07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (2728)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Málflutningur hæstv. ráðh. hér í umr. Í gær ætti að verða öllum þeim, sem á hlýddu, minnisstæður, því að hann var í einu orði sagt með þeim endemum, sem vart eiga sinn líka í þingsögunni, og er þá mikið sagt.

Sjútvmrh. Emil Jónsson átti þó vafalaust metíð í þeim efnum og var vel að því meti kominn, og það voru ekki sízt þrjú atriði, sem færðu honum þennan ótviræða sigur. í fyrsta lagi, þegar hann líkti ofbeldisfrv. ríkisstj. nú við samkomulag verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. 1956 um jöfnuð á 6 vísitölustigum og jafnmikilli ákveðinni og fyrirséðri hækkun á nauðsynjum. Í öðru lagi, þegar hann húðstrýkti sinn einkavin og samráðherra, Guðmund I. Guðmundsson, tryggingamálarh. vinstri stjórnarinnar, með því að fullyrða, að af öllu því illa, sem vinstri stjórnin hefði gert, þá hefði það, sem gert var í tryggingamálunum, þó verið Það versta, sem sú stjórn hefði aðhafzt. Og loks, þegar hann í þriðja lagi lét svo sem Alþfl. hefði enga ábyrgð borið á vinstri stjórninni eða jafnvel alls ekki nærri henni komið.

Um ræðu Bjarna Benediktssonar í gærkvöld vil ég aðeins segja það, að þar var stungin tólg í fyndni, svo að notað sé orðafar Nóbelsverðlaunaskáldsins, þegar þessi hæstv. ráðh. fullyrti, að þeir, sem bágasta afkomu hefðu í þjóðfélaginu, ættu nú ekkert athvarf sér til halds og trausts nema ríkisstj.

Og svo kom hv. skattameistari núv. ríkisstj. hér fram fyrir þjóðina rétt áðan og kvað ríkisstj. hafa fengið fullt umboð frá þjóðinni til þeirra einstæðu aðgerða, sem hún nú fyrirhugar. Þessi hæstv. ráðh. vildi líka fara að stjórna skipulagsmálum verkalýðssamtakanna og heimtaði, að ákvörðunarrétturinn yrði tekinn af hverju einstöku verkalýðsfélagi. Fer þá skörin vissulega að færast upp í bekkinn, og væri þessum hæstv. ráðh. og skattameistara nær, eins og hann hefur staðið í stöðu sinni undanfarin ár sem einn æðsti maður í íslenzkum efnahagsmálum, að beina geiri sínum þangað, sem þörfin meiri er fyrir, eins og stefna hans hefur líka skilað góðum árangri — eða hitt þó heldur fyrir launastéttirnar í landinu. Þessum hæstv. ráðh. þykir það lítið, að 23 verkalýðsfélög hafa nú boðað verkfall á mánudaginn kemur, og virtist harma það, að þau stéttaátök, sem ríkisstj. hans hefur efnt til, skuli ekki vera víðtækari. Ég vil spyrja þennan hæstv. ráðh.: Hvenær hafa svo mörg verkalýðsfélög boðað verkfall samtímis? Þannig tala ekki aðrir en þeir, sem bæði eru rökþrota og ráðþrota.

En þessum mönnum er viss vorkunn, því að ekkert er deginum ljósara en það, að stjórnarstefna þessara manna, sú sem ráðið hefur í landi s.l. fimm ár, stendur nú gjaldþrota frammi fyrir þingi og þjóð. Og gjaldþrot þeirra er svo stórt í sniðum og svo algert, að allir, hvar sem þeir hafa áður í flokki staðið, sjá það og skilja, líka sjálf ríkisstj., en hjá henni skortir aðeins þann manndóm, sem þarf til þess að viðurkenna, hvernig komið er, og taka réttum þingræðíslegum afleiðingum af gerðum sínum og segja af sér. Í stað þess að gera þetta, eins og henni bæri, fer henni nú eins og þeim manni, sem gripi til skammbyssunnar gegn lögmætum aðgerðum skiptaréttar í hans eigin þrotabúi.

