21.10.1963
Neðri deild: 4. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (1914)

23. mál, jafnvægi í byggð landsins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv., sem fyrir liggur á þskj. 23, um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, er flutt af 6 þm. Framsfl. í þessari hv. d. Frv. fylgir grg., og ég leyfi mér að visa til hennar. Nú við framsögu ætla ég svo að leyfa mér að ræða nánar nokkur atriði, sem vikið er að í grg., og önnur til viðbótar.

Elztu heimildir um fólksfjölda hér á landi og skiptingu hans eftir landshlutum eru frá ofanverðri 11. öld. Þá fór fram, sem kunnugt er, talning þeirra bænda, er þingfararkaup áttu að greiða. Þeir voru þá að sögn Íslendingabókar tólf hundruð stór í Norðlendingafjórðungi, tíu hundruð stór í Sunnlendingafjórðungi, níu hundruð stór í Vestfirðingafjórðungi og sjö hundruð stór í Austfirðingafjórðungi, alls samkv. þessu eftir nútímareikningi 4560 í landinu. Ótalið var þá allt annað landsfólk, þ. á m. bændur þeir, sem ekki voru svo efnum búnir, að þeim bæri að greiða þingfararkaupið. Á þessari tölu þingfararkaupsbænda hafa fræðimenn síðari tíma byggt áætlanir um íbúatölu landsins. Þær áætlanir eru nokkuð ótraustar. Hins vegar sýna tölur þingfararkaupsbænda sjálfsagt nokkuð glögglega hlutföllin milli íbúafjölda landsfjórðunganna í þann tíð. Hlutfallstölurnar voru 12, 10, 9 og 7. Landið var albyggt og fjölmenni fór eftir landskostum eða landsstærð. Rúmlega 6 öldum síðar, 1702—1703, á miðjum einokunartímanum, voru landsmenn allir taldir í fyrsta sinn og reyndust þá 50 þús. rúmlega. Vesturland var þá fjölmennast, Suðurland næst, þar sjást trúlega áhrif hinna stórauknu fiskveiða eftir 1300. Þorp og bæir fyrirfinnast þá enn ekki. Fjölmennust sveitarfélög voru þá Eyjafjallasveit með 1069 íbúa og Neshreppur á Snæfellsnesi hinn forni með 1027 íbúa. Á biskupsstólunum tveimur, Hólum og Skálholti, voru þá 70-80 manns á hvorum. Þeir voru þá sem fyrr höfuðstaðir íslenzkrar þjóðmenningar, en Bessastaðir danskra stjórnarvalda.

Árið 1845, þegar hið endurreista Alþingi kom saman í Reykjavík í fyrsta sinn, var hún orðin höfuðstaður landsins, og þar voru þá um 900 manns, að ég ætla. Jón Sigurðsson var því þá hlynntur, sem kunnugt er, að þinginu yrði valið aðsetur þar, en ekki á Þingvöllum við Öxará. Aðalrök hans voru þau, að Ísland, sem var að berjast fyrir sjálfstæði sínu, þyrfti að eignast höfuðstað í bæ eða borg og efla hann sem miðstöð þjóðlífs og framfara, og að öruggusta ráðið til þess væri, að löggjafarþing sæti þar og fleiri þjóðstofnanir. Það sá hann eflaust rétt. Vöxtur Reykjavíkur er verk þjóðfélagsins fyrst og fremst eða byggist á aðgerðum þess. Hitt er ekki víst, að Jón Sigurðsson hafi séð fyrir, að sá vöxtur yrði svo mikill sem raun er á og annarra byggðarlaga svo lítill, að það gæti skapað nýjan vanda, enda ekki hans eða stjórnmálamanna á þeirri tíð að ráða fram úr viðfangsefnum næstu aldar.

Það er ekki ætlun mín að rekja hér þá þróun í skiptingu fólksfjölda á milli landshlutanna, sem átti sér stað á síðari hluta aldarinnar sem leið og á fyrstu tugum þessarar aldar. Við verðum að líta svo á, að sú þróun hafi verið að verulegu leyti eðlileg og heppileg vegna breyttra þjóðfélags- og þjóðlífshátta og breyttra möguleika. Myndun bæja og þorpa við sjávarsíðuna hefur aukið velmegun þjóðarinnar og skapað grundvöll framfara á ýmsum sviðum, og höfuðborgin, sem hér hefur vaxið og dafnað við sundin blá á 19. öld og allt fram á okkar daga, hefur vissulega innt af hendi mikilsvert hlutverk í framfarasókn þjóðarinnar. En það; sem ég vil nú við flutning þessa máls enn á ný vekja athygli á og undirstrika, er, að fólksflutningarnir milli landshluta eru nú - og það fyrir alllöngu — komnir á það stig, að varúðar er þörf og skipulegra aðgerða af hálfu þjóðfélagsins. Eins og fulltrúar þjóðarinnar gerðu á sinum tíma fyrir 120 árum ráðstafanir til að efla hér höfuðborg, eins þyrftu þeir nú að gera það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að hér haldist landsbyggð og vaxi, sem er í raun og veru eitt og hið sama, þegar að er gáð.

