05.11.1963
Neðri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (1842)

56. mál, launamál o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. flutti ræðu um þetta mál við 2. umr. þess í gær. Hann gerði þar m.a. að umræðuefni fund, sem framkvæmdastjórar fyrir frystihúsum kaupfélaganna höfðu nýlega haldið, og hann lýsti ályktunum, sem gerðar höfðu verið á þessum fundi. Hann las upp till. 3 9 eða 10 liðum, sem samþ. hafði verið á fundinum. Þar voru till. um lækkun á vöxtum, hækkun á afurðalánum til framleiðslunnar, till. um, að útflutningsgjald yrði fellt niður og aðstöðugjald fellt niður af fiskvinnslu, niður væru felldir tollar til hagabóta fyrir framleiðsluna o.s.frv. Síðan ræddi hæstv. ráðh. um það, að verkalýðsfélögin hefðu farið fram á 40% hækkun á kanpi, Og hann fór með tölur í sinni ræðu. Hann sagði, ef ég man rétt, að þær launagreiðslur, sem hvíldu á sjávarútveginum, mundu nema um 1800 millj. á ári. Ekki hef ég haft neina aðstöðu til að kynna mér það, hvað hæft er í þessu. En hæstv. ráðh. reiknaði það út, að ef öll þessi laun hækkuðu um 40%, mundi sá launahækkun gera 1800 millj. kr. eða þar nm bil. Þetta væri útgjaldaaukning hjá sjávarútveginum. Síðan sagðist hann hafa verið að reyna að gera sér grein fyrir því, hvað mundi koma þarna á móti, ef fallizt væri á till. frá fundinum, sem ég gat um áðan. Hann sagði, að það væri erfitt að átta sig á því, en hafi ég heyrt rétt, þá nefndi hann 100 millj,

Þetta þótti mér ákaflega skrýtið að heyra. Einn liðurinn í till. framkvstj. var niðurfelling á útflutningsgjaldi. Ég held, að það sé rétt, að árið 1962 hafi verið fluttar út sjávarafurðir fyrir eitthvað meira en 3300 millj. kr. Ég held, að það sé líka rétt, að útflutninsgjaldið sé 7.4%. Og þá sýnist mér, að útflutningsgjaldið af afurðum sjávarútvegsins, sem hann verður að borga, hafi á því ári numið rúmlega 240 millj. kr. Og þetta er aðeins einn liðurinn í þeirra till. En svo segir hæstv. ráðh., að sér virðist, að væri á þessar till. þeirra allar fallizt, þá gæti útvegurinn hagnazt um 100 millj. Ég verð að segja það, að mér finnst þessir útreikningar óskiljanlegir hjá hæstv. ráðh. Hann segir, að á þessum fundi framkvstj. fyrir frystihús kaupfélaganna hafi verið ábyrgir menn. Það mun vera rétt hjá honum. En vill þá ekki hæstv. ráðh. beita sér fyrir því í ríkisstj., að það verði fallizt á till, þessara ábyrgu manna? Ég held, að hann ætti að gera það.

Hæstv„ ráðh. sagði; að ýmsir héldu því fram, að ríkisstj. væri of sein með sínar ráðstafanir. Ég held, að hún sé frekar of fljót meti þetta frv. sitt, sem hér liggur fyrir, heldur en of sein, því að þetta frv. hefði hún aldrei átt að sýna á Alþingi. Henni hefði verið nær að nota tímann í sumar til þess að reyna að ná samkomulagi um þessi mál, í stað þess að vera þá á flakki út um lönd og álfur.

