06.11.1963
Sameinað þing: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (2721)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í þeim löngu umr.; sem undanfarna daga hafa staðið yfir um frv. til l. um launamál o.fl., hefur verið deilt um margt. Því athyglisverðara er, að allir hafa verið sammála um tvö meginatriði: annars vegar, að bæta þurfi kjör þeirra, sem verst eru settir, þ. á m. hinna lægst launuðu, hins vegar, að þessu verði ekki náð nema fyrir atbeina ríkisvaldsins.

Um orsakir þessa má margt segja, og að sjálfsögðu skýra hv. þm. þær með ólíkum hætti, hver út frá sínu sjónarmiði. En um niðurstöðuna er ekki deilt né er unnt að deila. Einkanlega hafa hv. Alþb: menn þrástagazt á tölum, sem sýna eiga, að kjörum hinna lægst launuðu hafi hrakað ár frá ári. í þeim tölum, ef réttar væru, felst harður áfellisdómur yfir árangri kjarabaráttunar, sem þeir hafa sjálfir beitt sér fyrir. Nú segja bær að vísu ekki nema hálfan sannleikann eða ekki það, því að sem betur fer blasir það við öllum, að Íslendingar í heild og Þar með hinir lakast settu njóta nú betri lífskjara en nokkru sinni fyrr.

Engu að síður hljóta ýmsir of lítinn hlut í okkar landi. Kemur þá hvort tveggja til, að hlutur þeirra er svo lítill, að þeir eiga erfitt um afkomu, og hann er í ósamræmi við hlut annarra. Þessi staðreynd er aðeins brot þess vítahrings, sem kröfugerðarkapphlaup og víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags hafa skapað hér síðustu áratugina. Of naumur hlutur hinna verst launuðu er öruggasta sönnunin fyrir því, að finna verður nýjar leiðir til kjarabóta. Það eru bein fjörráð við hina verst launuðu að etja þeim æ ofan í æ fyrstum á vaðið, láta þá standa lengi í harðri baráttu, en skilja ætíð við þá hlutfallslega verr setta en áður, eftir að hringferðinni er lokið.

Nú eftir uppkvaðningu kjaradóms er enn frekar en áður vitnað til lakrar stöðu þeirra verst settu, miðað við hina, sem hafa fengið bætur, sumir miklar. Lögin um kjaradóm voru sett mótatkvæðalaust á Alþingi. Þm. Alþb. munu raunar hafa setið hjá við lokaafgreiðslu málsins, a.m.k. sumir. En sú hjáseta spratt af því, að þeir töldu lögin ekki ganga nógu langt í réttindaveizlum til opinberra starfsmanna. Raunin varð og sú, að bæði hv. Alþb. menn og framsóknarmenn studdu ákaft miklu frekari kröfugerð opinberra starfsmanna en kjaradómur þó ákvað þeim að lokum. Á s.l. vori töldu málsvarar beggja þessara flokka sanngjarnt, að þeir launaflokkar, sem kjaradómur ákvað innan við 20 þús. kr., skyldu fá 33 þús. Þá var ríkisstj. skömmuð blóðugum skömmum fyrir það, sem þessir herrar þá kölluðu „smánarboð“ og að vísu var meira en helmingi lægra en stjórnarandstæðingar þá heimtuðu og mun lægra en kjaradómur úrskurðaði.

Nú segja stjórnarandstæðingar, að hækka þurfi almennt kaupgjald til samræmis við hækkanir til opinberra starfsmanna. Þá er tvennu gleymt. í fyrsta lagi, að samkv. 20. gr. kjaradómslaganna ber kjaradómi að miða ákvörðun sína við annað kaupgjald í landinu. Í öðru lagi og það sker úr, að opinberir starfsmenn eiga samkv. 7. gr. sömu laga rétt á hlutfallslegum hækkunum til sin, ef almennt kaupgjald í landinu hækkar verulega. Það er því furðuleg blekking, þegar sömu mennirnir, sem heimtuðu opinberum starfsmönnum meiri rétt og launahækkanir, einkanlega til þeirra hæst launuðu, þykjast nú ætla að bæta úr ákomnu ósamræmi með almennri og verulegri kaupgjaldshækkun, sem að óbreyttum lögum yrði enn til að spenna upp laun hinna hæst launuðu, en mundi engu breyta um ósamræmið, sem býsnazt er yfir.

