31.10.1963
Neðri deild: 8. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í C-deild Alþingistíðinda. (1952)

43. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið flutt nokkrum sinnum áður hér á Alþingi. Meðferð þessa máls hefur verið sú, að hingað til hefur sú hv. d., sem þetta hefur verið flutt í, Nd., aldrei fellt þetta frv. Þetta frv. hefur aldrei fengið að koma til 2. umr., — aldrei. Og þegar flutt hafa verið stjórnarfrv. um breyt. á l. um áburðarverksmiðju, þá hafa slík stjórnarfrv. öll stöðvazt eftir 1. umr. og aldrei komið til 2. umr., vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur ekki þorað að láta þau stjórnarfrv. koma til 2. umr., af því að þá gæfist tækifæri til þess að greiða atkv. um efnisatriðin í þessu frv. líka. M.ö.o.: í 10 ár er Alþingi búið að standa þannig frammi fyrir þessu frv., að það hefur aldrei þorað að taka ákvörðun í því, og er þó hér um það að ræða, hvort eigi að leyfa nokkrum mönnum að stela úr eign ríkisins 140 millj. kr. eða verðmæti, sem því samsvarar. Hæstv. landbrh. hefur tvivegis eða þrívegis lagt fram frv. um breyt. á l. um áburðarverksmiðjuna. Hann hefur gefizt upp við að reyna að fá þessi frv. fram við 2. umr., aldrei látíð þau koma úr nefnd, þó að þau væru stjórnarfrv., vegna þess að hann hefur ekki treyst sér til þess að leggja þau og þar með greinarnar í þessu frv. undir dóm hv. Nd., af því að hann hefur óttazt, að það yrði fellt.

Það er í 4 ár búið að brjóta lögin um áburðarverksmiðjuna viðvíkjandi afskriftum. Það hefur verið afskrifað miklu meira en heimilt er eftir l. Það befur verið haldið hærra verði á áburðinum en leyfilegt er eftir í og menn hafa aldrei þorað að fara í að reyna að breyta l vegna þess að menn hafa ekki þorað að láta ákvæðin í þessu frv., sem hér liggur fyrir, koma til atkv. Og nú vil ég segja það, að svona getur þetta ekki gengið lengur. Ef þm. halda áfram að vera samsekir um að þora ekki að láta þetta frv. koma til 2. umr. og greiða atkv. um það, þá eru þeir sjálfir að gerast samsekir um að reyna að stela þessu fyrirtæki úr höndum ríkisins og í hendur nokkurra prívatmanna.

Það er kannske ekki rétt að vera að prédika sérstaklega mikið, að menn eigi að taka tillit til laga, þegar öðru eins afskræmi er útbýtt í þinginu og því frv. um launamál, sem var útbýtt hérna áðan, sem brýtur í bága bæði við stjórnarskrá og gildandi lög og er mótsögn í sjálfu sér. En ég vil þó minna á, að vissir þm. hér eru öðru hverju að tala um eignarrétt og að hann eigi að hafa eitthvert gildi og að hv. þm. eru kosnir á þing m.a. til þess að sjá um hagsmuni þess opinbera, og það kemur til með að reyna á þá, hvernig þeir varðveita þá einmitt í sambandi við þetta frv. hér um áburðarverksmiðju.

Þetta frv. gengur út á það að taka af allan vafa um það, að áburðarverksmiðjan, sem stofnuð var með lögum 1949, 23. maí, er eign ríkisins, eins og stendur í 3. gr. um hana, og ekki neinna annarra, að hún er eign ríkisins. Og þetta atriði verður að fara að verða klárt. Það eru nú komin 14 ár, síðan l. um áburðarverksmiðjuna voru samþykkt. í 14 ár eru vissir menn búnir að halda því fram, að þessi lög tákni allt annað en þau tákna raunverulega eftir orðanna hljóðan, og vissir menn eru að telja sig eiga ákveðið fyrirtæki ríkisins. Ef Alþingi lætur þetta afskiptalaust öllu lengur, — ég er ekki lögfræðingur, ég skal ekki segja um það fyrir víst, — en þá gæti ég trúað, að sumir af þessum mönnum færu að reyna að telja sig hafa einhverja hefð á þessu, eða kannske lögfræðingarnir okkar gætu upplýst okkur um það, hvað lengi frá því að einhverju er stolið og ekki er krafizt, að því sé skilað til baka, hvað lengi það þarf að vera í eign þjófsins, til þess að það sé orðið eign hans? Ég veit það ekki, lögfræðingarnir okkar geta kannske svarað því. .