Við höfum í nál, okkar í minni hl. fjhn. skýrt frá því, að kaup verkamanna, sem vinna 8 stundir alla virka daga, sé nú 5600 kr. á mánuði. Við höfum einnig bent á það, að framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar, sem svo er nefnd, sé samkv. útreikningi hagatofunnar nú í október kr. 7958.07 yfir mánuðinn. Við höfum einnig bent á það, að í þessum útreikningi vísitölu framfærslukostnaðar sé aðeins reiknað með húsnæðiskostnaði kr. 922.25 á mánuði. Þessi liður í vísitölunni, húsnæðiskostnaðurinn, hefur aðeins hækkað um 8.5% á valdatíma núv. ríkisstj. Hins vegar sýna skýrslur hagstofunnar, að byggingarkostnaður hækkaði frá því í febr. 1960 og þar til í júní 1968 um 38.6%. Frá þessu er skýrt í okkar nál. Það liggur því í augum uppi, að hjá öllum þeim mönnum í þessu þjóðfélagi, sem ekki vorn svo hamingjusamir að eiga íbúðarhús, áður en núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda, er framfærslukostnaðurinn langtum meiri en vísitalan sýnir. Framfærslukostnaður þeirra hefur hækkað langtum meira á þessu tímabili en vísitalan gefur til kynna. En hæstv. núv. ríkisstj. vill lögfesta það, sem nú er, að með 8 stunda vinnu alla daga ársins geti verkamaðurinn aðeins unnið fyrir 70% af útgjöldum vísitölufjölskyldunnar samkv. útreikningi hagstofunnar. Og þó er þetta kaup fyrir 8 stunda vinnu miklu minni hluti af framfærslukostnaðinum hjá þeim, sem hafa orðið að kaupa eða byggja yfir sig á þessum síðustu árum. Þetta vill hæstv. ríkisstj. lögfesta.

Frv., sem hér liggur fyrir, heitir frv. til l. um launamál o. fl. En frv. er auglýsing um gjaldþrot. Það er auglýsing um mikið stórt pólitískt gjaldþrot núv. ríkisstj. og stjórnarstefnunnar.

Framleiðsla þjóðarinnar á valdatíma núv. stjórnar er meiri en nokkru sinni áður. Árið 1961 var fiskaflinn 27% meiri en hann var 1958, og árið 1962 var hann 52% meiri en 1958. Enn er mikill afli árið 1963. Það er góður markaður fyrir okkar útflutningsvörur yfirleitt, og vörurnar seljast jafnóðum og þær eru tilbúnar til útflutnings yfirleitt. Sjaldan eða aldrei var greiðari sala á vörunum en einmitt nú. Þrátt fyrir þessi hagstæðu skilyrði, betri en nokkur önnur stjórn hefur haft við að búa, er ástandið í efnahagsmálunum þannig samkv. lýsingum sjálfra ráðh., að greiðslujöfnuður fer versnandi, því að innflutningurinn hefur vaxið of mikið, bankalánin eru of mikil, það er óheillaþróun í launamálum, neyzla og fjárfesting er meiri en framleiðslan og framkvæmdirnar of miklar, sparifjáraukningin minakandi, lánsfjáreftirspurn vaxandi og útlit fyrir, að gjaldeyrisvarasjóður minnki til muna. — Þannig lýsir stjórnin sjálf ástandinu þrátt fyrir þennan uppgripaafla síðustu árin. Og stjórnin leggur fram frv. um lögbindingu á kaupi verkamanna, verzlunarmanna, margra annarra launamanna og bænda. Ekki er það fallegt. En hvernig stendur á þessum ósköpum í slíku árferði? Það er ómögulegt að verjast þeirri hugsun, að hér sé óheppilegu stjórnarfari um að kenna. Þeir menn, sem hafa tekið að sér forustu í málum þjóðarinnar, virðast ekki vera þeim vanda vaxnir. Þeir hafa ranga stefnu og starfsaðferðir, og af því stafa vandræðin.

