07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (2729)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í hverri einustu ræðu hv. stjórnarandstæðinga, sem flutt hefur verið um frv. ríkisstj. um festingu kaupgjalds og verðlags, er einn og sami rauði þráðurinn. Það er höfðað til tilfinninga launþega, reynt að vekja hjá þeim óánægju, leitazt við að telja mönnum trú um, að ríkisstj. sé að hafa af þeim, hverjum um sig, kjarabót, sem hún hafi látíð öðrum í té, það sé verið að svipta þá rétti til þess að baeta kjör sin, kúga þá.

Málsvarar Framsfl. og Alþb, bera alls ekki á móti því, að nú á þessu ári hefur ástand breytzt til hins verra í gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar. Þeir gera ekki heldur neina tilraun til þess að hnekkja þeim skýringum, sem við málsvarar stjórnarflokkanna höfum veitt, og orsökum þess, hvers vegna svo hefur farið. Þeir gera enn síður nokkra tilraun til þess að benda á úrræði til þess að leysa vandann. Það, sem þeir segja og endurtaka í sífellu, er: Það verður að hækka kaupið, því að það er orðið svo dýrt að lifa. — Þeir spyrja af miklum þjósti: Hvernig í ósköpunum á verkamaður að lifa af launum sínum?

En fyrir 5—7 árum voru hv. stjórnarandstæðingar í ríkisstj. Lífskjör verkamanna voru þá sannanlega lakari en þau eru nú og atvinna ótryggari. Skyldu þeir, sem þá voru í ríkisstj. úr Framsfl. og Alþb., enga hugmynd hafa um það haft, hvernig verkamenn fóru þá að því að lifa af launum sínum?

Hitt er annað mál, að á síðustu árum hafa átt sér stað miklar framfarir á Íslandi. Það hefur verið og er skoðun mín, að hinir lægst launuðu hafi ekki fengið eins mikið í sinn hlut af framleiðsluaukningunni og rétt hefði verið. En það er ekki af því, að ríkisvaldið hafi verið þeim andstætt. Það er af því, að launþegasamtökin og atvinnurekendur hafa í frjálsum samningum samið um hlutfallslega meiri hækkun til þeirra , sem hærri laun hafa, en láglaunafólksins. Þess vegna er nú svo komið, að hlutur hinna lægst launuðu verður ekki réttur nema með aðstoð ríkisvaldsins.

Ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni beita sér fyrir lagasetningu til þess að bæta raunveruleg kjör láglaunafólks til þess að ná markmiði, sem þeim hefur ekki tekizt að ná í frjálsum samningum. Það er mergur alls þess máls, sem hér er um að ræða. Höfuðtilgangurinn er alls ekki að beita launþegasamtökin ofbeldi, allra sízt láglaunafólkið, heldur þvert á móti að tryggja því raunverulega kjarabót, sem samtök þess hafa ekki getað veitt því.

Svo þrástagast hv. stjórnarandstæðingar á því, hversu opinberir starfsmenn hafi fengið mikla kauphækkun. Enginn stingur samt upp á því að lækka kaup opinberra starfsmanna aftur. Hins vegar er sagt við allar aðrar stéttir: Þið eigið að fá jafnmikla kauphækkun og opinberir starfsmenn. — Samt voru rökin fyrir kauphækkun opinberra starfsmanna þau, að þeir hefðu tiltölulega lægra kaup en aðrar stéttir, miðað við ábyrgð og menntun. Áður en opinberir starfsmenn fengu sína kauphækkun, voru allir sammála um, að kaup þeirra þyrfti að hækka. Allir flokkar þingsins samþykktu þau lög, sem eru grundvöllur kauphækkunarinnar. Samtökum opinberra starfsmanna var og er stjórnað af framsóknarmönnum og Alþb: mönnum. Þeir gerðu kröfur um miklu meiri kauphækkun en náði fram að ganga. Ríkisstj. ákvað ekki þá kauphækkun opinberra starfsmanna, sem varð. Það gerði hlutlaus dómur, sem að meiri hl. var tilnefndur af hæstarétti. Hann hækkaði kaup opinberra starfsmanna ekki nálægt því eins mikið og framsóknarmennirnir og Alþb: mennirnir í forustuliði opinberra starfsmanna höfðu krafizt. Framsóknarmenn og Alþb.-menn, sem áður töldu opinbera starfsmenn eiga rétt á meiri kauphækkun en þeir fengu, miðað við aðrar stéttir, telja nú aðrar stéttir eiga að fá kauphækkun til samræmis við opinbera starfsmenn. Þegar því væri lokið, teldu þeir væntanlega opinbera starfsmenn enn á ný eiga rétt á kauphækkun til samræmis við aðrar stéttir, enda gera lögin um kjör opinberra starfsmanna beinlínis ráð fyrir slíku. Þá væri kominn tími til, að aðrar stéttir ættu aftur rétt á kauphækkun til samræmis við opinbera starfsmenn. Eru Íslendingar svo glámskyggnir, að þeir sjái ekki, hvers konar skollaleik framsóknarmenn og Alþb.-menn eru hér að leika? Er það í raun og veru ekki að misbjóða dómgreind íslenzku þjóðarinnar að láta sér slíkan málflutning sæma?

