05.11.1963
Neðri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (1845)

56. mál, launamál o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Ég hafði búizt við því, að einhverjir úr liði hæstv. ríkisstj. mundu taka hér til máls við .þessa umr. málsins og svara nokkru af því, sem þeir hafa verið spurðir um. Ég hafði einnig orðið þess var, að a.m.k. einn þm. úr stjórnarliðinu hafði látið setja nafn sitt á mælendaskrá, svo að mér kom það heldur spánskt fyrir, þegar forseti ætlaði að slíta umr. hér.

Það hafa að vísu farið hér fram allmiklar umr. um efni þess frv., sem hér liggur fyrir, og um tilgang þess. Það hefur líka verið rætt hér allmikið um tildrög að því, að frv. er flutt. Ég get því stytt mál mitt að því leyti til, þó að sitthvað hafi nú komið fram í þessum umræðum, sem gefur tilefni til þess að halda þeim umr. áfram. En þá get ég eigi að síður stytt mál mitt að því leyti til að ræða hér ekki í löngu máli um þá hlið þessa máls.

En það, sem mig langaði sérstaklega til að ræða nú, eru þau nýju viðhorf, sem ég tel að séu komin fram í þessu máli, siðan frv. var lagt fram og hæstv. ríkisstj. gerði grein fyrir málinu af sinni hálfu. Ég ætla, að þeir atburðir hafi þegar gerzt, sem ríkisstj. megi finnast að skipti allmiklu máli um framhald málsins og hefðu kannske gefið nokkurt tilefni til þess, að hún hefði haldið hér áfram umr. um málið og látið nokkuð frá sér heyra í tilefni af nýjum atburðum, sem hafa verið að gerast í tilefni af því, að þetta mál var lagt fram.

Ég trúi því varla, að hæstv. ríkisstj. hafi búizt við því fyrir fram, að þetta frv. fengi þær viðtökur, sem það hefur fengið, bæði innan þings og utan, og þá alveg sérstaklega utan Alþingis. Það er alveg ótrúlegt, að hæstv. ríkisstj. hefði valið þá leið, sem hún hefur raunverulega valið með flutningi þessa frv., hafi hún búizt við því, að undirtektir almennings í landinu yrðu þær, sem nú er komið fram. Hafi hún reiknað með því, sé þetta ekkert nýtt fyrir ríkisstj., þá hefur hún blátt áfram verið að ögra almenningi í landinu og mana sterkustu samtök þjóðarinnar til þess að brjóta lögin niður,. En hafi ríkisstj. hins vegar búizt við því, að þjóðin mundi eftir atvikum taka þessum till. hennar með þögn og þolinmæði, stéttarfélögin í landinu mundu beygja sig fyrir lagasetningunni og þola þá réttindaskerðingu, sem í frv, felst, fyrst um sinn um tveggja mánaða skeið, þá hlýtur ríkisstj. nú að sjá, að þessu er ekki svona farið. Mótmæli hafa dunið hér yfir, síðan frv. kom fram, úr öllum áttum. Margir tugir stéttarfélaga hvaðanæva af landinu hafa mótmælt þessari lagasetningu, og langsamlega fjölmennustu og sterkustu verkalýðsfélögin í landinu hafa þegar boðað verkfall frá n.k. mánudegi að telja, þrátt fyrir þau bönn, sem felast í þessu frv. Ríkisstj, veit, að hún stendur frammi fyrir því eftir nokkra daga, að það verður svo að segja allsherjarverkfall um allt Ísland þrátt fyrir lagasetninguna. Hefur þetta engin áhrif á hæstv, ríkisstj.? Lætur hún sem hún heyri þetta ekki eða sjái? Hefur ríkisstj. ekki gert sér grein fyrir því, hvað af þessari lagasetningu hlýtur að hljótast, eins og málin nú standa? Það er ekki aðeins það, að setning þessara laga hlýtur að torvelda stórkostlega alla samninga á eftir á milli aðila, það verður miklu verra að leysa málið á eftir heldur ef nú er snúið til baka„ En auk þess má svo búast við því, að verkföll, almenn verkföll um allt land í margar vikur, muni kosta þjóðarheildina margfalda þá upphæð, sem um er deilt í sambandi við launakjör hinna lægst launuðu í landinu. Verði hér almennar vinnustöðvanir fram undir jól, sem fyllilega má búast við, eins og málin horfa nú við, þá verður mikill hluti af saltsíldinni, sem framleiddur hefur verið s.1. sumar, eftir í landinu. Það verða ekki tök á því að standa við gerða samninga, og það er nokkurn veginn víst, að mikill hluti af þessari framleiðslu hlýtur að eyðileggjast, því að það er ekki hægt að geyma þessa síld í því ástandi, sem hún er, án þess að að henni sé unnið. Vertíðin, sem nú er hafin hér suðvestanlands, stöðvast eðlilega. Það verður engin haustsíldveiði. Þar tapast álitlegar fjárhæðir. Undirbúningurinn að næstu vetrarvertíð truflast. Það verður ekki hægt að undirbúa flotann. Hann getur ekki hafið veiðar á eðlilegum tíma. Að maður ekki tali um, að það getur dregið eitthvað úr jóladýrðinni hjá ýmsum, og ég býst við því, að ýmsir kaupmenn missi spón úr askinum sínum, ef tekur fyrir næstum allan innflutning nú á næstu mánuðum, það muni draga eitthvað úr jólaverzluninni. Svona mætti margt fleira upp telja.

Ríkisstj. hlýtur að vera þetta ljóst. Ég efast ekkert um, að í stjórninni sitja þeir menn, sem þekkja svo vel til verka, að þeir hljóta að gera sér þetta allt saman ljóst. Ég veit líka, að menn geta staðið upp af hálfu ríkisstj. og sagt: Ekki er þetta okkur að kenna. Það er þeim að kenna, sem gera verkfallið, að svona fer. — En hinir, sem gera verkfallið, þeir halda því aftur á móti fram, að þeir hafi hinn siðferðilega rétt með sér, þeir hafi miklu sterkari rétt með sínum kröfum heldur en ríkisstj. með því, sem hún er að gera hér á Alþingi. Í rauninni skiptir það ekki í þessum efnum aðalmáli, hvor hefur hér á réttu að standa, en hitt skiptir aðalmáli, að það er skylda ríkisstj., þegar svona er komið, að horfast í augu við veruleikann, taka á honum og reyna að glíma við hann á þann hátt, sem þjóðarheildinni er fyrir beztu. Hér hafa því tvímælalaust skapazt þau ný viðhorf, að ríkisstj. hlýtur að láta til sín heyra í samþandi við þau, hvernig hún ætlar að halda þessu máli áfram.