Með því frv. til l. um launamál o.fl., sem ríkisstj. er nú í þann veginn að kvelja þinglið sitt til að samþykkja, hefur ríkisstj. viðurkennt, svo að ekki verður um villzt, að hún hafi komið málefnum þjóðarinnar í slíkt öngþveiti á valdaferli sínum, að hún sjálf sjái enga leið út úr vandanum aðra en þá að gripa til ofbeldisaðgerða gegn íslenzkum vinnustéttum, — ofbeldisaðgerða, sem engan sinn líka eiga í íslenzkri stjórnmálasögu. Þó að þessar aðgerðir séu að vísu dæmdar til að mistakast, fer þó ekki milli mála, að samþykkt þessa einstæða frv. er líkleg til að leiða til stórfelldari stéttaátaka, líkleg til þess að baka öllu þjóðfélagi okkar slíkt tjón, að allt, sem í mannlegu valdi stendur, ber að gera til þess að hindra framgang þess, þ. á m. að freista þess að flýta fyrir falli ríkisstj., áður en það kemur til framkvæmda. Og því er það, að Alþb. ber einmitt nú fram þá vantrauststill., sem hér er til umr.

Þegar metin er nú staðan í íslenzkum stjórnmálum og gert upp við viðreisnarstefnuna, þá er óhjákvæmilegt að festa sér tvennt í minni: annars vegar þau loforð og úrræði, sem þjóðinni voru heitin við vöggu viðreisnarinnar, og hins vegar þá mynd, sem nú blasir við, þegar þessi stefna er nú að stíga síðustu skrefin beint ofan í gröfina. Þetta er nauðsynlegt, bæði til þess, að rétt stefna verði mörkuð í framtíðinni, og einnig til þess, að viti viðreisnarinnar verði um ókomin ár til varnaðar þjóðinni allri og hverjum þeim, sem til þess veist að stýra málefnum hennar.

Það vantaði ekki á fyrirheitin við valdatöku viðreisnarinnar, en ég minni þó aðeins á fá þeirra . Hið fyrsta var, að atvinnuvegum þjóðarinnar skyldi komið á traustan og heilbrigðan grundvöll. Annað, að jöfnuði yrði komið á í viðskiptum við aðrar þjóðir og greiðsluhallalaus viðskipti yrðu tryggð. Þriðja, að hvers konar höft og bönn yrðu afnumin. Fjórða, að skattar yrðu lækkaðir, að verndaðir yrðu hagsmunir þeirra , sem umfram aðra bæri að forða frá kjaraskerðingu, þ.e.a.s. hinna verst settu í þjóðfélaginu. Og síðast, en ekki sízt, að tryggður skyldi frjáls samningsréttur launþega og atvinnurekenda. Gjaldið, sem þjóðin átti svo að greiða fyrir uppfyllingu þessara fallegu fyrirheita, var það, að vinnustéttirnar eirðu þeirri miklu kjaraskerðingu, sem framkvæmd var í ársbyrjun 1960, allt að einu ári, en að því liðnu skyldu tryggðar stöðugar og öruggar efnahagslegar framfarir og bætt lífskjör. Vinnustéttirnar greiddu þetta gjald og þó miklu meira. En hvernig hefur gengið með endurgreiðsluna, hvernig hafa fyrirheitin staðizt reynslunnar dóm? Varðandi þau höfuðatriði, sem ég nefndi, eru svörin þessi í stuttu máli:

