26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (2327)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sagði, að þessi brtt. ætti ekki heima þarna. Ég held, að hún eigi hvergi nokkurs staðar eins vel heima og þarna. Ég sé eiginlega ekki, hvar maður gæti komið henni betur fyrir. Það er verið að ákveða það, að við Íslendingar tökum þátt í samningi um, að við munum ekki gera neinar tilraunir með kjarnorkuvopn og við munum ekki heldur leyfa neinar tilraunir með kjarnorkuvopn í okkar landi, a.m.k. ekki þá nema neðanjarðar. Hvað á nú betur við, þegar maður er að taka ákvörðun um það, að maður ætli ekki að gera neinar tilraunir með kjarnorkuvopn og ekki leyfa neinar tilraunir með kjarnorkuvopn í sínu eigin landi, heldur en ákveða um leið, að maður ætli ekki að láta beita þeim hérna? Ég sé ekki betur en það sé ekkert eins skylt og þetta tvennt. Það væri nú nokkuð hart, finnst mér, ef maður ætlaði að fara að láta líta svo út, að við viljum engar tilraunir með kjarnorkuvopn hérna, a.m.k. ekki ofanjarðar, en við getum ósköp vel hugsað okkur, að til kæmi, að þeim yrði beitt hérna. Ég held, að það sé einmitt sú rökrétta afleiðing fyrir okkur af því að taka þátt í þessum samningi og fullgilda hann, að við lýsum því yfir um leið, að við munum ekki leyfa neina beitingu kjarnorkuvopna frá þessu landi eða neina staðsetningu þeirra hér. Þetta er því eðlilegra og á því betur heima sem viðbót við þessa heimild til hæstv. ríkisstj. sem hæstv. utanrrh. nú eins og áður lýsir því yfir, að kjarnorkuvopn séu ekki staðsett hérna, að það hafi ekki verið farið fram á að staðsetja þau hérna né fá aðstöðu til að beita þeim héðan. Þegar meira að segja okkar bandamenn, sem hafa her hér í landinu, hafa ekki farið fram á það, að hér væru staðsett kjarnorkuvopn, hví í ósköpunum ættum við að vera að gefa undir fótinn með það, að svo framarlega sem þessi ríki færu fram á slíkt, mundu þau ekki verða alveg örugg um afsvar? Hví í ósköpunum ættum við að láta okkur detta í hug að gefa undir fótinn með slíkt? Hæstv. utanrrh. lýsir yfir, að það hefur ekki verið farið fram á Það af þessum ríkjum, eins og Bandaríkjunum, og er þá ekki einmitt núna augnablikið til að taka af öll tvímæli, meira að segja til þess að okkar ágætu bandamenn séu ekkert að ónáða sig með það í framtíðinni að fara fram á slíkt eða reikna með neinu slíku? Það getur meira að segja verið bezt fyrir þá að vita það strax, að það komi aldrei til greina. Þeir gera þá kannske sínar ráðstafanir annars staðar, ef það yrði kjarnorkustríð.

Hæstv. utanrrh. segir, að það sé ekki hægt að segja neitt um alla framtíð. Jú, það er einmitt um alla framtíð, sem við þurfum að gefa þessa yfirlýsingu. Við þurfum einmitt að koma í veg fyrir það, að jafnvel þó að það syrti eitthvað í loftinu aftur og eitthvað kólnaði í áróðursstríðinu, Þá yrði ekki farið fram á það, að hér séu staðsett kjarnorkuvopn. Við vitum það allir saman, að staðsetning kjarnorkuvopna hér á Íslandi þýðir eingöngu að bjóða kjarnorkusprengjum heim, ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Það þýðir ekkert annað. Það dettur engum manni í hug að halda, að staðsetning kjarnorkuvopna sé nein vörn. Það er Þess vegna einmitt núna, þegar kjarnorkustórveldin sjálf hafa þó loks komið sér saman um að hætta tilraununum, þá er einmitt um að gera, að smáþjóðir eins og við og það sem allra flestar í veröldinni noti tækifærið til þess að segja við þessi stórveldi: Við viljum ekki láta staðsetja kjarnorkuvopn hér og munum aldrei leyfa það og aldrei leyfa, að þeim sé beitt frá okkar landi. — Og ef þorrinn af þjóðum heims, þeim sem ekki hafa t.d. kjarnorkuvopn, lýsir slíku yfir, er það stórkostlegt framlag af þeirra hálfu til þess að koma í veg fyrir, að kjarnorkustórveldin hyggi nokkurn tíma á kjarnorkustyrjöld. Við vitum það ákaflega vel, að bæði helztu kjarnorkustórveldin; Sovétríkin og Bandaríkin, eru svo óskaplega hikandi í þessum málum einmitt vegna þess, að þeim er kannske ljósara eða þeirra forustumönnum beggja en flestum öðrum, hve ægileg eyðilegging, hvert sjálfsmorð það væri, meira að segja fyrir þessi stóru ríki, að leggja út í slíkt. Og hvað á það þá að vera fyrir okkur, — okkur, sem höfum meiri hl. þjóðarinnar staðsettan hérna í nánd við aðalherflugvöllinn eða mitt á milli aðalflugvallarins og e.t.v. þess, sem gæti orðið eins konar flotastöð? Þess vegna finnst mér satt að segja alveg óðs manns æði af okkur að lýsa ekki yfir, einmitt nota tækifæri, þegar ofur lítið vorar, þegar ofur lítið hlýnar í þessu kalda stríði, til þess að segja: Það kemur aldrei til mála, að hér verði staðsett nein kjarnorkuvopn, — þannig að bæði þeir, sem við værum í bandalagi við, og þeir, sem væru þeirra andstæðingar, vissu af þessu og gætu reiknað með því, hvað sem gerðist í framtíðinni, að hér yrðu aldrei staðsett kjarnorkuvopn. Ég held þess vegna, svo að ég noti orð hæstv. utanrrh., hvaða atburðir sem kunna að koma fyrir í framtíðinni, hvaða atburðir sem kunna að koma fyrir, þá á það að vera skýrt, að á Íslandi verði ekki staðsett nein kjarnorkuvopn, ekki a.m.k. með leyfi Alþingis, þ.e.a.s. með leyfi þjóðarinnar, þannig að bæði vinir og óvinir í stríði, ef sú hörmung skyldi skella yfir, viti það, og ef svo færi, sem við allir erum sammála um og vonum, að ekki verði, að þessi stórveldi ættu eftir að lenda í kjarnorkustríði, og ef það vald, sem við nú erum í bandalagi við, kysi að staðsetja hér kjarnorkuvopn, sé það gert án þess, að Ísland og Íslendingar eigi þar nokkra sök á og kalli nokkra sök yfir sig með því að leyfa slíkt, þá sé það gert þannig, að það sé gert í okkar óleyfi, í okkar banni og án okkar siðferðilegu ábyrgðar. Það þýðir kannske ekki mikið upp á það, hvernig menn drepast, en viðkunnanlegra er það Þó a.m.k., ef eitthvað skyldi lifa af Íslendingum eftir úr slíkri styrjöld, að það hafi ekki verið beinlínis kallað yfir landið af forustumönnum sjálfrar þjóðarinnar, heldur hafi þetta þá verið gert af öðrum aðilum, sem við gátum ekki ráðið við.

Ég held þess vegna, að það sé einmitt núna sá rétti tími til að gefa þessa yfirlýsingu og þessi yfirlýsing eigi hvergi betur heima en sem framlag þeirrar vopnlausu íslenzku þjóðar í sambandi við þennan ánægjulega samning, sem stórveldi heimsins þarna hafa gert.