04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (1830)

56. mál, launamál o.fl.

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þegar núverandi ríkisstj. kom til valda fyrir fjórum árum, gaf hún mörg og glæsileg loforð um heilbrigða stjórnarhætti og eflingu atvinnulífsins í landinu. Það mun næsta sjaldgæft, með hvílíku yfirlæti forsvarsmenn ríkisstj. fluttu boðskap sinn um þau markmið, sem að væri stefnt. Það var ekki í einu, heldur í öllu, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði að gera betur en fyrirrennarar hennar hefðu gert frá upphafi innlendrar stjórnar. Hvað efnahagsmálin snertir var uppbóta- og styrkjakerfið bannsungið og talið aðallega runnið undan köldum rifjum framsóknarmanna, þó að bæði sjálfstæðismenn og Alþfl: menn hefðu ekki síður en aðrir komið því kerfi á og viðhaldið því um langa hríð. Setti ríkisstj. sér það mark að afnema þetta kerfi með öllu í einu vetfangi og beita í því skyni „samræmdri“ peninga- og fjármálastefnu, sem fæli í sér lausn alls vanda og væri grundvöllur undir heilbrigðri efnahagsstarfsemi og vaxandi þjóðartekjum. Gömul vigorð um frjálsa efnahagsstarfsemi, frjálsa verzlun og frjálst framtak einstaklinganna glumdu í eyrum þjóðarinnar úr munni hæstv. ráðh. og voru feitletruð á siðum stjórnarblaðanna.

Markmið ríkisstj. var í fáum orðum sagt að afnema uppbótakerfið og láta framleiðsluna bera sig styrkja- og hallalaust. En framar öðru var það loforð stjórnarflokkanna að stöðva verðbólguna innanlands og bæta lífskjör almennings. Að vísu varð það strax ljóst, að hæstv. ríkisstj. valdi þær leiðir í efnahags- og fjármálum eða beitti þeim aðferðum, sem næstum mátti telja útilokað að leiddu til þeirra markmiða, sem hún kvaðst stefna að. Einkum var það augljóst, að hæstv. ríkisstj. hirti ekki um það, hvort lífskjörin fóru batnandi eða versnandi, enda var það veigamikill þáttur í boðskap stjórnarherranna og alls konar útsendara, sem þeir höfðu á sínum snærum og ýmist voru kallaðir sérfræðingar í efnahagsmálum eða hlutlausir áhorfendur, að íslenzkur almenningur lifði of hátt, hefði of mikið að bita og brenna, ynni of litið og gerði of miklar kröfur. Það varð því augljóst í upphafi ferils þessarar hæstv. ríkisstj., að hún ætlaði að lækka neyzlustig íslenzks almennings, rýra kjörin, en bæta þau ekki.

Hvað snertir atvinnuvegina og það yfirlýsta markmið stjórnarinnar að koma t.d. útgerðinni á heilbrigðan grundvöll, er það síður en svo gleymd staðreynd, að það, sem sérstaklega átti að bæta hag hennar sem útflutningsatvinnuvegar, reyndist hin mesta hefndargjöf sakir vaxandi framleiðslukostnaðar, sem leiddi beinlínis af gengisfellingunni og var miklu meiri en sú aukning á krónutölu, sem átti að bæta hlut útvegsins. Gengisfellingardæmið var því allt skakkt reiknað eins og oft áður, þegar gengisfellingu hefur verið beitt til lausnar á efnahagsvandanum. En auk gengisfellingarinnar komu svo hinar aðrar „samræmdu“ aðgerðir í peningamálum, eins og vaxtahækkun og ströng lánsfjárskömmtun, sem bitnaði hvað harðast á útgerðinni. Það muna allir eftir fyrsta viðreisnarsumrinu 1960, þegar verið var að undirbúa síldarflotann undir veiðar fyrir Norðurlandi og ljóst var, að efnahagsaðgerðirnar höfðu gersamlega kippt rekstrargrundveltinum undan síldveiðiflotanum, einmitt þær aðgerðir, sem aðallega voru þó taldar í því skyni gerðar að koma rekstri fiskiflotans á heilbrigðan grundvöll. Þetta kom þó kannske enn skýrara í ljós í vertíðarbyrjun næsta vetur á eftir, þegar bátaflotinn í öllum landshlutum, þar sem vetrarvertíð er stunduð, var stöðvaður um lengri eða skemmri tíma vegna okurráðstafana ríkisstj. Það var þá, sem mikilsvirtir forustumenn útgerðarmanna, þ. á m. hv. 7. landsk. þm., Sverrir Júlíusson, töluðu um hina „lamandi hönd“, sem lögð væri á bátaútveginn.

