19.12.1963
Efri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

95. mál, vegalög

Frsm:

(Bjartmar Guðmundsson): Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er frv. það, sem hér um ræðir, samið af mþn., er hæstv. samgmrh. skipaði samkv. þáltill. frá 22. marz 1961. Hafði n. því þetta mál til meðferðar frá því vorið 1961 þar til í okt. 1962, að hún skilaði áliti til ríkisstj. og frv., sem í höfuðdráttum er uppistaðan í því frv., sem hér er til umr. Var frv. síðan til athugunar hjá ríkisstj. og Efnahagsstofnuninni þar til í febrúar 1963, að samgmrh. fól n. að taka málið til nýrrar athugunar með hliðsjón af ýmsum bendingum, sem ríkisstj. gaf n. og einnig Efnahagsstofnunin. Hafði n. það síðan til athugunar, þar til það var lagt fram sem stjfrv. snemma í þessum mánuði.

Það er mála sannast, að það er ekkert áhlaupaverk að semja frv. sem þetta, þar sem lagt er til að breyta mjög mikið skipulagi þeirra mála, sem frv. fjallar um, og benda um leið á aðferðir til tekjuöflunar, sem færar teljast og sem sanngjarnast komi niður á almenningi. Undirbúningur að öflun nauðsynlegra gagna, svo og úrvinnsla og útreikningar og myndagerð kom í hlut formanns n., Brynjólfs Ingólfssonar ráðuneytisstjóra og vegamálastjóra, Sigurðar Jóhannssonar, sem stýrðu vinnubrögðum n. í aðalatriðum af miklum dugnaði. Einnig naut n. ágætra starfa Snæbjarnar Jónassonar verkfræðings, sem sat alla fundi n., Björns Hermannssonar deildarstjóra í fjmrn. og Steingríms Ingólfssonar verkfræðinema, sem hafði mjög með útreikninga að gera og undirbúning að myndagerð.

Ég vil þakka hæstv., samgmrh. fyrir þau viðurkenningarorð, sem hann lét falla um störf n. hér í hv. d. í gærkvöld, og einnig vil ég þakka hv. 5. þm. Reykn. fyrir vinsamleg orð um störf n., einnig á fundi í gærkvöld. Og enn fremur vil ég ekki láta hjá líða að minna á þátt hinna ágætu starfsmanna, sem ég nefndi hér áðan á vegamálaskrifstofunni. Í glöggri grg. og umsögn um allar greinar frv., sem eru 100 að tölu, sem samin er af ráðuneytisstjóra, formanni n. og vegamálastjóra, er rakinn tilgangur þessa frv. og markmið. Þar er einnig nokkurt sögulegt yfirlit um þróun vegamála hér á landi, frá því að farið var að ryðja mestu tálmunum úr frumstæðustu fjárstígum og troðningum eftir hestafætur þar til nú, að bíllinn er kominn til sögunnar og kallar á akveg um allt þetta land þvert og endilangt, eins og í öllum öðrum löndum, þar sem nútímatækni hefur tekið að meira eða minna leyti við völdunum. Og þar sem ég geri ráð fyrir, að hv. dm. hafi kynnt sér grg. og skýringar á greinum frv., tel ég ekki ástæðu til að endurtaka teljandi af því, sem þar er sagt.

Þær höfuðbreytingar, sem í frv. felast, verður að telja að séu þessar.

Gert er ráð fyrir vegáætlun, sem vegalaganefndin hugsaði sér til 5 ára í senn, en hefur nú verið breytt í 4 ár, til þess að hægt sé að vinna að samfelldari verkum og koma við skynsamlegri vinnunýtingu og þar með að fá lagða ódýrari vegi en verið hefur. Um þessa nýbreytni gerði n. sínar till., en bjóst alltaf við, að Alþingi mundi telja sér nauðsynlegt að hafa úrslitaúrskurð um frágang ákvæða um þetta til að tryggja vald sitt, og að því leyti var þetta atriði naumast fullfrágengið af n. hálfu. Brtt. um þetta stóra atriði kom því síður en svo nm. á óvart, og hefur orðið samkomulag um það í samgmn. beggja þingdeilda að breyta þessu ákvæði þannig, að nú er gert ráð fyrir 4 ára áætlun með endurskoðun á tveggja ára fresti í stað þess að gert var áður ráð fyrir 5 ára áætlun, endurskoðun á 3 ára fresti. Um þetta atriði hefur, eins og ég sagði, orðið fullt samkomulag í samgmn., og veit ég ekki annað en það sé almennt meðal hv. alþm.