Við, sem að þessu frv. stöndum, höldum því ekki fram, að Íslendingar eigi að byggja upp heiðarbýlin, sem víða voru reist eða endurbyggð í góðærinu um miðbik 19. aldar. Við álftum ekki heldur nauðsynlegt að keppa að því nú um sinn að byggja upp allar þær jarðir víðs vegar í sveitum, sem farið hafa í eyði undanfarna áratugi. Eins og nú hagar til, getur líka verið heppilegt sums staðar að breyta nokkuð fyrirkomulagi byggðarinnar og miða það meir en verið hefur við samgönguleiðir. En þegar svo gengur til ár eftir ár og um áratugi, að björguleg byggðarlög og heilir landshlutar halda ekki sínum hlut, að þar verður ekki eðlileg uppbygging til framfara og ekki eðlileg fólksfjölgun miðað við vöxt þjóðarinnar í heild, þá teljum við hættu á ferðum fyrir framtið þessara byggðarlaga og þessara landshluta. Og hér er ekki aðeins um það að ræða, sem lengi hefur verið augljóst, að fólk flyzt úr sveitum, heldur einnig það, að bæir og þorp í hlutaðeigandi landshlutum megna ekki að auka fólksfjölda sinn að sama skapi, halda jafnvel ekki eðlilegri fólksfjölgun sjálfra sín. Og við litum svo á, að sú hætta, sem hér er á ferðum, varði ekki aðeins þá landshluta, sem halda ekki í horfi, heldur alla landsmenn og þjóðfélagið í heild. Þessi þróun ætti að vera öllum áhyggjuefni, sem gefa henni gaum og reyna að gera sér grein fyrir, hvert stefnir.

Ég vil nefna það, sem augljósast er, að Reykjavíkurborg vex ört, að þangað streymir fólk úr öðrum landshlutum. Það er ekkert keppikefli fyrir þjóðfélagið nú, að höfuðborgin sé sem fjölmennust, heldur að hún sé fögur borg og vel upp byggð, að fólki liði þar vel, að af henni megi læra og hún sé landinu til sóma út á við. Það er ekkert keppikefli fyrir Reykvíkinga, heldur þvert á móti, að vöxtur borgarinnar sé svo hraður, að aldrei sé ráðrúm til að Ijúka nauðsynlegum verkefnum, og þá má ekki gleyma því, að stór borg krefst miklu kostnaðarsamari mannvirkja, t.d. í sambandi við umferð, en bær eða þorp. En borg án lands og landsbyggðar er illa á vegi stödd. Staða borgar í stóru, auðu landi mikilla möguleika verður ekki öfundsverð á komandi tímum.

Varðandi þá þróun, sem ég nú hef rætt, skal ég finna orðum mínum stað í nokkrum tölum, sem ég ætla, að þykja megi athyglisverðar. Sumar þessara talna eru í grg. þeirri, sem við flm. látum fylgja frv. á þskj. 23, en ég skal nú einnig nefna aðrar tölur, sem ég vona að reynist a.m.k. sumum og sennilega mörgum hv. þm. nákomið umhugsunarefni. Ég ætla ekki að fara langt aftur í tímann að þessu sinni, því að það skiptir minna máll.

Á 22 ára tímabili, á árunum 1940—1962, hækkaði íbúatala landsins um rúmlega 51%. Hún var árið 1940 121474, en árið 1962 183478. Ef fólksfjölgunin hefði verið hin sama í öllum byggðarlögum, t.d. í öllum sýslum eða kaupstöðum, átti hún að sjálfsögðu alls staðar að vera jöfn heildarfólksfjölguninni í landinn, þ.e.a.s. 51%. Nú er þess auðvitað ekki að vænta, að svo sé. Spurningin er þá sú, hvort víða vanti svo mikið á þessa fólksfjölgun, að umtalsvert sé og réttlætanlegt að tala um, að þar sé hætta á ferðum. Dæmin, sem ég leyfi mér að taka, eru 12 og eitt þeirra úr kaupstað út af fyrir sig. Í öllum þessum dæmum er það reiknað út, a.m.k. lauslega, hver íbúafjöldinn átti að vera, ef fjölgunin síðan á árinu 1940 hefði verið eðlileg, þ.e.a.s. 51%, og síðan tilgreindur fólksfjöldinn eins og hann raunverulega var samkv. manntali 1962 í hverju byggðarlagi.