Og ég minni á það enn þá, að þessar efnahagsaðgerðir voru gerðar, að því er sagt var í fyrstu, í þágu útvegsins. Hvað skyldi þá um aðrar atvinnugreinar og efnahagsstarfsemi? Það lætur að líkum, hvernig framvinda mála hefur verið á ýmsum öðrum sviðum. Og það fór ekki á milli mála þá, að rætur kyrrstöðunnar og efnahagstruflana þessara fyrstu missira viðreisnartímabilsins lágu beinlínis í efnahagsaðgerðunum sjálfum. Það var sýnt, að ríkisstj. stefndi að samdrætti í atvinnulífinu og hefði trú á honum sem tæki í öðrum stærri tilgangi.

Því fer víðs fjarri, að á þessu tímabili viðreisnarinnar hafi kaupkröfur átt þátt í því að gera atvinnuvegunum erfitt fyrir eða íþyngja framleiðslukostnaði útflutningsatvinnuveganna. Kaupbreytingar voru engar og gátu því engin áhrif haft. Það var viðreisnin sjálf, sem þarna var að verki. Og það kom líka í ljós, að nauðsynlegt var að breyta um stefnu gagnvart útveginum, ef hann átti að geta borið viðreisnarbyrðarnar og fyrirsjáanlegar og eðlilegar kröfur frá verkamönnum og sjómönnum um bætt kjör, því að það var útilokað, að þessar stéttir og aðrir launþegar sætu aðgerðarlausir til lengdar án þess að fá bætt kjör sín. Það er vist rétt að víkja nokkuð að þessum þætti sérstaklega og minna á samskipti ríkisvaldsins og launþegasamtakanna undanfarin ár.

Vinstri stjórnin, sem sat að völdum rúmlega 21/2 ár, á tímabilinu 1956—1958, byggði stefnu sína að langmestu leyti á því, að sem nánast samstarf væri milli ríkisvaldsins og stéttasamtakanna og sér í lagi milli Alþýðusambands Íslands og samtaka bændanna og ríkisstj. Því miður varð skemmra í þessu samstarfi en vonir stóðu til og æskilegt hefði verið, og sú saga verður ekki rakin hér nánar að þessu sinni, þó að hún sé ærið lærdómsrík. En ég vil þó aðeins geta þess, að þá voru að verki öfl, sem frjálslyndir menn hefðu betur staðið skár á verði gegn, í stað þess að gefa þeim tækifæri til þess að ná saman og sundra því stjórnarsamstarfi, sem byggt hafði verið á einna skynsamlegustum grunni um langa hríð. En eins og menn vita, þá voru þessi öfl borin uppi af tveimur meginfylkingum, annars vegar af Sjálfstfl. og hins vegar af Moskvukommúnistum. Vinstri stjórnin féll fyrir þessum öflum, og þar með var brautin rudd fyrir íhaldsstjórn, þá íhaldsstjórn, sem nú situr að völdum í landinu.

Á tímum vinstri stjórnarinnar tókst að halda hér uppi fullri atvinnu, og framkvæmdir voru miklar í höfuðatvinnugreinum þjóðarinnar og afkoma þeirra yfirleitt góð. Sama er að segja um afkomu launþega. Hún var öll þessi ár tiltölulega góð, og þegar vinstri stjórnin fór frá í desemberbyrjun 1958, þá var það álit erlendra hagfræðinga, sem mjög er til siðs að vitna til, að lífskjörin á Íslandi væru með því bezta, sem þekktist í allri Evrópu, og þá er raunar ekki til lítils jafnað, því að vitanlega er Evrópa í fremstu röð hvað lífskjör almennings snertir. Enda var það stefna þessarar ríkisstj. að halda lífskjörunum í sem hæstu marki, svo háum sem frekast mátti, án þess að það leiddi til ofþenslu í efnahagslífinu. Til samanburðar á afkomu almennings á tímum vinstri stjórnarinnar og síðan á dögum viðreisnarinnar má geta þess, sem rakið er í nál. minni hl. fjhn., að almennt tímakaup verkamanna var 21.85 í nóv. 1958, en var aðeins 20.67 kr. í febr. 1960 og hélzt þannig óbreytt fram í júní 1961. M.ö.o.: kaupið á fyrstu missirum viðreisnarinnar var beinlínis 1.18 kr. lægra á tímann en það var á dögum vinstri stjórnarinnar.