Við fyrri umr. þessa máls benti ég nokkrum sinnum á það, að sú hætta vofði yfir, að ríkisstj, væri að sigla inn í sjálfheldu í þessu máli, sem hún kæmist ekki auðveldlega út úr, ef hún héldi hér of langt áfram. Nú er orðið hverjum manni augljóst, að á þetta stefnir. Enginn skyldi halda, að fjöldamörg verkalýðsfélög og þau sterkustu, sem til eru víðs vegar um landið, tilkynni nú verkföll, eins og þau hafa gert, alveg út í loftið, að þau meini ekkert með því.

Frá því var skýrt í upphafi umr. um þetta mái, að áður en ríkisstj. lagði fram þetta frv. sitt, hafi forustumenn Alþýðusambandsins boðið ríkisstj, hálfs mánaðar frest enn til að leita eftir samningum til lausnar á vandamálinu, en með því skilyrði þó, að samningaviðræður yrðu teknar upp af fullum krafti þá strax. Ég vil ætla, að þrátt fyrir það, sem gerzt hefur í þessu máli með framlagningu þessa frv., og þrátt fyrir allan þann æsing, sem orðinn er á báðar hendur vegna þessara fyrirhuguðu ráðstafana ríkisstj., og þó að sem sagt andrúmsloftið nú sé orðið þegar allt annað en það var, áður en frv. var lagt fram, þá vil ég þó ætla, að það séu enn þá möguleikar til þess, að ríkisstj, geti fengið þennan sama frest, sem henni var boðinn; áður en málið var hér lagt fram, til þess að leita eftir samningum um lausn á vandanum. Ég vil því enn þá einu sinni ítreka þá áskorun mína til hæstv. ríkisstj., að með sérstöku tilliti til þess, hvernig þessi mál hafa nú þróazt og hvernig þau standa nú í dag, þá hverfi hún að því ráði að hætta við að knýja frv. í gegnum þingið, hún láti það niður falla, taki þann frest, sem henni hefur verið boðinn, gangi að samningaborðinu og aðstoði við samningagerð á milli launþegasamtakanna í landinu og atvinnurekenda. Þetta er eina leiðin út úr þeim vanda sem við stöndum í nú í dag.

Ég hef heyrt það í þessum umr., bæði frá hæstv. ráðh. og eins frá frsm. meiri hl. fjhn., sem talaði af hálfu stjórnarflokkanna, að menn segja: Verði kaupið hækkað, fáist ekki sú stöðvun á kauphækkunum, sem felst í þessu frv., þá er óhjákvæmilegt að grípa til gengislækkunar. En ég trúi því varla, að hæstv. ríkisstj. telji, að ný gengislækkun leysi í raun og, veru nokkurn vanda. Er henni ekki alveg ljóst, að ef skellt yrði á einni gengislækkuninni enn, þá mundi hvert eitt og einasta mannsbarn í landinu slá því föstu, að afleiðingar af þeirri gengislækkun yrðu þær sömu og af hinum tveimur, að verðlag mundi fara hækkandi í landinn, að launþegasamtökin kæmu á eftir og krefðust hækkandi launa vegna hækkandi verðlags? Er henni ekki alveg ljóst, að ný gengislækkun er aðeins upphaf að nýrri veitu, einni veltunni enn, sem ekki leysti nokkurn vanda?

Það hefur verið sagt, að ríkisstj. hafi hikað nokkuð við það að fara út í gengislækkun, vegna þess að heildsalarnir skulduðu of mikið erlendis í stuttum vörukaupalánum. Jafnvel annað stjórnarblaðið, Alþýðublaðið, skýrði frá þessu í leiðara fyrir nokkru, að þetta væri ein meginástæðan til þess, að ekki væri farið út í nýja gengislækkun. Það má vel vera, að þeir aðilar, sem skulda þessar fjárhæðir erlendis, 550 millj. kr. nú í septemberlok, þeir kaupsýslumenn, sem hafa verið að flytja vörur inn til landsins nú síðustu mánuðina án þess að hafa borgað vörurnar, tekið þær að láni erlendis, selt þær hér eða lánað þær út, að þeir séu allhræddir við það, ef gengisfelling kæmi, vegna þess að það er auðvitað alveg augljóst mál, að þá yrðu þeir fyrir verulegu fjárhagstjóni og það gæti farið allilla fyrir þeim mörgum. Ég efast ekkert um, að þessir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, þrýsta á ríkisstj. að fara sér svolítið hægar en stundum áður í því að beita gengislækkunarvopninu, og það kann vel að vera, að það hafi haft einhver áhrif á ríkisstj. með að fresta a.m.k. um sinn gengislækkuninni. En það eru auðvitað miklu fleiri en þessir kaupsýslumenn, sem yrðu sannanlega fyrir tjóni eða fengju sína erfiðleika af nýrri gengislækkun. Í fyrsta lagi fengju auðvitað allir launþegar í landinu, eins og ég skýrði frá áðan, sinn vanda að glíma við í hækkandi verðlagi almennt, sem mundi leiða af gengisfellingunni. Mjög margir sjávarútvegsmenn fengju líka á sig allverulegan skell af nýrri gengislækkun. Allir þeir nýju fiskibátar, sem hafa verið að koma til landsins á þessu og síðustu árum, eru keyptir með þeim hætti, að um 70% af veiði bátanna er tekið að láni erlendis til nokkurra ára. Þar er um verulegar skuldir að ræða. Allar þessar skuldir mundu hækka stórlega í Íslenzkum krónum talið, og eigendur þessara skipa yrðu sem sagt fyrir nýjum búsifjum. Þeir mundu á eftir gera kröfur til þess að fá enn þá hækkað fiskverð, enn þá betri rekstraraðstöðu en þeir hafa haft, m.a. til þess að standa undir þeim vanda, sem skapaðist af nýrri gengisfellingu. Á s.l. sumri tók ríkisstj. 240 millj. kr. lán í Bretlandi og lánaði það ýmsum aðilum, Enska lánið svonefnda. Auðvitað mundi þetta lán hækka í krónum talið hjá þeim öllum, sem fengið hafa þetta að láni hjá ríkisstj., og þannig mundi þetta koma út í okkar efnahagskerfi í fjöldamörgum greinum. Gengisfellingin er því alls ekki eins hagstæð, m.a. fyrir framleiðsluatvinnuvegina, og ýmsir halda.

Þá má einnig minna á það, að hér hefur komið fram í bessum umr. frá a.m.k. einum hæstv. ráðh., að hann taldi, að mjög hátt kaup sumra sjómanna á árinu 1962, síldveiðisjómanna, hafi skapað óróleika í launamálum í landinu, ýmsar stéttir hafi farið að bera sig saman við laun þessara sjómanna og þar af leiðandi ýtt á eftir kröfum um hækkað kaup. Það er alveg óhjákvæmilegt, ef gengið yrði lækkað, þá mundi aflahlutur sjómanna í krónum talið hækka allverulega, og það mundi einnig auðvitað ýta á það, að ýmsar aðrar stéttir, sem hafa tekið upp á því að miða sínar tekjur við það, sem sjómenn hafa, mundu fylgja á eftir. Það yrði því ekki auðveldur leikur, þar sem um aflahlut er að ræða að jafnmiklu leyti og er hér í okkar launakerfi, að ætla að halda niðri kaupi allra hinna í hækkandi verðlagi eftir nýja gengisfellingu, og sú hefur líka orðið reynslan.