Sama máli gegnir og um verð landbúnaðarvöru. Ef almenn kaupgjaldshækkun verður, á hún að hækka sjálfkrafa. Það getur því engum dulizt, að ekki muni líða á löngu, þangað til höggvið verður verulegt skarð í þá hækkun, sem hinir lægst launuðu mundu hljóta, ef hún verður veitt í formi venjulegra, almennra kauphækkana.

Kaupgjald hlutarsjómanna fer eftir fiskverði, sem ákveðið er samkv. lögum um verðlagsráð sjávarútvegsins frá 1961. Ef ekki næst um það samkomulag, er verðið úrskurðað af þar til settri yfirnefnd. Verði almenn kaupgjaldshækkun, og í umr. á Alþingi hefur sérstaklega verið rætt um, að bæta þyrfti kaup starfsfólks í hraðfrystihúsum og það hefur einnig komið fram hér í kvöld, þá mundi það leiða til aukins tilkostnaðar og þar með lækkunar fiskverðs, bæði til sjómanna og útgerðarmanna. Fáir munu trúa, að slik lækkun sé nú framkvæmanleg. Hitt mundi sönnu nær, að sjómenn ætlist til sambærilegra hækkana við aðrar stéttir.

Dæmi þeirra stétta, sem ég hef nú talið, sýna, hvernig kaupgjaldsmálin eru samantvinnuð og hvílík áhrif hækkun til eins hóps hefur á kjör annarra. Víst er, að þeir, sem mest hafa á móti afskiptum löggjafarvaldsins af sínum málum, eiga erfitt með að telja hina hafa tryggt sér betri rétt, sem undirgengizt hafa lögþvingun með þeim hætti, er ég hef nú rakið. Sanni er nær, að þeir verst settu í þjóðfélaginu þurfi að leita til ríkisvaldsins í því skyni að fá sinn hlut bættan til samræmis við það, sem þær stéttir, er ég áður taldi, hafa begar áunnið sér í skjóli hinnar margsvívirtu lögþvingunar. Þetta er einmitt það, sem er að gerast.

Önnur höfuðstaðreyndin, sem öllum kom saman um í umr. í Nd. á undanförnum dögum, er einmitt þessi, að hlutur hinna verst settu verði ekki leiðréttur nema með atbeina ríkisvaldsins.

Löggjöfin um kjör þeirra þriggja stétta, sem ég áður vitnaði til, hlýtur mjög að styðja þessa skoðun. Eðli samtaka verkamanna og vinnuveitenda leiðir til hins sama.

Það er rétt, sem einn nánasti trúnaðarmaður vinstri stjórnarinnar, helzti hagfræðingur Alþb., segir í Frjálsri þjóð hinn 2. nóv. s.l. , orðrétt:

„Verðþensla hérlendis er að mestu leyti af völdum hækkunar launa og kostnaðar og launabaráttan er að miklu leyti háð um hlutfallsleg laun.“

Þess vegna vill hann láta rannsaka, „hvort launþegasamtökin geti komið sér saman um launahlutföll, þannig að launahækkanir starfsstétta haldist í hendur og verði síðar e.t.v. tengdar stærð þjóðartekna.“

Þetta er vissulega mjög athyglisverð lýsing á sjálfum kjarna málsins.

Á sínum tíma óskaði ríkisstj. eftir samstarfi við stjórn Alþýðusambandsins til að tryggja hinum lægst launuðu kjarabætur, er rynnu til þeirra einna, færu ekki til allra stétta og yrðu þar með að engu. Alþýðusambandsstjórnin svaraði því þá, að til þessa hefði hún ekkert vald. Hvert einstakt félag hefði samningsrétt fyrir sig. Vafalaust var þetta svar formlega rétt, en víst virtist það lýsa helzt til miklum kaldranahætti og áhugaleysi um kjör þeirra , sem við minnstan hlut eiga að búa. Valdaleysi Alþýðusambandsstjórnar í þessum efnum er þó hennar afsökun, og viðbúið er, að það haldist, þangað til tryggðir eru öruggari lýðræðishættir innan samtakanna en nú gilda. En því miður virðist Alþýðusambandsstjórn auðveldara að efna til glundroða en verða a.m.k. sínum verst settu félagsmönnum að raunhæfu gagni.

