afgreiðsluaðstöðu. Það eru vafalaust nýjar bryggjur og hafnarmannvirki í sambandi við það og legufæri. Hann nefnir að vísu færri tanka núna en kom fram í samtölunum í sumar, en eftir öðru gætum við hugsað okkur, að það væri sem svaraði því, að litli fingurinn væri nefndur núna, en þá hafi fleira verið nefnt, þ.e. fleiri fingur verið nefndir. Ríkisstj, hefur og fallizt á, að fé verði veitt til að gera mælingar og athuganir í Hvalfirði á aðstöðu fyrir olíutanka og bryggjur.

Ég vil af þessu tilefni endurtaka það, sem fólst í ályktun Framsfl., að við erum algerlega mótfallnir því að leyfa þannig nýjar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði og finnst það vera hrein fjarstæða, eins og ástandið er nú í alþjóðamálum, að fara að ljá máls á auknum herbúnaði af þessari tegund í nýjum stöðvum í landinu.

Hæstv. ráðh. minntist á, að áður hefðu verið samþykktar ýmsar ráðstafanir af hendi varnarliðsins án þess að bera þær undir Alþingi, og það er alveg rétt. En mín skoðun er sú, og það er skoðun okkar í Framsfl., að engin sú framkvæmd sé neitt hliðstæð þeirri, sem nú stendur til að gera, því að nú stöndum við á vegamótum um, hvort á að byggja Hvalfjörðinn upp sem flotastöð eða ekki, — annaðhvort eða ekki.

Og það er ekki hægt að gera þetta að neinu leyti sambærilegt í huga nokkurs, sem nokkurt vit hefur á þessum málum, við það, hvort komið er upp einni lóranstöð einhvers staðar eða öðrum einstökum framkvæmdum, sem byggðar eru utan á aðrar, t.d. suður á Keflavíkurflugvelli.

Hér er um stórkostlegt stefnumál að ræða. Ætla Íslendingar að láta verða flotastöð í Hvalfirði, eða ætla þeir það ekki? Ef þeir ætla ekki að láta koma upp flotastöð í Hvalfirði, þá á ekki að samþykkja þar neinar nýjar hernaðarframkvæmdir í firðinum. En ef menn ætla að samþykkja, að þar komi flotastöð, þá verður vitanlega sá háttur hafður á, að ein framkvæmd verður samþykkt í dag og önnur á morgun o.s.frv.

Nú ætla ég ekki að ræða mikið þetta mál, þó að hæstv. forseti hafi leyft mér að gera þessa fsp. og þessar upplýsingar hafi komið fram, og finnst mér ég í raun og veru þurfa ekki miklu fleira að segja út af því, sem hæstv. ráðh. tók fram. En þó vil ég segja þetta til viðbótar:

Okkur sýnist augljóst, að með því að byggja nýja olíustöð, nýjar bryggjur og önnur hafnarmannvirki og ekki sízt með því að fara að koma upp nýjum legufærum í firðinum, sé tvímælalaust verið að byrja á því að byggja Hvalfjörðinn upp sem flotastöð, en við erum því algerlega mótfallnir og höfum ævinlega verið, enda höfum við áður staðið á móti því, að leyfðar yrðu nýjar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði, eins og ég hef áður lýst yfir. Við teljum, að horfur séu þannig í heiminum nú, að sízt sé ástæða til þess að leyfa hér aukinn herbúnað frá því, sem hefur verið.

Það var skýrt og greinilega tekið fram af þeim aðilum, sem ræddu við íslendinga um þátttöku þeirra í Atlantshafsbandalaginu, að þátttaka þeirra í bandalaginu væri mikilsverð fyrir bandalagsþjóðirnar, enda þótt hér yrðu ekki leyfðar neinar herstöðvar á friðartímum né neinn erlendur her. Það var fullkomlega gerð grein fyrir því af Íslands hendi, að ekki mætti gera ráð fyrir því, að hér yrðu varanlegar varnarherstöðvar. Íslendingum ber þess vegna engin skylda til þess, hvorki samkv. Atlantshafssáttmálanum sjálfum né því, sem hefur farið á milli um þessi efni, að leyfa hér aukinn vígbúnað eða auknar hernaðarframkvæmdir. Okkur ber engin skylda til þess, hvorki samningslega né móralskt, — alls engin.

Það er augljóst mál, að eitt þýðingarmesta atriðið í utanríkismálum er auðvitað, að Íslendingar haldi hjá sér sjálfum og einum ákvörðunarréttinum í þessum málum. Og þetta sjónarmið, sem ég er að flytja hérna, var flutt fyrir félagsþjóðum okkar í Atlantshafsbandalaginu, þegar við fórum í bandalagið, og hefur verið flutt síðan af þeim, sem ekki hafa breytt um skoðun, og þetta sjónarmið var fullkomlega viðurkennt af þeim, og ég fullyrði, að það er viðurkennt af þeim enn, ef á þessu sjónarmiði er haldið gagnvart þeim.

Það ætti að vera hverjum manni ljóst, að ef leyft er að hefja byggingu flotastöðvar í Hvalfirði, þá verður haldið áfram og gengið á lagið að auka þann búnað, og síðan kemur að sjálfsögðu upp krafan um að hafa varnarlið eða herlið í þessum stöðvum. Gæti þá auðveldlega svo farið, að áður en langt um liði, væri þar komin önnur stöð ámóta og Keflavík og orðin álíka vandamál í landinu eins og Keflavíkurstöðin er. Og hugsum okkur bara, að slík stöð kæmi á aðalþjóðleiðinni umhverfis landið, sem liggur um Hvalfjörð.

Það verður að leggja hina ríkustu áherzlu á, að ekkert verði gert í slíkum stórmálum eins og þessu, þó að áður hafi verið samþykktar ýmsar framkvæmdir, án samþykkis Alþingis, ekkert sé samþykkt nema það, sem áður hefur verið ýtarlega rætt og samþykkt á Alþingi. Og ég vil fara fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún geri enga samninga, fyrr en þessi mál hafa fengið alveg fulla meðferð á Alþingi,. og hún hætti við þær fyrirætlanir, sem hún hefur nú á prjónunum í þessum efnum, því að það var að heyra á hæstv. utanrrh., að hér væri engu slegið föstu enn og þess vegna hægt að endurtaka í góðu samstarfi, ef í það færi, það, sem til mála hefði komið.

Þakka ég svo hæstv. ráðh. fyrir upplýsingarnar og hæstv. forseta fyrir þolinmæðina.