Þá er annað mjög stórt atriði, að nú er gert ráð fyrir, að flokka eigi vegi á nokkuð annan veg en áður hefur verið, og er það fyrst og fremst hugsað til leiðbeiningar vegamálastjórninni, þegar lagt er í framkvæmdir við nýja vegi, hve breiðir þeir skuli vera og hve vandaðir að öðru leyti. Þá er það alveg nýtt form, sem tekið er upp að því er fjárveitingar snertir til þjóðvega í kaupstöðum, og er þar um mjög aukin fjárframlög að ræða frá því, sem áður hefur verið. Var enginn ágreiningur í n. um það, að nauðsynlegt væri að styðja af ríkisins hálfu þessar framkvæmdir að meira eða minna leyti, eins og nú er orðið afar dýrt að leggja þá fullkomnu vegi, sem á þarf að halda eftir nútíma umferðarhraða. Hugsaði n. sér ákveðinn hluta af öllu því fé, sem til vega gengur, sem færi í þessar framkvæmdir, og orðaði í till. sinni sem næst 11% í því orðalagi fólst það, að hún taldi, að ekki væri fyllilega frá þessu gengið og það mundi koma til kasta Alþingis að orða þetta eða ákveða nánar, og hefur nú tekizt samkomulag um það, sem komið er fram í brtt. og er búið að samþykkja í Nd.

Þá er lagt til, að sýsluvegir nái nú til allra býla í landinu, þeirra sem ekki ná til þjóðvega, og um leið, að aukin fjárráð sýsluvega verði allmikil, þ.e.a.s. að þau hækki um ca. 150% frá því, sem verið hefur, eða úr u.þ.b. 6 millj. í a.m.k. 15 millj., eftir því sem næst verður komizt eftir útreikningum, sem gerðir hafa verið samkv. þessu ákvæði.

Framlög úr héruðum eiga nokkuð að hækka frá því, sem verið hefur, og innheimtast með öðrum hætti, og er lagt til, að þar verði lögð til grundvallar fólkstala á hverjum stað, en áður hefur það verið fasteignamat á hverjum stað eða í hverri sýslu. Og á móti heimaframlögum komi tvöföld upphæð frá ríkissjóði samkv. vegalögum. Um leið og þetta er ákveðið, styttast sýsluvegir allverulega frá því, sem áður var, þ.e.a.s. það verður meira tekið inn á það, sem í frv. er kölluð landsbraut.

Það fer, held ég, ekki á milli mála, að það er mjög mikil þörf á þessari aukningu á framlögum til sýsluvega, því að engir vegir í landinu hafa verið jafnmikil olnbogabörn nú um a.m.k. heilan áratug og sýsluvegir, því að fjárframlög til þeirra hafa ekkert hækkað allan þann verðbólgutíma. N. gekk út frá því, þegar hún skilaði sínum till. um þetta atriði, að það yrðu naumast endanlegar till., því að hún taldi það mjög eðlilegt, að þingið í heild fjallaði um þetta atriði, þar sem það er svo mjög nákomið flestöllum þm., sem bera vegamál fyrir brjósti, en það eru a.m.k. allir þm. úr dreifbýlinu.

Þá er hér ein stór breyting frá því, sem áður hefur verið, og það er um fjáröflun til vegagerða, sem nú er lagt til að verði mjög aukin, þó að sá skuggi hvíli þar á að vísu, að þau auknu fjárráð verða tekin með nýjum sköttum, þ.e.a.s. 130 aura benzínskatti til viðbótar við 147 aura, sem áður var, nokkurri hækkun á þungaskatti bifreiða og hækkun á skatti af hjólbörðum. En um aðrar leiðir virtist ekki vera að ræða, sem sanngjarnari gætu talizt heldur en þær að láta umferðina styðja sjálfa sig eða þá, sem nota bílana, með auknum sköttum á þá, og talið, að það mundi fljótt koma inn með auknu vegakerfi og bættum vegum, sem minna slitu bílunum og krefðust minna benzíns. Þetta er nánar skýrt, hvernig þessir skattar koma niður, á fskj. á bls. 62, og vil ég vísa til þess.

Þá er enn nýmæli að ákveða í reglugerð, að innheimta megi sérstakt umferðargjald af þeim bílum, sem fara um fjölförnustu vegi. Það eru að sjálfsögðu vandaðir vegir og hafa orðið dýrir í byggingu og talið eðlilegt, að þeir verði látnir ná einhverju inn á þennan hátt upp í þann mikla stofnkostnað, sem þar hefur verið lagður fram. Enn má telja það nýtt, að gert er nú ráð fyrir, að um ½% af því fé, sem vegagerðin hefur til umráða, gangi til rannsókna og tilrauna undir stjórn vegamálastjóra, til þess að leita að nýjum leiðum til að gera betri og ódýrari vegi með meiri tækni.

Það er auðvitað, að í 100 gr. frv. koma fram mörg atriði önnur en ég hef hér nefnt, sem mega teljast ný og mjög breytt frá því, sem áður hefur verið, en ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta.