Það er persónuleg skoðun mín, að rangt hafi verið að láta þá miklu breytingu, sem kjaradómur gerði á kjörum opinberra starfsmanna, koma alla til framkvæmda í einu. Það hefði verið skynsamlegra að dreifa henni á nokkurn tíma. Þótt breytingin hafi verið réttmæt, var hún svo stórkostleg, að efnahagskerfið og þjóðfélagið hefði þurft nokkurn tíma til að framkvæma hana. En ríkisstj. og stjórnarflokkarnir bera ekki einir ábyrgð á því, sem gert var. Allir stjórnmálaflokkar Alþingis samþykktu löggjöfina, sem hér er um að ræða, og launþegasamtökin í landinu yfirleitt virtust styðja þær kröfur, sem leiðtogar opinberra starfsmanna gerðu í samningunum. Stjórnendur Alþýðusambandsins létu aldrei eitt einasta orð frá sér fara þess efnis, að þeir teldu launakröfur opinberra starfsmanna of háar eða ósanngjarnar. Það er því hreinn ódrengskapur af hálfu leiðtoga Alþýðusambandsins í garð opinberra starfsmanna að vilja nú taka aftur af þeim þá kjarabót, sem þeir fengu, því að væntanlega er öllum ljóst, að ef kaup allra annarra launastétta hækkaði í átt við það, sem kaup opinberra starfsmanna hefur hækkað, þá væri kjarabót þeirra að engu orðin.

Ég hef orðið þess var, að ýmsir af stuðningsmönnum ríkisstj. hafa velt því fyrir sér, hvers vegna ekki hafi verið gripið til gagnráðstafana gegn öfugþróuninni nú á þessu ári, fyrr en raun ber vitni. Í þessu sambandi verða menn að minnast þess, að kauphækkanirnar, sem eru meginorsök þess vanda, sem nú er við að etja, urðu ekki fyrr en á miðju þessu ári. Í júní sömdu verkamenn um 71/2% kauphækkun. Í kjötfar þeirra komu samningar annarra launastétta um ýmist 71/2% eða 13% kauphækkun. Þessir samningar stóðu fram eftir sumri. Í júlí var hin mikla kauphækkun opinberra starfsmanna ákveðin með kjaradómi. Úrskurður kjaradóms tók aðeins til sjálfra ríkisstarfsmannanna, en hlaut að sjálfsögðu að hafa áhrif á kjör annarra opinberra starfsmanna, svo sem bankamanna og bæjarstarfsmanna. Framkvæmd þeirra breytinga á launakjörum, sem telja mátti beinar afleiðingar kjaradómsins, hefur staðið yfir lengst af síðan í júlí. Allir vita einnig, að lögum samkv. áttu bændur rétt á breytingum á afurðaverði í septembermánuði. Ástand og horfur í launa- og verðlagsmálum voru alls ekki orðnar ljósar fyrr en allar þessar breytingar voru um garð gengnar. Þá er þess síðast, en ekki sízt að geta í sambandi við almennu kauphækkunina í júní s.l., að það varð um það samkomulag milli launþega og vinnuveitenda, að sérstök rannsókn skyldi fram fara á greiðslugetu atvinnuveganna. Sú rannsókn hófst ekki fyrr en um miðjan ágúst og er ekki lokið enn, þótt nefndin hafi gert almenna grein fyrir störfum sínum um miðjan október. Ríkisstj. hlaut að telja það skyldu sína að öðlast heildaryfirlit yfir ástand og horfur í launamálum og efnahagsmálum yfirleitt, móta stefnu í þeim málum í samráði við stuðningsflokka sína og leggja síðan till., byggðar á þeirri stefnu, fyrir Alþingi. Þetta var ekki unnt, fyrr en kauphækkanir sumarsins voru um garð gengnar og verð innlendra landbúnaðarafurða hafði verið ákveðið og ljóst var, hver yrði árangur af störfum kjararannsóknarnefndar samtaka launþega og vinnuveitenda.

