04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (1834)

56. mál, launamál o.fl.

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Með meirihlutavaldi Sjálfstfl. og Alþfl. hefur skipulega verið unnið að því á Alþingi, allt frá því um áramótin 1958–1959, að framkvæma flokksstjórnarsamþykkt Sjálfstfl., sem birt var í Morgunblaðinu 17. des. 1958, sex dögum áður en Sjálfstfl. lét verulegan hluta þingflokks Alþfl. taka sér sæti í ráðherrastólunum. Þá þegar var tekið að feta fyrstu sporin á þeirri braut, sem nú hefur verið svo langt troðin, að komið er að því, að þessir flokkar samþykki lögbindingu á kaupi hinna lægst launuðu og algert bann við því, að verkalýðsfélögin geri tilraun til að hækka þau laun, sem að kaupmætti hafa hrapað um rúm 20% síðan í des. 1958, þrátt fyrir stórauknar þjóðartekjur.

Flokksstjórnarfundur Sjálfstfl. veturinn 1958 boðaði þjóðfélag hins óhefta kapítalisma, þar sem allt skyldi miðast við að skapa handhöfum fjármagnsins gróða, en ríkisvaldinu skyldi beitt að hinu leytinu til að halda niðri þeim hluta rekstrarkostnaðar hvers fyrirtækis, sem nefndur er tímakaup starfsmanna. Sú barátta, sem ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. hafa haldið uppi síðan í des. 1958 til að skapa það óskaþjóðfélag gróðaliðsins, sem lýst var í flokksstjórnarsamþykkt Sjálfstfl., hefur verið háð undir ýmsum fögrum kjörorðum, á svipaðan hátt og krossmark kristninnar hefur oft og tíðum verið notað sem gunnfáni við hvers kyns hryðjuverk. Og þessi skipulagða barátta til að auka hlut þeirra, sem gróðans njóta af vinnu launþega, hefur verið háð með mörgum áhlaupum.

Eitt áhlaupið var gert í því skyni sérstaklega að koma í veg fyrir, að þann gróða þyrfti að greiða til baka með skattgreiðslum til ríkisins. Það áhlaup var gert undir kjörorðinu: „afnám skatta á lágtekjum“. Þar var krossmarkið hreint og óflekkað borið í fararbroddi í þeirri aðför, sem þá var gerð, ekki til þess að bæta hag láglaunamanna, eins og kjörorðið benti til, heldur til þess að firra auðmenn því að þurfa að sjá á eftir gróða sínum í fjárhirzlu ríkisins. Árangurinn af breytingum þeim, sem gerðar voru á tekjuskattslögunum, var að sjáifsögðu í samræmi við flokksstjórnarsamþykkt Sjálfstfl. ótvíræður sigur hátekjumanna, sem nú losnuðu við kúfinn af tekjuskattinum, en bættu ríkissjóði um leið skaðann með auknum neyzlusköttum, sem fyrst og fremst skullu yfir þá, sem stærst hafa heimilin og lítils sem einskis nutu af lækkun tekjuskattsins. Það er einfaldast að láta tölurnar tala í þessu efni.

Siðasta árið, áður en nýju tekjuskattslögin tóku gildi, höfðu tveir ráðh. Alþfl. og einn forstjóri úr sama flokki, allir búsettir í Hafnarfirði, samtals 96 752 kr. í tekjuskatt, en þrír daglaunamenn með venjulegar tekjur greiddu þá samtals 4286 kr. í tekjuskatt. Þegar viðreisnarflokkarnir höfðu leitt til lykta hina heilögu krossferð sína í tekjuskattsmálunum undir kjörorðinu: „afnám skatta á lágtekjum“, höfðu þessir þrír verkamenn verið losaðir við sinn 4286 kr. tekjuskatt og greiddu árið 1961 samkv. skattskrá engan tekjuskatt, en höfðu í staðinn fengið inn í sinn búrekstur hækkun verðlags á öllum nauðsynlegustu neyzluvörum. En réttlæti hinna nýju tekjuskattslaga hafði ekki farið fram hjá dyrum ráðherranna og forstjórans. Þeirra tekjuskattur lækkaði ekki samtals um 4286 kr. frá 1959 til 1961, heldur um 58 763 kr. samkv. skattskrá. Tekjuskattur þessara forustumanna Alþfl, lækkaði þannig um nærri 14 sinnum hærri upphæð en hjá þeim, sem verkamannatekjurnar höfðu. Þetta var sannkallað og ómengað viðreisnarréttlæti.