Og ekki tryggja samtök vinnuveitenda samræmi í samningsgerð. Auk sjálfs Vinnuveitendasambandsins eru mörg sjálfstæð samtök atvinnurekenda, svo sem Landssamband ísl. útvegsmanna, Félag ísl. iðnrekenda, margskipt félag verzlunarrekenda, S.Í.S. og undirdeildir þess ásamt ýmsum fleirum. Hvert sem litið er, býður því sjálft skipulag þessara mála upp á stöðugt kapphlaup og togstreitu, sem endað hefur með því, að kjör hinna verst launuðu hafa verið fyrir borð borin. Segja má, að það hafi verið bjartsýni um of af núv. ríkisstj. að svo vöxnu máli að lýsa því í upphafi yfir, að hún vildi láta launamál afskiptalaus til úrlausnar samtökum launþega og atvinnurekenda, enda komst hún ekki hjá því á síðasta kjörtímabilt að hafa af þessum málum margháttuð afskipti, eins og andstæðingar hennar hér á þingi þá oft vitnuðu til. Af hálfu ríkisstj. voru og gefnar ótal yfirlýsingar um, að breyta þyrfti um stefnu og aðferðir í launamálum og baráttu, ef ekki ætti illa að fara.

Og þegar í óefni var komið á s.l. sumri, beitti ríkisstj. sér fyrir þjóðhátíðarsamkomulaginu um 71/2% kauphækkun gegn því, að aðilar hæfu samstarf til könnunar á því , hversu mikil kauphækkun megi verða, til þess að hún komi að gagni fyrir launþega. Samningar voru þá einungis gerðir til 15. okt., og var við það miðað, að kjararannsóknanefnd hefði þá unnizt tími til að leggja verulega til mála. Sumir segja, að ríkisstj. hefði fyrr átt að láta þessi mái til sín taka, m.a. hv. þm. Eðvarð Sigurðsson nú áðan, vegna þess að vitað hafi verið, að samningar yrðu lausir um miðjan október. En hver grundvöllur var fyrir íhlutun ríkisstj., fyrr en landbúnaðarvöruverð hafði verið ákveðið og kjararannsóknanefnd látíð uppi sitt álit, sú stofnun, sem aðilar höfðu sett upp til að kanna sjálfa undirstöðuna, sem allt hvílir á? Það var ekki fyrr en eftir að þing var komið saman, að n. tilkynnti, að engrar heildarálitsgerðar vært frá henni að vænta í bili, starfstími hennar hafi reynzt of skammur. En í stað þess að doka við settu helztu launþegafélög jafnskjótt fram sínar kröfur, sem atvinnurekendur svöruðu með yfirlýsingu um, að þeir gætu engar hækkanir samþykkt, og hraðfrystihúsin sögðu sér ómögulegt að greiða jafnhátt kaup og nú, hvað þá hærra, nema með sérstökum ráðstöfunum ríkisvaldsins.

Hugsanlegt er, að einstakir launþegahópar hefðu umsvifalaust getað knúið fram hækkanir sér til handa. Ekki á það þó við verzlunarmenn. Þeir höfðu staðið í langvinnum samningum, og viðsemjendur þeirra lýstu yfir því afdráttarlaust, að þeim væri ekki unnt að fallast á hækkun, nema sjálfir fengju þeir hækkun á álagningu. Því líkri hækkun var hins vegar mótmælt af launþegasamtökum. Mál þeirra var þess vegna í algerri sjálfheldu. Og hver treystir sér til að halda því fram, að ef aðrir, sem sterkari aðstöðu höfðu, hefðu fengið kröfum sínum fullnægt, værum við nær því að geta rétt hlut hinna verst settu, sem allir segjast bera fyrir brjósti?

Nei, allt er málið þannig vaxið, að afskipti ríkisins eru óumflýjanleg, hvort sem mönnum líkar þau betur eða verr, enda hefur enginn alþm. um málið talað án þess að láta þá skoðun uppi, svo að ég hafi heyrt. Um hitt er ágreiningur, hver afskipti ríkisins eigi að vera.