Nú muna menn það gerla, að í nóv. 1958 barðist Morgunblaðið og allur Sjálfstfl. af kappi fyrir því, að kaup yrði hækkað. Sjálfstæðismenn sögðu, að kaupið, sem þá var 21.85 kr., væri allt of lágt og það yrði að hækka. En hvað skeði, þegar Sjálfstfl. náði valdaaðstöðu með Alþfl. að vinstri stjórninni fallinni? Ekki annað en það, að þessir háu herrar lækkuðu kaupið niður í 20.67 kr. snemma árs 1959, og þannig hélzt það ársins 1959, 1960 og hálft árið 1961, þ.e. í 21/2 ár.

1959—1961 var almennt kaupgjald í landinu lægra í krónutölu en það var á tímum vinstri stjórnarinnar. Þannig framhvæmdi Sjálfstfl. kauphækkanir þær, sem hann barðist fyrir haustið 1958. En Sjálfstfl. gerði meira. Hann lét sér ekki nægja að lækka kaupið beinlínis í krónutölu. Efnahagsaðgerðir ríkisstj. í febr. 1960 leiddu þegar í stað stórkostlegar verðhækkanir yfir almenning, sem að sjálfsögðu rýrðu lífskjörin og kaupmátt launanna stórkostlega. Fyrstu áhrif viðreisnarráðstafananna voru einmitt verðhækkanir á öllum sviðum. Nauðsynjar almennings, matvara, fatnaður, húsbyggingarkostnaður, námskostnaður og yfirleitt hvað eina, sem þurfti til framfærslu og heimilishalds og menntunar, óx allt gífurlega. Auk þess kom fleira til, þ. á m. nýjar álögur af hálfu ríkisins í formi nýrra skatta og stóraukinna vaxta. Þessar byrðar ætlaði ríkisst,j. fólkinu í landinu að bera án nokkurra teljandi hagsbóta, sem ríkisvaldið beitti sér fyrir til þess að draga úr sárasta sviðanum. Það komu að vísu til auknar fjölskyldubætur, sem léttu dálítið viðreisnarbyrðina hjá þeim, sem þeirra nutu, en auðvitað voru það ekki allir, sem urðu þeirra aðnjótandi. Aðrar hliðarráðstafanir voru ekki umtalsverðar.

Hæstv. ráðh. mega auðvitað, ef þeir endilega vilja, breiða sig út yfir aukningu tryggingakerfisins á valdatíma sínum á öðrum sviðum, svo sem í sambandi við ellilaunin og afnám skerðingarákvæðanna. Það er allt gott, svo langt sem það nær, en fráleitt er, að þar sé um að ræða almennar hagsbætur fyrir fólkið í landinu, heldur einvörðungu um sérstakar undantekningar, sem auðvitað eru mikilvægar fyrir þá, sem þeirra njóta, og er skylt að viðurkenna það. En það stendur óhaggað eftir sem áður, að viðreisnin hefur lagt þungar byrðar á almenning í landinu. Er þar m.a. um að ræða allt efnalítið fólk og ungt fólk, sem er að búa sig undir lifið, sumt með dýru námi, sumt með því að koma yfir sig eigin húsnæði eða eignast eitthvert atvinnutæki sér og sínum til lífsafkomu. Viðreisnin hefur lagt unga fólkið framar öðru í einelti og alveg sérstaklega alla hina mörgu einstaklinga, sem vildu ver,ja fé og kröftum til arðvænlegra fyrirtækja eða framtíðaruppbyggingar, svo sem í húsnæðisbyggingum. Viðreisnarráðstafanirnar hafa t.d. leikið landbúnaðinn þannig, að unga fólkið sér litla framtið í því að set,jast að í sveit, eins og nú háttar í efnahags- og fjármálastjórn. Stefna ríkisstj. í íbúðarhúsbyggingum hefur leitt til algers öngþveitis í húsnæðismálum. Hinar „samræmdu“ fjármálaaðgerðir voru þannig hugsaðar, að sem mest tæki fyrir íbúðabyggingar á vegum einstaklinga í eigin þágu. Þetta tókst líka með þeim vafasömu ágætum, að húsbyggingar drógust saman strax fyrsta viðreisnarárið og náðu lágmarki árið 1961, þegar aðeins var byrjað á 789 íbúðum í öllu landinu, í stað þess að algert lágmark til þess að koma í veg fyrir neyð í húsnæðismálum hefði átt að vera um 1500 íbúðir. En þeir, sem stóðu í byggingum árin 1960 og 1961, urðu að sætta sig við hærri vexti en nokkurs staðar eru þekktir í víðri veröld, og þar að auki var sköpuð hatrömm lánsfjárkreppa með hinum víðfrægu „samræmdu“ efnahagsaðgerðum ríkisstj.