Íbúatala Dalasýslu átti að vera 2128, var 1164. Íbúatala Barðastrandarsýslu átti að vera 4525, var 2528. Íbúatala Ísafjarðarsýslna beggja átti að vera 7612, var 3778. Íbúatala í Strandasýslu átti að vera 3150, var 1539. Íbúatala í Húnavatnssýslum átti að vera 5543, var 3813. Íbúatala í Skagafjarðarsýslu og á Sauðárkróki átti að vera 5951, var 3920. Íbúatala í Siglufjarðarkaupstað átti að vera 4355, var 2625. Íbúatala í Þingeyjarsýslum báðum átti að vera 7518, þegar Húsavík er ekki meðtalin, var 4738. Íbúatala í Norður-Múlasýslu átti að vera 4032, var 2457. Íbúatala í Suður-Múlasýslu átti að vera 6488, var 4567. Íbúatala í Vestur-Skaftafellssýslu átti að vera 2384, en var 1358. Íbúatala í Rangárvallasýslu átti að vera 4971, en var 2987.

Nú kann einhver að segja, að þessar tölur sýni ekki rétta mynd af röskun jafnvægis milli hinna stóru landshluta í heild, og ber að viðurkenna það. Flesta kaupstaðina vantar. En samanburðardæmi landshlutanna hefur einnig verið reiknað, og skal ég nú gera grein fyrir því. Það er sams konar dæmi, sem þar er reiknað, sú íbúatala, sem hefði átt að vera í hverjum landshluta árið 1962, ef íbúum þar hefði fjölgað um 51% síðan 1940, og svo sú íbúatala, sem þar var 1962 samkv. manntali.

Íbúatala á Vesturlandi sunnan Gilsfjarðar átti að vera 15003, en var 12340. Íbúatala á Suðurlandi austan Fjalls átti að vera 20530, en var 16300. íbúatala á Norðurlandi átti að vera 41383, en var 30834. íbúatala á Austurlandi átti að vera 15286, en var 10664. Íbúatala á Vestfjörðum átti að vera 19559, en var 10530. En í einum landshluta, Kjalarnesþingi, þar sem fjölgunin hefur orðið, átti íbúatalan að vera 71665, en var 102810. Á sama tíma og meðalfjölgunin er 51%, er fjölgunin í Kjalarnesþingi 117%. Hér er talið Kjalarnesþing allt vegna landfræðilegs samræmis, en af íbúum þess voru nálega 93 þús. á svæði því, sem hagfræðingar eru farnir að kalla Stór-Reykjavík. Keflavik og þorpin á Suðurnesjum eru þar auðvitað ekki meðtalin.

Það er auðvelt að halda áfram að reikna þetta dæmi áfram á sama hátt, ef gert er ráð fyrir sömu þróun, t.d. að 22 árum liðnum eða að 44 árum liðnum, en þá ætti íbúafjöldi landsins alls að vera kominn nokkuð yfir 400 þús. Sá útreikningur er þó ekki einhlítur og samrýmist ekki. Ef Stór-Reykjavík, sem ég nefndi áðan, vex hlutfallslega eins og hún hefur gert undanfarin 22 ár, munu aðrir landshlutar, einhverjir eða allir, á komandi árum verða að sjá á bak hlutfallslega fleira fólki en undanfarið. Það mun því eftirleiðis reyna enn meira á viðnámsþrótt þeirra en gert hefur til þessa.

Hér er að verki blint lögmál, sem Reykvíkingar sem slíkir eiga vitanlega enga sök á og getur orðið viðsjárvert fyrir þá eins og aðra, þótt á annan hátt sé. Margir Reykvikingar gera sér ekki siður en aðrir landsmenn grein fyrir þessu og hafa sýnt það á ýmsan hátt. En Stór-Reykjavík þarf vissulega ekki að kvíða mannfæð, þótt aðrir landshlutar héldu sínu. Með sinni eigin eðlilegu fólksfjölgun, án innflutnings, ætti hún að hafa,, að ég ætla, 144 þús. íbúa árið 1984, þótt um engan innflutning væri að ræða.

Við, sem stöndum að þessu frv., litum svo á og flokkur okkar hér á Alþingi, að þjóðfélaginu beri að láta þessa þróun til sín taka á sérstakan hátt og láta ekki blind lögmál ráða öllu. Ég hika ekki við að segja það sem mína skoðun, að hér sé um að ræða stærsta innanlandsvandamál þjóðarinnar um þessar mundir og sennilega fyrst um sinn. Vandamálið er að koma í veg fyrir stöðnun, hnignun eða eyðingu landsbyggðar, ekki aðeins á tiltölulega litlum, afskekktum svæðum, heldur í stórum landshlutum. Ég minnist þess, að sjálfur höfuðstaður Norðurlands, næststærsti bær landsins, hélt ekki einu sinni hlutfallslega við fólksfjölda sínum á síðasta áratug þrátt fyrir innflutning þangað úr nærliggjandi byggðarlögum. Hvað þá um aðra, er svo fór um hið græna tré? Og við getum litið t.d. á þróun íbúatölunnar á Ísafirði, Siglufirði eða Seyðisfirði. Þar er ekki um sveitir að ræða, heldur kaupstaði.

