20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

1. mál, fjárlög 1964

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki mikið, sem ég ætla mér að blanda mér í þessar umr., en það er út af till., sem hv. 3. þm. Austf. hefur flutt hér á þskj. 178, að ég sé ástæðu til að taka til máls. Till. er um það að heimila lántöku til þess að byggja brú á Hofsá í Vopnafirði. Nú er það svo, að þessi brú hefur verið til umr. fyrr hér í hv. Alþingi og ekki langt síðan ég svaraði fsp. frá hv. 2. þm. Austf. viðvíkjandi þessari brú. Hv. þm. munu hafa heyrt þá, að ég taldi nauðsynlegt, að þessi brú yrði byggð, sérstaklega eftir að Vopnfirðingar fóru að flytja mjólk í mjólkurbúið, sem er nýlega reist í Vopnafirði.

Ég vil, af því að hér er lagt til, að lán verði tekið til þessarar brúar, lýsa því yfir, að ég mun beita mér fyrir, að brúin á Hofsá í Vopnafirði verði tekin upp í vegáætlun næsta árs. Ég get vitanlega ekki ábyrgzt það, að vegáætlunin, sem lögð verður fyrir, verði samþ. eins og hún verður lögð fram af mér, en mér þætti líklegt, ef brúin verður tekin upp á áætlunina í fyrstu, að hún yrði ekki tekin út aftur í meðferðinni hjá hv. Alþingi, þar sem allir hv. þm. Austf. mundu sameinast um það og áreiðanlega fleiri veita þeim lið, þar sem viðurkennt er, að þessi brú þarf að koma. Hv. flm. vitanlega ræður því, hvort hann vill láta þessa till. fara undir atkv. eða þá taka hana aftur í trausti þess, að vegáætlunin verði samþykkt að þessu leyti eins og hún verður lögð fram. Því verður hann sjálfur að ráða, en ég sé ástæðu til að taka þetta fram, að ég mun stuðla að því, að hún verði tekin á vegáætlunina.

Vegamálin hafa að sjálfsögðu verið rædd nokkuð hér við þessar umr. Ég hef ekki getað hlustað á það allt og ætla ekki að fara að blanda mér að neinu verulegu leyti á þessu stigi málsins inn í það. En mér þykir nú heldur djúpt tekið í árinni, þegar sumir hv. þm. halda því fram, að vegakerfið sé að drabbast niður, vegna þess að það hafi verið verr fyrir því séð núna síðustu árin heldur en áður, t.d. á meðan hv. framsóknarmenn fóru með vegamálin. Það hefur oft verið gerður samanburður á fjárframlagi til vega á árinu 1958 og á árinu 1963, og sá samanburður sýnir það, að hækkun til vegaframkvæmda, bæði viðhalds og nýbygginga, er miklu meiri en sem nemur verðhækkuninni. Og það út af fyrir sig talar sínu máli, talar þeim rökum, sem hljóta að verða tekin gild, þegar rætt er um þessi mál æsingalaust og rólega. Vitanlega fer bezt á því, að það sé gert, enda þótt við séum öll hér í hv. Alþingi sammála um það, að betur hefði verið æskilegt að gera í þessum málum heldur en raun ber vitni. Og hv. alþm. hafa nú sýnt það með því að samþykkja ný vegalög með rúmlega 100 millj. kr. hækkun frá því, sem er á fjárl. 1963, að allir eru sammála um nauðsynina á því að fá aukið vegafé. Og það geta hv. þm. verið án þess að vera í leiðinni að fullyrða það, að núv. ríkisstj. hafi staðið verr að vegamálunum en þær ríkisstj., sem hafa verið áður. Mér finnst, að við getum alveg rætt þessi mál með rökum, vitandi það, að allir hv. þm. þekkja þessa sögu, og algerlega tilgangslaust að vera að reyna að fara með annað en staðreyndirnar einar.