Útflutningsatvinnuvegirnir berjast í bökkum eða tæplega það. Stanzlaus verðbólguþróun, mögnuð af gengisfellingum, hóflausri skattheimtu og vaxtaokri, hefur aukið tilkostnað þeirra svo, að afkoma þeirra er lakari en oftast áður. Samtök útflutningsframleiðenda hafa í fullri alvöru rætt um algera stöðvun framleiðslutækjanna til þess að knýja ríkisstj. til algerrar stefnubreytingar í málefnum atvinnuveganna. Í gjaldeyrismálum er staðan þannig, að hún hefur aldrei verið geigvænlegri. Aðeins á 7 fyrstu mánuðum þessa árs hefur hallinn á vöruskiptum orðið um 700 millj. kr. eða álíka mikill að krónutölu og gjaldeyrishallinn á 4 síðustu árum fyrir viðreisn samanlögðum. En þá var ástandið að dómi viðreisnarmanna slíkt. að álit og framtíð þjóðarinnar var í veði, ef ekki yrði gerð breyting á. 1 skattamálum er ástandið þannig, að í stað skattalækkana hefur skattpíningaræði verið í algleymingi. Á valdatíma stjórnarinnar hafa samanlagðir tollar og skattar verið hækkaðir á fjárl. einum úr 703 millj. kr. 1958 — og eru þá niðurgreiðslur útflutningssjóðs með taldar — í 2.1 milljarð á fjárl. fyrir árið 1960. Hækkunin er um 196% eða þreföldun. Til viðbótar koma svo nefskattar, sem hafa hækkað um á annað þús. kr. á hvern gjaldanda eða um 52%. Og loks koma svo bæjarfélögin, sem neyðzt hafa til vegna sívaxandi dýrtíðar að hækka álögur úr öllu hófi fram. Og hver hafa svo áhrif tvennra gengisfellinga og skattpíningarstefnunnar orðið á lífskjör almennings og sérstaklega þeirra , sem heitið var, að verndaðir skyldu fyrir kjaraskerðingum? Í verðlagsmálunum hefur þróunin orðið sú, að á móti hverjum 100 kr., sem þurfti til matvælakaupa í marz 1959, þarf nú 175 kr. Hækkunin er 75%. Vísitala vöru og þjónustu stendur í 165 stigum miðað við sama tíma. Húsnæðiskostnaður hefur a.m.k. tvöfaldazt vegna stöðvunar byggingarframkvæmda og húsnæðisneyðar, stórhækkaðs byggingarkostnaðar og vaxtaokurs. Á sama tíma og slík verðlagsþróun hefur átt sér stað og magnazt með síauknum hraða, hefur kaupgjald verkamanna hækkað um 28% frá því í okt. 1958, en um 17.4% — segi og skrifa 17.4%, frá því í jan. 1959, þ.e.a.s. áður en kauplækkunarlög Alþfl: stjórnarinnar tóku gildi, og þó enn minna á hærri töxtum verkamanna. Þetta þýðir, að kaup verkamanna hefur hækkað 4—5 sinnum minna en matvæli og tæplega fjórum sinnum minna en meðaltalsverðlag á vörum og þjónustu. Gagnvart húsnæðiskostnaði eru tölurnar svo enn geigvænlegri, þar sem árstekjur verkamanns gera nú litlu betur en að greiða vexti af verði hóflegrar íbúðar.

Þannig hafa loforðin um sérstaka vernd hinna lægst launuðu verið efnd og fyrirheitin um stöðugan bata lífskjaranna. Og svo algert er blygðunarleysi þeirra manna, sem ábyrgðina bera á þessari þróun, að þeir vilja nú ekki láta staðar numið, heldur undirbúa þeir í ofanálag fordæmalausa mannréttindaskerðingu gegn því fólki, sem þeir hafa leikið á þennan hátt, og ætla að svipta það þeim eina rétti, sem því er enn eftir skilinn, að mega vera annar ákvörðunaraðila að frjálsum samningum um launakjör sin. Og þetta er gert í trausti þess, að láglaunastéttirnar séu nú orðnar svo aðþrengdar, að þær fái engum vörnum við komið gagnvart ofbeldinu. Er þá komin að fullu fram efndin á því loforði, sem ég síðast nefndi af fyrirheitum viðreisnarinnar, að samtök launþega og atvinnurekenda skyldu algerlega frjáls að semja sín í milli, og vil ég nú spyrja: Á núv. ríkisstj. nokkurt loforð ósvikið? Hefur hún ekki líka í þeim efnum gengið götuna á enda? Jafnvel núv. hæstv. ríkisstj. væri þó margt fyrirgefandi, ef hún vildi eða kynni að draga réttar ályktanir af afglöpum sínum, bæði þing og þjóð afsökunar á misferli sínu og héti algerri stefnubreytingu. En það er nú síður en svo, að því sé að heilsa, því að í stað þess að gera slíkt hyggst hún enn troða ógæfuleiðina og beita til þess slíku ofbeldi gegn grundvallarreglum lýðræðis og mannréttinda, að allir, jafnt andstæðingar hennar sem fyrri stuðningsmenn, standa undrandi og agndofa. Nýjasta dæmið af því tagi er það, að ötl verkalýðssamtök, sem stjórnarsinnar hafa forustu fyrir, hafa nú mótmælt fyrirætlunum ríkisstj. og nú síðast í gærkvöld Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, höfuðvígi sjálfstæðismanna í verkalýðshreyfingunni, einróma, en meðal stuðningsmanna mótmælanna voru tveir varaþm. Sjálfstfl.