Nei, gengislækkun er ábyggilega ekki leiðin. Ríkisstj. má ekki hugsa þannig í þessu máli, að það sé óhætt að berja í gegn þessa lagasetningu á Alþingi, jafnvel þótt yfir dynji almenn verkföll í landinu og öll sú hætta, sem þeim mundi fylgja fyrir afkomu þjóðarbúsins, vegna þess að það sé alltaf til sú leið í bakhöndinni að semja þá í miðju verkfalli um verulega hækkað kaup, auðvitað til þeirra, sem í verkfallinu standa, því að á eftir geti svo ríkisstj. gripið til vararáðsins, sem sé að lækka gengi krónunnar. Það er engin leið út úr vandanum, hreint engin leið, enda eru allar líkur til þess, að upp úr slíkum átökum, sem nú er verið að efna til, mundu launþegasamtökin í landinu beinlínis segja: Við semjum ekki í þessari deilu, nema við fáum verðtryggingu um leið á okkar kaupi. Við gerum ekki slíka samninga, við undirskrifum ekki slíka samninga, sem búast má við að strax, þegar staðið verður upp frá borðinu, þá verði samningarnir gerðir að engu með gengisfellingu eða öðrum hliðstæðum ráðstöfunum, þannig að það þurfi að byrja á þessum sama leik aftur.

Ég held því, að það sé mjög óvarlegt hjá hæstv. ríkisstj. að treysta á það að halda lengra út í ógöngurnar í þessum efnum, treysta á það, að hún eigi gengislækkunarvopnið eftir og það muni duga, því að ég held, að það dugi ekki.

Þetta var nú í rauninni, það sem ég þegar hef sagt, aðalatriðið í því, sem ég vil segja í umr. nú. Ég vildi vænta þess alveg sérstaklega, að hæstv. forsrh., sem hér er nú inni við umr., vildi láta eitthvað frá sér heyra hér í umr. með sérstöku tilliti til þeirra nýju viðhorfa, sem óneitanlega hafa komið upp í þessu máli, síðan hann lagði frv. fram, því að svo reyndur stjórnmálamaður er hann, að ég efast ekkert um, að hann hefur gert sér grein fyrir því, við hvers konar vanda þar er að glíma, ef hér eiga að skella á verkföll um allt land næstu daga, sem framkvæmd verða með öllu því afli, sem verkalýðssamtökin eiga yfir að ráða, þvert ofan í þessa lagasetningu. Hann hlýtur að gera sér grein fyrir þeim vanda, sem þá kemur upp.

Það er í rauninni, sem er auðvitað óþarft fyrir mig að taka fram, ekkert að lítillækka sig á neinn hátt fyrir hæstv. forsrh. eða fyrir ríkisstj. að horfast í augu við veruleikann, játa þær staðreyndir, sem fram eru komnar í málinu, og reyna að taka á málinu á þann hátt, sem hyggilegastur er. Stjórnin hafði sýnilega hugsað sér aðra leið. Ríkisstj. hélt, að sú leið væri fær. En nú er sem sagt komið fram, að teíðin er ekki fær. Ríkisstj. getur auðvitað sagt, að þessi leið sé ekki fær, vegna þess að menn séu ólöghlýðnir og þeir vilji ekki beygja sig skv. þeim lögum, sem búið sé að setja með réttum hætti á Alþ. En það skiptir ekki höfuðmáll. Aðalatriðið er staðreyndirnar, sem liggja fyrir. Við þær verður að fást, og það þarf að gera málið ekki erfiðara en þörf er á.

Fyrst ég er svo kominn hér upp, langar mig að nota tækifærið til að drepa á nokkur önnur atriði, sem hér hafa komið fram í umræðum og ég get ekki neitað mér um að taka nokkurn þátt í að ræða. Það er þá fyrst hæstv. viðskmrh. Ég verð að segja það í sambandi við ræður hæstv. viðskmrh., sem er óneitanlega töluglöggur maður og hagfræðimenntaður maður og þekkir vei til margra mála þannig, að ég held, að ég ráðleggi honum alveg heilt og hann megi gjarnan veita þeim ráðleggingum mínum athygli, að hann ætti að hætta að viðhafa algerlega hreinar reikningskúnstir á svipaðan hátt og hann hefur haft í frammi hér í þessum umr., sem eru svo augljóslega rangar og villandi, að í rauninni engu tali tekur. Hæstv. ráðh. hefur gert sig sekan um þetta nokkrum sinnum. Æði oft býr hann þennan málflutning sinn í býsna laglegan búning, svo að ókunnugir gætu villzt á, en fyrir hinum getur hann ekki villt, sem betur þekkja til.

T.d. slíkur skollaleikur sem hér hefur farið fram af hálfu hæstv. viðskmrh. í sambandi við vísitöluna nær vitanlega engri átt. Það þýðir ekkert að neita hinni almennu framfærsluvísitölu í landinu, að segja að hún sé ómark, það megi ekkert við hana miða nema á óeiginlegan hátt. Það hefur auðvitað enginn maður haldið því fram, að framfærsluvísitalan, eins og hún er upp sett, þýði það, að með þeirri upphæð, sem þar er lögð til grundvallar fyrir útgjöldum vísitölufjölskyldunnar, sé miðað við það, sem er alveg lífsnauðsynlegt að hafa til þess að geta dregið fram lífið. Því heldur enginn maður fram. En sú upphæð, sem er að finna í útgjöldum vísitölufjölskyldunnar, er engin tilviljun, hún er ekki fundin út í bláinn. Útgjaldahlið þessarar vísitölu átti að sýna raunveruleg útgjöld meðalfjölskyldu í launamannastétt. Þetta var alveg skýrlega tekið fram af þeim, sem unnu að undirbúningi þessarar vísitölu. Það var reynt að velja einmitt þannig fjölskyldur, búreikninga frá þannig fjölskyldum, að útgjöldin væru sem næst því, sem mætti telja réttlátt meðaltal af sannanlegum útgjöldum launamannafjölskyldu. Og þau útgjöld, sem þarna voru lögð til grundvallar, voru rétt útgjöld. Þetta voru útgjöld margra fjölskyldna um þetta leyti úr launamannastétt. Og stærð fjölskyldunnar, sem lögð var til grundvallar, var líka miðuð við það, að þetta væri hóflegt meðaltal. Fram hjá þessu er auðvitað ekki hægt að komast. Og því er það, að þegar á það er bent, að þessi útgjöld, sem voru talin vera hin almennu meðalútgjöld meðaltals launafjölskyldu, þegar vísitalan var sett, eru nú komin upp í 114 þús. kr. nú eða 110 þús. kr., — það skiptir ekki höfuðmáli, menn deila þar um smáliði, — en hins vegar kaupgjald verkamanns fyrir 8 stunda vinnudag alla virka daga ársins er aðeins 67 200 kr., þá er fullkomlega eðlilegt að bera þetta saman og benda á, að þetta kaupgjald fyrir 8 stunda vinnudag hrekkur hvergi nærri fyrir því, sem talið var á sínum tíma sem eðlilegt meðaltal fyrir nauðsynlegustu útgjöldum meðalfjölskyldannar. Þessi samanburður er fullkomlega réttur og eðlilegur, og hæstv. ráðh. á ekki að vera að reyna að fara í neina hringi í kringum þetta með einhverjum reikningskúnstum. Það verður ekki til þess að auka hans veg á nokkurn hátt.