Þessi lánsfjárkreppa var fyrst og fremst látin bitna á fátækum húsbyggjendum og öðrum, sem ráða ekki yfir teljandi eigin fjármagni, en hins vegar virtist ekki skortur á fjármagni til þeirra, sem í náðinni voru hjá ríkjandi stjórn og bankayfirvöldum. Milljónahallir hafa risið í Reykjavík yfir starfsemi heildsala og annarra máttarstólpa íhaldsins, á meðan ungt fólk hírist í ónýtu og þröngu húsnæði og er neitað um aðstoð til byggingar hóflegra íbúða. Þannig hefur það gengið til allan viðreisnartímann. Í einu og öllu var miðað að kjaraskerðingu og engu skeytt, hverjar afleiðingarnar yrðu.

Ríkisstj. kærði sig síður en svo um að eiga gott samstarf við launþegasamtökin í landinu, og leit svo út sem hún teldi sig hafa ráð þeirra fullkomlega á sínu valdi, sem kom einna skýrast í ljós í sambandi við kaupgjaldsmál. Eins og ég benti á áðan, lækkaði núv. stjórnarsamsteypa almennt laun í landinu frá því, sem var 1958, en hækkaði hins vegar verðlag stórlega með efnahagsaðgerðum sínum. Það var vissulega heimskulegt af stjórnarvöldunum að hegða sér þannig í upphafi stjórnarferils sins. Með framkomu þeirra var auðvitað fyrirsjáanlegt, að þau voru að magna á sig óvild almannasamtakanna, einkum þegar þess var gætt, að það varð ekki dulið, að hæstv ríkisstj. vann að því að efla auðvaldið í landinu og gefa gróðamönnum sem frjálsast svigrúm og sem mest olnbogarými. Samt sem áður gerðist ekkert sérstakt í kaupgjaldsmálum allt árið 1960. Almenningur undi við það kaup, sem verið hafði, áður en hækkanirnar hófust, og launþegasamtökin fóru fram á það eitt við ríkisstj., að kjörin yrðu bætt með því að lækka verðiag og vexti. En ríkisstj. slakaði ekki í neinu á okuraðgerðum sínum. Hún fylgdi þeim eftir með harðneskju og fullum þunga gagnvart launþegum. Ríkisstj. neitaði auðvitað líka um kauphækkanir, og þessi óbilgirni leiddi smám saman til vaxandi árekstra í kaupgjaldsmálunum, sem enduðu með allsherjar vinnudeilum og vinnustöðvunum í maí og júní 1961.

Saga kaupgjaldsbaráttunnar í maí og júní 1961 og þeir atburðir, sem á eftir fóru, gefa tilefni til sérstakra hugleiðinga, þó að aðrir hafi minnzt á það áður. Ríkisstj. hafði lýst yfir því sem stefnuskráratriði sínu, að deilur um kaup og kjör skyldu leysast í frjálsum samningum milli launþega og vinnuveitenda, enda ráð fyrir því gert í vinnulöggjöfinni sjálfri. Með þessu voru vinnuveitendur að sjálfsögðu frjálsir að öllum sínum samningum við launþegasamtökin. Samkomulagsvilji virtist almennt mikill meðal vinnuveitenda. En þrátt fyrir það og yfirlýsta stefnu ríkisstj. um, að hún mundi ekki skipta sér af kjarasamningum, fór þó svo, að ríkisstj. beitti áhrifum sínum gegn því, að samið yrði, og hótaði hverjum þeim bannfæringu, sem dirfðist að hegða sér öðruvísi en hæstv. ríkisstj. lagði fyrir.

Það voru samvinnufélögin á Norðurlandi, sem fyrst urðu til þess að rjúfa múrinn og gerðu samkomulag um nokkra kauphækkun. Þetta samkomulag milli samvinnufélaganna og launþegasamtakanna á Norðurlandi varð fyrirmynd að almennum samningum um allt land, og með því var komið í veg fyrir yfirvofandi framleiðslustöðvun um hábjargræðistíma íslenzku þjóðarinnar. Samkomulagið bjargaði þjóðinni frá þeim voða, sem langvarandi vinnustöðvun er og hlýtur raunar alltaf að verða, ekki sízt, þegar um er að ræða svo víðtæk verkföll eins og hér voru 1961. Eitt mikilvægasta ákvæði samninganna var það, að þeir skyldu gilda til tveggja ára, að því tilskildu, að verðlagi væri haldið niðri. Þetta ákvæði um óbreytt verðlag var auðvitað bein áskorun á ríkisvaldið um að sjá svo um, að almennar verðhækkanir ættu sér ekki stað á tímabilinu. Með því móti gat ríkisstj. bezt stuðlað að jafnvægi í kaupgjalds- og verðlagsmálum.