Þetta einfalda dæmi úr raunveruleikanum sýnir hið sanna eðli viðreisnarstefnunnar. Það veitir sýn inn í kjarna þeirrar stefnu, sem auðvaldið í landinu hefur verið að framkvæma síðustu árin. Það sýnir mönnum einn þáttinn í þeim skipulögðu breytingum, sem íhaldið með tilstyrk þess, sem enn er kallað Alþfl., er að framkvæma á þjóðfélaginu í þá átt að auka hlut þeirra, sem betur mega sín, á kostnað hinna efnaminni. Enn er haldið áfram í sömu átt, og þessa dagana er ætlunin að ná mikilvægum áfanga á þessari braut með samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir.

Allar þessar skipulögðu aðgerðir, sem viðreisnarflokkarnir hafa haft í frammi undanfarin ár til þess að auka hlut stóreignamanna þjóðfélagsins á kostnað vinnandi alþýðu, hafa verið framkvæmdar undir hinum fegurstu kjörorðum. Við sáum af dæminu, sem ég tók áðan, hið raunverulega inntak kjörorðsins: „afnám tekjuskatts á lágtekjum“. Þar var um að ræða fjórtánfalda lækkun skatts á hátekjum miðað við skattalækkun á lágtekjum og samhliða stórauknum neyzluskatti á nauðsynjavörum, sem bitnar á stærstu fjölskyldunum.

Eitt kjörorð hefur þó verið öllum öðrum vinsælla og mest notað af ríkisstjórnarflokkunum í skipulögðum aðgerðum þeirra við að skapa það þjóðfélag á Íslandi, sem íslenzka auðstétt dreymir um. Það er kjörorðið: „barátta gegn dýrtíðinni, stöðvun verðbólgunnar“. Í nafni kristilegrar mannúðar hefur, sem öllum er kunnugt, margt óhappaverkið verið unnið, og með það að skálkaskjóli, að verið væri að stöðva dýrtíð og hemja verðbólgu, hafa viðreisnarflokkarnir með hverri aðgerðinni á eftir annarri þrýst kjörum íslenzkrar alþýðu neðar og neðar, án þess að þess sjáist vitaskuld nokkur merki, að sú verðbólga, sem er gróðalind stóreignamanna, láti hið minnsta undan siga. Öðru nær, enda tilgangurinn með aðgerðunum ekki sá, heldur hafa aðgerðir ríkisstj. þvert á móti kynt undir dýrtíðinni og aukið verðbólguna. Alþýða manna, sem hefur séð laun sin fuðra upp á dýrtíðarbálinu, en auðmenn og gróðafélög stórauka eignir sínar á sama tíma, hefur á því einlægan vilja, að hamlað sé gegn verðbólgunni. Þann vilja hafa viðreisnarflokkarnir skipulega og vísvitandi misnotað til þess eins að þrýsta launakjörum verkafólks sífellt neðar og neðar, svo að lækki sá kostnaðarliður, sem launin eru hjá fyrirtækjum.