Hið sama er að segja um reikningskúnstir hæstv. ráðh. í sambandi við lífskjörin. Það er í rauninni alveg furðulegt af hæstv. viðskmrh., fyrrum prófessor í hagfræði við háskólann, að hann skuli vera að stritast við það allan tímann að reyna að sanna það með tölum, að lífskjör almennra launþega hafi farið batnandi nú á síðustu árum, þvert ofan í það, sem allar launastéttir landsins segja. Og hæstv. ráðh. tínir saman tölur úr ýmsum áttum, staflar þessu saman og þykist í rauninni reikna þetta út. Eitt í reikningsdæmi hans var þetta, að hann segir, að séu bornir saman launataxtar verkalýðsfélaga frá upphafi viðreisnartímabilsins í febr. 1960 og svo launataxtar þessara aðila nú, þá komi í ljós, að hækkanir á kauptöxtum séu 46% eða 45%, — ég man það ekki alveg nákvæmlega, ég held hann hafi sagt 46%, — en að hins vegar sýni vísitala framfærslukostnaðar, að á þessu sama tímabili hafi framfærslukostnaður ekki hækkað nema um 44%, svo að beinlínis sé um nokkra hækkun að ræða á kauptöxtunum fram yfir það, sem framfærslukostnaðarvísitalan sýni, og auk þess komi svo hitt, að tekjurnar hafi þó reynzt enn þá meiri en samsvarar kauptöxtunum vegna meiri yfirvinnu og meiri helgidagavinnu.

Það er nú í fyrsta lagi um þetta að segja, að hér er verið að blanda saman tölum til þess að villa um fyrir mönnum og til þess að gera dæmið óljóst og í rauninni rangt. Kaupgjald samkv. dagvinnutaxta Dagsbrúnar, — en það er vitanlega sá taxti, sem réttast er að leggja til grundvallar, þegar maður er að ræða um þörfina á því eða sanngirnina á því að hækka einmitt þennan kauptaxta, sem hér skiptir mestu máli í sambandi við dagvinnukaupið, — kaup Dagsbrúnarmannsins var í febr. 1960 kr. 20.67 um tímann, en nú í októbermánuði er kaup fyrir dagvinnutíma 28 kr. um tímann. Hækkunin er kr. 7.33 um tímann, eða hækkunin er 35% á þessu tímabili. Hækkunin er ekki 46%.

En hvernig fékk hæstv. viðskmrh. þessa tölu? Ég veit það ekki nákvæmlega, því að ég hef ekki farið til hans til að skoða útreikninginn, en þykist þó vita það alveg, af því að ég þekki nokkuð til vinnubragða á þessu heimill. Hæstv. ráðh. hefur nefnilega fundið það út, að kauptaxtar verkakvenna hafa hækkað enn þá meira, af því að verkakonur höfðu miklu lægra kaup, þær hafa ekki 67 þús. kr. á ári. Prósentvís hefur kaup verkakvenna hækkað meira en verkamannanna. Þá er sjálfsagt að setja það inn í dæmið, og þannig getur hann tint einstaka taxta, líka hjá tiltölulega fámennum hópum, sem starfa eftir kauptaxta Dagsbrúnar, þar sem um meiri hækkun hefur verið að ræða, og þannig er þessu hrært saman og fengin út talan 46, sem sennilega er röng líka, eða það finnst mér eðlilegt, miðað við ýmislegt annað, sem ég hef orðið var við í hans vinnubrögðum, þegar hann er að streitast við að sanna svona ómögulega hluti.

Nú var auðvitað engin tilviljun, að hæstv. ráðh. valdi sér þennan tíma, hann valdi sér febrúarmánuð 1960 og svo aftur október núna 1963. En hann bara hljóp yfir það, að í febrúarmánuði 1960 var sú ríkisstj., sem hann hafði setið í, búin að færa kaupið niður með lögum. Sé Dagsbrúnarkaupið borið saman á þeim tíma, sem t.d. við sátum báðir saman í ríkisstj., 1. okt. 1958, og svo aftur kaupið, sem er nú í dag, þá kemur í ljós, að kaup Dagsbrúnarverkamannsins hefur ekki hækkað um 35%, heldur um 28%. Og sé kaup Dagsbrúnarmannsins, sem var í janúarmánuði 1959, þegar hæstv. viðskmrh. sat líka í ríkisstj., í Alþfl.-stjórninni, borið saman við kaup Dagsbrúnarmannsins í dag, kemur í ljós, að kaup Dagsbrúnarmannsins í dag hefur ekki hækkað nema um 17%. Sem sagt, í einu tilfellinu hefur hækkað til dagsins í dag um 17%, í öðru tilfellinu um 28% og í þriðja tilfellinu um 35%, og það hlaut auðvitað hæstv. ráðh. að taka og setja siðan inn í þessa blöndu, sem hann bjó til, sem öll er svo röng.

Nei, jafnvel þótt þessi tími sé tekinn, þ.e.a.s. febrúarmánuður 1960, og svo aftur tíminn nú í dag, þá hefur hinn almenni dagvinnutaxti Dagsbrúnarverkamanns aðeins hækkað um 35%, en framfærsluvísitalan, niðurfærð með sérstökum hætti, hefur hins vegar hækkað um 44%, — kaupið um 35, framfærsluvísitalan um 44. En eins og við höfum oft bent á, segir þessi framfærsluvísitala ekki nema hálfa sögu, því að ef maður tekur þá vísitölu, sem sýnir miklu réttari mynd af dæminu, en það er vísitalan fyrir allar vörur og alla þjónustu, en sleppum hins vegar húsaleiguliðnum og niðurfærslunni í sambandi við skatta, sem gerir vísitöluna ranga í eðli sínu, — ef við tökum vísitöluna fyrir allar vörur og alla þjónustu, þá sýnir sú vísitala 63% hækkun. Sú vísitala hefur sem sagt hækkað um 63%, á sama tíma sem kaupið hefur hækkað um 35% eða 28%, ef maður vill taka þá tölu.