Núv. ráðh. minnast oft á vinstri stjórnina svonefndu, sem var hér við völd 1956—58. Sérstaklega er hún núv. hæstv. forsrh. kært umræðuefni, og meiri hl. fjhn. vitnar í forsrh. þeirrar stjórnar í nál. sinu, sem hér liggur fyrir. Mér þykir að marggefnum tilefnum rétt að rifja upp, hvernig ástatt var hérna í árslok 1958, þegar vinstri stjórnin fór frá. Þá voru skuldir landsins út á við að frádregnum innstæðum minni en þær eru nú, þrátt fyrir uppgripaafla síðustu ára. Afkoma ríkissjóðs var góð 1958. Kaupmáttur launa var stórum meiri þá en nú, það vita allir launþegar. Efnahagsmálin voru ekkert torleyst í árslok 1958, stjórnin fór ekki þess vegna. Allir mundu fagna af heilum hug, ef dýrtíðin væri ekki meiri en hún var þá og krónan okkar væri jafnverðmikil og hún var þá. Það mundi verða almennur fögnuður yfir því. En hvers vegna fór vinstri stjórnin? Eitt stærsta stríðið í stefnuskrá hennar var, að samráð skyldi haft við stéttasamtökin um ráðstafanir í efnahagsmálum. En 1958 náðist ekki samkomulag við þessa aðila. Nokkrir foringjar Alþb: og Alþfl: manna gengu til liðs við sjálfstæðismenn til að hindra slíkt samkomulag. Þegar svo var komið, að ekki var hægt að stjórna samkv. gefnum loforðum og áður birtri stefnuskrá, gerði forsrh. vinstri stjórnarinnar það, sem rétt var og hverjum manni í hans stöðu ber að gera, þegar slíkt ástand skapast. Hann sagði af sér. Þetta hafði núv. forsrh. átt að vera búinn að gera fyrir löngu. En hann hefur skort manndóm til þess. Hann og hans flokkar lofuðu þjóðinni mörgu fögru, en hafa ekki staðið við loforðin. Þeir lofuðu þjóðinni frelsi fyrst og fremst á öllum sviðum.

Þegar stjórnin lagði fram efnahagsmálafrv. sitt árið 1960, flutti hæstv. forsrh. ræður á þingi, svo sem eðlilegt var. Hann lét gamminn geisa og fór viða yfir. Hann var mjög brattur þá. Hann talaði m.a. mikið um frelsið, sem í vændum væri. Nú áttu menn ekki lengur að þurfa að bugta sig og beygja fyrir valdhöfunum og ráðum og nefndum. Nei, ekki aldeilis. Þeir áttu að vera frjálsir. Form. fjhn. á þeirri tíð, Birgir Kjaran, þáv. þm. annars stjórnarflokksins, sagði í framsöguræðu af hálfu meiri hl. fjhn.: „Okkar markmið er frelsi, þeirra (þ.e. stjórnarandstæðinga) markmið er ríkisafskipti: Það er svo að segja af þeim fyrrv. þm., hv. meðnm. mínum fyrrum í fjhn., að þegar leið að lokum kjörtímabilsins, var hann búinn að fá nóg af vistinni hjá frelsishernum, stjórnarflokkunum. Hann axlaði skinn sín og fór. Þetta hefðu þeir átt að gera fleiri, stjórnarflokkamenn, og þá fyrst og fremst ráðh. En þeir hafa haldið áfram að lofa frelsinu. Til viðbótar loforðum um frelsi lofuðu stjórnarflokkarnir bættum lífskjörum og stöðvun verðbólgu án nýrra skatta. Þeir sviku þetta allt, breyttu þveröfugt við það, sem lofað var, og þeir fleyttu sér í gegnum kosningarnar s.1. vor með því að gefa villandi upplýsingar um ástandið, sem stefna þeirra hafði skapað, og þeir gáfu ný loforð í þeim kosningum, fyrst og fremst um frelsi.

Í Morgunblaðinu 5. júní s.1., 4 dögum fyrir kosningar, var stór og falleg mynd á forsiðu blaðsins af 7 núv. hæstv. ráðh., og þar var auðvitað greinarstúfur með feitu letri. Þar stóð: „Stjórnarflokkunum hefur tekizt að koma á svipaðri frjálsræðisstefnu í íslenzkum efnahagsog atvinnumálum og bezt hefur gefizt í nágrannaríkjunum, sem hraðast sækja fram, og þeir munu undir engum kringumstæðum hverfa aftur til haftanna“. En hvað er á ferð í þessu frv., sem hér er til umr.? Hafa slík höft, sem þar á að lögleiða, nokkurn tíma verið sett á landsmenn, siðan þeir fóru sjálfir að stjórna sínum eigin málum? Ég held ekki.