Ríkisstj. er að sjálfsögðu ljóst eins og öðrum, að stefna hennar hefur leitt til ófarnaðar, leitt til öngþveitis og loks til fullkomins styrjaldarástands við öflugustu almannasamtök, sem til eru meðal þjóðarinnar, verkalýðshreyfinguna. En af þessu dregur hún þá ályktun, að ekki hafi verið nóg að gert. að enn hraðar en áður beri að feta slóð misréttis og tæta okkar litla þjóðfétag enn meira en orðið er sundur í stríðandi hópa. Í bókstaflega öllum skilningi virðist ályktunargáfa þessarar ógæfustjórnar vera algerlega brengluð. og hafa röksemdir hennar í þessum umr. borið því ófagran vitnisburð. Þegar það liggur fyrir, að geigvænlegur halli verður á utanríkisviðskiptunum, segir ríkisstj., að það sé því að kenna, að almenningur í landinu, sem aldrei í 18 ár hefur búið við bágari kjör samkv. hennar eigin útreikningum, hafi krafizt of mikils, hafi í launum fengið of háar ávísanir á erlendan innflutning, þess vegna sé eina leiðin að hindra allar leiðréttingar á kjörum láglaunastéttanna. Henni virðist ekki koma til hugar, að ástæðan kunni að vera sú, sem hún vitanlega er, að ríkisstj. hefur sleppt öllu taumhaldi mannlegs hyggjuvits á utanríkisviðskiptunum. Henni virðist ekki koma til hugar, að ástæður greiðsluhallans megi t.d. rekja til þess, að inn eru fluttar vörur eins og lúxusbílar og sjónvarpstæki handa yfirstétt Reykjavíkur fyrir allt að hálfum milljarð á einu ári, alveg án tillits til þess, hver efni þjóðin í heild hefur á slíku. Henni kemur ekki til hugar, að það hafi haft meðverkandi áhrif, að verzlunarstéttinni hefur á einu ári verið rétt aukið lánsfé, sem nemur nærri allri sparifjáraukningu í landinu. Og hún sér ekki neinar hættur í því fólgnar, að heildsalastéttinni séu veittar hömlulitlar eða hömlulausar heimildir til skuldasöfnunar erlendis. Og ekki virðist hún telja neinar hættur í því að ávísa til hálauna- og embættismannastéttanna 400—500 millj. kr. á einu ári í hækkuðum launum og meira að segja allt að hálfri millj. í árslaun til einstakra manna, einstakra starfsmanna eins og bankastjóra. Nei, ríkisstj. virðist halda, að öll óhófseyðslan og eftirspurnin eftir erlendum gjaldeyri sé hjá verkafólkinu og því beri þar að stemma á að ósi með því að lækka í sífellu laun þess, eins og hún hefur gert. Er það að undra, þótt flest gangi úrskeiðis hjá þeim valdhöfum, sem þannig hugsa og álykta?

Fjárfestingin er hóflaus. segir ríkisstj.. spennan í þeim efnum bölvaldur og verðbólgu. En ríkisstj. mundi seint viðurkenna, að slíkt væri lexía um áætlunarbúskap, þar sem lægi til grundvallar mat á því, hvaða fjárfesting væri þjóðinni nauðsynleg og gagnleg og hver mætti bíða betri tíma. Ættu t.d. byggingar bankastórhýsa og verzlunarhalla fyrir hundruð millj. í höfuðborginni að sitja í fyrirrúmi fyrir framkvæmdum, sem til þess væru fallnar að auka framleiðslu og framleiðni og í kjölfar þess þjóðartekjur og launatekjur vinnustéttanna? Slíkar ályktanir dregur hæstv. ríkisstj. ekki, heldur rígheldur sér við þá speki, að fjármagnið, peningarnir eigi að ráða ferðinni, en vitsmunirnir megi þar hvergi nærri koma.