Það var fásinna að ætla það, og það var einnig fásinna að halda því fram, að þær kauphækkanir, sem samið var um á Akureyri og Húsavík og síðar um allt land, væru gjaldþoli atvinnuveganna um megn. Árferði var gott á Íslandi og hafði verið að undanförnu, svo og almenn aflabrögð og afurðaverð, sem hvort tveggja fór batnandi, að undanskildum afla togaranna einna. Afli hafði t.d. stórvaxið úti um land, svo að bátar voru farnir að stunda fiskveiðar frá útgerðarstöðum á Norður- og Austurlandi allan ársins hring. Bjartsýni ríkti í upphafi síldarvertíðar vegna góðra veiðihorfa og þess, að síldarflotinn var nú betur undir síldveiði búinn en nokkru sinni áður. Að vísu hefur menn þá ekki órað fyrir, að sumaraflinn yrði svo stórkostlegur sem síðar átti eftir að koma í ljós, en flestir munu hafa gert sér grein fyrir, að gott sumar fór í hönd. Það var heldur engin ásæða til þess að kviða fyrir afkomu síldarsaltendanna og síldarverksmiðjanna, og iðnfyrirtækin í landinu voru almennt vel megnug þess að taka á sig kauphækkun. Þrátt fyrir samdrátt í mikilvægum greinum efnahagslífsins, svo sem í íbúðarhúsabyggingum og í ræktunarframkvæmdum sveitanna, var eigi að síður að myndast að nýju bjartsýni og trú á framtíðina, og þrátt fyrir skipulagða kreppustefnu í upphafi ferils síns hafði ríkisstj. þó orðið að láta undan á sumum sviðum, þannig að atvinna var mikil í landinu. Þó að ríkisstj. legði líka allar hugsanlegar hömlur á byggingu hóflegs íbúðarhúsnæðis, þá leyfði hún gæðingum sínum að ráðast í dýrar og fjárfrekar stórbyggingar, og heildsalar og bankar og ýmiss konar iðnfyrirtæki kepptust um að byggja mikil húsbákn, einkum í Reykjavík, en sömu þróunar gætti í ýmsum öðrum bæjarfélögum, t.d. á Akureyri. Það varð því ekki séð, að það vantaði peninga. En nú voru þeir til valda komnir í þessu landi, sem skömmtuðu sjálfum sér veltufé þjóðarinnar og lánsfé og notuðu það til þeirra framkvæmda, sem þeim sýndust arðvænlegastar. Og þeir hafa ekki skorið þessar framkvæmdir neitt við neglur sér. Þeir hafa látið fjármagnið leika lausum hala í skrifstofu- og verzlunarbyggingum, og þeir hafa sprengt upp kaupgjaldið með yfirboðum til verkamanna og iðnaðarmanna, og þeir hafa þótzt græða vel á þessu samt.

En svo að ég víki aftur að árinu 1961, þá var það minnisstæðast frá því ári, að hæstv. ríkisstj. virtist umhverfast, eftir að samvinnufélögin og verkalýðsfélögin á Norðurlandi tóku frumkvæðið í lausn kaupgjaldsmálanna. Hæstv. ríkisstj. bar ekki gæfu til þess að rækja sinn hlut í því máli, sem var það að varðveita jafnvægið milli kaupgjalds og verðiags, sem samningarnir voru ótvírætt grundvöllur undir og traustur grundvöllur, ef vel var á haldið af hálfu ríkisstj. Í stað þess að gera ekkert, sem leiddi til röskunar á þessu jafnvægi, lækkaði ríkisstj. gengi krónunnar um 13%. Af augljósum ústæðum var gengislækkunin 1961 skoðuð sem hefndarráðstöfun gagnvart launþegum. Hún gat ekki átt sér neinn skynsamlegan tilgang. Rökin fyrir gengislækkuninni voru líka í algeru ósamræmi við fyrirhugaða ráðstöfun gengishagnaðarins. Samkv. forsendum þeim, sem fram komu í brbl. um gengislækkunina, var þess getið, að útflutningsframleiðslan gæti ekki borið nýorðnar kauphækkanir og yrði því að lækka gengið af þeim sökum. En ákvæðin um ráðstöfun gengisgróðans fólu það í sér, að verulegur hluti hans rann beint til ráðstöfunar ríkisvaldsins, og það kostaði langvinna baráttu, bæði hér á Alþingi og utan þess, að fá þessum ákvæðum breytt. Slók var framkoma hæstv. ríkisstj. á þessum tíma. Hún var svo óskammfeilin að lækka gengi íslenzku krónunnar í blóra við það, að það væri nauðsynlegt fyrir útgerðarmenn og síldarsaltendur, til þess að þeir gætu staðið undir kaupgjaldinu, en í þess stað tekur ríkisstj. í sinn eigin vasa stóran hluta gengishagnaðarins og notar hann í þágu ríkissjóðs. En hitt var þó kannske enn verra, að með gengisfellingarævintýrinu 1961 hefst verðbólguskriðan fyrir alvöru. Með gengisfellingunni voru kaupgjaldssamningarnir frá því í júní gerðir óvirkir. Launþegar töldu sig lausa allra mála. Og hver dýrtíðarbylgjan hefur skollið á eftir aðra síðan. Það er þetta, sem líkja má við það að skvetta olíu á eld, sem á að slökkva.