Það er sem sagt ekkert um að villast, að raunverulega hefur kaupmáttur tímakaupsins farið lækkandi. En hæstv. viðskmrh. ætlar sér stundum stóra hluti í sambandi við reikningskúnstir. Hann skal reikna þetta niður, hvernig svo sem að því verður farið: blanda saman nógu mörgum tölum, villa nógu mikið á sér heimildir, og svo skal hann reyna að sanna það með tölum, að það hefur samt sem áður hækkað.

Eins og ég sagði, hæstv. viðskmrh. vinnur ekki álit hjá neinum manni á þessum reikningskúnstum sinum. Í þessum efnum hlýtur að fara fyrir honum fyrr eða siðar á svipaðan hátt og fór fyrir hæstv. ráðh., þegar hann beitti svona reikningskúnstum við gengisfellinguna 1961 í ágústmánuði, þegar hann flutti hér á Alþingi skýrslu, sem hann las reyndar upp í nóvembermánuði, því að þingið hafði ekki verið komið saman, þegar brbl. voru gefin út, en auðvitað var búið að birta þessa skýrslu nokkru áður, og þar þóttist hæstv. ráðh. sanna það með tölulegum útreikningi, að gengisfellingin í ágústmánuði 1961 hafi verið alveg óhjákvæmileg. Það var reiknað nákvæmlega út, hvað þjóðartekjurnar á þessu ári mundu verða miklar eða útflutningsframleiðslan yrði mikil, og hún var borin saman, útflutningsframleiðslan á þessu ári, við útflutningsframleiðsluna tvö næstu ár á undan, 1960 og 1959, og svo var útreikningurinn nákvæmur, að það var búin til sérstök vísitala fyrir framleiðsluna á árinu 1961 og vísitala fyrir framleiðsluna 1960 og 1959, og þessi vísitala sýndi hjá hæstv. ráðh., að framleiðslan var minni á árinu 1961 en hin árin, að tekjurnar af útflutningnum voru minni, þjóðin var að tapa frá því, sem hafði verið. Af því stóð hún illa að vígi, og það varð að lækka gengi krónunnar, sagði hæstv. ráðh. Svo komu bara staðreyndirnar og sögðu til sín. Og eins og ég benti hér á í umr, nokkru siðar, örlögin voru hæstv. ráðh. svo grimm, að Seðlabankinn birti í ársreikningum sínum fyrir þetta ár, hvernig farið hefði, og sagði, að það hefði orðið um stórfellda framleiðsluaukningu að ræða. Útflutningsframleiðslan hefði orðið miklu meiri en hin árin, þetta hefði farið á allt annan veg en hæstv. ráðh. var búinn að sanna með tölum. En þeir gerðu betur í Seðlabankanum, þegar þeir tilkynntu þetta. Þeir létu hæstv. viðskmrh. skrifa sitt nafn undir þennan reikning, að þetta væri allt saman svona og hitt hefði allt verið vitlaust, sem hann sagði áður.

Nei, það er mjög vafasamur hlutur að leika svona skollaleiki með tölur. Það borgar sig á engan hátt, jafnvel þótt menn séu liprir í því að fara með tölur og kunni talsvert fyrir sér í því að setja þetta allt saman upp. Það er auðvitað miklu réttara í þessu tilfelli að játa það eins og það er. Sannleikurinn er sá: Það má fyllilega miða við vísitöluna, sem ég minnti hér á fyrst og hæstv. ráðh. hefur verið að reyna að neita, — það er fyllilega hægt að miða við hana sem eðlileg útgjöld meðalfjölskyldu í launamannastétt. Og það er enginn vafi á því, að það á líka að játa þá staðreynd, að kaupgjald hins almenna verkamanns hefur hækkað minna en verðlagið í landinu, kaupmáttur vinnulaunanna er minni en hann var, og menn eiga ekki að reyna að afsanna svona staðreyndir með neinum reikningskúnstum.

Það var svo aftur á móti með árið 1961, sem ég gerði hér að umtalsefni, — því var svo aftur skotið undan í þessum útreikningum hjá hæstv. ráðh., að árið var einstaklega hagstætt á allan hátt. Þegar gengislækkunin var gerð í ágústmánuði 1961, vorum við að standa upp frá einni beztu síldarvertíð, sem við höfðum haft, og þá fór allt verðiag á okkar útflutningsafurðum stórhækkandi, og þá lá það einnig fyrir, að verð á innfluttum vörum til landsins fór lækkandi. Viðskiptakjörin voru þá sérstaklega hagstæð. Um þetta atriði sögðu svo Fjármálatíðindi rétt á eftir, að kjörin hefðu verið svo hagstæð þjóðinni á árinu 1961, að verðlag á innfluttum vörum hafi lækkað um 3% miðað við raunverulegt verð og að verðlag á útfluttum vörum á þessu ári hafi hækkað um 9% miðað við raunverulegt verð, þ.e.a.s., þegar búið var að taka tillit til gengisbreytingarinnar, sem framkvæmd var, eða verzlunarkjör þjóðarinnar bötnuðu um 12% á þessu ári. Taki menn eftir því, að á því ári, sem gengið var lækkað um rúm 11%, á árinu 1961, bötnuðu viðskiptakjör þjóðarinnar frá því, sem þau voru árið á undan, um 12%. Svo ætluðu menn að sanna það með tölum, að þessi gengislækkun hafi verið óhjákvæmileg. Nei, svona talnareikningur minnir ekki á neitt annað en það, þegar menn voru á sínum tíma að sanna það, að einn köttur hefði tíu rófur, — af því að enginn köttur hefði níu rófur, þá hlaut einn köttur að hafa einni rófu meira, þá hafði hann 10.

Nú veit ég það, eins og ég sagði hér í upphafi, að hæstv. viðskmrh. veit miklu betur í þessum efnum, og þó að hann geti auðvitað sannað það, að einn köttur hafi 10 rófur, af því að enginn hefur 9 rófur, þá á hann ekki að viðhafa slíkar kúnstir. Hann getur flutt mál sitt eftir öðrum leiðum, og hann á ekki að neita staðreyndum á þann hátt, sem hann hefur hér gert.