Eftir 5 ára samstjórn stjórnarflokkanna og 4 ára viðreisn lýsir ríkisstj. því nú yfir, að útflutningsatvinnuvegirnir séu að þrotum komnir vegna verðbólgu og þar af leiðandi síaukins tilkostnaðar. Þetta telur hún vera sína höfuðröksemd fyrir ofbeldisfrv., og hún kveinar undan því, að þessir atvinnuvegir standist ekki samkeppni við aðrar útflutningsþjóðir sjávarafurða. Hvers vegna? Vegna of hás kaupgjalds verkafólksins. Aðrar ástæður til erfiðleikanna þekkir hæstv. ríkisstj. ekki eða þykjast ekki þekkja. Hið sanna er þó, að fiskiðnaðurinn, sem er sérstaklega hafður á oddinum í þessu sambandi, býr hérlendis við miklu lægri vinnulaun en t.d. í okkar helzta. samkeppnislandi, Noregi. Samkv. nýjustu skýrslum um vinnulaun í Noregi bera verkamenn bar í landi frá borði meðaltalstímalaun að upphæð 47.40 kr. á klst., en enn hærra kaup er algengt í fiskiðnaðinum. Hérlendis er kaup verkamanna í fiskiðnaði 28.00—28.45 kr. á klst. í Noregi ber fiskiðnaðurinn einnig við miklu hærra hráefnisverð en hér er greitt. Ríkisstj. virðist halda eða vill láta menn halda, að vinnulaunin séu eini hreyfanlegi kostnaðarliðurinn í framleiðslunni. Hið sanna er þó, að verkalaun, t.d. í frystiiðnaðinum, eru ekki yfir 20% af vinnslukostnaði afurðanna og í öðrum greinum fiskiðnaðarins miklu mínni þáttur. Aftur á móti eru kostnaðarliðir, sem beint eru háðir ákvörðunum stjórnarvalda og ríkisstj. hefur ákveðið nokkru hærri en verkalaunin eða um 22%. Annar kostnaður er svo að meira eða minna leyti háður hagkvæmni í rekstri. Stjórnarvöld hafa í hendi sér t.d. vexti og útflutningsgjöld, en þessir liðir gera samanlagt 17—18% af tilkostnaði við fiskvinnslu. Lækkun þessara liða beggja um t.d. 40—50% er auðveld, en út á slíka lækkun mætti hækka laun um hartnær sömu hundraðstölu eða meira en nemur öllum kröfum verkafólks nú. Og mætti þó fleiri kostnaðarliði nefna, sem líku máli gegnir um. En hæstv. ríkisstj. einblínir á kaup verkafólksins og sér enga leið aðra en að halda því niðri, lemur höfði við stein og býst, þótt blind sé á báðum augum, til baráttu við verkalýðshreyfinguna. ekki aðeins um launakjörin, heldur einnig og ekki síður um þau grundvallarréttindi, sem verkalýðsstéttinni eru dýrmætari en flest, ef ekki allt annað, og mun þess vegna leggja allt þrek sitt, allan manndóm sinn og allt vit sitt fram til að verja, hvað sem í skerst og hvaða boð og bönn sem höfð eru í frammi. Ríkisstj. er því fyrir fram dæmd til þess að tapa þeim ljóta leik, sem hún hefur nú hafið, ofbeldislög hennar, þótt samþ. verði af þægu þingliði, verða aldrei pappírsins virði, sem þau verða prentuð á.

En þótt svo muni fara og ríkisstj. verði knúin til þess að leyfa samninga um hækkuð laun láglaunastéttanna, kann það tilefnislausa stríð, sem hún ein her ábyrgð á að um svo sjálfsagða hluti verði háð, að kosta alþýðu manna og þjóðina alla miklar fórnir og fjármuni. Þær fórnir og þá fjármuni getur Alþingi sparað til þarflegri hluta með því að veita ríkisstj., þeirri stjórn, sem verst hefur leikið íslenzka hagsmuni og íslenzka alþýðu, lausn í náð að illum verkalokum.