Þegar Sjálfstfl. hafði komið Alþfl.-foringjunum fyrir í ráðherrastólunum í des. 1958, var hafin sú barátta, sem enn stendur yfir, að breyta þjóðfélaginu í átt við kröfur flokksstjórnar Sjálfstfl. haustið 1958, en þar var fyrsta krafan bein lækkun á launum verkafólks. Þá kröfu uppfyllti Alþfl. með því að lögfesta lækkun á kaupi launþega um 600—800 kr. á mánuði. Þá framkvæmd auðveldaði Alþfl. sér með því að bendla þessa lífskjaraskerðingu, sem eingöngu bitnaði á launþegum, við baráttu gegn verðbólgunni og aukinni dýrtíð. Með þessum aðgerðum skyldi bundinn endir á víxlhækkun kaupgjalds og verðlags og allar frekari hækkanir stöðvaðar í eitt skipti fyrir öll. Þessum blekkingum trúði of margt alþýðufólk þá, þótt það sjái nú í gegnum þær. í marz 1959 var verkafólk skyldað til þess að fórna um 14% af launum sínum beint í hendur atvinnurekendum, þá skyldi verðbólgan stöðvast, meira þyrfti ekki að krefjast, og Alþfl. gekk til kosninga 1959 undir því kjörorði, sem hann hafði notað við kauplækkunaraðgerðirnar: „barátta gegn dýrtíð, óbreytt verðiag“. Út á þessa blekkingariðju fékk Alþfl. nægilegt fylgi til þess að tryggja íhaldinu meirihlutavald á Alþingi næsta kjörtímabil, 1959–1963, og eftir kosningarnar kom sannleikurinn vitaskuld í ljós. Með gengislækkunarlögunum dundu verðhækkanirnar yfir launþega, sem nú bjuggu við skert kaup, kaup, sem skert hafði verið undir því yfirskini, að með því fengist fast verðlag. En gróðastéttirnar höfðu á hinn bóginn fengið hvort tveggja, kauplækkun hjá verkafólki og áframhaldandi verðbólgu, sem tryggði þeim sem fyrr stórfellda eignaaukningu. Og um leið og stofnað var til verðhækkana og olíu hellt á dýrtíðarbálið með sjálfri gengislækkuninni, var enn hert á verðhækkununum með stórfelldri vaxtahækkun.

En viðreisnarflokkarnir létu ekki við það sitja að svipta þannig blekkingunum af þeim kauplækkunaraðgerðum, sem þeir framkvæmdu 1959 undir kjörorðinu: „barátta gegn dýrtíðinni, stöðvun verðbólgunnar“, heldur hófu þeir blygðunarlaust aftur á loft sama kjörorðið og báru það fyrir þeirri nýju kröfu og fyrirskipun til launþega, að afnumin yrði vísitöluuppbót á laun. Nú var því haldið fram, að vísitölubætur á taun verkafólks væru bölvaldurinn, nú væri hann fundinn, honum þyrfti að útrýma. Eftir það gæti almenningur búið við stöðugt verðlag. Með því yrði endanlega unninn bugur á verðbólgunni. Fram til þessa hefði baráttan gegn dýrtíðinni að engu haldi komið vegna vísitölubótanna, sem hleyptu öllu verðlagi af stað og gerðu ókleift að stöðva verðhækkanir. Enn treystu viðreisnarflokkarnir á það, að vegna þess að alþýða manna vill stöðva dýrtíðina, væri hún fús til að fórna sínum hlut enn einu sinni og sæist yfir það, að það væri blekking, að þessar ráðstafanir leiddu til stöðvunar verðbólgunnar. Enn þá tókst viðreisnarflokkunum í krafti illa fengins meiri hluta á Alþingi að stiga enn eitt spor í átt til þeirrar þjóðfélagsskipunar, sem máluð var upp á landsfundi Sjálfstfl. 1958 sem draumsýn íhaldsins. Enn var stigið eitt spor í þá átt að umbylta þjóðfélaginu auðstéttinni í hag, í þeim tilgangi að koma smátt og smátt á algerri yfirdrottnun hennar.