Hitt er svo aftur staðreynd, sem ekki verður í móti mælt, að beri maður saman útborgað kaup samkv. kauptaxta hjá verkamönnum, sem nú eiga að lokast úti samkv. þessu frv., í októbermánuði 1958 og svo aftur núna, 1. okt. á þessu ári, og svo aftur útborguð laun ýmissa annarra vinnustétta, þá er útkoman m.a. þessi, eins og ég hef bent hér á áður í þessum umr.: Kaup verkamannanna hefur samkv, kauptaxta hækkað frá 1. okt. 1958 til 1. okt. 1963 um 28%, en kaup ráðh. hefur hækkað um 141%. Það voru nú engin 28%. Kaup ráðuneytisstjóra hefur hækkað um 140%, kaup borgarstjórans í Reykjavík hefur hækkað um 137%, og þannig mætti nefna fjöldamörg dæmi önnur um það, að ýmsir af þeim mönnum í landinu, sem hafa búið við hæst launakjör og gera það auðvitað enn, þeir hafa fengið margfalt meiri launahækkun en hinir lægst launuðu, þó að það sé nú talið lífsnauðsynlegt að skella á lögum og banna allar launahækkanir til þessara lægst launuðu. Það er mín skoðun, að tilraunir til að banna launaleiðréttingar, þar sem svona stendur á, séu alveg útilokaðar, það sé alveg tilgangslaust að reyna þetta. Hæstv. ríkisstj. verður líka að viðurkenna það í rauninni hér í sínum málflutningi. Ég tók eftir því í nál. meiri hl. fjhn. um þetta mál, að þar segja þeir þrír stjórnarsinnar, sem undir nál. skrifa, tveir sjálfstæðismenn og einn Alþfl: maður, m.a. orðrétt á þessa leið: „Nýir samningar um launahækkanir hafa verið gerðir með stuttu millibili, en auk þess hafa launagreiðslur umfram samninga aukizt “ Þeir viðurkenna þessa staðreynd, að það er orðið þannig í fjöldamörgum tilfellum á hinum almenna vinnumarkaði, að það er ekki farið eftir þeim kauptöxtum, sem þó er nú talið alveg lífsnauðsynlegt að binda fasta með lögum. Ríkisstj. verður sjálf að viðurkenna það, enda ekki hægurinn hjá að neita því, að hinn almenni vinnumarkaður er búinn að strika yfir þessa tölu í fjöldamörgum greinum. Ýmsir atvinnurekendur hafa þegar boðið og greiða nú þegar í dag 40 kr. fyrir klukkustundar dagvinnu hjá sínum verkamönnum, og það verður því vitanlega ekki komizt hjá því til lengdar, að þeir vinnustaðir,

sem eftir eru og ekki hafa hækkað kaupið í framkvæmd, geri það líka.

En í þessum efnum liggur auðvitað fyrir sá vandi, að það þarf að gera útflutningsframleiðslunni kleift að geta staðið undir hærri kaupgreiðslu. Og það er enginn vafi á því, að það er tiltölulega auðvelt að gera ráðstafanir til þess, að veikustu greinar útflutningsframleiðslunnar geti staðið undir sambærilegum vinnulaunagreiðslum og ýmsir aðrir á hinum almenna vinnumarkaði eru þegar farnir að borga. Og það er ábyggilega langbezt fyrir þessar útflutningsframleiðslugreinar að viðurkenna þessar staðreyndir og taka upp baráttuna fyrir því líka, að kaupið verði hækkað.

Ég man eftir því, að þegar ég var í ríkisstj. sneru málin svo einkennilega við, að þá tóku útgerðarmenn hér á bátaflotanum suðvestanlands upp á því að heimta hækkun á kaupi sjómannanna hjá sér. Þeir sögðu að vísu, að þeir gætu ekki borgað kauphækkunina sjálfir og þyrftu að fá aðstoð til þess, en þeir sögðu: Það er alveg útilokað, að við fáum nokkurn mann til þess að róa á bátunum hjá okkur, á meðan allir aðrir borga þeim miklu hærra kaup. Þeir sáu nauðsynina á því, að hægt væri að borga sjómönnunum sambærilegt kaup við það, sem aðrir menn í landinu fengu. Þeir vildu, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess, og á tíma vinstri stjórnarinnar var tvívegis samið um það að hækka kaup til fiskimanna, á sama tíma sem kaup var þá ekki hækkað til annarra. Þeir höfðu nefnilega dregizt aftur úr, og það var bein nauðsyn á því að hækka kaup sjómannanna. Við þurftum á fleiri sjómönnum að halda, og það tókst líka á þennan hátt að fá fleiri menn til þeirra starfa.

Eins er það nú. Við þurfum að fá fleiri menn til starfa í útflutningsframleiðslunni. Frystihúsin í landinu og aðrir þeir, sem vinna að útflutningsframleiðslu, þurfa að geta borgað hærra kaup en þau geta borgað í dag. Það er rétt. Það er engin lausn fyrir þau að loka augunum fyrir staðreyndum, neita þeim og ætla að búa að einhverri lagasetningu eins og þessari, sem bindur kaup óbreytt frá því, sem það er nú. Ef farið yrði eftir þessu í framkvæmd, gæti það ekki leitt til neins annars en þess, að vinnuaflið drægist meira en það er búið að dragast frá útflutningsframleiðslunni og til annarra starfsgreina, sem nú þegar borga hærra kaup. Það er því alla vega orðið lífsnauðsynlegt að hækka lægsta kaupið í landinu, einnig fyrir útflutningsframleiðsluna, en þar að auki eru svo auðvitað hin almennu rök láglaunamanna fyrir því að fá hækkað kaup vegna hækkandi verðlags.

En það er eins og ég hef sagt, það er alveg óhjákvæmilegt, að hæstv. ríkisstj, gerbreyti um stefnu frá því, sem hún hefur haft gagnvart útflutningsframleiðslunni, og einnig um stefnu sína gagnvart innflytjendum. Það er ekkert um það að villast, að ríkisstj, hefur mjög hlúð í ýmsum greinum að innflutningsverzluninni í landinu, að heildsölunum. Hún hefur gert margar ráðstafanir, sem miða að því, að hagur heildverzlunarinnar í landinu verði betri en hann var áður. Og hún hefur líka gert ýmsar ráðstafanir, sem hafa farið í þá átt að gera hag útflutningsaðilanna í landinu lakari en hann var áður. Ég skal nefna í þessum efnum nokkur atriði.