Um það leyti, sem Alþingi kom saman, hafði ríkisstj. lokið athugunum sínum og hóf umr. um málið við stuðningsflokka sína. Ríkisstj. og þingflokkarnir, sem að henni standa, stefndu að því að leggja sem fyrst fyrir Alþingi heildartillögur, sem tryggðu afkomu útflutningsatvinnuveganna og þar með stöðuga atvinnu áfram, varðveizlu gengisins samfara bata á viðskiptaaðstöðunni út á við og auk þess leiðréttingu á tekjuskiptingunni láglaunafólki í vil. En vegna þess að verkfall prentara var boðað þegar 1. nóv. og verkfall verzlunarmanna 4. nóv. og ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar töldu, að það væri þjóðhættulegt, ef ný verkfallsalda risi í landinu, þá varð niðurstaðan sú að leggja fram þetta frv. um bráðabirgðafestingu kaupgjalds og verðlags til áramóta, meðan unnið væri að heildartillögunum, sem tilætlunin var og er að leggja fyrir Alþingi.

Nú eru af hálfu stjórnarandstöðunnar gerðar miklar tilraunir til þess að espa tilfinningar manna, rugla dómgreind þeirra og æsa menn til óhappaverka. Ríkisstj. og henni einni er kennt um þann vanda, sem íslenzku þjóðinni er nú á höndum. Ýmsir eru þannig gerðir, að þeir vilja alltaf trúa öllu illu um andstæðinga sína, en ég er samt sannfærður um, að mikill meiri hluti þjóðarinnar sé reiðubúinn til þess að hlusta á rök og taka tillit til þeirra , ef hann sannfærist. Það er eflaust tilgangslítið að tala til þeirra , sem vilja trúa því, að ríkisstj. hafi vísvitandi stefnt málum í óefni. En hinum, sem vilja leita hins sanna í málinu og eru reiðubúnir til þess að taka tillit til réttra raka, vil ég segja þetta:

Vandamálið nú á sér fjórar orsakir. Í fyrsta lagi hefur á þessu ári orðið kauphækkun hjá öllum launastéttum, sem nemur 13%, til viðbótar mikilli almennri kauphækkun í fyrra. Í öðru lagi var í júlí mikil kauphækkun hjá ríkisstarfsmönnum, sem leitt hefur einnig til kauphækkunar hjá öðrum opinberum starfsmönnum á undanförnum mánuðum. í þriðja lagi var í sept. mikil almenn hækkun á innlendum landbúnaðarafurðum lögum samkvæmt. Og í fjórða lagi hefur af öllu þessu og af óttanum við áframhaldandi kauphækkanir og verðhækkanir og þar með gengisfall leitt mikla aukningu framkvæmda og innflutnings og þá fyrst og fremst framkvæmda einkaaðila og innflutnings í sambandi við þær.

En nú spyr ég alla skynsama, alta góðviljaða menn: Bar ríkisstj. ábyrgð á 13% almennu kauphækkuninni á þessu ári? Nei, auðvitað ekki. Hún var ákveðin í frjálsum samningum milli launþega og vinnuveitenda. Bar ríkisstj. ein ábyrgð á niðurstöðum kjaradómsins? Nei, siður en svo. Lögin um kjaradóm voru samþ. af öllum flokkum á Alþingi, kröfur ríkisstarfsmanna voru studdar af öðrum launþegasamtökum og þó alveg sérstaklega af stjórnarandstöðuflokkunum. Ber ríkisstj, ábyrgð á verðhækkun landbúnaðarafurða? Nei, hún hefur verið ákveðin skv. lögum, sem haldizt hafa litíð breytt í 2 áratugi, lögum, sem allir flokkar þingsins stóðu að á sínum tíma og enginn hefur í tvo áratugi treyst sér til að flytja gagngerar brtt. við og hafa ekki einu sinni verið gagnrýnd nema af hálfu Alþfl.