Ég mun koma að því nánar síðar, í hverju mikilvægi þessa máls er einkum fólgið. Við gerum okkur fulla grein fyrir því, flm. þessa máls, að hér er ekki um auðvelt viðfangsefni að ræða, jafnvel þótt allir væru um það á einu máli hér á Alþingi. Við gerum okkur ljóst, að með lögfestingu þess frv., sem hér liggur fyrir og lá að miklu leyti einnig fyrir síðasta þingi, væri aðeins stigið spor í rétta átt og að ekki þýðir að ætla sér að spá um árangur. En með lögfestingu þess kæmi fram ákveðin stefna, ákveðin viðleitni, sem víða mundi styrkja veikar vonir. Við trúum því, að öll meginbyggð þessa lands eigi framtíð, ef rétt er að farið, og ég kem einnig nánar að því síðar, hvers vegna við höfum þá trú.

Það er kjarni þessa frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 23, að Alþingi komi upp sérstakri landsbyggðarstofnun, sem í frv. er nefnd jafnvægisnefnd, eins konar sjálfstæðu ráðuneyti, sem sinni því viðfangsefni einu að stuðla að eflingu landsbyggðar, jafnvægi í byggð landsins, og þessari stofnun verði tryggt fjármagn, ekki mjög mikið að okkar dómi að svo stöddu, en þannig frá gengið, að eldur dýrtíðar og verðbólgu grandi því ekki. Þess vegna er það ekki miðað við tiltekna upphæð í hverfulum krónum, heldur ákveðinn hundraðshluta af ríkistekjunum á hverjum tíma. Þetta mundi verða 33 millj. kr. á fyrsta ári, miðað við fjárlög þessa árs, en trúlega heldur hærra, þar sem ríkistekjur fara fram úr áætlun.

Í 1. gr. frv. er tilgangur l. skilgreindur: „Að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknarstörfum, áætlanagerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í þeim landshlutum, þar sem bein eða hlutfallsleg fólksfækkun hefur átt sér stað undanfarið eða er talin yfirvofandi:

Í 10. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Úr jafnvægissjóði má veita lán til hvers konar framkvæmda, sem að dómi sjóðsstjórnar eru til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins samkv. l. gr.. þ. á m. til kaupa á atvinnutækjum, enda séu aðrir lánsmöguleikar áður fullnýttir. Skal áður leita álits sveitarstjórnar, sé hún ekki sjálf lántakandi. Veita má sveitarfélögum lán til að koma upp íbúðum:

Sjóðnum er á öðrum stað heimilað að afla sér lánsfjár vegna íbúða. Því fer þó fjarri, að hér sé ætlunin að setja á stofn nýjan banka, enda allvel fyrir þeim séð nú þegar, a.m.k. hér í höfuðstöðvunum, og er gert ráð fyrir, að Framkvæmdabankinn annist daglega afgreiðslu og reikningshald. Það höfum við flm. þó í huga, að stundum þykir langt að sækja um langan veg hingað utan af landsbyggðinni og að hver er sinum hnútum kunnugastur. Við teljum ekki ólíklegt, að svo kunni að reynast, að jafnvægisfjármagn þyki bezt komið í vörzlu bæjar- og sýslufélaga eða landshluta, sem þá jafnframt ykju það eftir föngum af eigin rammleik og ráðstöfuðu því í samráði við jafnvægisstofnun ríkisins og með hliðsjón af áætlunum hennar. Að þessu lúta ákvæði 13. gr. um að leggja fram fé til sérstakra jafnvægissjóða á afmörkuðum starfssvæðum.

Ákvæði til bráðabirgða, sem nú er í þessu frv., var ekki í frv. okkar í fyrra. Það er nýmæli. Þetta bráðabirgðaákvæði er þess efnis, að jafnvægisnefnd skuli þegar eftir gildistöku þessara laga í samráði við landnám ríkisins gera bráðabirgðaáætlun um sérstaka aðstoð við þau byggðarlög, sem dregizt hafa aftur úr eða yfirvofandi hætta er á að dragist aftur úr því, sem almennt er, að því er varðar aðkallandi framkvæmdir og uppbyggingu atvinnuveganna eða fari í eyði að verulegu eða öllu leyti, enda séu þar að dómi landnámsins vel viðunandi atvinnurekstrarskilyrði frá náttúrunnar hendi á landi eða sjó. Enn fremur að leita skuli, eftir því sem þurfa þykir, álits Búnaðarfélags Íslands, Fiskifélags Íslands og Landssambands iðnaðarmanna um úrræði á hverjum stað. Til framkvæmdar bráðabirgðaáætluninni er n. samkv. þessu ákvæði heimilað að veita óafturkræf framlög úr sjóðnum, allt að þriðjungi tekna hans til ársloka 1966, og er gert ráð fyrir, að framlögin séu veitt sveitareða sýslufélögum með fyrirmælum, sem n. setur um notkun þeirra.