Þegar rætt er um vélakost vegagerðarinnar, er náttúrlega margt, sem mætti um það segja, og það er vissulega rétt, það sem hæstv. fjmrh. sagði hér í dag, ekki aðeins um vélakost vegagerðarinnar, heldur og um vélakost ríkisstofnana, sem eiga vélar og verða að hafa vélar. Og af hverju eru nú þessar vélar svona gamlar, slitnar og úreltar? Ég er sannfærður um, að hv. alþm. hafa gert sér grein fyrir því. Það er vegna þess, að árum saman fékkst ekki gjaldeyrir til þess að flytja inn nýjar vélar. Það er vegna þess, að árum saman, í 1½ áratug, var það látið nægja að kaupa gamlar vélar af varnarliðinu, slitnar og gamlar vélar og gera þær svo upp með miklum kostnaði, og það eru þessar vélar, sem vegagerðin hefur orðið að notast við og fleiri ríkisstofnanir í hálfan annan áratug. Af því að ég var ekki alveg öruggur í sögunni og vildi aðeins fara með það, sem rétt er, þá hringdi ég í vegamálastjóra áðan og spurði hann um þetta. Og hann staðfesti, að það hefði enginn vörubíll, engin ný vél fengizt fyrr en 1960. Á árunum 1947–1960 var aðeins keypt gamalt drasl af Keflavíkurvelli, vegna þess að það fékkst ekki gjaldeyrir til þess að fá nýtt. 1960 er svo byrjað að kaupa nýjar vélar, en vitanlega allt of lítið, því að fjárveitingin var takmörkuð, eins og hv. þm. er kunnugt. En þetta hefur þó smáaukizt. 1960 voru keyptir 3 nýir bílar í staðinn fyrir gamla trukkbíla, eins og venja var að gera áður. Það voru keyptar nýjar skóflur. 1961 var enn aukið við þetta, keyptar skóflur, ýtur og fleiri verkfæri. 1962 voru keyptir 4 heflar, skóflur og ýta. 1963 voru keyptir 8 nýir heflar, skóflur og ýta. Og 1964 hafa verið gerðar pantanir á 8 heflum, 2 ýtum og skóflu. Ég segi nú það, að ef það hefðu alltaf verið keyptar nýjar vélar á þessum 13 árum, sem ég áðan nefndi, í staðinn fyrir gamalt drasl af Keflavíkurflugvelli, þá væri náttúrlega útkoman allt önnur á vélakosti vegagerðarinnar og þá væru tegundir ekki heldur eins margar og þær nú eru, því að þegar keyptar eru nýjar vélar, eru ekki keyptar nema þekktar og reyndar tegundir. Þess vegna má segja, að endurnýjun á vélakosti vegagerðarinnar er þegar hafin, og með auknu fé, sem ætti að fást til vélakaupa samkv. vegalögunum, ætti að mega hraða þessari endurnýjun nokkuð, og það ætla ég, að hv. þm. geti verið sammála um, að til þess að vegaféð notist vel, muni borga sig að gera nokkurt átak í því núna fyrstu árin að kaupa nýjar vélar og hætta að gera þær gömlu upp. Það þarf að selja þær, ef einstaklingar vildu eignast þær, því að það er vitanlega allt annað fyrir einstaklinga að gera út gamlar vélar, sem þurfa mikillar viðgerðar við, heldur en fyrir opinber fyrirtæki. Einstaklingarnir gera við þetta sjálfir oft og tíðum án þess að reikna sér kaup fyrir og það getur komið að notum hjá þeim, þótt það sé alveg útilokað fyrir opinbera stofnun að gera út þessi gömlu verkfæri.

Ég tel svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta að svo stöddu. Ég sá aðeins ástæðu til að taka þetta fram, vegna þess að mér fannst ofmælt hjá nokkrum þm. í samanburði á fjárveitingum í tíð núv. ríkisstj. og hinna fyrri, og eins töluðu ýmsir þm. eins og þeir þekktu ekki söguna um vélakostinn og hvernig hann er til orðinn hjá vegagerðinni og ýmsum öðrum ríkisstofnunum, sem hafa ýmiss konar vélar til sinna nota.