Framsóknarmenn telja líklegustu úrræðin vera þau, sem óhjákvæmilega mundu auka þá verðþenslu, sem allir viðurkenna Í öðru orðinu. að umfram allt þurfi að eyða. Alþb. menn vilja nota tækifærið til aukningar á margháttaðri ríkisforsjá og bindingar viðskipta okkar við löndin austan járntjalds í enn ríkari mæli en nú. Báðir leggja þessir flokkar höfuðáherzlu á að hrekja ríkisstj. frá völdum.

Enginn véfengir rétt hv. stjórnarandstæðinga til að koma þessum áhugamálum sínum fram með lýðræðíslegum hætti. En lausn þess vanda, sem nú er við að etja, væri enn fjær, ef þvílíkar ráðagerðir næðu fram að ganga. Aðsúgur að alþingishúsi, hávaði og grjótkast bæta ekki hætishót úr því öngþveiti, sem launamálin hafa komizt í fyrir áratuga öfugþróun. Úr því öngþveiti bætir ekki heldur sannleiksást síðasta hv. ræðumanns, Ragnars Arnalds, sem mátti marka af frásögn hans af grjótkastinu á alþingishúsið, eftir að Hannibal Valdimarsson hafði stefnt mannsöfnuði hingað að því húsi, sem byggt var sem tákn um fyrsta sigur Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni.

Það er skiljanlegt, að félagsmönnum launþegasamtakanna sé annt um rétt þeirra til samninga og vinnustöðvana. Þann rétt má ekki skerða nema af ríkri nauðsyn, þó að allir flokkar hafi talið sig til þess knúða öðru hverju og sumir oft á síðasta aldarfjórðungi. Við heyrðum það áðan, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson reyndi nú að afsaka kaupfestingarlög sín 1956 með samþykki verkalýðsfélaganna á þeirri lagasetningu. En hvað sagði hv. þm. þá? Ég hef hér fyrir framan mig eintak af Vinnunni, gefið út í sept.-okt. 1956. Þar skrifar Hannibal Valdimarsson, og fögur mynd af honum prýðir greinina. Hann segir:

„Tvennt hefur aðallega verið notað til að tortryggja Þessa ráðstöfun stjórnarinnar: 1) Hvers vegna lét forseti Alþýðusambandsins ekki ræða þetta mál á fundum í verkalýðsfélögunum, áður en lögin voru sett? — og 2) Hvers vegna voru lögin sett rétt áður en verkafólk átti að fá 6 stiga kauphækkun? Um þessi tvö atriði má enginn misskilningur ríkja í verkalýðsfélögunum. Þess vegna vil ég gera það að aðalefni þessa bréfs að skýra þessi tvö atriði. Hver sem hugsar málið mun fljótlega komast að þeirri niðurstöðu, að umr. á almennum fundum um málið langan tíma, áður en lögin voru sett, hefðu áreiðanlega vakið æðisgengna tilhneigingu til að hækka sem fljótast það verðlag, sem miða skyldi við næstu 4 mánuði. Þegar binda átti vísitöluna, hefðu allar slíkar verðhækkanir verið á kostnað launafólksins í landinu, en beinn gróðavegur fyrir milliliðina. Það var því lífsspursmál fyrir hagsmuni vinnandi fólks, að engin vitneskja bærist um, hvað til stæði, fyrr en lögin væru gengin í gildi.“

Hv. þm. segir, að það hafi verið lífsspursmál fyrir hagsmuni vinnandi fólks, að ekki væri leitað til verkalýðsfélaganna, ekki einungis, að þau væru ekki beðin um samþykki, heldur að mátíð fékkst ekki rætt í einu einasta verkalýðsfélagi í landinu. Ef það hefði verið gert, þá var það að sögn hv. þm. hættulegt — lífshættulegt fyrir verkafólkið sjálft. Þannig lýsir lýðræðisást þessa hv. þm. sér í framkvæmd.

