06.11.1963
Sameinað þing: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (2724)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Till. sú, sem hér er til umr., er um það eitt, að Alþingi lýsi vantrausti á ríkisstj. Till. er fram borin af Alþb. og Framsfl., eða a.m.k. Eysteinn Jónsson fyrir hans hönd hefur lýst yfir stuðningi við till. Báðir flokkarnir, sem standa á þennan hátt að vantraustinu, óskuðu þess, að útvarpsumr. í kvöld og annað kvöld færu fram, áður en Alþingi lyki við að afgreiða frv. um launamál o.fl., sem nú er til meðferðar Í Ed., og urðu stjórnarflokkarnir við þeirri ósk. Umrætt frv. er þannig yfirlýst sérstakt tilefni til vantrauststill., og mun ég því nota ræðutíma minn til Þess að gera grein fyrir, hvers vegna ég greiði atkv. gegn vantraustinu og hvers vegna ég styð frv. um launamál o.fl.

Núv. stjórnarflokkar hafa starfað saman síðan haustíð 1958. Þá hafði borið að höndum mikinn og torleystan vanda í efnahagslífi þjóðarinnar, sem flokkarnir hafa síðan leitazt við að leysa í ágætu samstarfi, og hafa þeir jafnframt lagt til hliðar deilur um ýmis stefnumál. Þessi vinnubrögð hafa borið mikinn og góðan árangur, og á siðasta kjörtímabili var það tvímælalaust styrkur stjórnarflokkanna, að þeir gerðu sér far um að segja þjóðinni satt og rétt frá ástandinu og gerðu þær ráðstafanir, sem með þurfti, jafnvel þótt sumar þeirra væru ekki til þess fallnar að afla flokkunum vinsælda í bili. Nú hefur á ný borið að höndum talsverðan vanda í efnahagsmálum þjóðarinnar, vanda, sem er þó engan veginn jafntorveldur úrlausnar og þeir erfiðleikar, sem við þurfti að fást á haustnóttum 1958 og 1959, og það væri vissulega mikið dómgreindarleysi, ef nú væri hlaupið frá öllu saman í fáti.

Stuðningsmenn vinstri stjórnarinnar urðu á sínum tíma fyrir miklum vonbrigðum með viðskilnað hennar, Þegar fátið var svo mikið, að þáv. forsrh., Hermann Jónasson, hljóp frá án þess að láta á það reyna á sjálfu Alþingi, hvort samstaða fengist um einhver úrræði. Slík vinnubrögð eru til varnaðar, en ekki til fyrirmyndar, og sá stóri hópur kjósenda, sem vottaði stjórnarstefnunni traust í nýafstöðnum kosningum til Alþingis, ætlast áreiðanlega ekki til þess, að nú verði stefnt til stjórnarkreppu og e.t.v. nýrra kosninga, eins og að er stefnt af flm. vantrauststill. Slíkt mundi engan vanda leysa og að líkindum auka á erfiðleikana, sem fyrir eru. Þeir eru talsverðir, það skal ekki undan dregið, og stjórnarflokkarnir hafa ekki enn þá lagt fram till. um úrræði sín, nema í frv. um launamál o.fl., sem er í fyrsta lagi um það að stöðva Í bili þá óheillavænlegu þróun verðlags- og kaupgjaldsmála, sem mundi, ef hún fengi að halda áfram hömlulaust, leiða til nýrrar gengisfellingar, og í öðru lagi um það að veita stjórnarflokkunum frest til áramóta til þess að vinna að lausn vandans til lengri tíma.