Nei, þeir, sem vilja sjá hið sanna og rétta í málinu, hljóta að viðurkenna, að vandinn, sem okkur öllum er nú á höndum, er ekki afleiðing af þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur fylgt síðan 1959. Hann á þvert á móti rót sína að rekja til þess, að ríkisstj. hefur ekki haft aðstöðu til þess að framfylgja þessari stefnu sinni að öllu leyti. Hér eru frjáls launþegasamtök og frjáls vinnuveitendasamtök, og þau hafa því miður ekki tekið tillit til staðreynda efnahagslífsins þrátt fyrir viðvaranir ríkisstj. Og Alþingi í heild, ég undirstrika: allir flokkar Alþingis bera ábyrgð á löggjöf, sem reynist nú mjög hæpin í framkvæmd, og á ég þar við löggjöfina um verðlagningu landbúnaðarafurðanna og kjaradóminn.

Hins vegar er það auðvitað skylda sérhverrar ríkisstj. að stjórna landinu, láta ekki allt fara úr böndunum, bjarga því, sem bjargað verður hverju sinni, og freista þess að halda þjóðarskútunni á réttum kili í ólgusjónum, sem sú ríkisstj. verður ávallt að sigla um, sem á við harðvítuga og ábyrgðarlausa stjórnarandstöðu að etja. Af þessum sökum hefur ríkisstj. lagt fram þetta frv. í því skyni að koma í veg fyrir öngþveitið.

Annars er málflutningur stjórnarandstöðunnar í þessu máli með þeim hætti, að óhjákvæmilegt er að gera hann að sérstöku umræðuefni. Málsvarar Alþb. tala eins og slík óhæfa hafi aldrei gerzt áður Í sögu Íslands, að nú eigi kaupgjald allt að haldast óbreytt til áramóta eða Í u.þ.b. átta vikur, samfara því að allt innlent verðlag skuli fest. Alþb. og Sósfl. hafa tvívegis átt sæti í ríkisstj. á Íslandi. Í fimm ár samtals hefur þessi flokkur borið ábyrgð á stjórnartaumum. Það er skemmri tími en nokkur hinna flokkanna hefur átt sæti í ríkisstj. En þótt stjórnartími Alþb. sé ekki lengri en þetta, hefur hann samt verið nógu langur til þess, að Alþb. hefur ekki aðeins borið ábyrgð á, heldur beinlínis haft forustu um festingu kaupgjalds, ekki aðeins í jafnlangan tíma og nú er lagt til, heldur í helmingi lengri tíma.

Það eru rúm sjö ár liðin, síðan þetta átti sér stað. Í ágúst 1956, rétt eftir að stjórn Hermanns Jónassonar hafði verið mynduð og Alþb. hafði tekið ábyrgð á stjórnartaumum, stóð fyrir dyrum almenn kauphækkun í kjölfar hækkaðrar vísitölu. Launþegasamtök áttu rétt á þessari kauphækkun skv. samningum og landslögum, en hún var augljóslega umfram aukningu þjóðartekna á því ári. Núv. formaður Alþýðusambandsins og Alþb., sem hæst talar gegn þessari lagasetningu, hikaði þá ekki við að festa kaupgjaldið í fjóra mánuði og gera þar með það, sem hann nú kallar að svipta verkalýðsfélögin frjálsum samningsrétti og taka meira að segja af launþegum kauphækkun, sem þeir áttu skýlausan rétt á. En Hannibal Valdimarsson er auðsjáanlega einn þeirra manna, sem lítur allt öðruvísi á öll vandamál þjóðarinnar eftir því, hvort hann er sjálfur í ríkisstj. eða í stjórnarandstöðu. Hann er auðsjáanlega einn þeirra manna, sem telur hagsmunum launastétta eitt gagnlegt, þegar hann er í ríkisstj., en annað, þegar hann er utan stjórnar. Hannibal Valdimarsson talaði mikið haustíð 1956, eins og hann gerir nú, en þá var svolítið annað hljóð í strokknum. Festingu kaupgjaldsins þá taldi hann ekki aðeins mikið nauðsynjaverk, heldur taldi hann sig og flokk sinn beinlínis hafa stuðlað að því með þessari lagasetningu að bægja bráðum voða frá íslenzku efnahagslífi.