Sum byggðarlög eru nú um þessar mundir þannig á vegi stödd, að hafa verður hraðan á, ef þær sérstöku ráðstafanir, sem þjóðfélagið kann að vilja gera þeim til aðstoðar, eiga ekki að verða um seinan. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að minnast á nýlegar fundarsamþykktir um þetta efni, sem birtar hafa verið opinberlega í blöðum og sumar í útvarpi, t, d. frá aðalfundi Stéttarsambands bænda, kjördæmaþingum framsóknarmanna í ýmsum landshlutum og fjórðungsþingi Vestfirðinga. Á fundi á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði var og um þetta efni rætt í sumar að viðstöddum ýmsum forustumönnum búnaðarmála. Samdráttur byggðar í Flatey á Skjáifanda hefur verið í sérstakri athugun á vegum stjórnarvalda, og fleiri dæmi mætti nefna, er sýna aðkallandi nauðsyn þessa máls. Þótt hér virðist einkum um að ræða byggðarlög, sem styðjast við landbúnað eingöngu eða mestmegnis, er það þó ekki alltaf svo, og gera verður ráð fyrir, að allir aðalatvinnuvegir landsins komi til greina, er leita skal úrræða til eflingar þessum byggðarlögum. Því þykir rétt, að leitað sé álits landssambanda aðalatvinnuveganna, eftir því sem þurfa þykir, áður en úrræði eru ákveðin.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því í þessu sambandi, að í fámennum byggðarlögum, þar sem um verulega, beina fólksfækkun er að ræða, fer oftast svo, að aðstæður þeirra, sem eftir eru, versna því meir, því fleiri sem hverfa á brott. Þess vegna getur að því komið, að slíkt byggðarlag, þar sem hefur verið stöðugur brottflutningur fólks og fækkun heimila, þótt ekki sé í stórum stíl ár hvert, fari skyndilega allt eða mestallt í eyði, af því að fólk er þá orðið of fátt til að geta haldizt þar við. Viðnámið brestur. Þetta getur t.d. átt við um sveitir, sem ber skylda til að sjá um fjallskil stórra afrétta og þar að auki á jörðum, sem í eyði fara, getur líka átt við um sjávarþorp, þar sem sjósókn byggist á samhjálp, o.s.frv. Þessu atriði má ekki gleyma, þegar rætt er um það efni, sem bráðabirgðaákvæðið fjallar um.

Frv. er í 15 greinum, sem skiptast í tvo kafla auk bráðabirgðaákvæðisins. Fyrri kaflinn er um tilgang l. og störf jafnvægisnefndar, síðari kaflinn um jafnvægissjóð. Ég mun í þessari framsöguræðu ekki gera nánari grein fyrir einstökum ákvæðum þess, enda var málið til meðferðar á siðasta Alþingi. Til greina kom að kveða nánar á um ýmsa hluti í framkvæmd mála. Við flm. teljum það þó varla tímabært, en álítum, að starfshættir verði að mótast af reynslu, þegar um slíkt nýmæli er að ræða, en gera ráð fyrir því, að Alþ. velji hér til starfa, þar sem vissulega mun reyna á drengskap og réttsýni, menn, sem til þess er treystandi og hafa fyrir því þann áhuga, sem er skilyrði þess, að árangurs megi vænta.