Hér er um það að ræða, að í lögum um áburðarverksmiðju, sem samþ. voru á Alþingi 1949, stendur í 3. gr.: „Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki setja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi“. M.ö.o.: áburðarverksmiðjan er sjálfseignarstofnun á sama hátt og fjölmargar ríkisstofnanir í okkar þjóðfélagi. Þegar þetta frv. var samþykkt í Nd., voru aðeins 12 greinar í því. Þegar það var samþykkt við 1. og 2. umr. í Ed , voru aðeins 12 greinar t því, og nefndirnar, fjhn. Nd. og fjhn. Ed., samþykktu þetta frv. og mæltu með því þannig, að það væri ekki snefill af efa um, að það væri ríkisfyrirtæki. Við síðustu umr. í Ed. á síðustu dögum þingsins, sem var siðasta þing þess kjörtímabils, var bætt við 13. gr., þar sem heimilað er að reka verksmiðjuna sem hlutafélag, svo framarlega sem það fáist 10 millj, kr. hlutafé, þannig að ríkissjóður leggi fram 6 millj. og einstaklingar 4 millj., og þá stendur: „Og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag“.

Þannig var þetta samþ., og það kom strax greinilega í ljós, hverja afstöðu forsrh. þeirrar ríkisstj., sem samþykkti þetta, hafði til þessa. Forsrh, var Stefán Jóh. Stefánsson, þá formaður Alþfl. , núv. sendiherra í Kaupmannahöfn, sem lýsti því alveg ótvirætt yfir sem fulltrúi Alþfl. í fjhn., þegar þetta mál var næst tekið til umr., að það væri alveg tvímælalaust, að þessi verksmiðja væri eign ríkisins og hún væri aðeins rekin sem hlutafélag, — forsrh. þeirrar stjórnar, sem sá um samþykkt þessara laga. Hvað var það, sem var að gerast, þegar þessari 13. gr. var laumað inn á siðasta augnabliki og samþ. af nokkrum þm. Sjálfstfl. og Framsfl. ? Ég efast um, að þegar þeir samþykktu þetta, þá hafi nokkrir af þessum þm. meint annað en þetta skyldi vera rekið sem hlutafélag. En svo gerðist dálitil breyting á okkar þjóðlífi rétt á eftir. Á árinu 1950 var mynduð ríkisstj. íhalds og Framsóknar, og þessi ríkisstj. fór allsnemma að færast í aukana hvað það snerti að vilja fara að skipta öllu til helminga, sem hægt væri að græða á í okkar þjóðfélagi. Það kom t.d. í ljós eitthvað 1 eða 2 árum seinna, að það var gróðafyrirtæki að reka verktakafélög á Keflavíkurflugvelli, og þá kom undireins að því, að ríkið varð meira að segja að fara að skipta sér af verktakafélögunum á Keflavíkurflugvelli, koma upp sérstöku fyrirtæki, sem kallað var Aðalverktakar, þar sem höfð voru í frammi hrein helmingaskipti um gróða, þannig að það kom upp sú hugmynd hjá þessum tveim flokkum, sem þá réðu ríkisstj., að það skyldu vera helmingaskipti um allt það, sem eitthvað mætti græða á, og fyrr en varir var þessi hugmynd komin upp í sambandi við þetta hlutafélag, sem mynda skyldi til rekstrar áburðarverksmiðjunnar.