Með gengisfellingunni var verðbólgudraugurinn vakinn upp, og það var verk hæstv. ríkisstj. og ekki annarra. Hún hefur sjáif magnað á sig þessa vofu, sem hún á í höggi við og fær ekki losnað undan eða umflúið. Hún ber sjálf ábyrgð á öllum draugagangi í íslenzku efnahagslífi um þessar mundir. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur sýnt andstæðingum sínum óvenjulegt tillitsleysi í einu og öllu og beinlínis lagt sig í framkróka um að virða einskis gott samkomulag við stjórnarandstöðuna almennt. Í það hefur hún sett stolt sitt og þótzt góð af því allan tímann. Hún hefur ávallt sýnt óbilgirni í sambandi við kaupgjalds- og kjaramál og almenn þingmál og hegðað sér í kjaramálunum sérstaklega svo óhyggilega, að varla er einleikið.

Eftir það, sem þannig er á undan gengið í samskiptum núv. stjórnarflokka við launþega í landinu, er e.t.v. ekki ástæða til að undrast það frv., sem hér liggur fyrir nú og hefur að geyma bann við því, að launþegar og vinnuveitendur semji um kaup og kjör. Slíkt frv. er næstum því eðlilegt þróunarstig í löngum styrjaldarrekstri þessarar hæstv. ríkisstj. gegn frjálsu samkomulagi milli launþega og vinnuveitenda. Þessi árátta kom greinilega fram í sambandi við samningana í júní 1961, og það hefur bólað á henni æ síðan, og hún hefur leitt ríkisstj. til aðgerða, sem hún hefði átt að vita að voru algerlega óverjandi og eru óverjandi miðað við ríkjandi réttarhugmyndir meiri hl. fólks í þessu landi, fólks í öltum stjórnmálaflokkum.

Þá má enn minna hæstv. ríkisstj. á það, að hún lýsti yfir því við valdatöku sina fyrir 4 árum, að stefnt væri að því að leysa kaupdeilur með frjálsu samkomulagi aðila, sem í hlut ættu. En það má líka minna hæstv. ríkisstj. á það, að þetta atriði stefnuskrárinnar hefur aldrei verið haldið. Hæstv. ríkisstj. hefur aldrei virt samningsréttinn um kaup og kjör, þegar á hefur reynt, heldur ævinlega gripið inn í með sínum eigin aðgerðum. Og hámarkið í rofum þessa sjálfsagða stefnuskráratriðis, raunar hverrar ríkisstj., er þetta frv., sem nú er til 2. umr. Lengra verður ekki gengið en að afnema samningsfrelsið. Það er ekki bara verið að afnema verkföll sem slík, það er verið að afnema samningsfrelsið, afnema rétt aðila til að komast að samkomulagi og gera það virkt. Og það er einnig gengið inn á nýja braut með þessu frv., þar sem er ákvæðið um afturvirkni laganna. Slíkt ákvæði er svo óvenjulegt, að það verður með engu móti réttlætt. Yfirleitt virðast allar réttarfarshugmyndir hæstv. ríkisstj. endanlega af göflunum gengnar. Þó að ekki væri nema af þeirri ástæðu einni, að með slíku ákvæði er skapað fordæmi fyrir áframhaldandi brotum á viðurkenndum réttarhugmyndum og reglum við lagasmið, þá hljóta allir heilbrigðir menn, sem hér eiga sæti á hv. Alþingi, að sjá ástæðu til að fella þetta frv., hvað þá ef virt er sjálft meginefni frv.