Ég hef þegar drepið á nokkur atriði, sem mþn. taldi eðlilegt að væru athuguð sérstaklega af Alþingi og það setti endanlega föst ákvæði um, en hún lagði ekki nema tiltölulega lauslega til. Má því segja, að sumt af því væri síður en svo óeðlilegt, sem fram hefur komið af brtt. við frv., og ekki annað en það, sem n. gerði alltaf ráð fyrir að kæmi við þennan mikla lagabálk. Auk aðalbreytinganna, sem ég nefndi, eru svo ýmsar smærri breytingar, sem stafa beint af þeim í orðalagi o. fl. Einnig hafa komið fram nokkrar aðrar breytingar, sem eru verulega efnislegar frá einstökum þm. og nm. í samgmn., og munu þær yfirleitt vera til bóta flestar. Þá er og nokkuð af orðalagsbreytingum, sem n. gekk frá og auðvitað má nokkuð um deila, því að það er nú svo, að flesta hluti má orða á óteljandi vegu. Og þó að þær breyt., sem samgmn. d. urðu sammála um að leggja til og Nd. hefur samþ. séu allmargar, þá er það ekkert annað en eðlilegt út frá þeim vinnubrögðum, sem bæði voru í mþn. og einnig samkomulagsatriðum í samvn. samgm. Hæstv. samgmrh. sagði hér í gærkvöld, að flestar þær breytingar væru til bóta, og ég vil taka undir það, og ég hygg, að þær, sem ég tel ekki til bóta, séu þá ekki til að skemma frv. að verulegu leyti, enda var fullt samkomulag um þær, eins og ég sagði, í þessari nefnd.

Það hefur verið bent á það í þessum umr., að frv. þetta hafi komið of seint fyrir augu hv. alþm., til þess að þeim ynnist nægur tími til þess að kynna sér það til hlítar, þar sem meiningin var að afgreiða það nú fyrir áramót. Þetta er hverju orði sannara, að þetta er það mikið mál, að allt of stuttur tími var til athugunar, en sannleikurinn er sá að full samstaða um frv. náðist ekki fyrr en það var lagt fram, og þar af leiðandi er tíminn þetta naumur. En hv. þm. munu vera flestallir sammála um, að það sé mjög nauðsynlegt að afgreiða málið fyrir áramót, til þess að tekjuöflun frv. taki að verka strax með næsta ári. Og til þess að bæta úr því, hversu þessi tími var stuttur, var það ráð tekið að athuga frv. á sameiginlegum fundum beggja samgmn. í deildunum.

Þessi stóra nefnd hélt marga fundi, og á þeim mætti einnig ráðneytisstjórinn, sem var formaður mþn., og vegamálastjórinn — og samgmrh., þegar á þurfti að halda, einnig formaður Framsfl., Eysteinn Jónsson, og fulltrúi frá Alþb., Ragnar Arnalds, en því var boðið að hafa fulltrúa á þessum sameiginlegu nefndarfundum, þar sem Alþb. á menn í hvorugri þingnefndinni, og var það gert til þess, að sá flokkur gæti fylgzt sem allra bezt með því, sem þessar nefndir höfðu til málanna að leggja á fundum sínum, og einnig leggja þar orð í belg.

Á þessum nefndarfundum ríkti mikill einhugur um að styðja frv. í aðalatriðum, og eins og ég hef þegar drepið á, samþykkti þessi sameiginlegi nefndarfundur margar brtt., sem nú hafa allar verið staðfestar í Nd. Að sjálfsögðu komu fram margar aðrar uppástungur um breytingar, bæði frá einstökum nm. og eins frá þm., sem komu sínum till. á framfæri við n., en engar þær till, voru það veigamiklar, að þær yllu verulegum ágreiningi. Og ég vil þakka þann samstarfsvilja, er þarna kom ótvírætt fram og lýsti því, að það var full alvara hv. nm. allra, að málið næði fram að ganga fyrir áramót. Og um leið er það staðfesting á því, að mjög auknar vegabætur í þessu landi eru eitt af allra brýnustu viðfangsefnum, sem bíða úrlausnar um allt land, að sjálfsögðu eitthvað mismunandi aðkallandi, en alls staðar mjög aðkallandi, og að sjálfsögðu líta menn nokkuð misjafnt á það, hvað mest kalli að. Og um leið og ég fagna þeim viðtökum, sem frv. hefur fengið í aðalatriðum þrátt fyrir nýja skattálagningu, gefa þær ástæðu til að halda, að rétt sé stefnt með frv. En úr því sker að sjálfsögðu reynslan nánar og það mjög fljótlega.

Legg ég svo til fyrir hönd samgmn., sbr. álit hennar á þskj. 166, sem hefur verið lagt fram, að frv. verði samþykkt.