10.02.1964
Efri deild: 45. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

133. mál, sparifjársöfnun ungmenna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég álít, að hér sé hreyft mjög athyglisverðri hugmynd, sem sjálfsagt sé að taka til velviljaðrar athugunar. Hér er um að ræða tilraun í þá átt að auka sparifjársöfnun, fyrst og fremst sparifjársöfnun ungmenna. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að hér á landi er mikil þörf á aukinni sparifjársöfnun. Við þurfum hér fé til margvíslegra framkvæmda, og það fé verður í mörgum tilfellum ekki fengið með öðrum hætti en því, að sparifé sé safnað til þeirra framkvæmda. En því miður hefur ástand í efnahagsmálum verið þannig hér á landi að undanförnu, að það hefur ekki verið mjög hvetjandi fyrir menn til sparifjársöfnunar, því að sannleikurinn er sá, að þó að verðbólgan hafi farið illa með marga hér á landi, hygg ég þó, að hún hafi enga leikið verr en hina mörgu sparifjáreigendur. Ég held þess vegna og ég hef verið þeirrar skoðunar lengi, að það væri full ástæða til að gera ráðstafanir til að reyna að rétta hlut sparifjáreigenda með einhverjum hætti. Það er að sjálfsögðu gott að hvetja ungmenni til sparnaðar og mjög gagnlegt, ef það væri hægt með einhverjum hætti að koma inn þeirri skoðun hjá unglingum, að þeir ættu að safna sparifé til þess að verða betur færir um það á sínum tíma að stofna heimili, byggja sér íbúð, eignast bústofn eða önnur þau tæki, sem til þarf til þess að hefja þann atvinnurekstur, sem ungmennin ætla við að fást. En það hefur ekki blásið byrlega í því efni, því að sannleikurinn er sá, að þau ungmenni, sem lagt hafa fyrir fé og lagt það í sparisjóð, hafa verið herfilega blekkt, hafa blátt áfram, vil ég segja, verið svikin, af því að það hefur verið tekið við fé af þeim, það hefur verið lofað að ávaxta það fé og vissulega hefur það verið ávaxtað með vöxtum, en á sínum tíma, þegar sá ungi maður hefur ætlað að fara að nota þetta fé og hefur þurft á því að halda, hefur verðbólgan rýrt það að verðgildi um miklu meira en nemur þeim vöxtum, sem á það hafa þó bætzt á þessum tíma. Þetta er síi alvarlega staðreynd, sem menn verða að gera sér grein fyrir, þegar þeir eru að hvetja ungt fólk og aðra til sparnaðar og til þess að leggja í sparisjóði.

Ég er ekki í nokkrum efa um það, að eitt aðalmeinið í okkar efnahagskerfi er einmitt þetta, hvernig farið hefur verið með sparifjáreigendur. Þar er undirstaðan að mörgu því, sem verst hefur farið í okkar efnahagskerfi. Ég hef þess vegna lengi haft þá skoðun, að það þyrfti að athuga leiðir í því efni að reyna að bæta hlut sparifjáreigenda, og ég hef verið þeirrar skoðunar, að við ættum að reyna að fara inn á þá braut í miklu ríkari mæli en hér hefur átt sér stað að verðtryggja spariféð. Og ég vil í þessu sambandi leyfa mér að mínna á það, að ég bar hér fram á Alþingi 1959 till. til þál. um að láta fara fram athugun á því, hvort ekki væri tiltækilegt eða hægt að koma við verðtryggingu á sparifé. Sú þáltill. fékk því miður ekki afgreiðslu þá. Seinna, ég ætla fyrir eitthvað 2 árum eða svo, bar hv. 10. þm. Reykv. fram till. til þál. um að láta fara fram athugun á því, með hverjum hætti við yrði komið verðtryggingu á fé lífeyrissjóða, ef ég man rétt. Sú till. var samþykkt, og ég hygg, að einhver athugun hafi farið fram um það efni.

Ég held, eins og ég sagði áðan, að hér sé hreyft mjög athyglisverðri hugmynd og að það sé sjálfsagt að taka hana til mjög gaumgæfilegrar íhugunar. En ég held, að jafnframt þurfi að taka þetta mál allt, sem ég hef hér drepið á, til rækilegrar athugunar, spurninguna um verðtryggingu sparifjár, því að þetta atriði, sem þarna er um að ræða í þessu frv., er ekki nema einn lítill þáttur þess stóra máls, að vísu þáttur, sem ég skal ekki á nokkurn hátt gera lítið úr, ef það væri hægt með þessum hætti að auka áhuga ungmenna fyrir sparifjársöfnun og þannig væri gengið frá, að þau fengju þá á sínum tíma fjármuni sina til baka með nokkurn veginn óskertu verðgildi, en á því hefur verið óskaplegur misbrestur, eins og öllum er kunnugt um. Það er að sjálfsögðu svo, að það er öllum ljóst, sem tala um verðtryggingu sparifjár, hvort sem er í litlum mæli, eins og hér er gert, eða í stærri mæli, að einhverjir verða að borga og einhverjir verða að standa undir þeirri verðtryggingu. En frá mínu sjónarmiði er það kannske eitt höfuðatriðið, sem telja má sparifjártryggingu til gildis, það er einmitt þetta, að þegar slíkt skipulag væri upp tekið, þá væri kippt stoðum undan þeirri spákaupmennsku, sem hér á landi hefur því miður allt of mikið gætt að undanförnu, að menn hafa beinlínis spekúlerað í því að fá peninga til þess að koma þeim í framkvæmdir og festa þá í einhverjum fjármunum, sem fylgt hafa verðbólgunni eftir, og hafa þannig beinlínis grætt á verðbólgunni, grætt á kostnað sparifjáreigendanna, sem lagt hafa fjármunina til. Þetta er einföld og ómótmælanleg staðreynd, og hún felur í sér hróplegt ranglæti gagnvart sparifjáreigendum. En ég hygg, að það sé misskilningur, að þeir, sem sparifé eiga almennt, séu sérstakir auðmenn eða sérstaklega færir um að taka á sig töp. Ég hygg, að það sé mikill fjöldi manna og þ. á m. ungmenna, sem leggur spariféð til.

Ég vil svo aðeins að lokum benda á það, að mér finnst þetta frv. þannig úr garði gert, að það þurfi að taka það að nokkru leyti til athugunar. Ég hefði t.d. haldið, að 1. gr. væri einfaldara að orða svo, að ungmenni ættu að fá afhenta gjöf, 200 kr. innstæðu frá Seðlabanka. Ég fæ ekki betur séð en hann sé nú sá raunverulegi gefandi samkv. þessari grein, en þarna stendur, að það sé Landsbankinn, sem á að gefa þetta, en svo á Seðlabankinn að endurgreiða honum. Þetta finnst mér dálítið vafasamt fyrirkomulag og í öllu falli, ef þetta fyrirkomulag ætti að hafa, býst ég við, að hinir viðskiptabankarnir mundu ekki fella sig vel við það hagræði, sem Landsbankanum er þarna veitt, að honum er falið að gefa annarra fé. Ég býst við, að það yrðu þá allir viðskiptabankarnir að fá samsvarandi aðstöðu, aðstöðu til að gefa ungmennum þetta fé, en Seðlabankinn ætti svo að endurgreiða þeim þetta aftur. Þetta er smávægilegt formsatriði, en ég bendi aðeins á þetta.

Ég held sem sagt, að það sé vel farið, að þessu máli er hér hreyft, en ég held, að það þurfi að taka það allt, ef vel á að vera, á miklu breiðara grundvelli en hér er gert.