Og býst við, að það hafi gengið þannig til, að Samband ísl. samvinnufélaga o.fl. hafi lagt fram upphæð í þetta, og þá hefur sú hugmynd komið upp hjá ýmsum forkólfum Sjálfstfl. hér í Reykjavík, að ekki væri gott, að Sambandið væri eitt um þetta, það skyldi vera helmingaskiptafélag um þessar 4 millj. Og ég held, að ég megi fullyrða, að því hafi verið skipt nokkurn veginn jafnt, þannig að flokkarnir réðu hvor um sig og þeirra menn yfir 2 og 2 millj. í þessu. En þegar menn nú voru búnir að leggja fram alls 4 millj., sumpart fylgjendur Sjálfstfl., sumpart fylgjendur Framsfl., til þess að eiga þetta hlutafé í rekstrarhlutafélaginu, þá fór skörin að færast upp í bekkinn. Það er alkunna, að menn langar þá til þess að græða meira og meira, þegar menn eru komnir einhvers staðar með hnífinn í feitt. Og hvað gerist næst? Þá gerist það hér á Alþingi, að þáv. formaður Framsfl. , þáv. hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, lýsir yfir, að þessi verksmiðja sé eign þessa hlutafélags, Áburðarverksmiðjunnar h/f. Ég tók eftir þessari yfirlýsingu og kvaddi mér um leið hljóðs til þess að mótmæla þessu, þessi verksmiðja væri ekki eign þessa hlutafélags, þetta hlutafélag væri aðeins rekstrarfélag. Nokkru seinna tók þáv. hæstv. fjmrh., núv. formaður Framsfl., undir þetta og ég mótmælti því aftur. Og síðan lagði ég fram á þingi það frv., sem nú liggur fyrir, nokkurn veginn í þessari sömu mynd, sem það nú er, til þess að taka af allan vafa um það, að þessi áburðarverksmiðja er eign ríkisins og einskis annars, og átaldi um leið þær yfirlýsingar ráðh., sem fram höfðu komið, og benti á, að þær gætu orðið ríkinu dýrar, svo framarlega sem þær yrðu af einkahluthöfunum seinna meir í málaferlum út af þessu notaðar til þess að styðja kröfu þeirra til þess, að þeir ættu þessa verksmiðju. Hvort þessir hæstv. ráðh. mundu komast undir lögin um ráðherraábyrgð, sem samþykkt voru, það skal ég ekki segja, en efast mikið um, ef svo færi, að ríkið tapaði slíku máli, að þeir væru þá borgunarmenn fyrir þeim skaða, sem þá væri búið að valda ríkinu.

Þetta átti á þessum árum helmingaskiptanna vafalaust að vera ein aðferð Sjálfstfl. og Framsfl. til þess að skipta á milli sín flestu því, sem gróði gæti verið að í okkar þjóðfélagi. Og þrátt fyrir það, þó að nú séu bráðum liðin 10 ár, síðan þetta gerðist, þá hefur ekki fengizt leiðrétting á þessu hér á Alþingi. Og ég verð að segja, að það er ekki vansalaust fyrir Alþingi að láta þetta ganga svona til. Ég veit, að við nýafstaðnar kosningar hafa þm. um allt land fengið að heyra það, að það er líka skoðun fjöldans, kjósendanna í þeirra flokkum, að þetta ríkisfyrirtæki sé eign ríkisins og einskis annars og það megi ekki lengur við svo búið standa, að það séu tekin af öli tvímæli um það.

Áburðarverksmiðjan er nú líklega um 350 millj. kr. virði. Það þýðir, að ef seinna meir yrði litíð svo á vegna yfirlýsinga þeirra ráðh., sem ég nefndi, og vegna sinnuleysis Alþingis, að þessi verksmiðja yrði að skoðast eign þessa rekstrarhlutafélags í mótsetningu við 3. gr. 1., og þegar búið væri að afskrifa verksmiðjuna, þannig að hún væri orðin hrein eign, þá mundu sem sagt þessar 4 millj. kr., sem lagðar voru fram í hlutabréfum á sínum tíma, vera 140 millj. kr. virði. Það væri einhver bezta helmingaskipta-„forretning“, sem þeir hefðu nokkurn tíma gert saman, Sjálfstfl. og Framsfl. , ef þannig færi, og ég hef satt að segja orðið var við það, þegar þetta mál hefur stundum verið rætt í fjhn. þessarar hv. d., að ekki heldur fulltrúum Sjálfstfl. hefur raunverulega litizt á að reyna að framkvæma svona — hvað á ég að segja, svona bisness, það er vist orðið viðkunnanlegra heldur en nota dönskuslettu, — þannig að enn sem komið er er það þó þannig, að einhver samvizka er til í þessum efnum hjá hv. þm. En ég vil segja það, að það dugir ekki að svæfa hana á þann hátt, sem gert hefur verið á undanförnum árum. Það verður að fara að afgreiða þetta mál á einn eða annan veg. Svona getur þetta ekki gengið endalaust.