Afstaða Framsfl. til þessa máls er þó enn þá furðulegri en Alþb. Hver á fætur öðrum af þm. Framsfl. hefur talað eins og aldrei hafi annað eins gerzt í sögu Alþingis og það, að nú skuli ríkisstj. leyfa sér að leggja til, að kaupgjald og verðlag sé fest um nokkurt skeið, svo að tóm gefist til varanlegra, skynsamlegra og réttlátra ráðstafana. Leiðtogar Framsfl. hrópa jafnvel enn þá hærra en leiðtogar Alþb. um, hvílík óhæfa það sé, að ríkisvaldið hafi með löggjöf afskipti af launamálum stéttarfélaga, svipti þau frjálsum samningsrétti og banni verkföll. En nú skutum við eitt andartak hverfa 25 ár aftur í tímann og virða fyrir okkur það, sem síðan hefur gerzt. Framsfl. hefur verið í ríkisstj. næstum 3/4 hluta þessa tímabils, og skyldi Alþingi aldrei hafa haft afskipti af launamálum, samningsrétti eða verkfallsrétti á þessu tímabili, þegar Framsfl. var í ríkisstj.? Sannleikurinn er sá, að á s.l. 25 árum er þetta í sjöunda — í sjöunda skiptíð, sem Alþingi á einn eða annan hátt hefur talið sig nauðbeygt til afskipta af frjálsum samningsrétti launþegasamtaka. Framsfl. hefur alltaf staðið að þessum afskiptum og stundum haft beina forustu um þau. Á s.l. 25 árum hefur Alþingi aldrei takmarkað frjálsan samningsrétt verkalýðsfélaga án þess, að Framsfl. hafi átt þar aðild að, fyrr en núna, þegar Framsfl. er í ábyrgðarlausustu stjórnarandstöðu, sem um getur í sögu íslenzks þingræðis. Ég skal rekja þessi dæmi með örfáum orðum.

Vorið 1939 var gengi krónunnar lækkað og grunnkaup bundið með lögum. Framsfl. hafði forustu um þessa lagasetningu, enda hafði hann stjórnarforustu. Þetta er fyrsta dæmið.

1942 voru öll launþegasamtök svipt samningsrétti og allar kaupbreytingar lagðar undir úrskurð gerðardóms. Framsfl. beitti sér fyrir þessari lagasetningu, enda var hann í ríkisstj. Þetta er annað dæmið.

1947 var kaup beinlínis lækkað með lögum. Framsfl. stóð að þeirri lagasetningu. Það er þriðja dæmið.

1950 var gengi krónunnar lækkað. Grunnkaupshækkanir voru þá bannaðar með lögum. Framsfl. hafði forustu um þá lagasetningu, enda hafði hann þá forsæti í ríkisstj. Þetta er fjórða dæmið.

Haustið 1956 voru launþegar með lögum sviptir kauphækkun, sem þeir áttu samningsbundinn rétt á vegna hækkunar framfærsluvísitölu. Framsfl. stóð að þeirri ráðstöfun, enda var hann í ríkisstj. Þetta er fimmta dæmið.

1959 var allt kaupgjald í landinu lækkað með lögum. Framsfl. samþykkti það lagafrv., sem borið var fram af minnihlutastjórn Alþfl. Það var í fyrsta skipti, sem hann samþykkti afskipti Alþingis af frjálsum samningsrétti launþegasamtaka án þess að vera sjálfur í ríkisstj., en ástæðan var eflaust sú, að hann gerði sér sterkar og eindregnar vonir um að komast í ríkisstj. að afloknum kosningum eftir nokkra mánuði. Þetta er sjötta dæmið.