Eins og ég hef áður vikið að, var frv. að miklu leyti shlj. þessu frv. flutt hér í hv. d. á síðasta þingi af sömu flm. að undanteknum hv. 3. þm. Vestf., Sigurvin Einarssyni, sem þá átti ekki sæti í d., en er nú einn flm. Það hlaut þá afgreiðslu, sem var á misskilningi byggð, svo að ekki sé meira sagt. Meiri hl. d. samþykkti þá rökst. dagskrá, sem borin var fram af meiri hl. n. og fól í sér frávísun málsins. Nú þarf það ekki að þykja tíðindum sæta, þó að máli sé vísað frá með rökst. dagskrá, ef frambærileg rök eru fyrir hendi. En rök meiri hl. á siðasta þingi fyrir frávísun þessa máls voru þau, að í frv. væru ekki nein nýmæli umfram það, sem þegar fælist í lögum um svonefndan atvinnubótasjóð frá 1962, og að það væri, eins og þetta var orðað, með öllu óþarft. Ég harma það enn, að mætir menn, sem að þessari dagskrártill. stóðu, skyldu gera slíkt léttúðarhjal að þskj. og greiða því atkv. Atvinnubótasjóður fær frá ríkinu 10 millj. í minnkandi krónum, og starfsemi hans, þótt gagnleg sé á sínu sviði, það sem hún nær, á lítið skylt við raunverulegar frambúðarráðstafanir til að rétta hlut landsbyggðarinnar og stuðla að jafnvægi milli landshluta. Rétt um það leyti, sem umr. stóð yfir um þetta mái á síðasta þingi, eða litlu síðar fór fram úthlutun ársins 1963 úr atvinnubótasjóðnum. Sjóðsstjórnin, sem er skipuð mætum mönnum, gafst upp við að úthluta því fé, sem hún hafði handa á milli, sem von var, og fékk einhvers konar stjórnarleyfi til að nota fyrir fram helminginn af tekjum sjóðsins fyrir árið 1964. Það er þá víst ekki lengur óþarfi að breyta þeim lögum, ef einar 5 millj. eða svo eru til úthlutunar á næsta ári.

Ég hef haft í höndum úthlutunarlista atvinnubótasjóðs s.l. vor, enda er hann ekki neitt leyndarmál. 4 millj. var úthlutað í Kjalarnesþing, 1 millj. í Reykjavík. Hverjum dettur í hug, að það sé gert til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins? Það væri eins og hvert annað spott að halda því fram. Ég er ekki að finna að þessum lánum til Reykjavíkur eða bæja og þorpa við Faxaflóa. Þau hafa átt fullan rétt á sér og komið að ágætu gagni fyrir þjóðarbúið. En þau eru allt annars eðlis en það, sem í þessu frv. felst. Atvinnubótasjóður er stofnun, sem ver meiri hluta af fé sínu til að veita lán út á siðari veðrétt til kaupa á fiskiskipum, og er vissulega brýn þörf slíkra lána. Við Fiskveiðasjóð Íslands starfaði einu sinni sérstök deild, sem veitti svona lán, svokölluð styrktarlánadeild, en hún hætti störfum. Atvinnubótasjóður er tekinn við hlutverki hennar, og það er vel, að svo sé. Í þessu frv. dettur okkur ekki heldur í hug að hrófla við atvinnubótasjóði á neinn hátt. En ég hygg, að margur muni veita því athygli á landsbyggðinni, ef hann verður notaður í annað sinn sem átylla til að eyðileggja það mál, sem hér liggur fyrir, en till. til umbóta á þessu frv. tökum við að sjálfsögðu með þökkum, ef fram koma, og erum reiðubúnir til viðtals og samráðs við þá nefnd, sem fær það til meðferðar.

Ég sagði áðan, að við, sem að þessu frv. stöndum, hefðum trú á framtið landsbyggðar um allt Ísland, ef Alþ. og fleiri aðilar tækju upp í tíma skipuleg vinnubrögð því til styrktar, að svo megi verða. Því fer svo víðs fjarri, að gæði lands og sjávar séu saman komin öll í einni byggð eða einum landshluta eða við strendur hans. Hvar er sjávaraflinn lagður á land? Hann er lagður á land í 60—70 veiðistöðvum fyrir norðan, sunnan, austan og vestan. Hvar er sú gnótt ræktanlegs lands, þetta dásamlega landrými, sem útlendir landbúnaðarsérfræðingar fjölyrða um, þegar þeir dveljast hér? Það er í hverri sveit svo að segja um endilangt Ísland. Hvar er jarðhitinn? Hann er meiri og minni í flestum eða öllum sýslum í þremur landsfjórðungum, og vonir standa til, að hann sé einnig í þeim fjórða. Og hvar eru fallvötnin? Þau eru víða, en þau eru mest og öflugust í landshlutum, sem nú eiga við fólksfækkun að stríða.

Íslendingar eru raunverulega rík þjóð og eiga að geta haldið áfram að vera það. Hin mikla auðlegð okkar íslendinga er þó ekki fyrst og fremst fólgin í því, sem venjulegt er að meta til peningaverðs. Við íslendingar, sem erum ekki nema rúmlega 180 þús. talsins, eigum þetta fagra, heilnæma og ágæta land, Ísland, sjóinn við strendur þess og himininn yfir því, ef svo mætti að orði komast, eigum það allt og ráðum yfir því, og sá eignarréttur er löglega viðurkenndur af öðrum þjóðum. Við megum ekki gleyma þessu, og við verðum að gera okkur grein fyrir, hversu óendanlega mikils virði þetta er fyrir okkur, sem nú lifum, og afkomendur okkar í aldir fram. Hér þarf ekki að kvarta um skort á lífsrúmi. Hér er gnótt lands til ræktunar auk sjávar og vatna. Hér er orka í fallvötnum nóg og heitu vatni, eins og ég sagði áðan. Þessi náttúruauður ,jafngildir kolanámum og olíulindum handan við höf. Hér eru verðmæt jarðefni, hér eru heilsubrunnar. Dóná er ekki blá, þótt skáldin lýsi henni svo, en íslenzk fjöll eru blá. En hvernig má það ske, að við svo fá og smá skulum eiga slíkt land? Hvernig má það ske? Svarið er vitanlega þetta: Íslendingar eiga landið, af því að þeir hafa byggt það. Við eigum það allt, af því að fólkið, sem hér var á undan okkur, sem nú lifum, byggði það allt. Við byggjum það enn þá, en þó varla nægilega til þess, að það sé öruggt til að helga okkur það til frambúðar.