Það er auðvitað hárrétt, sem fram hefur komið í ræðum hæstv. ráðh. hér í þessum umr., að efnahagsmál landsins eru komin í öngþveiti og óðaverðbólga er ríkjandi í landinu fremur en nokkru sinni fyrr. En slik meinsemd verður ekki læknuð með þeirri harðneskju, sem hæstv. ríkisstj. beitir og beitir raunar alltaf og náð hefur hámarki með þessu lagafrv., sem hér er til umr. Það eru allir sammála um nauðsyn þess að stöðva verðbólguna. En þá verður líka að leitast við að finna orsakir hennar og samstilla öll ráðandi öfl í þjóðfélaginu til úrbóta á vandanum. Um það á ríkisstj. að hafa forustu, en því miður bregzt hún algerlega þeirri skyldu sinni, ekki aðeins nú, heldur hefur hún gert það frá fyrstu tíð. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að launþegasamtökin hafi fyrr og síðar verið til viðtals um kjarabætur, sem ekki einvörðungu væru fólgnar í beinum kauphækkunum. Það hefur verið bent á réttlátari skattamálastefnu sem úrræði til bættra lífskjara. Því hefur hæstv. ríkisstj. svarað með því að gerbreyta á sínum valdaferli skattheimtuaðferðum og gera duldu skattana, fyrst og fremst almenna söluskatta, að megintekjulind ríkissjóðs. Allir vita, hvaða áhrif sú breyting hefur haft. Atlir vita, að duldu skattarnir leggjast með meiri þunga á efnaminna fólkið en beinu skattarnir. Þessu vill hæstv. ríkisstj. auðvitað ekki breyta í neinu. Það hefur verið bent á þá leið að lækka vexti t.d. af húsbyggingarlánum. Þeirri ábendingu hefur hæstv. ríkisstj. ekki viljað sinna, og það hefur verið bent á mörg fleiri atriði, sem miða til kjarabóta, en þeim hefur heldur aldrei verið sinnt af hæstv. ríkisstj., hvorki fyrr né síðar. Harðneskja og óbilgirni hæstv. ríkisstj. hefur því átt meginþáttinn í að skapa það ástand, sem nú ríkir hér.

Hæstv. viðskmrh. hélt hér ræðu við 1. umr., og hélt hann fram því meginsjónarmiði, að nú yrði að bæta kjör láglaunafólksins. Það þarf að jafna kjörin, sagði hæstv. ráðh. Vissulega er hægt að fallast á þessa yfirlýsingu. En hvernig hefur hæstv, viðskmrh. og flokkur hans framkvæmt þessa ágætu stefnu nú undanfarin ár? Ég hef rakið það stuttlega í þessum fáu orðum mínum hér á undan. Hæstv. viðskmrh. og samflokksmenn hans hafa ráðið úrslitum á Alþingi og í ríkisstj. undanfarin ár, og þeir bera ábyrgð á því, hvernig komið er kjaramálum í landinu. Það er flokkur hæstv. ráðh., sem ber ábyrgð á því, að undanfarin 4 ár hefur stefnt óðfluga í ójafnaðarátt í landinu. Það er hans flokkur, sem borið hefur ábyrgðina á því, að auðvaldið í landinu hefur verið látið leika lausum hala á kostnað almennings. Sú ofþensla, sem nú ríkir í efnahagslífinu, stafar ekki af því, að nú sé svo mikið unnið að framkvæmdum í þágu almenningsheilla. Það er ekki fyrir það, að það sé svo mikið byggt af skólum, sjúkrahúsum, unnið að vegalagningu, hafnaframkvæmdum eða íbúðarhúsabyggingum. Í öllum þessum dæmum er um samdrátt að ræða, bæði beinlínis og hlutfallslega.

Hæstv. forsrh. talaði í framsöguræðu sinni um kapphlaupið í eyðslunni, og það er að mörgu leyti rétt. En hver er undirrót þessarar eyðslu? Hún er sú, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft hina minnstu stjórn á fjárfestingu og innflutningi og lagt áherzlu á að styðja innflutning, sem hvetur til sóunar, m.a. í bílum, í sjónvörpum og ýmsum öðrum kjánalegum munaði, sem heildsalastéttin og ýmsir fjármagnseigendur hirða af aðalgróðann. Hins vegar hefur bankapólitíkin verið slík, að bankarnir hafa verið lokaðir almenningi fyrir lánveitingum til framtíðaruppbyggingar, t.d. í húsnæðismálum. Á sama tíma sem hver sem er fékk rífleg lán til bílakaupa í bönkunum, auk gjaldfrests hjá sumum bilaumboðum, og lán út á bíla hjá ýmsum tryggingafélögum þar á ofan, þá var þessum sömu mönnum neitað um lánsaðstoð til húsbygginga eða lagfæringar á húsnæði eða til húsakaupa.