Og þá eru upp talin öll þau skipti, sem Alþingi hefur talið sig nauðbeygt til þess að festa kaupgjald um sinn eða jafnvel lækka laun með lagaboði. Framsfl. hefur ávallt samþ. þessar ráðstafanir. Alþingi hefur fram til þessa dags aldrei samþ. kaupfestingu eða launalækkun án þess, að Framsfl. hafi staðið að henni eða beinlínis haft forustu um hana. Það er ekki fyrr en núna, þegar Framsfl. er ekki í ríkisstj. og hefur alls enga von um að komast í ríkisstj., að hann snýst algerlega öndverður gegn ráðstöfunum, sem hann hefur sjálfur sex sinnum á 25 árum ýmist staðið að eða beitt sér fyrir. Hvernig á slíkur flokkur, hvernig eiga slíkir stjórnmálaleiðtogar að halda virðingu heilbrigt hugsandi manna? Hvernig getur það nú allt í einu verið orðið alrangt, bara af því að Framsfl. er utan ríkisstj., sem sex sinnum á 25 árum hefur reynzt rétt, þegar Framsfl. var í ríkisstj. eða beið Þess að komast í ríkisstj.?

Nei, það er hægt að ofbjóða dómgreind almennings, og það gerir Framsfl. með ofstækisfullri afstöðu sinni í þessu máll. Sannleikurinn er sá, að meginþorri Íslendinga gerir aðrar kröfur til Framsfl. en Alþb., þegar mikinn vanda ber að höndum, hvort sem það er í innanríkismálum eða utanríkismálum. Það er vitað, að þeir, sem raunverulega ráða málum Alþb., eru sumpart á valdi annarlegra afla og sumpart fangar úreltra kreddukenninga, sem þeir ungir hafa ánetjazt og síðan aldrei haft siðferðisþrek til að losa sig undan. Þessir menn teyma síðan á eftir sér ýmsa aðra, sem lítinn skilning hafa bæði á innlendum efnahagsmálum og erlendum stjórnmálum. En það ætti að vera hægt að ætlast til annars og meira af leiðtogum Framsfl., sem s.l. 25 ár hafa farið lengur með stjórn á Íslandi en nokkrir aðrir menn og ættu því að hafa fullkomna þekkingu á lögmálum efnahagslífsins og hafa öðlazt mikla reynslu. Þeim verður ekki fyrirgefið vegna þess, að þeir séu slegnir blindu alheimskommúnismans eða séu ráðvilltir menn, sem rekið hefur á fjörur hans. Til þeirra verður að gera kröfu sem ábyrgra stjórnmálamanna, en einmitt þess vegna er afstaða þeirra nú óafsakanleg. Það fær mig enginn til þess að trúa því , að maður með þekkingu og reynslu Eysteins Jónssonar skilji ekki fullkomlega, að það hefði verið Þjóðarvoði, ef ný verkfallsalda hefði risið nú í byrjun nóvember. Það fær mig enginn til þess að trúa því, að maður með þekkingu og reynslu Eysteins Jónssonar skilji ekki fullkomlega, að allt kaupgjald í landinu getur nú ekki hækkað um allt að 40%, eins og kröfur eru uppi um. Það fær mig enginn til þess að trúa öðru en Eysteinn Jónsson hefði gert nákvæmlega hið sama og núv. ríkisstj. hefur gert, þ.e.a.s. leggja til bráðabirgðafestingu kaupgjalds og verðlags, ef hann og hans flokkur hefðu verið í ríkisstj. Sönnunin fyrir því, að þeir hefðu farið þannig að, getur ekki einfaldari og augljósari verið. Undir líkum kringumstæðum hafa þeir í grundvallaratriðum farið alveg eins að, þegar þeir hafa verið í ríkisstj., ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, ekki fjórum sinnum, ekki einu sinni fimm sinnum, heldur sex sinnum.

Ég hef þá óbilandi trú á dómgreind Íslendinga, að þeir fordæmi þetta háttalag Framsfl. Lýðræðisflokkur á ekki og má ekki hegða sér eins og Framsfl. gerir í þessu máli.

Um kommúnista og fylgifiska þeirra gegnir því miður öðru máll. Þeir eru í fjötrum, sumpart erlends valds, sumpart gamalla fordóma, en í Framsfl. eru frjálsir menn. Á örlagaríkum úrslitastundum reynist samt enginn munur á þeim og bandingjunum, sem eru í viðjum landplágunnar miklu, sem þjakar mannfólk frá Eystrasalti til Kyrrahafs. Þetta er hinn ömurlegi sorgarleikur íslenzkra stjórnmála í dag.

