11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (2552)

115. mál, almennur lífeyrissjóður

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Á þskj. 201 hef ég ásamt 7 öðrum þm. Framsfl. leyft mér að bera fram till. til þál. um stofnun almenns lífeyrissjóðs. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna nefnd í sameinuðu þingi með hlutfallskosningu til þess að semja frv. til l. um almennan lífeyrissjóð, sem allir landsmenn eigi kost á að tryggja sig hjá.“

Á þinginu 1957 fluttum við nokkrir framsóknarmenn till. til þál. um athugun á stofnun almenns lífeyrissjóðs fyrir alla þá landsmenn, sem ekki nytu lífeyristryggingar hjá sérstökum lífeyrissjóðum. Sú till. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga, hvort tiltækilegt sé að stofna lífeyrissjóð fyrir sjómenn, verkamenn, bændur, útvegsmenn og aðra þá, sem ekki njóta lífeyristryggingar hjá sérstökum lífeyrissjóðum.“

Þessi ályktun var samþykkt á Alþingi 31. maí 1957. Athugun samkv. þessari till. dróst því miður nokkuð. Það var ekki fyrr en 20. des. 1958, að þáv. félmrh, skipaði 5 manna nefnd til að framkvæma þá athugun, sem þáltill. fjallaði um. í nefnd þessa voru þeir menn skipaðir, sem tilgreindir eru í grg, á þskj. 201. Nefnd Þessi skilaði áliti sínu til ríkisstj. í nóv. 1960, en hafði auðvitað áður aftað sér ýmiss konar upplýsinga, þ. á m. álitsgerðar frá Guðjóni Hansen tryggingafræðingi. Þó að þetta nál. hafi enn ekki verið birt opinberlega, getur það auðvitað ekkert leyndarmál verið, allra sízt nú, eftir að svo langur tími er liðinn frá því, að n. skilaði áliti sínu, og hæstv. ríkisstj. hefur látið málið svo lengi kyrrt liggja og sýnt er, að hún muni ekki ætla að beita sér fyrir aðgerðum í þessu máli. En niðurstaða þessarar n, var í sem stytztu máli sú, að hún lagði til, að sett yrði löggjöf um almennan lífeyrissjóð, sem allir landsmenn ættu kost á að tryggja sig hjá, enda yrði um að ræða viðbótartryggingu við almannatryggingarnar. Jafnframt lagði n. til, að unnið yrði að breytingum á hinum sérstöku lífeyrissjóðum, þannig að þeir allir veittu framvegis aðeins viðbótartryggingu við almannatryggingarnar. Allir nm. voru algerlega sammála um álitið.

Þar sem þessari n. hafði aðeins verið falin athugun á því, hvort tiltækilegt væri að stofna almennan lífeyrissjóð, taldi hún ætlunarverki sínu lokið, þegar hún hafði skilað framangreindu álíti, enda óskaði ríkisstj. ekki eftir frekari aðgerðum af n. hálfu, og n. hafði ekki verið beðin að semja lagafrv. um almennan lífeyrissjóð, og hún hefur ekki heldur síðar verið til þess kvödd, enda hefur hún sem sagt fyrir löngu lokið sínu starfi og þannig verið litið á, að hún væri þar með algerlega uppleyst og ekki lengur starfandi. Og þar af er skemmst að segja, að þetta mál hefur síðan legið í algeru Þagnargildi hjá hæstv. ríkisstj. Ríkisstj. hefur ekki, svo að mér sé kunnugt um, látið undirbúa löggjöf um slíkan almennan lífeyrissjóð og hefur ekki sinnt því máli neitt, svo að vitað sé.

Það skal að vísu játað, að á því tímabili, sem liðið er frá því, að sú nefnd, sem hér um ræðir, skilaði sínu áliti í nóv. 1960, hafa átt sér stað ýmsar endurbætur á almannatryggingalögunum. Löggjöfin um það efni hefur verið endurskoðuð, bætur hafa verið hækkaðar, skerðingarákvæði hafa verið afnumin og nokkrar aðrar breytingar og lagfæringar gerðar á tryggingakerfinu. Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert. Og ég hygg, að miðað við ýmsar aðrar þjóðir séum við Íslendingar komnir alllangt í almannatryggingum. Þess má sérstaklega geta, að með tryggingalöggjöfinni frá s.1. ári er horfið að þeirri eðlilegu og skynsamlegu stefnu, að hinir sérstöku lífeyrissjóðir verði framvegis viðbótarsjóðir við almannatryggingarnar, í stað þess að hingað til hafa þeir ýmist veitt viðbótartryggingu eða komið í stað almannatrygginganna. Þrátt fyrir það, sem þannig hefur áunnizt í þessum málum, teljum við flm. þessarar till. sjálfsagt, að hafizt verði handa um setningu löggjafar um almennan lífeyrissjóð, er allir landsmenn eigi kost á að tryggja sig hjá, þ.e.a.s. að hafizt verði handa um stofnun slíks almenns lífeyrissjóðs. Þess vegna höfum við leyft okkur að flytja þessa þáltill. á þskj. 201.