Verðbólguvandamálið er margslungið og yfirgripsmikið, og það þarf margt að athuga og rannsaka, áður en hægt er að móta raunhæfar till., sem líklegar séu til árangurs, og fresturinn, sem ríkisstj. hefur farið fram á, er vissulega ekki langur. Það hefur einnig komið fram, að forustumenn launþegasamtakanna, sem hæstv. forsrh. ræddi við um þessi mál, hafi sýnt skilning á því, að nokkurt tóm þyrfti til undirbúnings, og léð máls á að veita allt að hálfs mánaðar frest með aðgerðir launþegasamtakanna í kjaramálum. Þannig er ekki um verulegan ágreining að ræða að þessu leyti. Og annað atriði, sem sýnir, að stjórnarandstaðan viðurkennir Í reynd, að meira svigrúm þarf til undirbúningsstarfa, er það, að hvorugur stjórnarandstöðuflokkurinn hefur lagt fram neinar rökstuddar og raunhæfar till. til lausnar vandamálanna, þótt eðlilegt hefði verið og sjálfsagt, að slíkar till. fylgdu vantraustinu af þeirra hálfu. Vantrauststill. segir þess vegna það eitt, að stuðningsmenn hennar vilja fyrir hvern mun komast til valda án þess að láta nokkuð uppskátt um, hvernig þeir ætli að nota völdin. Að þessu leyti eiga báðir stjórnarandstöðuflokkarnir sammerkt, en eins og málin ber að, kemur enn einu sinni í ljós ósjálfstæði Framsóknar gagnvart kommúnistum eða svokölluðu Alþb.

Framsókn gat vissulega markað sér sjálfstæða stefnu í þessu máli, t.d. með því að segja: Við biðum átekta með vantraust, þangað til þær till., sem stjórnarflokkarnir boða fyrir áramót, liggja fyrir. — En þessu er ekki að heilsa. Framsókn gerist í þessu máli attaníoss kommúnista, eins og hún hefur verið í landhelgismálinu og varnarmálunum hér á Alþingi, og er það í beinu framhaldi af samfylkingu hennar og kommúnista í verkalýðshreyfingunni. Fylgispekt Framsóknar við kommúnista er þannig orðin eins og óbreytanlegt náttúrulögmál, svo að ég noti það orð, sem Eysteinn Jónsson notaði í sinni ræðu áðan, og hvorugur þessara bræðraflokka hefur neitt fram að færa annað en vantrauststill, eina saman. Hún leysir engan vanda, og þess vegna er ég á móti henni.

Áður en ég kem að því að ræða nánar um frv. um launa- og verðlagsbindingu, vil ég fara fáeinum orðum um þá atburði, sem hér gerðust s. l. mánudag í tilefni af því, hvernig Ragnar Arnalds leyfði sér að snúa við staðreyndum um það efni í ræðu sinni áðan. Hannibal Valdimarsson, fundarstjóri útifundarins á Lækjartorgi, tjáði mér, um leið og hann boðaði komu sína til alþingishússins með ályktun fundarins, að hann mundi leggja til, að fundurinn kæmi allur skipulega hingað að húsinu, fremur en að þeir æstustu hópuðust hingað skipulagslaust, eins og hann orðaði það. Það sýndi sig svo, að fundarboðendur höfðu enga stjórn á mannfjöldanum, sem fylgdi þeim inn á Austurvöll, með þeim afleiðingum, sem alþjóð eru kunnar. Glerbrotum og steinhnullungum rigndi yfir alþm. og starfsfólk þingsins, og var mesta mildi, að ekki hlutust slys af, og sést af þessu, hversu ósvífinn málflutningur Ragnars Arnalds var. Fundarboðendur bera fyllstu ábyrgð á þessum atburði. En vart verður því trúað, að þeir bæti mikið sinn málstað meðal þjóðarinnar með slíku háttalagi. Þjóðin vill, að við byggjum þetta land með lögum, og til þess að það sé hægt, verður hún að halda friðinn innbyrðis, jafnvei þótt sumum líki ekki alls kostar þau lög, sem Alþingi setur hverju sinni. Ef hver og einn ætlaði sér að taka lögin Í eigin hendur, væri komið meðal okkar það upplausnarástand, sem alls staðar annars staðar hefur reynzt undanfari að valdatöku einræðisafla. Þau öfl eru til á meðal okkar, og okkur ber að standa vel á verði gagnvart þeim.