Ríkisstj. sagði í sinni stefnuskrá: Innflytjendur verða að fá gjaldeyri, eftir því sem þeir biðja um. Og sú regla hefur átt að gilda, að allir heildsalar gætu fengið allan þann gjaldeyri, sem þeir óskuðu eftir, og þeir gætu síðan keypt þær vörur, sem þeir vildu kaupa, frá hvaða landi sem þeir vildu kaupa. Þetta fengu auðvitað ekki innflytjendur áður, og þetta var þeim á margan hátt mjög hagstætt og hefur fært þeim alveg tvímælalausan gróða í mörgum tilfellum. En þessi regla hefur vitanlega kallað á það, að ríkisstj. hefur þurft á allmiklum gjaldeyri að halda til að geta afhent innflytjendum eftir vild, og hún hefur orðið að ganga hart eftir því, að útflutningurinn skilaði í kassa bankanna öllum þeim gjaldeyri, sem útflutningurinn gat aflað. Og þegar innflutningurinn vildi fá hinn svonefnda frjálsa gjaldeyri, vildi fá sterlingspund og dollara í öllum tilfellum, vegna þess að innflutningurinn ætlaði að kaupa frá Vestur-Þýzkalandi, frá Englandi og frá Bandarfkjunum, taldi það sér hentugra, þá varð útflutningurinn líka að leggja sig allan fram um það að selja í dollurum, að selja í pundum, jafnvel þó að það væri útflutningnum óhagstætt, jafnvel þó að það kostaði það, að útflutningurinn varð í sumum tilfellum að lækka verðið. Ríkisstj. þurfti á frjálsum gjaldeyri að halda, vegna þess að innflutningurinn átti að fá gjaldeyri, eftir því sem hann þurfti eða vildi fá. Innflytjendur gerðu kröfu um það, að þeir mættu flytja inn vörur til landsins fyrir sérstök vörukaupalán, sem þeir tóku. Þetta hafði verið bannað áður. En ríkisstj. heimilaði þeim þetta, og það hefur auðvitað tvímælalaust fært innflutningnum aukið svigrúm og hagstæðari kjör en innflutningurinn bjó við að mörgu leyti áður. Á þennan hátt gátu heildsalar náð sér í stóraukin lán með lægri vaxtakjörum en annars giltu í landinu. Reynslan hefur einnig sýnt það, að innflutningsverzlunin hefur á undanförnum viðreisnarárum verið að stórauka lán sín í bönkum landsins. Hún hefur aukið lán sín á hverju ári, 1961, 1962 og það sem af er 1963 hefur innflutningsverzlunin aukið lán sín meira en sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður samanlagt. Þetta hefur auðvitað verið þægilegt fyrir verzlunina. Og stefna ríkisstj. hefur verið sú að heimila sem allra frjálsasta fjárfestingu, og afleiðingin hefur svo orðið sú, sem hæstv. viðskmrh. skýrði hér frá í þessum umr., að fjárfestingin á þessu ári hefur farið langt fram úr áætlun, og sérstaklega hefur vaxið úr hófi fram fjárfesting einkaaðila. Og það eru byggingarframkvæmdir á vegum verzlunarinnar, sem þar nema mestu. Ríkisstj. hefur beinlínis hyglað verzluninni í landinu með því að heimila í fjöldamörgum tilfellum hærri álagningarprósentu en þá, sem hafði verið í gildi hér um margra ára skeið. Og í öðrum tilfellum hefur ríkisstj. heimilað ótakmarkaða álagningu á vörum og þjónustu, sem áður hafði verið undir hámarksákvæðum um langan tíma. Þetta hefur sem sagt allt veríð mjög hagstætt fyrir verzlunina.

En útflutningurinn hefur búið við allt önnur skilyrði. Eins og ég sagði, hefur útflutningurinn í mörgum tilfellum verið hreinlega knúinn til þess að selja útflutningsvörurnar við lægra verði til þess að geta fengið frjálsan gjaldeyri. Útgerðin og framleiðsluatvinnuvegirnir hafa búið á stjórnarárum viðreisnarinnar við stórhækkaða vexti, sem hefur auðvitað torveldað þeim alla rekstrarmöguleika. Og sérstaklega var auðvitað hækkunin á vöxtum af afurðalánum í rauninni beinn skattur á framleiðsluatvinnuvegina, því að það voru engin rök fyrir því að hækka vextina á afurðalánum vegna þarfa Seðlabankans. Hann var þegar fyrir með mikinn gróða, og það var engin þörf á því að hækka vextina á afurðalánum nema til þess að skattleggja útflutningsframleiðsluna.

Þá má á það minna, að útflutningsgjöld á sjávarafurðum hafa verið stórhækkuð á síðustu árum, hækkað úr um 2.4% upp í 7.4%, og þetta er gert hér á sama tíma sem það liggur fyrir, að keppinautar okkar í öðrum löndum, t.d. eins og Noregi, þar býr útflutningurinn við þau kjör, að hann þarf ekki að borga nein útflutningsgjöld, en hér eru tekin útflutningsgjöld, sem nema upp í 7.4% og eru alveg feiknalegur skattur. Það hefur verið sagt, að þetta renni að ýmsu leyti á óbeinan hátt til sjávarútvegsins aftur. Það er rétt, það má segja það, en að sumu leyti, segi ég, að þessi skattur sogast út í það, sem er hreint gagnsleysi, því að gjaldið er notað til þess að standa undir tryggingakerfi, sem á engan rétt á sér. Þar er um gífurlega eyðslu að ræða. Í öðrum tilfellum er það svo, að þetta fé rennur í sérstaka sjóði, sem sjávarútvegurinn getur að vísu fengið stofnlán úr. En það er í rauninni engin ástæða til þess, að sjávarútvegurinn einn og sér sé skattlagður til þess að leggja í sína stofnlánasjóði. Af hverju er ekki eðlilegt, að tekið sé af almennu sparifé þjóðarinnar til þess að byggja upp þennan aðalatvinnuveg, eins og tekið er af almennu sparifé þjóðarinnar í útlán til þess að byggja upp ýmislegt í sambandi við aðra atvinnuvegi? Þetta jafngildir því beinum skatti á reksturinn, eins og hann er nú í dag. Og síðast, en ekki sízt, auðvitað hefur stefna hæstv. ríkisstj. leitt til síhækkandi verðlags innanlands, sem aftur hefur kallað á hækkandi kaupgjald, en þetta hvort tveggja, hækkandi verðlag innanlands og hækkandi kaupgjald, verkar auðvitað til þess að auka á erfiðleika útflutningsframleiðslunnar. Stefnan hefur því á allan hátt verið neikvæð fyrir útflutningsframleiðsluna, en hún hefur miðað að því að hygla mjög innflutningsverzluninni í landinu. Þessu á að snúa við. Það á að létta ýmsum útgjöldum af útflutningsframleiðslunni, eins og ég hef bent á áður í þessum umr. Það er auðveldlega hægt, og þannig er hægt að skapa útflutningsframleiðslunni möguleika til þess að standa undir hærra kaupi en útflutningsframleiðslan getur nú í dag. Og það verður að láta hagsmuni innflutningsverzlunarinnar víkja fyrir hagsmunum útflutningsverzlunarinnar.