Gerbreytt stefna í íslenzkum stjórnmálum og ný ríkisstj., sem notað gæti trausts þjóðarinnar, er kjörorð og krafa allrar alþýðu og frjálslyndra Íslendinga úr öllum flokkum. Tafarlausir friðarsamningar við alþýðusamtökin yrðu fyrsta verk slíkrar stjórnar. Áralangri fjandskaparstefnu í garð láglaunastéttanna yrði hætt, verkalaun hækkuð verulega og árvissar kjarabætur í formi kauphækkana og verðlækkana yrðu tryggðar. Sérstaklega yrði kappkostað að bæta hag þeirra , sem að útflutningsframleiðslunni vinna, og hún þannig efld til þess að afla aukins gjaldeyris og gerð samkeppnisfær um traust og nægilegt vinnuafl. Í öðru lagi: útflutningsatvinnuvegunum yrði tryggt rekstraröryggi og viðunandi afkoma og þeim jafnframt gert kleift að bæta kjör síns fólks með mikilli vaxtalækkun, lækkun útflutningsgjalda og fleiri kostnaðarliða, sem ríkisvaldið hefur vald á, svo sem tolls af rekstrarvörum, vátryggingargjalda o. ft. Í þriðja lagi: komið yrði á stjórn í fjárfestingar- og gjaldeyrismálum, — stjórn, sem miðaði að því, að fjárfesting nýttist þjóðinni til aukinnar verðmætasköpunar og aukinnar framleiðni og að hinu leytinu tryggði eðlilegan viðskiptajöfnuð út á við. Í fjórða lagi: gróði innflutningsverzlunarinnar yrði að meira eða minna leyti beizlaður til almenningsþarfa með því, að ríkið tæki í sínar hendur stærstu greinar hennar, eins og innflutning olíu, bifreiða, véla og skipa og enn fremur innflutning lúxusvara. Í fimmta lagi: almennir vextir yrðu lækkaðir og aðrar ráðstafanir, svo sem afnám tolla og söluskatts af nauðsynjum, gerðar til beinnar verðlækkunar í landinu. í sjötta lagi: skipulegt átak yrði gert til þess að leysa húsnæðismálin með því að tryggja þeim fjármagn og með lengingu lána og lækkun vaxta. í sjöunda lagi: studdar yrðu allar aðgerðir hagsmunasamtaka launafólks og atvinnurekenda til þess að leita nýrra úrræða til aukinnar framleiðslu og framleiðni með. bætt kjör og styttingu vinnudags að takmarki. Lög um vinnuvernd yrðu sett í samráði við alþýðusamtökin. Í áttunda lagi: skattar og útsvör af lágtekjum yrðu stórlækkuð og jafnframt komið á virku skattaeftirliti, sem útilokaði skattsvik og tryggði, að rétt mynd sæist af því, hvert gróðinn í þjóðfélaginu safnast, og að hann yrði skattlagður réttilega. Í níunda lagi: sjálfstæði þjóðarinnar, efnalegt og pólitískt, yrði tryggt og varið og öllum áformum um eflingu herstöðva á Íslandi yrði tafarlaust hætt og sömuleiðis hverjum þeim ráðagerðum öðrum. sem lagt gætu þjóðina og efnalegt sjálfstæði hennar í aukna hættu frá því, sem nú er.

Þetta er stefna, sem umbótamenn í öllum flokkum mundu allir fagna og fylgja, eins og nú er komið málum. Þetta er stefna, sem binda mundi enda á viðreisnina. Þetta er stefna hófsamlegra lágmarksaðgerða, sem nú eru orðnar þjóðarnauðsyn, eftir að núv. stjórnarstefna hefur tröllriðið efnahagskerfinu í fimm ár og siglt flestum þjóðmálum í öngþveiti. Þetta er sátta og friðarstefna, sem okkar litla þjóðfélagi er orðin lífsnauðsyn að við taki nú um sinn eftir of mörg ár ófriðar og sundrungar í samfélagi, sem fyrst alls þarf á því að halda að standa saman um allt hið stóra, sem allir þegnar þess eiga sameiginlegt. Þetta er stefna, sem Alþb. er reiðubúið að vinna að utan þings og innan og með hverjum þeim, sem vera kann sama sinnis.

Á tímamótum eins og þeim, sem nú eru í þjóðmálum, æskir hvorki verkalýðshreyfingin né flokkur hennar styrjaldar í þjóðfélaginu, heldur rétta hvorir tveggja fram hönd sína til sátta og samstarfs við öll þjóðholl og framfarasinnuð og frjálslynd öfl meðal þjóðarinnar. En enginn skyldi taka sáttaboð okkar svo, að verkalýðshreyfingin sé ekki albúin þess að berjast, ef á þarf að halda, því að það er hún. Þvingunarlögin verða brotin á bak aftur og að engu höfð, vegna þess að þau eiga sér enga stoð í réttarvitund þjóðarinnar. Verkalýðshreyfingin mun, þrátt fyrir öll boð og bönn, tryggja láglaunastéttunum sambærilegar launabætur og þær, sem betur launaðar starfsstéttir hafa áður hlotið. En það er hvort tveggja unnt og auðvelt að ná þessum markmiðum með friðsamlegum hætti og án allra fórna fyrir alþýðu manna og þjóðina í heild. En til þess að svo megi verða, verður viðreisnarstefnan og sú stjórn, sem fylgja vill henni til grafar, að víkja, annað tveggja á þann hátt, að þing verði rofið og efnt til nýrra kosninga til Alþingis, eða á þann veg, að það sé þrautkannað, hvort Alþingi, eins og það nú er skipað, vilji og geti mótað breytta stjórnarstefnu í samræmi við þarfir og kröfur alþjóðar. Þess vegna ber Alþingi að samþykkja vantrauststill. okkar Alþýðubandalagsmanna.