Frv. um bindingu launa og verðlags til áramóta er aðallega fundið það til foráttu af stjórnarandstæðingum, að með því sé verið að hindra, að láglaunafólk fái sanngjarnar kjarabætur, á sama tíma og aðrar stéttir hafa hlotið miklar kjarabætur, og loks er frv. ekki hvað sízt gagnrýnt af því , að það skerði verkfallsréttinn, eins og margir ræðumenn stjórnarandstöðunnar hafa sagt hér í kvöld. Við skulum athuga þetta nánar. Þrátt fyrir þá hrakspá stjórnarandstæðinga við upphaf viðreisnarinnar, að hér mundi allt fara í rúst og skapast það, sem þeir kölluðu „móðuharðindi af manna völdum“, hefur á viðreisnarárunum verið mikil gróska í atvinnulífi og framkvæmdum, svo mikil, að við höfum ekki nægilegt vinnuafl til þess að framkvæma allt, sem við viljum framkvæma, á skömmum tíma. Samkeppnin um vinnuaflið hefur haft í för með sér miklar yfirborganir Í einstökum greinum, en þetta fyrirbrigði hefur verið nefnt launaskrið. Það hefur margvísleg miður æskileg áhrif í atvinnulífinu, þótt út af fyrir sig sé ekki nema gott um það að segja, að menn fái vinnu sína vel borgaða. Launaskriðið á t.d. drjúgan þátt í flutningum fólks víðs vegar að af landinu í þéttbýlið við Faxaflóa, og það skapar útflutningsatvinnuvegunum örðugleika í samkeppni við aðrar starfsgreinar um vinnuaflið, af því að útflutningsvörurnar geta ekki hækkað Í verði á erlendum markaði að sama skapi og kaupgjald og annar tilkostnaður hækkar hér innanlands, og þetta leiðir óhjákvæmilega af sér kröfur um hækkað kaupgjald til samræmis við yfirborganirnar.

Nú eru uppi miklar og almennar kröfur um stórhækkað kaupgjald, allt að 40%a, að því er nefnt hefur verið, og er fyrirsjáanlegt, að slík hækkun, ef hún næði fram að ganga, mundi leiða af sér annað tveggja, að útflutningsframleiðslan stöðvaðist eða grípa yrði til gengisfellingar enn einu sinni til þess að bæta aðstöðu útflutningsframleiðslunnar. Hvorugur þessi kostur er æskilegur fyrir láglaunafólkið, sem er hvergi fjölmennara en í sumum greinum útflutningsframleiðslunnar. Stöðvun og atvinnuleysi bitnar harðast á lálaunafólki, og kauphækkunin, sem farið er fram á, mundi þýða, að aðrar stéttir krefðust hlutfallslegra hækkana. Sumar þeirra eiga rétt á slíkum hækkunum samkv. lögum, t.d. opinberir starfsmenn og bændur, en aðrir mundu telja, að óviðunandi röskun hefði orðið á launahlutfallinu, og krefjast af þeim sökum tilsvarandi hækkunar á við þá lægst launuðu, og allt launakerfið mundi þenjast út. Þá væri svo komið, að hringnum væri lokað og gengi íslenzku krónunnar raunverulega fallið einu sinni enn, og ekki annað eftir en viðurkenna orðinn hlut með breyttri skráningu krónunnar. Það þekkja svo allir launþegar, að með gengisfellingu verður litíð sem ekkert úr slíkri almennri kauphækkun, og eru þeir þá litlu bættari en þeir voru fyrir.

Ég er þeirra r skoðunar, að ríkisvaldið geti ekki, eins og komið er, látíð þessa þróun afskiptalausa. Því ber að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar, og þeim hagsmunum er það fyrir beztu, að hér sé gripið inn í og nauðsynlegar ráðstafanir gerðar til að tryggja gengi krónunnar, þótt slíkt inngrip komi illa við suma og kosti tímabundna skerðingu, t.d. á verkfallsréttinum. Sá réttur er mikilvægur fyrir launþegasamtökin og eins konar öryggisventill þeirra . En vert er að menn spyrji sjálfa sig, hvort þessi réttur hafi á síðari árum komið að raunverulegu liði Í kjarabaráttu launþegasamtakanna. Og ef svo er ekki, er þá nokkuð á móti því að reyna að fá kjarabætur með öðrum hætti og án þess að beita verkfallsvopninu?