Það var ýmislegt fleira í aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, fyrir kosningarnar. í leiðara 9. júní um morguninn, kosningadaginn, stóð þetta m.a.: „Það er meginhugsjón sjálfstæðismanna að takmarka afskipti ríkisvaldsins af málefnum borgaranna“ Þetta er fallegt að heyra. Það hefur mörgum þótt gott. Og enn fremur segir þar: „Nú er vegið að þeim árangri, sem náðst hefur í þessu efni. Það á að hverfa til ófrelsisins aftur, ef tekst að hnekkja styrk Sjálfstfl: Þetta er nú það, sem við liggur. Ef tekst að hnekkja styrk Sjálfstfl., þá verður aftur horfið til haftanna. Hvað er orðið af meginhugsjón Sjálfstfl.? Hvað er orðið af henni, þegar maður virðir fyrir sér þetta frv.?

Í Morgunblaðinu 9. júní stóð einnig í sérgrein á baksiðu með feitu letri: „Því takmarki er náð í gjaldeyrismálunum að hafa nægan varasjóð. Nú, þegar það hefur tekizt, er hægt að leggja aukna áherzlu á önnur verkefni:

Þannig blekktu þeir fólkið, fengu það til fylgis við sig. Þeir lýstu því yfir, að því takmarki væri náð, því var alveg náð að skapa nægan gjaldeyrisvarasjóð, það þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því meir. En nú er hægt að snúa sér að öðrum verkefnum. Gerið þið svo vel.

Svo var kosið. 12. júní, 3 dögum eftir kosningar, segir í Morgunblaðinu, — þeir eru ánægðir nokkurn veginn með úrslitin, þó að stjórnarflokkarnir töpuðu að vísu einum manni, og þeir segja: „Þjóðin hefur valið frjálslynda framfarastefnu, en hafnað höftum og ríkisafskiptum: Þarna hafa menn það. Bærilega tókst það. En gerði þjóðin þetta? Hvað segja verkamenn, verzlunarmenn, aðrir launamenn og bændur um það? Hvernig lízt þeim á frelsisskrána, sem liggur fyrir hér í frv.-formi um þessar mundir? Þjóðin hafnaði nefnilega ekki höftum og ríkisafskiptum með því að kjósa þessa menn aftur á þing, hún gerði það ekki. Hún var þar að leiða yfir sig þessi höft, sem nú á að fara að lögleiða. (Forseti: Ég vildi leyfa mér að spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi langt í land með að ljúka ræðu sinni. Ef svo er ekki, þá mundi fundi vera haldið áfram, að öðrum kosti frestað.) Ég verð nú ekki mjög lengi. (Forseti: Ef það tekur ekki langan tíma, þá er rétt, að fundi verði haldið áfram.)

Frv. þetta sýnir glöggt, að hæstv, stjórn hefur ekki breytt um starfsaðferðir. Hún heldur áfram að svíkja sín fögru fyrirheit á þessu nýja kjörtímabili eins og því fyrra og heldur áfram að hanga þrátt fyrir það. Og hún kallar svikin viðreisn. En þau eru bara ekkert betri fyrir það, þó að þeim sé gefið nýtt og fallegt nafn.

Það er nú kannske rétt, herra forseti, að ég geri heldur hlé á minni ræðu. Ég sé, að ég verð nokkra stund að ljúka þessu, sem eftir er. (Forseti: Ég vil aðeins taka það fram, að það eru nokkrir hv. þm. á mælendaskrá, og það er augljóst mál, að fundur heldur áfram hér í kvöld, svo að fundi verður frestað til kl. 8.30.) [Fundarhlé.]

Ég var áðan að rifja upp, hvernig ástatt hefði verið hér um þær mundir, sem vinstri stjórnin fór frá seint á árinu 1958.

Í okt. 1958 var tímakaup verkamanna í Reykjavík kr. 21.85 í dagvinnu. Kaupmáttur krónunnar var langtum meiri þá en nú, eins og allir vita, og munar þar mjög miklu. Till. Framsfl. í efnahagsmálum, sem hann lagði fram seint á árinu 1958 í ríkisstj., voru við það miðaðar, að kaupmáttur launa gæti haldizt óbreyttur, eins og hann var í okt. 1958 eða febr. það sama ár. Því miður var þessum till. hafnað. Tjón verkamanna og annarra launamanna af því, að þessum till. framsóknarmanna var hafnað og vinstri stjórnin fór frá, er orðið ákaflega mikið. Það verður ekki reiknað, það er ekki hægt að mæla í tölum það mikla tjón, og það er langt frá því, að það sé allt komið fram enn. Menn eiga enn ósopið seyðið af þessu. Það sést m.a. af frv., sem hér liggur fyrir.