Eftir að alþýða manna hafði þannig verið blekkt til að veita þingmeirihl. þeim flokkum, sem lækkuðu kaupið um nær 14% 1959 undir yfirskini baráttunnar gegn dýrtíðinni, stóð almenningur nú frammi fyrir stórfelldu verðhækkunarflóði, og enn, með sömu blekkingarnar á vörunum um stöðvun verðbólgu, heimtaði auðstéttin afnám vísitölubóta á laun. Fyrir tilstilli viðreisnarstjórnarinnar fékk auðstéttin enn sem fyrr hvort tveggja. Hún fékk afnám vísitölubóta á laun, og hún fékk sína áframhaldandi verðbólgu. Þegar stjórn Alþfl. lækkaði einhliða launin 1959, var sagt við verkafólk: Ef þið aðeins látið atvinnufyrirtækjunum eftir 600—800 kr. á mánuði af launum ykkar, þá stöðvast verðbólgan, þá búið þið hér eftir við fast verðlag og njótið vaxandi kaupmáttar launa af aukinni framleiðslu. — Út á þetta fékkst hinn illa fengni þingmeirihl., sem viðreisnarstjórnin studdist við síðasta kjörtímabil. Og sá meiri hl. færði verkafólki efndirnar í stórfelldustu verðhækkunum, sem yfir hafa dunið á Íslandi. Og enn var sagt við verkafólk: Að vísu hefur verðlagið ekki stöðvazt, en til þess að vinna bug á verðbólgunni vantar eitt: Það þarf að afnema vísitöluuppbætur á kaup, þá fáið þið verðlagsstöðvun. Ef einhver atvinnurekandi semur um kauphækkun, þá verður hann að bera hana sjálfur, henni verður ekki hleypt út í verðlagið.

Það eru nú nærri 5 ár síðan kaupið var lækkað með lögum og nærri 4 ár síðan vísitölubætur á laun voru teknar af verkafólki. Þessum vísitölubótum, sem af verkafólki voru teknar, hafði jafnan verið kennt um verðhækkanirnar. En hver varð árangurinn af þessum fórnum launþega? Aldrei í Íslandssögunni hefur verkafólk orðið að mæta öðrum eins hækkunum vöruverðs, og kaupmáttur tímakaups hefur stöðugt rýrnað. Þetta er árangurinn af þeim fórnum, sem verkafólk hefur verið krafið um. En á sama tíma hrúgast upp milljónahallir banka og sparisjóða, innflutningsfyrirtækja og stóriðnaðarfyrirtækja, þangað hefur arðurinn runnið. Þangað hefur runnið arðurinn af stóraukinni þjóðarframleiðslu, sem leitt hefur af afbragðs aflabrögðum og óheyrilegum vinnutíma daglaunamanna.

Einasta vörn verkafólks, sem atvinnurekendur og ríkisvaldið hefur tekið gilda, er, að það lengi vinnutíma sinn, þræli sífellt lengur og lengur við rýrnandi kaupmátt launanna. Jafnvel börnin eru í sívaxandi mæli send út á vinnumarkaðinn. Á þeim vinnustað, þar sem ég vann í sumar og unnið var að jafnaði 10—12 klukkustundir á sólarhring, var það haft í flimtingum, að það væri aðeins á einum vinnustað á Íslandi, sem 8 stunda vinnudagur væri látinn nægja, það væri á Litla-Hrauni. Þeir, sem þar dveldust, gætu nefnilega vitnað til þess, að þeir væru aðeins dæmdir í betrunarhúsvist, en ekki þrælkunarvinnu, það væri allt annar dómur, sem sakamenn á Íslandi væru ekki dæmdir í. Og barnavinnan hefur verið svo hóflaus, að þess eru dæmi, að 10 ára börn hafa verið við vinnu niðri í lest í togara um miðnætti, löngu eftir að þau máttu ekki samkv. lögreglusamþykkt vera utan húss. Sú lögreglusamþykkt var gerð, þegar börnunum var leyft að vera börn, en ekki vinnuafl. Sú lögreglusamþykkt var gerð, þegar viðreisnartímar hvörfluðu ekki að neinum. Þetta er það, sem viðreisnin hefur fært launþegum: Sífellt lægri kaupmáttur tímakaups þrátt fyrir aukna þjóðarframleiðslu vegna góðra aflabragða, sífellt lengri vinnutími og stöðugt aukin barnavinna.

