10.12.1963
Neðri deild: 28. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

69. mál, Lífeyrissjóður barnakennara

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á s.l. þingi voru samþ. lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þau fólu í sér margvíslegar endurbætur á lífeyrismálum opinberra starfsmanna. Eftir að þessi lög höfðu verið samþ., fór Samband ísl. barnakennara þess á leit, að sams konar eða svipuð endurskoðun yrði hafin á lögum um lífeyrissjóð barnakennara. Í júnílok barst fjmrn. bréf frá Sambandi ísl. barnakennara um þetta efni. Rn. fól þá þegar Guðmundi Guðmundssyni tryggingafræðingi að endurskoða lögin um lífeyrissjóð barnakennara með hliðsjón af þeim breytingum, sem gerðar voru á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og til samræmis við þau lög. Þetta verk var síðan unnið og haft samráð við stjórn lífeyrissjóðs barnakennara og Samband ísl. barnakennara. Hafa þeir aðilar báðir tjáð sig samþykka frv., eins og það nú liggur fyrir.

Um efni frv. get ég látið nægja í meginatriðum að vísa til grg. og umr. um hið fyrra mál, sem lögfest var á síðasta þingi, og til ýtarlegrar grg., sem fylgir þessu frv.

Þess má geta, að tvær eru þær meginbreytingar, sem felast í þessu frv., frá því ástandi, sem nú er. Í fyrsta lagi, að barnakennarar njóti fullra bóta og lífeyra frá almannatryggingum, sem þeir hafa ekki notið nema að nokkru leyti hingað til. Í öðru lagi, að sú 10 ára viðmiðunarregla, sem lengi hefur verið í lögum, sé afnumin. Nú er það nefnilega svo, að þegar maður lætur af starfi, skal honum ákveðinn sem lífeyrir viss hundraðshluti af meðaltali þeirra launa, sem hann hefur haft undanfarin 10 ár. Á þeim tímum verðbreytinga og launabreytinga, sem hér hafa lengi verið, hefur þetta orðið til þess að draga verulega niður þann lífeyri, sem barnakennarar, eins og aðrir opinberir starfsmenn, hafa fengið. Með þessu frv. verður hér gerbreyting á. Lífeyrir á nú að miðast við þau laun, sem starfsmaðurinn hafði, þegar hann lét af starfi. Vitanlega miðar þetta hvort tveggja að því að skapa barnakennurunum viðhlítandi lífeyri.

Það eru margvíslegar aðrar breytingar til bóta í þessu frv., varðandi barnalífeyri, makalífeyri, örorkulífeyri o. fl., sem ég skal ekki rekja hér.

Ég vil geta þess, að um þetta frv. var alger samstaða í hv. Ed. og þeirri nefnd, sem fjallaði um málið þar. Er frv. hingað komið óbreytt frá því, sem það var, þegar ríkisstj. lagði það fyrir. Ég vænti þess, að málið fái góðar undirtektir í þessari hv. d., og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.