Nú, þegar jafnt sjálfir forvígismenn launþegasamtakanna og allir aðrir viðurkenna, að vandi þeirra verði ekki leystur nema fyrir atbeina og forgöngu ríkisvaldsins, þá er óhjákvæmilegt, að Alþingi og ríkisstj. ætli sér nokkurt tóm til eðlilegrar málsmeðferðar. Í öðrum löndum, þar sem enginn ber þó brigður á verkfallsrétt, tíðkast, að ríkisvaldinu er heimilt að skjóta vinnustöðvunum á frest, í Bandaríkjunum t.d. um 80 daga, til þess að aðilar geti áttað sig á öllum atvikum málsins. Slíkt á auðvitað ekki síður við. þegar aðilar geta samkv. eigin yfirlýsingum ekki sjálfir leyst mesta vandann, kjarabætur til hinna verst settu, heldur krefjast lausnar hans af ríkisvaldinu.

Á s.l. sumri lýsti rúmur meiri hl. kjósenda, nær 56%. Yfir trausti sínu á núv. ríkisstj., og er það ótvíræðari traustsyfirlýsing en nokkur íslenzk ríkisstj. hefur fyrr eða síðar hlotið hjá kjósendum. Fyrir kosningar var sízt þagað um þann vanda, sem glundroðinn í launamálum færði yfir þjóðina. Ég skal einungis vitna því til sönnunar til orða, sem viðhöfð voru ýmist í alþjóðaráheyrn, svo að allur landslýður átti kost á að hlusta, eða beint var til sjálfs Alþýðusambandsins, svo að andstæðingar geta ekki látið svo sem þessi ummæli hafi fram hjá sér farið.

Í áramótaræðu, sem ég hélt 1961 í útvarpið, ræddi ég ýtarlega um launamálaöngþveitið og sagði m.a.: „Við verðum fordómalaust að leita nýrra leiða“, útskýrði það síðan með nokkuð löngu máli, en aðalatriðið var það, að launahækkanir yrðu að vera byggðar á aukinni framleiðslu og ýmsum öðrum ráðstöfunum.

Og í bréfi ríkisstj. hinn 10. apríl 1962 til Alþýðusambandsins segir um 4% launahækkun, sem þá var ákveðin, orðrétt:

„Hún getur að mestu leyti orðið til kjarabóta, en sérhver almenn launahækkun umfram hana hlýtur að leiða til verðbólgu, sem er launþegum jafnskaðleg og hún er þjóðfélaginu öllu.“

Þetta er orðrétt tekið úr bréfi til Alþýðusambandsins frá ríkisstj. 10. apríl 1962. Jafnframt lýsti ríkisstj. vilja sínum til að greiða fyrir meiri hækkunum en þessu nam til hinna lægst launuðu. En þessu vildi Alþýðusambandsstjórnin alls ekki sinna.

Og víst er, að ekki höfðu áróðursmenn andstæðinganna fyrir kosningar gleymt þessum orðum í síðustu áramótaræðu Ólafs Thors:

„Takist ekki að sigrast á verðbólgunni, gleypir hún fyrr eða siðar ávexti þess, sem bezt hefur tekizt. Er þá unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir höndum“

Þessar tilvitnanir sýna, að kjósendum hafði fyrir kosningar verið gerð full grein fyrir einmitt þeim vandamálum, sem nú er við að stríða. Kjósendur ætlast til þess samkv. úrskurði sínum, að þessi vandi verði leystur í samræmi við þá heildarstefnu stjórnarinnar, sem þeir óskuðu eftir, að áfram yrði fylgt. Íslendingar vilja, að löggjafarvaldið sé í höndum Alþingis þjóðarinnar, en ekki götunnar. Þetta er öllum hollast að gera sér ljóst.

Jafnvíst er, að bæði ríkisstj, og Alþingi vilja hafa gott samstarf við samtök launþega og þá ekki sízt verkalýðshreyfinguna. Ætlunin er að fá tóm til þess m.a. að kanna til hlítar möguleika á heildarsamningum verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda með það óhagganlega markmið fyrir augum, að hinum verst settu verði veittar raunhæfar kjarabætur.