Þegar viðreisnarflokkarnir tóku við stjórninni um áramótin 1958–1959, var kaupmáttur tímakaupsins meiri eftir 14 ára síldarleysi en hann er í dag, eftir að annars vegar hafa komið til afbragðs aflasumur á síldveiðum norðanlands og austan og algerlega nýr þáttur í þjóðarframleiðslunni, þar sem eru hin gífurlegu verðmæti haust- og vetrarsíldveiðanna við Suðurland. Það er hægt að geta sér til, hver kjörin væru í dag, ef síldarleysið hefði haldizt.

Eftir allt þetta: kaupskerðingu 1959 í nafni baráttunnar gegn dýrtíðinni, eftir gengislækkanir og afnám vísitölubóta á laun, líka í nafni baráttunnar gegn verðbólgunni, eftir stórfelldustu verðhækkanir, sem þekkzt hafa hér á landi, eftir að kaupmáttur tímakaups hefur stórlega rýrnað í beztu góðærum, sem þjóðin hefur lifað, eftir meiri kauphækkanir til launahæstu starfsmanna í þjóðfélaginu en nokkru sinni hafa áður þekkzt, eftir að alþýðu manna er fullkomlega ljóst, hve stórkostlega hún var blekkt við kaupskerðinguna 1959 og afnám vísitölubótanna 1960, gerist viðreisnarstjórnin svo djörf að hef,ja enn við hún það kjörorð, sem hún hefur haft að skálkaskjóli við hverja árás á lífskjör almennings: „baráttuna gegn dýrtíðinni“, og krefst þess nú, að hinir lægst launuðu verði sviptir grundvallarréttindum samtaka sinna, samningsréttinum og verkfallsréttinum, til þess að fullkomnað verði það þjóðfélag stéttaskiptingarinnar, sem mestu íhaldsöflin hafa jafnan látið sig dreyma um.

Atvinnurekendur fengu fram kauplækkunina 1959, og atvinnurekendur voru leystir undan aðhaldi vísitölubótanna 1960, og nú á að fullkomna verkið og losa þá undan öllum áhyggjum af kaupkröfum verkafólks og bægja frá þeim því afli, sem í samtökum launþega felst. Eftir að verkafólk var svikið um stöðvun verðbólgunnar, þegar vísitölubæturnar höfðu verið afnumdar 1960, og eftir að ljóst er hverjum manni, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hafa fyrst og fremst verið í þá átt að auka verðbólguna, svo að hún er nú meiri en nokkru sinni hefur áður þekkzt, — hvernig getur þá ríkisstjórnarflokkunum til hugar komið, að það sé til nokkurs að koma nú og ætla að knýja fram með lagasetningu bindingu kaups hinna lægst launuðu, afnám samningsréttar og verkfallsréttar? Það eitt hefur ríkisstj. sér til afsökunar að hafa flutt slíkt frv. sem hér liggur fyrir, að íslenzkur verkalýður hefur, þar til þetta frv. var flutt, um of látið undan árásum hennar á lífskjörin og tekið það of trúanlegt, að ríkisstj. hafi raunverulega áhuga á því að stöðva verðbólguna og ráðstafanir hennar gætu leitt til þess.

Alþfl.-stjórninni var ekki svarað nógu kröftuglega 1959, þegar hún lækkaði kaupið og afhenti atvinnurekendum 600—800 kr. af mánaðarlaunum hvers launþega, og almenningur tók um of gilda þá blekkingu, að þá væri verið að stöðva dýrtíðina. Verkafólk snerist of linlega móti þeirri kjaraskerðingu, sem fólst í gengislækkuninni 1960 og afnámi vísitölubóta af launum, og lét um of ginnast til þess að álita, að sú ráðstöfun væri gerð til þess að draga úr verðbólgunni. Launþegar á Íslandi létu þó fyrst og fremst um of blekkjast af þvættingi stjórnarflokkanna um viðhorf mála í síðustu alþingiskosningum, — viðhorfum, sem stjórnarflokkarnir keppast nú sjálfir við að lýsa á allt annan veg en í vor og ætla nú að nota sem rök til þess að þrengja enn meir að almenningi en fyrr. Verkalýðurinn hefur til þessa hikað gagnvart þeirri stjórnarstefnu viðreisnarflokkanna, sem frá upphafi hefur miðazt við að tryggja hag einkagróðans og koma á varanlegri stéttaskiptingu í landinu, þar sem alþýða manna, sem framleiðslustörfin vinnur, skuli búa við skömmtuð laun án réttinda til þess að berjast fyrir bættum kjörum. Og vegna þessa hiks halda þeir flokkar, sem að ríkisstj. standa, að óhætt sé að stiga eitt stórt skref í viðbót.