Frv. um launamál og bindingu verðlags til áramóta er flutt til þess að fyrirbyggja gengisfellingu og þau áhrif, sem hún hefur á hag launastéttanna til hins verra. Jafnframt er það ætlun stjórnarflokkanna að nota tímann fram að áramótum til að undirbúa víðtækari ráðstafanir, er miði að því að vernda krónuna og veita láglaunafólki raunverulegar og varanlegar kjarabætur, t.d. í formi skattalækkana, lágmarkslauna eða með auknum tryggingabótum og eftir öðrum þeim leiðum, sem komið geta til álita. Fari svo, að stjórnarflokkunum takist ekki að framkvæma þetta, vegna þess að lögin, sem verið er að setja um launamál og bindingu verðlags til áramóta, verði brotin niður, þá verður ekki með öðrum ráðum hjá því komizt að fella gengi krónunnar. Af þessum sökum er það ljóst, að sú staðhæfing stjórnarandstöðunnar fær ekki staðizt, að frv. sé flutt til þess að koma í veg fyrir sanngjarnar kjarabætur láglaunafólks. Það er þvert á móti flutt í þeim tilgangi að tryggja láglaunafólki raunhæfar kjarabætur með því að fyrirbyggja gengisfellingu. Það er eina færa leiðin Í þessum efnum, eins og málum er háttað. Þess vegna styð ég þetta frv. fyrir mitt leyti.

Af fordæmum fyrir svipuðum bindingarlögum og hér er um að ræða nægir að nefna eitt: Bindingarlögin, sem voru fyrsta verk Hannibals Valdimarssonar, þegar hann var félmrh. árið 1956. Lögin voru gefin út 28. ágúst það ár og giltu frá 1. sept. til 31. des., eða í 4 mánuði, en nú er lögum um launa- og verðbindinguna ætlað að gilda í 2 mánuði. Svo hljóðandi forsendur voru fyrir setningu umræddra brbl., með leyfi hæstv. forseta;

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Félmrh. (Þ.e. Hannibal Valdimarsson) hefur tjáð mér, að vegna atvinnuöryggis í landinu beri nauðsyn til að koma í veg fyrir áframhaldandi hækkanir verðiags og kaupgjalds, á meðan athugun fer fram á varanlegri- lausn efnahagsvandamálanna.“

Síðan kom svo ákvæði um það í 1., að kaupgjald skyldi lækka um sem svaraði 6 vísitölustigum, og að því leyti var þessi lagasetning frábrugðin frv. um launamál o.fl., því að það gerir ekki ráð fyrir neinni kauplækkun. Ég nefni þetta fordæmi ekki til dómsáfellis yfir fyrrv. félmrh., Hannibal Valdimarssyni, síður en svo, heldur aðeins til þess að sýna fram á, að hann hafði ábyrgari og skynsamlegri afstöðu Í hliðstæðu máli árið 1956 en hann hefur nú.

Í hinum löngu umr. um verðstöðvunarfrv. hefur gætt margs konar mótsagna í málflutningi stjórnarandstöðunnar. En þær mótsagnir eru þó smámunir einir hjá því, sem kemur á daginn, þegar afstaða stjórnarandstæðinga til málanna í dag er borin saman við afstöðu þeirra fyrir fáum mánuðum eða árum. Nú segja þeir, að opinberir starfsmenn og aðrir hálaunamenn hafi fengið of miklar launahækkanir í sinn hlut. En sjálfir hafa þessir hv. þm. stutt dyggilega allar launakröfur flugmanna, verkfræðinga, lækna og opinberra starfsmanna á liðnum árum og ekki talið nægilega vei að þeim búið í launamálum. Þegar frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna var til umr., komst t, d. Björn Jónsson þannig að orði, að frv. bæri mjög greinilega vott um tregðuna, íhaldssemina og þá valdbeitingartilhneigingu, sem verið hefur svo rík í fari þessarar hæstv. ríkisstj. Og þegar ríkisstj. á sínum tíma forðaði flugfélögunum og öllum, sem við þau starfa, frá stórtjóni með því að stöðva verkfall atvinnuflugmanna, þá hét sú ráðstöfun á máli Hannibals Valdimarssonar „óyndisúrræði og ofbeldisverk gagnvart verkalýðshreyfingu íslands.“ Í svipuðum dúr hafa ummæli þessara manna og flokksbræðra þeirra jafnan verið, þegar kjaramál hálaunamanna eða sérfræðinga hafa verið til umr. hér á Alþingi, og náttúrlega hafa framsóknarmenn í þessum efnum sem öðrum verið fylgispakir kommúnistum. Nú koma svo talsmenn beggja flokkanna hver af öðrum og þykjast vera hneykslaðir og hissa á því, hvað hálaunamenn beri mikið úr býtum og bilið milli hárra launa og lágra launa hafi vaxið mikið.