Hvernig væri ástatt nú um þetta eyland, ef Íslendingar hefðu verið fluttir suður á Jótlandsheiðar eftir móðuharðindin? Það er hægt að láta sér detta ýmislegt í hug. Það hefði t.d. getað breytt gangi tveggja heimsstyrjalda. En það væri áreiðanlega ekki óbyggt. Það yrði ekki heldur lengi óbyggt nú, ef þjóðin tæki upp á því að axla sín skinn og flytja í húsmennsku yfir á meginlöndin. Ég held, að svipað yrði upp á teningnum, ef allir Norðlendingar, Austfirðingar eða Vestfirðingar flyttu skyndilega suður að Faxaflóa, þá mundu áreiðanlega einhverjir úti í heimi fá áhuga á þessum landshlutum. Dettur nokkrum í hug, að aðrar þjóðir mundu viðurkenna landhelgi Íslands, ef enginn Íslendingur færi á sjó? Ég held ekki. Við færum ekki einu sinni fram á það sjálfir þá, að hún væri viðurkennd. Og er þá ekki líka hætt við, að áhugi okkar sjálfra eða annarrar kynslóðar fari að minnka fyrir því að vilja eiga landshluta, sem við værum sjálf hætt að byggja? Það er víst, að ef sá dagur kemur, að t.d. 9/10 hlutar Íslendinga verða samansafnaðir hér við suðausturhorn Faxaflóa, þá verður Ísland ekki lengur fyrir Íslendinga. Þetta eru ekki hugarórar í þeim heimi, sem fram undan er, og ekki er einu sinni víst, að Íslendingar mundu kæra sig. um það sjálfir, þegar svo væri komið. Landsbyggðin er okkar landvörn og án hennar verður hér ekki til lengdar frjáls þjóð.

Hér á Alþingi var nýlega útbýtt merkilegri ritgerð um húsnæðismál eftir útlendan sérfræðing á því sviði. Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þm. hafi kynnt sér þessa ritgerð. Þar er m.a. upplýst og vakin athygli á því, að á Íslandi sé um þessar mundir næstum þrisvar sinnum meiri fólksfjölgun en að meðaltali í öðrum Vestur-Evrópulöndum. Ég hef þótzt sjá í skýrslum, að t.d. í Noregi sé hún helmingi minni en hér, eða ca. 1%. Íslenzku þjóðinni fjölgar sem sagt mjög ört í seinni tíð eða nánar tiltekið síðustu tvo áratugina. Þessi þjóð, sem stóð í stað um aldir, vex nú mjög hratt og ætti þegar af þeirri ástæðu að hafa meiri möguleika til að bygg,ja landið. Til þess ætti ekki að skorta fólk. Ég vil skjóta því hér inn, sem nánar er rætt í grg., að ráðið til þess að hindra beina eða hlutfallslega fækkun í einhverjum landshluta getur m.a. verið í því fólgið að koma þar upp þéttbýlishverfum eða efla kaupstaði og. kauptún, sem fyrir eru, og jafnvægisstofnun ber að sjálfsögðu að hafa það í huga í starfi sinu. Jafnvægismálið verður ekki leyst, svo að vel sé, nema litið sé á það frá heildarsjónarmiði hinna stóru landshluta, en þó jafnframt reynt að sjá svo um, að björgulegum byggðum verði forðað frá yfirvofandi hættu, þótt fámennar séu eða hafi dregizt aftur úr um stund.

Menn tala mikið um framleiðni um þessar mundir. Hún er að verða eins konar lausnarorð, þegar vandamál ber á góma, og væntanlega með réttu. Þetta má hins vegar ekki leiða af sér þann hugsunarhátt, að vanræktar verði þær atvinnugreinar eða þau atvinnusvið, þar sem hægt kann að vera að sýna fram á í bili, að framleiðni sé minni en annars staðar, því að hún getur verið undir ýmsu komin, m.a. verðlagsráðstöfunum þjóðfélagsins, beinum og óbeinum. En eitt af því, sem eflaust skiptir miklu, er rétta skal hlut landsbyggðarinnar, þar sem hún á í vök að verjast, er að hjálpa til að auka þar framleiðnina. Þarf varla að búast við, að þeir, sem eiga stöðugt í vök að verjast, geti gert nauðsynlegar ráðstafanir til að auka framleiðni sina, og í ýmsum tilfellum hlýtur framleiðniaukning að byggjast á sameiginlegum framkvæmdum, sem þjóðfélaginu ber að sjá um, en hefur ekki enn séð um.