Ég vil, af því að ég nefndi hér úrskurði eða orð ráðh., sem um þetta hefðu talað ógætilega hér fyrir 9–10 árum, taka þó það fram, að það liggja líka fyrir yfirlýsingar í Alþingi um hið gagnstæða. Þegar kosið var í stjórn áburðarverksmiðjunnar, þegar Jörundur Brynjólfsson enn þá var forseti þessarar hv. d., þá var gerð aths. út af því, hvort Vilhjálmur Þór, sem þá var landsbankastjóri, mætti sitja í þessari stjórn áburðarverksmiðjunnar, sökum þess að hann var landsbankastjóri og landsbankastjórum var bannað með lögum að eiga sæti í stjórn atvinnufyrirtækja. Þá kvað forseti neðri deildar upp þann úrskurð, að með því að áburðarverksmiðjan væri ríkisfyrirtæki, þá mætti þessi bankastjóri eiga sæti þar, og hann var þá og hefur verið síðan kosinn af Alþingi af hálfu Framsfl. í stjórn áburðarverksmiðjunnar á grundveili þess úrskurðar, að hann mætti eiga þar sæti sem fulltrúi Alþingis, vegna þess að þetta væri ríkisfyrirtæki. Það hefur líka komið greinilega fram, að því fer mjög fjarri, að allir flokkar þingsins auk Sósfl. eða auk Alþb. nú væru samþykkir þessu. Alþfl. hefur t.d. allur alltaf staðið með þessu frv. og tekið afstöðu með því. Og núv. herra forseti Íslands, herra Ásgeir Ásgeirsson, meðan hann átti sæti hér á þingi og sæti í fjhn., þá gaf hann alveg skýrar yfirlýsingar um það sitt álit, að þetta fyrirtæki væri ríkiseign, hrein ríkiseign og ekkert annað. Og ég efast ekki um, að hann hefur ekki breytt um skoðun á því síðan. Það var í samræmi við það álit, sem forsrh. þeirrar stjórnar, sem sat að völdum, þegar þessi lög upphaflega voru samþ., Stefán Jóh. Stefánsson, hafði, eins og ég gat um áðan, á þessum málum, þannig að hér er um það að ræða, að það liggja líka fyrir mjög skýrar yfirlýsingar manna, sem ættu vel að vita um, að það sé alger rangtúlkun á þessum lögum að reyna að hagnýta sér 13. gr. og ákvæðið um, að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag, til þess að reyna að yfirfæra verksmiðjuna úr eigu ríkisins og í eigu einkahlutafélags.

Eins og menn vita, eru mörg þess dæmi, t.d. með eitt af stórfyrirtækjum hér í Reykjavík, að þar er eignin sjálf sérstakt hlutafélag og annað er rekstrarfélag. Tíðkaðist það sérstaklega mikið á þeim tímum, þegar það var talið hagkvæmt samkv. sköttum að hafa það þannig, þannig að orðatiltækið, að eitthvað ákveðið skuli rekið sem hlutafélag, merkir aðeins og algerlega skýrt, að það skuli aðeins rekstur þess vera sem rekstur hlutafélags, en engu, breytt til um eignina. Ég álit þess vegna svo komið, að virðing þingsins sé í veði, að menn þori að taka ákvörðun um þetta mái. Og ég vil benda hv. þm. á, að ef þetta á svona til að ganga, þá fer að verða hægur vandi að reka mjög gróðavænleg fyrirtæki með alls konar samþykktum, álíka óljósum og þessari 13. gr. Hvað segðu menn t.d. um það, ef væri bætt aftan við l. um Landsbanka Íslands nýrri gr., þar sem stæði, að ríkisstj. væri heimilað, þrátt fyrir öll önnur ákvæði í 1., að láta fram fara söfnun hlutafjár og ef hægt væri að fá 4 millj. kr. sem hlutafé, þá skuli mynda hlutafélag, sem skuli hafa að hlutafjárupphæð 10 millj, kr. og ríkið skuli leggja fram 6 millj., og þá skuli Landsbankinn rekinn sem hlutafélag? Ég býst við, að það yrðu einhverjir hérna í Reykjavík t.d. ef þeir fyndust ekki annars staðar á landinu, til að leggja fram þessar 4 millj., og ríkið er vafalaust ekki í vandræðum með að fá einar 6 millj. frá Landsbankanum, enda gengið út frá því, að þessar 4 millj. kæmu þaðan tíka. Þegar það væri búið og fara ætti að reka Landsbankann sem hlutafélag samkv. þessari grein, þá lýsti svo einn ráðh. yfir hér á Alþingi, að auðvitað væri Landsbankinn eign þessa hlutafélags. Landsbankinn er varla minna virði en einar 500-600 millj. kr. Ég býst við, að hann sé heldur dýrmætari en áburðarverksmiðjan. Ganga hv. þm. inn á það, að það væri hægt að stela Landsbankanum með þessu móti? Álíta þeir, að það væri mögulegt? Það er nákvæmlega það sama, sem verið er að gera viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni, nákvæmlega það sama. Ég verð að segja það, að ef þetta patent 13. gr. á virkilega að lukkast, þá er búið að finna þarna þjófalykil að öllum eigum ríkisins. Ég held þess vegna, að það sé tími til kominn, að það sé sagt af eða á um þessa hluti, menn segi til um það, hvort þeir ætli að farga þessu fyrirtæki á þennan hátt úr eigu ríkisins eða ekki. Og það verður vafalaust handagangur í öskjunni, ef hægt verður að hafa svona aðferðir til þess.

