06.04.1964
Neðri deild: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í C-deild Alþingistíðinda. (2018)

102. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fyrir þessari hv. d. liggja þrjú frv. um nýja menntaskóla, og eru þau öll á dagskrá fundarins í dag. Flutningur þessara frv. ber án efa vott um vaxandi og almennan skilning á því, að í dag er þörf fyrir aukið rúm fyrir nemendur í menntaskólum, svo og að á næstu árum muni hlutur menntaskólanna verða að því leyti vaxandi, að ungum íslendingum fari ört fjölgandi, sem gangi út í lífið annaðhvort með menntaskólanám að baki eða sambærilegt nám, t.d. sambærilegt tækninám.

Menntmn. hefur tekið öll þessi þrjú frv. til umræðu. Sum þeirra hafa verið flutt áður, og liggja fyrir þinginu umsagnir frá rektorum núverandi menntaskóla um hugmyndir um nýja skóla á Vesturlandi og Austurlandi. Skal ég ekki rekja þær umsagnir frekar, nema hvað rektorarnir sjá ýmsa annmarka á stofnun nýrra skóla, þó að viðhorf þeirra sé að öðru leyti vinsamlegt.

Í menntmn. var einhugur um, að þörf væri fyrir nýja menntaskóla og rík ástæða til að skapa æskumönnum sem jafnasta aðstöðu til að afla sér menntaskólanáms, hvar sem þeir eru búsettir á landinu. Hins vegar hafa þessi mál verið í athugun á vegum ríkisstj. Hinn 7. marz 1963 skrifaði menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, bréf til nokkurra manna og skipaði þá í nefnd til að endurskoða gildandi laga- og reglugerðarákvæði um menntaskóla. í þessari nefnd eiga sæti Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, Þórarinn Björnsson skólameistari, Jóhann Hannesson skólameistari, dr. Broddi Jóhannesson skólastjóri og Ármann Snævarr háskólarektor.

Þar sem menntaskólamálin eru í heild í athugun af nefnd og í þeirri nefnd eiga sæti þeir menn, sem manna bezt hljóta að þekkja til þessara mála, telur meiri hl. menntmn. ekki ráðlegt að svo komnu máli að samþykkja frv. um einstakar aðgerðir í menntaskólamálum, en hefur lagt til um öll frv. þrjú, að þeim verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að gerð verði ýtarleg athugun á framtíðarþörf þjóðarinnar fyrir menntaskóla og ekkert sparað til að tryggja nægilegan skólakost á því sviði.

Hér er í raun og veru ekki um að ræða ágreining um þörf á áframhaldandi aðgerðum. En sökum þess, að málin eru í heildarathugun af n., sem skipuð var fyrir einu ári, telur meiri hl. menntmn. á þessu stigi rétt af d. að vísa frv, til ríkisstjórnarinnar í trausti þess, að málum þessum verði haldið áfram og þau leidd til skjótra lykta.