En þrátt fyrir allt, þrátt fyrir það, þó að segja megi sjálfsagt um ýmis byggðarlög, að framleiðni sé þar minni en skyldi, er það þó tölulega sannað fyrir löngu, að mörg fámenn byggðarlög, líklega einkum við sjávarsíðuna, en einnig sums staðar í sveitum, framleiða svo mikið magn gjaldeyrisverðmæta eða gjaldeyrissparandi verðmæta í hlutfalli við fólksfjölda, að athygli vekur. Þetta stafar m.a. af því, að svo að segja hver manneskja á hvaða aldri sem er, sem vettlingi getur valdið, leggur þar framleiðslunni lið beinlínis, vinnur sjálf framleiðslustörf. Þessi byggðarlög koma áreiðanlega með sinn skerf í þjóðarbúið og meira en það. Með þetta í huga vil ég endurtaka það, að í grg. frv. stendur, að óhætt muni að gera ráð fyrir, að hagnýt þjóðarframleiðsla minnki ekki, heldur vaxi við aukið jafnvægi í byggð landsins. En það vitum við, að ýmislegt af því, sem fræðimenn telja til þjóðarframleiðslu, er þess eðlis, að margir mundu eiga örðugt að átta sig á, að það skuli til hennar talið.

Peningastofnanir og ríkisvald úthluta hér fjármagni, innlendu og aðfengnu, eftir margs konar formúlum eða reglum, ef svo mætti segja. Lán og framlög skiptast í tegundir, eins og lifverurnar í náttúrufræðibókum. Það eru veitt sérstök lán til að byggja hús hvar sem er á landinu, lán til að smíða skip, lán til að kaupa vélar, lán til að rækta jörð, lán til að afla sér skólamenntunar, lán, sem eingöngu eru ætluð einni atvinnugrein; lán til að greiða stofnkostnað o.s.frv. Með þessu frv., ef að lögum verður, er verið að festa í framkvæmd nýjan, sjálfstæðan tilgang lánveitinga og framlaga. Það mætti kalla þetta að veita landinu lán til að tryggja sér mannabyggð, þar sem það leggur sjálft fram lífsskilyrðin án sérstaks tillits til þess, hvort til þess að tryggja þessa byggð þarf að hlaða vegg, brjóta land eða leggja kjöl. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því líka, að fólksflutningarnir, sem átt hafa sér stað í landinu, standa ekki að öllu leyti eða e.t.v. ekki nema að sumu leyti í beinu sambandi við skort á framkvæmdum, atvinnulíf eða fjárhagsmál, en eflaust þó að mjög verulegu leyti. Ég tek t.d. strjálbýla sveit og að takast mætti að þétta það mikið byggðina með býlafjölgun, að öruggt sé, að sú sveit fái rafmagnið fljótlega. Slíkt getur ráðið úrslitum án efa. Ég tek t.d., að komið væri upp í sjávarþorpi atvinnugrein, sem getur miðað starfsemi sina við þann árstíma, þegar minnst er að gera við sjóinn. Þá mundu áreiðanlega færri fara að heiman. En úthlutun fjármagns í þessu skyni ber ekki árangur, nema þeirri starfsemi fylgi heill hugur og umhyggja.

Ég hygg, að jafnvægis- eða landsbyggðarstofnun eins og sú, sem við viljum koma á fót, geti líka gert fleira en setja saman áætlanir og ráðstafa fjármunum. Reynslan mundi að líkindum sýna, að þar ætti einnig að hafa með höndum fyrirgreiðslu og fræðslustarfsemi eða sem kalla mætti útbreiðslustarfsemi í þágu landsbyggðar, og slik starfsemi gæti borið árangur. Stórborgir hafa sitt seiðmagn um alla jörð og sína kosti, en alls staðar ala börn þeirra þá von í brjósti, að þeim takist að komast út fyrir borgarmúrana með hækkandi sól ár hvert, einnig hér. Lífið utan stórborganna hefur sinar björtu hliðar í sveit og við sæ. Fólk gleymir því stundum, a.m.k. í bili, eða þekkir ekki sem skyldi, og úr því mætti bæta. Um það efni ætla ég þó ekki að ræða nánar að þessu sinni.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. visað til 2. umr. og hv. fjhn. Ég ætla, að málið hafi verið í þeirri nefnd í fyrra.