En þeir gæta þess ekki, að í dag er öllum almenningi ljósara en fyrr, hvernig málum er komið og að hverju er stefnt. Gjaldþrot viðreisnarstefnunnar blasir við öllum. Öllu verkafólki er nú ljóst, hversu herfilega það var blekkt með kauplækkuninni 1959, með afnámi vísitölubóta 1960 og með gengislækkununum báðum. Það sér nú betur en áður, til hvers og í hvers þágu þær ráðstafanir voru gerðar, og því er fullkomlega Ijóst, að hverju er stefnt með því frv., sem hér liggur fyrir. Það er ekki til neins fyrir ríkisstj. að setja upp sparlandlitið einu sinni enn og segja: Við viljum endilega stöðva verðbólguna, þess vegna leggjum við þetta til. — Viðbrögð verkafólks um land allt síðustu daga sýna, að nú segir íslenzkur verkalýður: Hingað og ekki lengra. — Almenningur tekur ekki lengur mark á hjali ríkisstj. um, að aðgerðir hennar séu gerðar til þess að hindra verðbólgu og stöðva dýrtíð. Ríkisstj. er búin að beita þessum blekkingum of oft, til þess að nokkur taki mark á þeim lengur. Almenningur er búinn að fórna of oft og sjá þær afleiðingar einar, að verðbólgan hefur vaxið hraðar og hraðar og misskipting auðsins farið vaxandi, í hvert skipti sem hinir fátækustu eru látnir fórna. Almenningur gerir sér ljóst, að ráðstafanir ríkisstj. hafa verið til þess eins gerðar, í samræmi við flokksstjórnarsamþykktir Sjálfstfl., að auka hlut hinna ríku á kostnað hinna efnaminni, og í því einu skera þær ráðstafanir sig úr, sem nú er lagt til að gerðar verði, að þær eru stórfelldari og svívirðilegri, þær eru óréttlátari og ómanneskjulegri en áður hefur sézt. Þess vegna heyrist nú frá launþegum um allt land, hvar í flokki sem þeir standa: Nú er nóg komið.

Svona verður landinn ekki stjórnað. Alltaf skyldu hinir fátækustu fórna, til þess að verðbólgan yrði stöðvuð. Og hinir fátæku fórnuðu, en verðbólgan óx aldrei hraðar, og hinir ríku græddu aldrei meir en eftir að hinir fátæku höfðu verið látnir fórna. Það fólk, sem tekið hefur á sig hverjar álögurnar eftir aðrar að undanförnu og hefur ekki getað bætt sér það upp á neinn hátt annan en þann að lengja vinnudaginn til þess að drýgja tekjurnar, það segir nú: Ef einhverjir þurfa að fórna, þá skuluð þið í þetta skipti snúa ykkur til þeirra, sem hafa undanfarin ár hirt það, sem af hinum lægst launuðu hefur verið tekið. — Verkafólk segir einfaldlega við stjórnarvöldin: Þið hafið skert kaup hinna lægst launuðu, þið hafið tekið af þeim vísitölubæturnar, þið hafið velt yfir launþega meiri verðhækkunum en nokkru sinni hafa þekkzt hér, þið hafið veitt hátekjumönnum stórivilnanir í skattgreiðslum, þið hafið stórlega skert kaupmátt tímakaupsins í mestu góðærum, sem yfir Ísland hafa komið, þið hafið stóraukið neyzluskatta, sem þyngst bitna á stærstu heimilunum, þið hafið hækkað laun þeirra, sem hæst voru launaðir fyrir, en ef þið ætlið nú að klykkja út með því að binda okkar kaup og svipta okkur samnings- og verkfallsrétti, þá er mælirinn fullur, svo að út af flóir, og ekki seinna vænna, að þið valdhafar verðið látnir skilja það.