Góðir áheyrendur. Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa ekki gert það að gamni sínu að leggja þetta frv. fyrir hið háa Alþingi. Þeir hafa ekki gert það af því, að þeir telji það æskilegt í sjálfu sér, að löggjafarvaldið hafi afskipti af frjálsum samningum stéttarfélaga við vinnuveitendur. Þeir hafa þvert á móti talið sig til neydda að gera þetta til þess að forða þjóðinni allri og ekki sízt launþegum frá vísum voða. Þann starfsfrið, sem ríkisstj. hefur beðið um, mun hún nota vel, og þá mun hún sýna, að henni og stuðningsflokkum hennar hefur ekki gengið til fjandskapur við láglaunafólk.

Miðstjórn Alþfl. hefur markað stefnu flokksins í þessu máli skýrt og ótvírætt. Alþfl. telur nauðsynlegt að bæta kjör láglaunafólks frá því, sem nú er. Til þess telur hann ýmsar leiðir koma til greina, svo sem verulega lækkun útsvara og skatta á láglaunafólki, ákvörðun lágmarkslauna og verulega aukningu tryggingabóta. í þessu sambandi vil ég ekki láta hjá líða að geta þess og leggja á það áherzlu, að engar lagfæringar í skatta- og útsvarsmálum geta náð tilætluðum árangri, nema jafnframt sé tekið fyrir þann þjóðarósóma, sem nú er beinlínis smánarblettur á íslenzku efnahagslífi, þar sem eru hin víðtæku skattsvik, sem því miður hafa tíðkazt hér á landi um langt skeið og valda því, að fastlaunamenn með miðlungstekjur greiða í raun og veru skatta og útsvar fyrir fólk, sem hefur tvöfalt, þrefalt eða margfalt hærri tekjur, en hefur aðstöðu til þess að skjóta þeim undan skatti og útsvari. Þessu ástandi verður að breyta. Það er ófrávíkjanleg forsenda þess, að launþegar geti sætt sig við kjör sín.

Góðir áheyrendur. Allir hugsandi Íslendingar þurfa nú að gera sér ljóst, að vandi er á höndum. Það er skylda ríkisstj. og stjórnarflokka á hverjum tíma að hafa forustu um lausn vandans. Hins vegar erum við auðvitað ekki alvitrir. En ég spyr ykkur að síðustu, hlustendur góðir: Haldið þið, að meira tillit yrði tekið og betra tillit yrði tekið til hagsmuna launastéttanna, ef Framsfl. ætti aðild að ríkisstj.? Og sérstaklega spyr ég ykkur, Reykvíkinga: Er reynslan af starfi Framsfl. sú, að þið hafið ástæðu til þess að vænta vinsamlegri tillagna frá honum en þeim, sem nú fara með völd? Og enn spyr ég íslenzka launþega: Var reynslan af stjórnarþátttöku Alþb. á árunum 1956-58 slík, að þaðan sé að vænta lausnar á víðtækum vandamálum?

Nei, öll svörin hljóta að verða neitandi. Einu flokkarnir, sem hafa aðstöðu til þess að leysa þann vanda, sem nú steðjar að, eru þeir, sem nú standa að ríkisstj. Einu flokkarnir, sem vilja leysa hann og geta leyst hann af réttlæti og skynsemi með raunverulegar hagsbætur láglaunafólks fyrir augum, eru flokkarnir, sem standa að núv. ríkisstj. Undan þeirri skyldu sinni munu þeir ekki víkjast. Ef þeir vikjust undan henni, yrði hér upplausn, glundroði, hrun. Þess vegna munu þeir gegna skyldu sinni í krafti þess umboðs frá meiri hl. íslenzku þjóðarinnar, sem þeir fengu í alþingiskosningunum í sumar. Þess vegna munu þeir fylgja fast fram þeirri stefnu, sem ein tryggir stöðuga atvinnu og stöðugt gengi gjaldmiðilsins, en færir jafnframt láglaunafólki réttlátan og vaxandi hlut af þjóðartekjunum.