Með slíkri peningapólitík er auðvelt að skapa eyðsluvenjur í uppgripaárferði. En það er ekki þetta, sem fólkið vill í raun og veru. Það vill auðvitað fyrst og fremst skapa sér varanleg verðmæti og verja til þess fé sínu. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað koma til móts við slíkar óskir almennings. Liggur næst við að álykta, að ástæðan sé sú, að hæstv. ríkisstj. telji mikilvægara að auka verzlunarveltu heildsalanna en að skapa hér heilbrigðar framfarir og uppbyggingu í þágu framtíðarinnar, í þágu unga fólksins, sem vantar húsnæði, og efnalitla fólksins, sem skortir aðstöð til nauðsynlegra framkvæmda á svo mörgum sviðum.

Hæstv. ríkisstj. lofaði mörgu fögru í upphafi ferils síns og þá ekki sízt að stöðva verðbólguna og bæta lífskjörin. Það væri auðvitað rangt að halda því fram, að ekkert nýtilegt sæist eftir þessa ríkisstj. eftir 4 ára valdaferil. En hitt er jafnvíst, að í veigamestu atriðum hefur henni mistekizt með öllu. Verðbólgan leikur lausum hala og kjörin hafa verið skert. Og stærri getur ósigur hæstv. ríkisstj. ekki orðið. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, ætti í raun réttri að verða siðasta andvarp þessarar ellimóðu ríkisstj., sem er vissulega komin að niðurlotum. Og það væri vel gert af stuðningsflokkum hennar hér í hv. d. að hjálpa til þess að fella þetta frv. og leysa upp það vandræðaheimili, sem nefnist ríkisstjórn Íslands í dag.

Það sjá allir og stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. ekki síður, að stjórnarstefnan hefur nú beðið endanlegt skipbrot. Þær þvingunarráðstafanir, sem nú eru fyrirhugaðar, eru alger uppgjöf á því að reyna að leysa vandamálin með lýðræðislegum vinnubrögðum. Ríkisstj. hefur færzt meira í fang en hún ræður við. Hroki hennar og skortur á samkomulagsvilja allt kjörtímabilið hefur leitt hana í ógöngur og vandræði, sem ekki sér fyrir endann á, og það er ekki til neins nú fyrir hæstv. ráðh. að vera með einhver ólíkindalæti gagnvart stjórnarandstöðunni um, að þeir vilji samkomulag, því að það er einmitt það, sem hún ekki vill og hefur aldrei viljað.

Hæstv. ríkisstj. er að undirbúa löggjöf, sem leggur bann við kaupgjaldssamningum og verkföllum, að vísu um takmarkaðan tíma, en þó með fyrirætlunum um að framlengja þetta bann um enn lengri tíma, ef henni tekst að koma þessum þvingunarráðstöfunum fram, eins og þær birtast hér í frv. Hæstv. ríkisstjórn sver a.m.k. ekki fyrir það, að hún mundi framlengja lögin.

Það er ekki annað sýnna en að með þessu sé hæstv. ríkisstj. að leiða algert stjórnleysi yfir landið. Hún beitir sér fyrir lagasetningu, sem ekki er í samræmi við ríkjandi réttarhugmyndir, og slíka lagasetningu er auðvitað mjög auðvelt að hafa að engu, enda bendir flest til þess, að svo muni verða. En hverju ætlar ríkisstj. að svara mótaðgerðum, sem felast í því, að ein höfuðgrein laganna, ef lög verða, verður brotin, þannig að ótal verkalýðsfélög boða til verkfalls, hvað svo sem lögunum liður? Ætlar hún að knýja fólk til vinnu með lögregluaðstoð? Ætlar hún að sækja forustumenn félaganna tilsaka fyrir dómstóli og krefjast refsingar? Hún getur auðvitað reynt hvort tveggja, en vandséð er, að slíkt verði til þess að auka hróður hæstv. ríkisstj., og einkum vildi ég óska hæstv. forsrh. annars en þess að enda sinn pólitíska feril með slíku. (Forsrh.: Ég er ekki nærri hættur.) Nei, hæstv. ríkisstj. á annarra kosta völ. Að mínu áliti á hún um tvennt að velja, og get ég tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni: Annaðhvort að draga frv. til baka, gera ráðstafanir til þess, að frjálsir samningar geti tekizt að nýju milli deiluaðila, ellegar og að öðrum kosti að ríkisstj. víki úr sessi nú þegar.