Þetta frv. er að öllu leyti nema einu alveg shlj. því, sem hefur verið flutt áður. Í 3. gr. þess er hins vegar ofur lítil breyting. Þar er ákveðið, að þegar að því kemur að bæta hluthöfum rekstrarfélagsins upp þeirra hlutabréf, innleysa þau á nafnverði, þá sé heimild til þess að greiða hærra verð en nafnverðið. Nú vil ég taka það fram, að um leið og þessi lög eru samþykkt, þá er 13. gr. fallin niður, og það eru þess vegna þessir hluthafar, sem verða að sækja á til ríkisins, og ríkið hefur ákveðna afstöðu gagnvart þeim, því að þeir hafa engan grundvöll lengur til þess að standa á, og það er aðeins spursmál um sanngirni, hvað þeim er greitt. Hins vegar álít ég sjálfsagt, að þeim sé sýnd full sanngirni. Þess vegna er lagt þarna til, að það sé sérstök þingnefnd, skipuð einum manni frá hverjum þingflokki, sem geti verið ríkisstj. til aðstoðar og geti leyft henni að greiða hærra verð en nafnverð fyrir hlutabréfin, ef það er samþ. í þessari þingnefnd mótatkvæðalaust. Og eins og ég hef áður tekið fram, þegar um þetta hefur verið rætt, t.d. í fjhn. d., þá álít ég, að það eigi að sýna einkahluthöfunum fulla sanngirni í slíku efni.

En það er bætt einu atriði inn í, að þessi þingnefnd geti rannsakað allt, sem varðar tæknilegt gildi og efnahagslegan rekstur verksmiðjunnar, jafnvel frá upphafi, ef þurfa þykir. Það er ekki nema eðlilegt, eins og nú er komið og þegar þetta rekstrarhlutafélag hefur haft verksmiðjuna svona lengi til umráða, að allur hennar rekstur sé athugaður og það gaumgæfilega. Það hafa komið fram ýmsar aths. og ýmiss konar gagnrýni viðvíkjandi því, hvernig til verksmiðjunnar hafi verið stofnað tæknilega séð og hvernig rekstur hennar hafi gengið. Eins og ég benti á áðan, hefur rekstur hennar verið með lögbrotum á s.l. 3 árum, þannig að stjórnin hefur ekki farið að lögum og reikningar hennar hafa verið ólöglegir. Það er þess vegna eðlilegt, að sú þingnefnd, sem um þetta mál fjallar, geti rannsakað það, sem henni þykir þurfa að rannsaka um öll afskipti þessarar stjórnar í rekstrarhlutafélaginu, jafnvel frá upphafi, ef þurfa þykir. Það verður að ganga alveg úr skugga um það, hvernig verksmiðjan er að öllu leyti útbúin til þess að þjóna því verkefni, sem henni var ætlað.

Ég vil svo, til þess að tryggja það, ef verða mætti, að ekki verði lengur lagzt á þetta mál og hv. d. taki afstöðu um þetta, þá vil ég leyfa mér að leggja til, að þetta mál fari nú til 2. umr. nefndarlaust. Það er búið nú líklega 8, 9 eða 10 sinnum að fá athugun í nefnd, og ég fullyrði, að það hafi alltaf verið meiri hl. fjhn. með þessu

frv., en hann hafi aðeins aldrei fengizt til þess að skila áliti sem meiri hl. vegna flokkspólitískra aðstæðna. Ég álit þess vegna rétt, að fjhn: menn, sem hafa svo oft fengið tækifæri til þess að athuga þetta frv., séu losaðir við alla ábyrgð í slíku efni og að þetta frv. fái að koma beint til 2. umr. og hv. þm. sjálfir að taka afstöðu til þess.

Ég vil því leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. sé að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.