19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (1976)

64. mál, vegalög

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef nú aðeins örstuttan athugasemdartíma og vil nota hann fyrst og fremst til þess að láta því ekki ómótmælt, sem hv. 5. þm. Vesturl. vildi að ég hefði sagt, að það ætti að minnka vegaviðhaldsféð. Þetta hef ég aldrei sagt og geri því ráð fyrir, að hv. þm. hafi misheyrt, en ekki að hann hafi búið þessi orð til eftir mér til þess að geta staðið hér upp til að halda þá ræðu, sem hann hélt. Ég sagði hins vegar, að það væri þakkarvert það fé, sem veitt hefur verið til vegaviðhalds, en að það væri allsendis ónóg, meðfram fyrir það, að meira fé þyrfti til að byggja upp vegina heldur en nú er veitt til þeirra hluta, enda mundi þá vegaviðhaldsféð koma að meira liði og hrökkva betur, ef meira nýbyggingarfé fengist.

Hv. þm. fór svo að tala um, að þetta frv. væri óraunhæft, vegna þess að ekki væri gengið út frá því, að meira fé væri veitt til vegagerða, þótt við þjóðvegina sé bætt. Slíkt leiðir auðvitað af sjálfu sér, og þarf ekki að eyða orðum að því, að eftir því sem fleiri vegir eru teknir í þjóðvegatölu, því meira fé þarf til uppbyggingar og viðhalds þeim og því meira viðhaldsfé sem þjóðvegirnir hafa á því sviði verið meir vanræktir á undanförnum árum, eins og líka raun ber vitni um. Þetta var því ekki réttmæt athugasemd í sambandi við það frv., sem hér er til umræðu.

Hv. þm. var að mínum dómi dálítið ósmekklegur, — þótt slíkt sé ef til vill ekki svo mjög furðulegt, að slíkt hljóð komi úr því horni, þ.e. frá þeim flokki, sem hann tilheyrir, — þegar

hann fór að meta eða mæla ofaníburð í þjóðvegi á þann veg, að s.l. ár hefði verið sem svarar til þriggja rúmmála hinnar svokölluðu Bændahallar. Það mætti ef til vill í tilefni af þessum orðum halda, að hv. þm. og hans flokksmönnum mundi vei líka, að til viðbótar við ofaníburð í þjóðvegina væri Bændahöllinni bætt sem mulningi.

Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að vera að hampa einhverjum prósentureikningi um auknar fjárveitingar til nýbyggingar þjóðvega, þegar slíkar tölur hans stangast á við staðreyndir fjárlaganna um þau mál, og því verra fyrir hann, þegar þessum prósentureikningi hans ber ekki saman frá einni ræðu til annarrar. Vera má, að hæstv. ráðh. bæti við vegaféð fjárhæðum, sem hann hefur veitt heimild til að sveitarfélögin tækju að láni til vegaframkvæmda, og enn fremur hafi ráðh. bætt því fé við, sem ríkisstj. kann að hafa lagt fram í bili til einstakra vegaframkvæmda utan við allar lagaheimildir. Hvernig sem þessu er varið, þá er það staðreynd, að ekki er hægt að koma saman við fjárveitingar fjárlaganna til vegaframkvæmda þeim tölum, sem hæstv. ráðh. nefnir nú.