Snemma á árinu 1959 var kaup verkamanna lækkað úr kr. 21.85, eins og það var í okt. 1958, niður í kr. 20.67. Við þetta áttu verkamenn að búa í meira en tvö ár.

Í júní 1961 náðust nýir samningar fyrir forgöngu samvinnufélaganna fyrst og fremst, og þá hækkaði tímakaupið úr 20.67 í 22.74. Þetta var tæplega 4.1 % hærra en kaupið í okt. 1958. Það var aðeins tæplega 4.1 % hærra en kaupið var fyrir, eða nærri því þremur árum áður. En þegar þessir samningar höfðu verið gerðir 1961, þá reiddust goðin ákaflega. Verkamenn máttu að þeirra dómi ekki fá 4.1 % hærra kaup í júní 1961 heldur en þeir höfðu í okt. 1958. Stjórnin lækkaði gengið í bræði sinni án þess að hugsa málið, tók af verkamönnum miklu meira en kauphækkunin varð. Það er óþarft að fara mörgum orðum um það, sem siðan hefur gerzt. Dýrtíðin hefur aukizt ákaflega, dýrtíðarskriðan fallið með vaxandi hraða, kaupmáttur launa hjá verkafólki langtum minni en hann var haustið 1958. Stjórnin ræður ekki við neitt, en gripur til þess ráðs að banna mönnum með lögum að hækka kaup sitt til að mæta einhverju af þeim þungu byrðum, sem dýrtiðin og ýmsar stjórnarráðstafanir hafa lagt þeim á herðar.

Enginn vafi er á því, að stefna vinstri stjórnarinnar um samráð við stéttasamtökin um efnahagsmál var rétt. Þetta mistókst þá — að fylgja fram þessari stefnu — og hefur valdið almenningi miklu tjóni. Það er sagt, að skaðinn geri mann hygginn. Það er stundum dýrt að nema í skóla reynslunnar. Trúlegt þykir mér, að stefna vinstri stjórnarinnar, að hafa samráð við stéttasamtökin um efnahagsmál, verði upp tekin aftur og það fremur fyrr en seinna. Það mun öllum hagkvæmast, þjóðinni í heild fyrir beztu, og vel getur svo farið, að þetta ljóta frv. núv. ríkisstj. flýti fyrir því, að stefna vinstri stjórnarinnar í þessum efnum verði upp tekin.

Þeim mörgu mönnum, sem verða fyrir barðinu á ákvæðum frv., er því ljósara en áður, að velja þarf nýja menn til forustu í málum þjóðarinnar.

Ég vitnaði áðan í ummæli hæstv. forsrh., er hann hafði, þegar efnahagsmálafrv. stjórnarinnar var hér til meðferðar á þingi snemma á árinu 1960. Það var útvarpað nokkru af umr. um þetta frv., og í útvarpsræðu, sem hæstv. forsrh. þá flutti, sagði hann m.a.: „Nú er af þekkingu og þreki gerð öflug tilraun til björgunar og viðreisnar: Hann taldi rétt að láta skjalfesta það í Alþt., til þess að sagnfræðingar seinni tíma gætu séð það, að snemma á því herrans ári 1960 hefðu þeir menn komið hér á stjórnarpallinn, sem höfðu þekkingu og þrek til að fást við vandamálin.

Mönnum er ljóst nú, hvernig ástandið er, m.a. af lýsingu sjálfrar hæstv. ríkisstj. Það litur út fyrir, að hér hafi eitthvað bilað eða brugðizt. Skyldi það vera þekkingin eða þrekið, eða e.t.v. hvort tveggja? Núv. ríkisstj, þyrfti að aukast þrek. Reynslan hefur sýnt áþreifanlega, að hún er ekki fær um að stjórna málum þjóðarinnar og hún efnir ekki loforð sín. Hún þyrfti að eignast nægan skammt af þreki til þess að segja af sér, í stað þess að berja fram þetta ljóta frv. sitt.