30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2188 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Austf. er ákaflega fróðlegt að heyra, hvernig það er til komið, að farið er að lesa þessar greinar upp. Hverjir eru það innan útvarpsráðs, sem sérstaklega hafa beitt sér fyrir þessum greinalestri? Eru það sérstaklega sjálfstæðismenn, eða eru það sérstaklega fylgismenn annarra flokka? Ef mér er rétt frá skýrt, er það svo, að sjálfstæðismenn, e.t.v. af nokkurri eigingirni, voru lengi heldur tregir til þess að fallast á þennan upplestur. Það er vitað mál, að Sjálfstfl. hefur langmestan blaðakost í landinu og á því í heild langauðveldast með að koma sínu máli á framfæri við allan landslýð, ef útvarpinu er sleppt. Það má því skýra þá afstöðu, sem a.m.k. sumir fulltrúar flokksins hafa haft í þessu, og segja, að það hafi verið af þeirri eigingirni, að þeir voru lengi vel ekki sérstakir fylgismenn þess, hvað þá hvetjendur, að þessi háttur væri tekinn upp. Það er þess vegna algerlega rangt, þegar hv. 1. þm. Austf, gefur í skyn, að það sé fyrir sérstaka forustu eða framgöngu Sjálfstfl., að þetta var upp tekið. Ég get sagt það um mig, að það var ekki fyrr en eftir að búið var að ákveða þetta í útvarpsráði, að ég heyrði um það getið. Því fer þess vegna fjarri, að það sé að ráðum Sjálfstfl, eða fyrir nokkra hans misbeitingu innan útvarpsráðs, að þessi háttur hefur verið tekinn upp. Ég skora á hv. fulltrúa Framsfl. í útvarpsráði að skýra frá því, hvort hann hafi verið þessari ráðstöfun andvígur eða e.t.v. einn af helztu hvatamönnum þess, að þessi háttur var upp tekinn. Það dugir ekki fyrir Framsfl. eftir á, þegar í ljós kemur, að hans málflutningur sýnist gefast þeim mun verr sem fleiri heyra hann, að ætla að snúa við blaðinu og hverfa frá því, sem þeir hafa verið manna ákafastir hingað til að koma fram.

Hér er borinn saman flutningur frétta frá Alþingi og útvarp frá Alþingi. Það hefur verið ákveðið af útvarpsráði að skýra frá forustugreinum dagblaðanna. Það er umdeilanlegt, hvort þetta á nokkurt erindi í útvarpið. Ég er fyllilega því sammála. En ef það er tekið í útvarpið, þá verður auðvitað að skýra frá forustugreinunum eins og þær eru, alveg eins og þegar skýrt er frá umr. á Alþingi í daglegum fréttum nú. Þá er þess auðvitað ekki gætt né heldur hægt að gæta að mæla nákvæmlega út, hversu langt er sagt frá málflutningi hvers einstaks flokks. Það fer alveg eftir því, hversu langar ræður haldnar eru, hversu margir þm. taka til máls frá hverjum flokki. Það má deila um, hvort það sé rétt að hafa þennan daglega fréttaflutning frá þinginu í útvarpinu. Það hefur reynzt vinsælt, og yfirleitt hygg ég, að engir þm. hafi kvartað undan þessu nema framsóknarmenn. Við höfum orðið varir við það, að þeir hafa unað þessum fréttaflutningi illa og jafnvel fyrr haft orð á því hér í þingsölum, að hann kæmi illa við þá. En ef margir þm. tala, t.d. frá Framsfl., og þeir hafa yfirleitt ekki látið á sér standa um ræðumennsku á þingi að undanförnu, þá er það óhjákvæmilegt, að það verður að greina frá ræðum þeirra, sem tala, en ekki frá hinum, sem þegja, og þess vegna fá framsóknarmenn oft langan ræðutíma í þessum kvöldfréttum. Það kvartar enginn undan því nema þeir sjálfir.