Það þarf nú naumast að fjölyrða um mikilvægi lífeyrissjóðstrygginga. Flestir munu sammála um, að öflugar lífeyrissjóðstryggingar séu mjög mikilvægar, enda hefur þeim starfshópum stöðugt fjölgað, sem tryggt hafa sér lífeyri hjá sérstökum lífeyrissjóðum. Lífeyrisgreiðslur úr þessum sjóðum, hvort heldur hefur verið um að ræða ellilífeyri, örorkulífeyri, makalífeyri eða barnalífeyri, hafa verið mikil hlunnindi Þeim, er þeirra hafa notið. En auk þess hafa þessir sjóðir veitt sjóðfélögum ómetanlega aðstoð með því að veita þeim hagkvæm lán til íbúðakaupa. Það má áreiðanlega fullyrða, að án þeirra lána, sem þannig hafa verið veitt, hefði mörgum þessara manna reynzt erfitt eða jafnvel ókleift að eignast þak yfir höfuðið. En hjá þessum sjóðum hefur átt sér stað fjársöfnun, og því fé hafa þeir a.m.k. að verulegu leyti miðlað til íbúðalána. Með þeim hætti hefur starfsemi lífeyrissjóðanna orðið alveg sérstaklega gagnleg, hefur í raun réttri jafngilt eins konar skyldusparnaði, sem notaður hefur verið til íbúðabygginga eða til íbúðalána.

Um gagnsemi lífeyrissjóða verður því varla deilt. Þar segir það sem sagt sína sögu, eins og ég áðan minntist á, að æ fleiri starfsmannahópar hafa leitazt við að koma sér upp sérstökum lífeyrissjóði, ýmist með lögum eða í sambandi við kjarasamninga, og þess má t.d. geta, að á því stutta tímabili, sem liðið er frá því að þessi stjórnskipaða nefnd, sem ég hef hér minnzt á, skilaði áliti sínu í nóv. 1960, hefur sérstökum lífeyrissjóðum fjölgað mjög mikið. Það hafa margir starfsmannahópar bætzt við síðan og stofnað sinn sérstaka lífeyrissjóð. Það hefur hins vegar sína galla, að sjóðmyndanir þessar verði mjög margar eða réttara sagt, að sérstakur sjóður verði myndaður fyrir hverja starfsstétt. Hitt er óefað æskilegra, að stofnaður verði almennur lífeyrissjóður, sem allir landsmenn eigi kost á lífeyristryggingu hjá, enda er annars hætt við misrétti og að þeir verði að lokum út undan, sem að einu eða öðru leyti eru lakast settir í okkar þjóðfélagi.

Fjölgun sérsjóðanna að undanförnu, sem ég drap á, bendir til þess, hver þróunin muni verða, ef ekki er horfið að því ráði skjótlega að stofna til almenns lífeyrissjóðs. Ég býst nú satt að segja við, að það verði fáir á móti slíkum almennum lífeyrissjóði, á móti auknum tryggingum. En hitt er auðvitað, að skoðanir geta orðið mjög skiptar um það, hvernig aflað skuli fjár til þessara trygginga, og um það, hvernig þeim skuli nánar fyrir komið. Samkv. áliti hinnar stjórnskipuðu n. frá 1958 er einmitt rétt að setja löggjöf um almennan lífeyrissjóð, og þess vegna er hér gerð till. um að skipa nefnd til þess að semja frv. að slíkri löggjöf. Við samningu þvílíkrar löggjafar hljóta mörg atriði að koma til athugunar, m.a. þyrfti sjálfsagt að gera ráð fyrir nauðsynlegri deildaskiptingu, jafnvel svo, að hinar einstöku deildir hefðu algerlega aðskilinn fjárhag. Líklega væri varhugavert að ákveða þegar í stað skilyrðislausa þátttöku allra í sjóðnum, þó að á hinn bóginn sé svo ástatt um sumar stéttir, að slík skylduþátttaka sé ekki varhugaverð. Þetta var hinni stjórnskipuðu nefnd ljóst. Gerði hún því ráð fyrir, að hinn almenni lífeyrissjóður þyrfti, a.m.k. fyrst í stað, að byggja á hvoru tveggja, skyldutryggingu, þar sem hún ætti við, en frjálsri tryggingu fyrir þá þegna þjóðfélagsins, sem ekki þætti að svo stöddu fært að skuldbinda til þátttöku í sjóðnum.

