30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mig langar til þess að segja nokkur orð í sambandi við þessar umr.

Það er ljóst, að það er verið að útvarpa frá blöðum, en ekki flokkum, í þessu morgunútvarpi, og ég vildi nú spyrja hv. 1. þm. Norðurl. v., hvort hann hefði nokkurn tíma mælt þessar forustugreinar, hvort það geti ekki skakkað kannske nokkrum sentimetrum eða kannske millimetrum á lengd greinanna, svo að það sé ekki jafnmikið, sem sé lesið frá blöðunum, og enn fremur það, hvernig á að skilja á milli þessara tveggja blaða, sem hann á við og styðja og hafa stutt Sjálfstfl., en eru þó alls ekki flokksblöð, og loksins, ef ætti að gera það, væri þá ekki þarna út af fyrir sig hægurinn hjá að ætla svolítið meira rúm í öðru blaðinu fyrir þessar forustugreinar til þess að koma nokkru meira að? Ég er hræddur um, að það sé nokkuð mikill smásálarskapur í þessu, eins og ýmsu öðru, sem fram kemur nú, þegar Framsfl. er að meta réttlætið á milli flokka og mannfólksins í landinu, eins og við höfum reynslu af, bæði fyrr og siðar. Við þekkjum höfðatölureglu Framsfl. og hve næmir þeir hafa verið fyrir því að hafa hér rétta þingmannatölu, miðað við kjósendatölu sína, og segja má, að þetta stingi nokkuð í stúf við þá réttlætiskennd, sem þar hefur komið fram. En það getur vel v erið, að hv. þm. hafi sem sagt verið með einhverja mælistiku á þessum forustugreinum.

Að öðru leyti vil ég segja um þetta, að ég hef ekki orðið var við þær vinsældir, sem hæstv. menntmrh. sagði að þessi lestur nyti. Það getur verið, að ég hafi ekki lagt mig eftir því að fylgjast með því, en sjálfum finnst mér oft og tíðum, að morgunn gæti byrjað skemmtilegar en með að heyra þessa lesningu úr blöðunum, sem er alltaf þetta sífellda pólitíska karp. En það er annað mál, og það getur vel verið, að það sé ekki önnur lausn til þess að friða réttlætiskennd og samvizku manna, svo að útvarpið verði ekki fyrir miklum ádeilum, heldur en að fella þetta niður. Það kemur í ljós, að hæstv. menntmrh. mundi sakna þess, en ég fyrir mitt leyti mundi ekkert sakna þess. Svona sýnist sitt hverjum í þessu máli eins og mörgum öðrum. En ég held, að við eigum ekki að vera allt of smásálarlegir, þegar um slíkt er að ræða, og ríkisútvarpið hefur verið að gera þarna tilraun, og það held ég, að sé rétt hjá menntmrh., að þetta hefur ekki sætt neinni gagnrýni, að mönnum fyndist vera mismunað hinum pólitísku flokkum í landinu með þessum lestri, sem þarna hefur farið fram, nema það hefur komið frá þessum eina hv. þm., en annars staðar hef ég ekki séð það og hvergi orðið var við það, að mönnum fyndist, að ríkisútvarpið hefði verið að misbjóða mönnum með því að brjóta hér hlutleysisreglur sínar.