Af öllu því, sem stjórnarandstæðingar hafa sagt og skrifað um þessi mál, er ljóst, að þeir bera fyllilega að sínum hluta ábyrgð á þeirri þróun, sem þeir telja nú svo forkastanlega, en þetta reynir forseti A.S.Í. að afsaka með því að segja, að hann viti aldrei til þess, að íslenzk verkalýðsstétt hafi mælt sinar kröfur við verkfræðinga eða lækna, eins og hann komst að orði í þingræðu aðfaranótt s.l. þriðjudags.

En hvað sem þessu líður og hvernig svo sem á því stendur, að launabilið hefur breikkað, þá stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að þeir lægst launuðu þurfa kjarabætur. Leið stjórnarflokkanna markast af verðstöðvuninni og verndun krónunnar, en leið stjórnarandstöðunnar er í engu fastmótuð og í flestu, sem talsmenn hennar hafa slegið fram, harla óraunhæf, sbr. þau úrræði, sem Eysteinn Jónsson nefndi hér í sinni ræðu í kvöld og kallaði „hina leiðina“. Þeir tala t.d. um, að unnt sé að létta 7.4% útflutningsgjaldinu af sjávarafurðum. Þarna er engu að létta af, einfaldlega vegna þess, að þetta gjald rennur allt til sjálfs sjávarútvegsins, eins og bezt sést af eftirfarandi skiptingu: Fiskveiðasjóður fær 1.80%, vátryggingakerfið fær 3.72% aflatryggingasjóður fær 1.25%, Landssamband ísl. útvegsmanna, haf- og fiskirannsóknaskipið, rannsóknarstofa Fiskifélags Íslands fá samtals 0.48% og ferskfiskeftirlitið fær 0.15%. Samtals eru þetta 7.40%. Aðrar till. stjórnarandstöðunnar eru álíka óraunhæfar og þetta.

Ég hef áður látið þá skoðun í ljós á þessum vettvangi, að breytinga væri þörf á samningatilhögun um kaup og kjör milli vinnuveitenda og launþega. Í áliti mþn. í laga- og skipulagsmálum Alþýðusambands Íslands stóðu fyrir nokkrum árum þessi orð, með leyfi hæstv, forseta:

,,Grundvallarsjónarmið verkalýðssamtakanna hlýtur að vera það að láta hagsmuni heildarinnar sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum einstakra starfshópa.“

Þetta eru sönn orð. En hvorugur aðilinn, sem um kjarasamningana fjallar, hefur skipað sínum málum þannig, að tryggt sé, að þessi regla komist í framkvæmd. Þessu þarf að breyta í það horf, að launþegasamtökin og vinnuveitendur komi sér upp sameiginlega eða hvor aðili fyrir sig stofnun, sem framkvæmi óvilhallt mat á greiðslugetu atvinnuveganna og efnahagslegum aðstæðum almennt í þjóðfélaginu, er hafa megi að leiðarljósi Í samningum um kaup og kjör. Ætti þá að vera óhætt að gera heildarsamninga til langs tíma, eins og tíðkast meðal þeirra þjóða, sem búa við beztu lífskjör, sem þekkjast í heiminum. Slíkir samningar gætu þá tryggt vinnufrið og efnahagslegt jafnvægi, sem tryggir launþegum, þegar til lengdar lætur, meiri kjarabætur en þeir geta fengið með þeim sífellda skæruhernaði, sem nú á sér stað í launamálum. Ef launþegasamtökin og samtök vinnuveitenda hefðu verið búin að koma viðskiptum sínum í það horf, sem ég hef nú lýst, þá veit ég, að ekki hefði verið þörf á þeim ríkisafskiptum, sem nú eru óhjákvæmileg.

Ég þakka þeim, sem hlýtt hafa. — Góða nótt.