Almannatryggingarnar hafa veitt öldruðu fólki og öryrkjum mikla aðstoð og í raun og veru alveg ómetanlega hjálp. Fyrir okkur flm. þessarar till. vaka ekki breytingar á almannatryggingakerfinu. Það er gert ráð fyrir því, að það haldist óbreytt eftir sem áður. Almannatryggingarnar voru reyndar upphaflega visir að almennum lífeyrissjóði, en með almannatryggingalögunum 1946 var horfið frá sjóðsmyndun og að niðurjöfnun. Ástæðan var sú, að vegna óstöðugs gengis og verðgildisrýrnunar peninga þótti ekki líklegt, að hinir tryggðu gætu fengið viðunandi bætur úr sjóðnum. Þó að margir hefðu sjálfsagt kosið, að hægt hefði verið að halda áfram tryggingu á grundvelli sjóðsmyndunar, þá sýnist við núverandi aðstæður óhjákvæmilegt að byggja á almannatryggingakerfinu í núverandi mynd sem grundvelli. Hinum almenna lífeyrissjóði er því ekki ætlað að koma í stað almannatrygginganna, heldur er honum ætlað að veita viðbótartryggingu. En með hinum nýju tryggingalögum er einmitt, eins og ég hef áður sagt, horfið að þeirri eðlilegu stefnu, að hinir sérstöku lífeyrissjóðir verði framvegis viðbótarsjóðir við almannatryggingarnar. Með hinum almenna lífeyrissjóði viljum við flm. þessarar till. stefna að því, að allir landsmenn fái þá aðstöðu, sem þeir einir hafa nú, er tryggingar njóta í sérsjóðum. Sú viðbótartrygging, sem hinum almenna lífeyrissjóði er þannig ætlað að veita, á að grundvallast á sjóðssöfnun. Slik sjóðssöfnun er sérstaklega æskileg eða nauðsynleg til þess að standa undir íbúðalánaþörfinni. Ég held, að fyrir lánaþörf íbúðabyggjenda og þá alveg sérstaklega unga fólksins, sem þarf að byggja yfir sig, verði ekki betur séð með öðrum hætti en þessum, að draga saman einmitt þannig fé til þess að lána til íbúðabygginganna. En það er alkunna, hve húsnæðislánakerfið er fjárvana miðað við þá þörf, sem er á lánsfé til íbúðabygginga, og það er alkunna, hver vandkvæði eru á því að fá lán til íbúðabygginga nú með skaplegum kjörum. É:g held, að með stofnun almenns lífeyrissjóðs, almenns lífeyrisviðbótarsjóðs, að unnt að gera tvennt í senn, efla auknar tryggingar og bæta að verulegu leyti úr lánaþörf íbúðabyggjenda.

Í sambandi við slíka sjóðsstofnun sem þessa hlýtur sú spurning að vakna, hvort ekki sé unnt og hvort ekki sé nauðsynlegt að verðtryggja sjóðinn. í því sambandi vil ég aðeins minna á það, að 11. apríl 1962 var samþykkt hér á Alþingi þál., þar sem skorað var á ríkisstj. að framkvæma eða láta framkvæma eða láta athuga, hvernig framkvæma mætti verðtryggingu lífeyrissjóða, og jafnframt ákveðið, að niðurstaða þeirrar athugunar skyldi lögð fyrir Alþingi. Það mun hafa verið hv. 10. þm. Reykv., sem flutti þessa þáltill. á sínum tíma. Ég hygg, að athugun sú, sem greinir í þeirri þál., hafi að nokkru leyti farið fram eða það hafi verið skilað álitsgerð um það efni. Hins vegar hefur ekki niðurstaða þeirrar athugunar verið lögð fyrir Alþingi enn, svo að mér sé kunnugt. En þetta mál, spurninguna um það, hvort ekki sé hægt að koma við verðtryggingu á þessum sjóði, verður sú nefnd, sem gert er ráð fyrir að semji frv. till. um sjóðinn, einmitt að taka til sérstakrar athugunar að mínum dómi.

Herra forseti. Ég skal svo ekki fjölyrða mjög um þetta. Ég vil aðeins geta þess, að ég hygg, að sú nefnd, sem fær þetta hlutverk, að semja frv. til l. um þetta efni, geti ýmsa lærdóma dregið af Svíum í þessu efni. Þeir hafa komið á hjá sér fullkominni heildarlöggjöf um þessi efni. Sú nýja heildarlöggjöf um það efni var sett á árinu 1962 og öðlaðist einmitt gildi 1. jan. 1963. Ég efast ekki um, að það megi ýmsar gagnlegar upplýsingar fá í þeirri löggjöf og af þeirri athugun og ýmislegt megi læra af þeirri athugun, sem þar í landi fór fram. Og þá má einnig nefna það, að norska ríkisstj. hefur einmitt heitið því að beita sér fyrir stofnun almennra lífeyristrygginga, og það má vænta þess, að till. frá hennar hendi muni bráðlega koma fram um það efni. Og þá er einnig líklegt, að það megi að einhverju leyti hafa hliðsjón af þeim till. við setningu löggjafar hér á landi.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og fjvn.