Að lokum vildi ég svo í framhaldi af því, sem ég hef áður sagt um þessi mál, varpa fram þessum spurningum í sambandi við þær leiðir, sem hér hefur verið rætt nokkuð um, að færar væru út úr þessum vanda. Ég vil spyrja: Hvers vegna getur hæstv. ríkisstj. ekki fallizt á það að lækka vextina? Hver er ástæðan? Hverju eiga þessir háu vextir, eins og nú er komið, að þjóna? Hvers vegna þarf að halda uppi þessum háu vöxtum á afurðalánum útflutningsins? Er alveg nauðsynlegt, að Seðlabankinn græði jafnmikið og hann græðir nú á hverju ári? Ef þarf að bæta hag útflutningsframleiðslunnar, hvernig stendur þá á því; að það má ekki létta af útflutningsframleiðslunni þessum skatti? Hvernig stendur á því, að það má ekki lækka vextina á stofnlánum sjávárútvegsins, t.d. þar sem er verið að lána til sjávarútvegsins úr þeim sjóði, sem sjávarútvegurinn hefur sjálfur lagt allt fé í? Sjávarútvegurinn hefur verið skattlagður til þess að byggja upp fiskveiðasjóð. Hann er orðinn efnaður sjóður. Hvernig stendur á því, að það má ekki lána þetta fé út með hliðstæðum vöxtum og verið hafði um margra ára skeið? Af hverju þurfti að hækka þessa vexti? Af hverju þarf að halda þeim við? Það eru engin rök fyrir því, að þetta sé nauðsynlegt. Þau eru ekki til. Og þeir, sem halda í þessa háu vexti, bæði á framleiðslulánunum og stofnlánunum, geta ekki á sama tíma sagt, að það sé ómögulegt fyrir útgerðina eða útflutningsatvinnuvegina að standa undir hækkuðu kaupi, vegna þess að þeir þoli ekki öll þessi útgjöld, því að það er auðvitað auðvelt að gera það með því að létta m.a. af framleiðslunni þessum útgjöldum.

Og ég vil spyrja einnig: Hvernig stendur á því, að það má ekki lækka þessi gífurlega háu útflutningsgjöld af s,jávarafurðum? Hvaða nauðsyn rekur til þess að halda uppi þessum háu gjöldum? Af hverju getum við ekki komið fyrir vátryggingarmálum okkar fiskiskipa á svipaðan hátt t.d. eins og Norðmenn? Er einhver nauðsyn að viðhalda því ófremdarástandi, sem er í þessum málum nú hjá okkur, og skattleggja sjávarútveginn á þennan hátt? Og ætli mætti ekki gera þær ráðstafanir, sem við höfum bent hér á, að ríkissjóður lækkaði nokkuð af þeim tollum, sem hann innheimtir nú af útflutningsframleiðslunni og hann innheimtir nú af nauðsynjavarningi, sem almenningur í landinu notar, þegar það liggur fyrir, að afkoma ríkissjóðs er svo góð, að tekjuafgangurinn skiptir hundruðum millj. kr.? Rekstrarafgangur ríkissjóðs á árinu 1962 var 295 millj. kr., og hreinn greiðsluafgangur hjá ríkissjóði varð á árinu 1962 um 170 millj. kr. Og það er viðurkennt, að rekstrarafkoma ríkissjóðs á þessu ári verður miklu, miklu betri en á árinu 1962. Þetta sýnir og sannar það; að ríkissjóður innheimtir núna of mikið, meira en hann þarf. Hann heldur uppi óþarflega háum tollum á nauðsynjavarningi; hann heldur uppi óþarflega háum tollum á vörum útflutningsframleiðslunnar. Það eru allar aðstæður til þess, að ríkissjóður gefi þarna nokkuð eftir og á þann hátt sé hægt að bæta hag útflutningsframleiðslunnar og á þann hátt sé hægt að lækka verðlagið í landinu. Það dugir ekki lengur, að hæstv. ríkisstj. geti átölulaust innheimt af þjóðarheildinni miklu hærri fjárhæðir en sem nemur beinum útgjöldum ríkissjóðs og þannig staðið að því að hækka verðlagið í landinu umfram þarfir, en að hún á sama tíma neiti að hagræða þannig fyrir útflutningsframleiðslunni, að hún geti staðið undir því kaupgjaldi, sem henni er nauðsynlegt að greiða, sem hún verður blátt áfram að geta greitt.

Ég veit, að hæstv. ríkisstj. finnst, að þessar umr. séu þegar orðnar nokkuð langar, og ekki vil ég neita því að þær séu þegar orðnar alllangar. En ég vil líka, að ríkisstj. viðurkenni það, að hér er um svo stórt mál að ræða, að það er full ástæða til þess, að umr. geti orðið alllangar um þetta mál. Málið er þess eðlis, að í fyrsta lagi felst í því frv., sem hér liggur fyrir, að slíkar ráðstafanir verði gerðar, að til mjög alvarlegra tíðinda getur dregið í okkar landi, sem getur vitanlega leitt til stórfelldra óþæginda fyrir marga aðila í landinu og til mikils tjóns fyrir þjóðarheildina, en auk þess gefur auðvitað þetta frv. tilefni til þess að ræða nokkuð almennt um efnahagsmálaþróunina á undanförnum árum. Það er rétt, að ég hef eytt hér talsverðum ræðutíma þá daga, sem þetta frv. hefur legið fyrir. Þó er það nú svo, að ég hef aðeins tekið til máls einu sinni við hverja umr. málsins, en það er mjög algengt, að bæði ég og aðrir þurfi að tala oftar í málum en einu sinni í umr. Það er engin von til þess, að mál eins og þetta geti farið í gegnum þingið, án þess að það sé rætt á allbreiðum grundvelli. Ríkisstj. hefur valið þann kost að ræða tiltölulega lítið hér um málið. Hún virðist aðeins bíða eftir því, að sá tími komi, að hægt sé að ganga til atkvgr. og hún fái að búa að því þingafli, sem hún ræður hér yfir, og hún geti gert þetta að lögum. Og ekkert efast ég um, að það getur hæstv. ríkisstj. gert. En ég vil nú samt ætla, að ríkisstj. geri sér fulla grein fyrir því, til hvers getur dregið hér í landi okkar, ef hún reynir að beita þingliði sínu öllu til þess að knýja þetta mál í gegn.

Ég vil því láta það verða mín síðustu orð hér í umr. um þetta mál að endurnýja áskorun mína til ríkisstj. um það, að hún athugi nú að nýju þau nýju viðhorf, sem komið hafa upp í sambandi við málið, og hún taki afleiðingunum af því, sem orðið er, og velji þá leiðina, sem er hyggilegust, að hún fresti afgreiðslu málsins eða dragi frv. til baka og þiggi þann frest, sem launasamtökin í landinu hafa boðið fram, og gangi til samninga um að leysa málið á þeim grundvelli, sem við Alþb: menn höfum bent á í þessum umr., að er alveg óhjákvæmilegt að gera, því að þessi mál verða aldrei leyst öðruvísi en hagur hinna lægst launuðu í landinu, sem enn hafa ekki fengið neinar sambærilegar kauphækkanir við fjöldamarga aðra aðila í landinu, nema á þeim grundvelli, að laun þessara lægst launuðu verði hækkuð og kjör þeirra verði bætt. Það er hægt að koma þessu fram með samningum, og þá leið vil ég ráðleggja hæstv. ríkisstj. að fara, en láta þetta mál liggja, þar sem það er komið, því að lengra áleiðis hefur það ekkert að gera.