Eitt ráðið til að tryggja þær til frambúðar er að semja um kerfisbundið starfsmat, sem nái til allra stétta, líka til opinberra starfsmanna. En eru þetta ekki innantóm orð, mælt einungis til þess að geta komið fram kúgunarlögum, sem svo eru kölluð? Ef hér væri um auðveldan og skjótleystan vanda að fjalla, mundi hann fyrir löngu hafa verið leystur: Til þess hefur menn ekki skort velvild. En ástæðan til þess, að það hefur ekki tekizt, er, hversu vandamálið er flókið og erfitt viðureignar, eins og reynslan nógsamlega sannar. Allir viðurkenna, að kjararannsóknanefnd sé líkleg til að geta veitt margháttaðar upplýsingar, sem að gagni koma, sumar nú þegar eða skjótlega, aðrar væntanlega síðar. Með launamálalögunum er ekki ætlunin að svinta menn þeim yfirborgunum, sem þegar eru tíðkaðar. Hitt er ærið athugunarefni, í hve ríkum mæli hægt er að láta alla njóta þeirra hækkana, sem í þeim eru fólgnar. Víst er, að með vinnuhagræðingu, breyttum vinnutíma og ákvæðisvinnu er hægt að ná miklum árangri. Það hefur þegar tekizt á fjölmörgum vinnustöðum, og knýja verður aðra atvinnurekendur til þess að taka upp þær aðferðir, sem bezt hafa gefizt. Samstarfsnefndir verkamanna og atvinnurekenda hafa gefizt vel í öðrum löndum, m.a. til þess að bæta aðbúnað og starfshætti. Af hverju má ekki reyna slíkt samstarf hér? Víða er eftirvinna og næturvinna óhjákvæmileg, en allir viðurkenna, að vinnutími sé of langur. Er nauðsynlegt að haga launatöxtum svo, að þeir beinlínis hvetji til eftir- eða næturvinnu? Mundi ekki geta komið til álita, þar sem slíkt á við, að taka upp vaktavinnu, sem tryggði mönnum lífvænlegt kaup fyrir hóftegan vinnutíma? Slíkt sýnist horfa öllum til hagsældar.

Nýting tækni, þekkingar og vísinda er mun öruggari undirstaða kjarabóta en ófrjótt kröfugerðarkapphlaup. Léttir til handa hinum verst settu með lækkun skatta og útsvara ásamt auknum tryggingabótum veitir þeim raunhæfa kjarabót, en leiðir ekki til almennra verðhækkana.

Svo mætti lengur telja. Aðalatriðið er, að menn gefi sér nú tóm til rólegrar íhugunar á, hvernig komast megi úr hinum áratuga gamla vítahring, sem launamál okkar hafa lagzt í. Fullkomið öfugmæli er, að ákvörðun Alþingis um tveggja mánaða hlé sé stríðsyfirlýsing í garð verkalýðsins. Því líkar fullyrðingar eru studdar með því , að fyrirhugað sé að lögfesta kaupbindingu um 2 ára skeið. Til slíks þyrfti nýja löggjöf, og er vissulega nægur tími til þess að snúast gegn henni og reyna að brjóta hana niður, ef frv. um hana yrði fram borið. Öruggt ráð til að koma í veg fyrir það er að nota tímann nú til að ná viðunandi samningum. Verkalýðshreyfingunni er ekki meiri ógreiði gerður en að forustumenn hennar vilji nú velja kost ófriðar og illinda. Þeir hafa í hendi sér sterkt vopn, sem þeir geta beitt bæði til góðs og ills. Aldrei hefur meira legið við, bæði fyrir umbjóðendur þeirra og þjóðarheildina, að þeir velji hinn betri kost. Nægur tími er að grípa til hins verra, ef nægum hagsbótum verður ekki náð með hinu betra. Jafnvel hv. þm. Hannibal Valdimarsson viðurkenndi í Nd., að ef Alþýðusambandinu tækist að eyðileggja framkvæmd þessara laga, mundi af því leiða margháttaða óvissu og glundroða. En ef hann og félagar hans sjá slíkan ófagnað fyrir, af hverju hóta þeir þá að hafna samkomulagstilraunum við ríkisstj.? Af hennar hálfu og Alþingis skortir ekki samstarfsvilja, enda veitti þjóðin Þeim traust sitt, af því að hún taldi forsjá málefna sinna bezt komið í höndum núv. stjórnarflokka. — Góða nótt.