Þetta eru viðbrögð almennings í dag, og það er enginn vafi á því, að þegar íslenzk alþýða hefur talað svo sem hún nú hefur gert undanfarna daga, eiga stjórnarvöldin að hlusta og hafa vit á að reyna ekki að knýja fyrirætlun sina fram. Til þess skortir þau það vald, sem til þess þyrfti, og af því hlytist tjón fyrir þjóðina alla. Ef nú er ætlunin að binda kaup hinna lægst launuðu og svipta verkalýðsfélögin samnings- og verkfallsrétti, svo sem lagt er til með þessu frv., þá er það stríðsyfirlýsing ríkisstj. á hendur verkalýðssamtökunum. Og í því stríði, sem þá er fram undan, stendur verkafólk saman án tillits til þess, hvort það hefur kosið stjórnarflokkana eða ekki. Í augum verkafólks er hér ekki um að ræða einfalda flokkapólitík, heldur er um það að ræða að verja sameiginlega og sem einn maður helgustu réttindi alls vinnandi fólks í landinu.

Það er aldeilis furðulegt, að ríkisstj. skuli hafa vanmetið svo íslenzkt verkafólk og verkalýðssamtök, sem þetta frv. ber vitni um. Og það er jafnfurðulegt, að hún skuli ekki gera sér ljóst, að til þess að koma fram þeirri réttindasviptingu og kaupbindingu, sem felst í þessu frv., skortir hana vald. Ríkisstj. skortir sjálfsagt ekki vald til að fá þetta frv. samþ. hér innan veggja Alþingis, en sú handaupprétting kemur fyrir ekki. Til þess að fylgja því fram sem lögum, þarf vald, sem ríkisstj. hefur ekki. Ákvæði þessa frv. eru svo fjarlæg allri réttarvitund og réttlætiskröfum almennings í landinu, sérstaklega þegar hafður er í huga sá bakgrunnur, sem ríkisstj. hefur sjálf gefið því með því að hlaupa til og hækka laun sumra hæst launuðu manna í þjóðfélaginu daginn áður, en loka verkalýðinn úti, að það ætti að vera jafnvel hæstv. ráðh. ljóst, að þau eru óframkvæmanleg.

Hversu heitt sem Vinnuveitendasambandið og Verzlunarráðið óska eftir því, að íslenzk verkalýðssamtök afhendi þegjandi og hljóðalaust þau réttindi, sem barizt hefur verið fyrir frá stofnun þeirra, og hversu ákaft sem þessir aðilar fara fram á það, að verkalýðshreyfingin sætti sig við, að það fólk, sem skapar allan auð í þjóðfélaginu með vinnu sinni, verði með pappírsblaði gert að annars flokks fólki í þjóðfélaginu, með skömmtuð laun og svipt öllum réttindum til að berjast fyrir kjörum sínum, þá gerist slíkt ekki, og þótt ríkisstj. kjósi nú að leggja til úrslitabaráttu til að knýja þetta fram, þá er sú barátta ríkisstj. fyrir fram töpuð. Hvorki þessi ríkisstj. né nokkur önnur getur sigrað í úrslitabaráttu við sameinaðan verkalýð landsins um helgustu réttindi hans. Ríkisstj. gæti eins reynt að fyrirskipa landsmönnum með lagasetningu að anda aðeins einu sinni í viku. Það yrði lítið erfiðara fyrir hæstv. ríkisstj. að tryggja framkvæmd slíkra laga en þeirra, sem hún er nú í skilningsleysi sínu að reyna að fá samþykkt á hv. Alþingi.