20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

1. mál, fjárlög 1964

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að mæla fyrir brtt. Ásamt öðrum þm. Framsfl. í Suðurl. hef ég flutt nokkrar brtt. Hv. 4. þm. Sunnl. hefur nú mælt fyrir flestum þeirra fyrr í kvöld, en ég mun hér mæla fyrir tveim litlum till., sem við flytjum á þskj. 178.

Liður XIV er till. um það, að inn á 16. gr. komi nýr liður: „Til rannsókna á virkjunarskilyrðum á svæðinu milli Skeiðarársands og Mýrdalssands.“ Þetta svæði er einna einangraðast frá veitusvæðum landsins. Það hefur nú um alllanga hríð verið að ske sú stefnubreyting í rafmagnsmálum, að í stað smávirkjana, sem með tiltölulega stuttum línum ná til lítilla svæða, hallast menn nú öllu frekar að stórvirkjunum og umfangsmiklum línukerfum. En stefnan í rafmagnsmálunum verður að sjálfsögðu ævinlega sú, að stefnt sé að því að fá óslitið línukerfi um landið og tengja saman einstök kerfi, hvort sem þau eru stór eða smá. En það má búast við því, að það svæði, sem till. þessi ræðir um, verði lengi útundan, ef svo heldur áfram í þessum málum sem nú horfir. Rannsóknir á virkjunarskilyrðum á þessu svæði hafa verið mjög takmarkaðar, m.a. af þeim ástæðum, að það hefur ekki þótt ástæða til þess að leita að skilyrðum fyrir stórar virkjanir, og þar af leiðandi hafa rannsóknir á þessu svæði ekki verið miklar. En eigi að síður virðist okkur flm. þessarar till. nauðsynlegt, að það sé rannsakað, hvort ekki kunna að vera fyrir hendi skilyrði á þessu svæði til þess að virkja með þörf þessa landshluta fyrir augum. Okkur virðist það vera afsakanlegt, þó að það dragist að virkja, þar sem skilyrði eru mjög erfið, en hins vegar virðist okkur það síður afsakanlegt, að ekki sé kannað til hlítar, hvort þau skilyrði eru fyrir hendi, sem að gagni gætu komið.

Það má að endingu minna á það í sambandi við þetta mál, að einmitt á þessu svæði bjuggu brautryðjendur um vatnsorkurafvæðingu í smáum stíl fyrir 30 árum, og þar er enn að finna ýmsar minni rafstöðvar, sem byggðar voru af þessum brautryðjendum, en að sjálfsögðu eru ekki til frambúðar. Ég mundi þess vegna vilja mælast til þess við hv. þm., að þeir samþykktu að veita þær 150 þús. kr., sem hér er farið fram á til rannsókna á virkjunarskilyrðum á þessu svæði, sem ekki hefur fengið raforku frá veitum, eins og ég sagði áðan, og ástæða virðist til þess að ætla að geti þurft að bíða nokkuð eftir því enn, ef ekki er að gert.

Önnur till., sem ég mæli fyrir, er á sama þskj., XI. Þar er gert ráð fyrir því, að tekin sé inn á 14. gr. B lítil fjárveiting til greiðslu kostnaðar við vísindalegar rannsóknir á Surtsey og gosinu þar og öðrum óvæntum náttúrufyrirbrigðum, samkv. ákvörðun ráðh. Þessi liður er að hálfu okkar flm. hugsaður sem eins konar viðurkenning til þeirra ágætu náttúruvísindamanna, sem ávallt eru boðnir og búnir að bregða við, þegar óvæntir atburðir ske í íslenzkri náttúru. Það er hugsað sem viðurkenning til þeirra, ekki sem þóknun til þeirra sjálfra, heldur í því formi að hafa á fjárlögum tiltækilega litla upphæð til þess að standa undir slíkum kostnaði, sem óvænt ber að höndum.

Í okkar landi elds og ísa eru slíkar náttúruhamfarir ekki fátíðar. Nú er það þetta gos fyrir sunnan land, og rannsóknir á því hafa vissulega auðveldazt mjög vegna þess, að það á sér stað í sjó og landhelgisgæzlan hefur verið boðin og búin til þess að flytja og aðstoða þá menn, sem þarna hafa unnið að. En í fyrra voru nokkuð hliðstæðir atburðir við Öskju, þar sem leggja þurfti í talsverðan kostnað vegna þeirra vísindamanna, sem bregða þurftu við og skjótast þangað, og við getum alltaf átt von á eldgosum, jökulhlaupum og öðrum óvæntum náttúrufyrirbrigðum af þessu tagi.

Það er ekki alltaf, að þessi fyrirbrigði eru bara einkennileg og fróðleg náttúrufyrirbrigði, heldur geta þau hvenær sem er orðið með þeim hætti, að það verði af því ýmiss konar áföll, og undir fullkomnum rannsóknum náttúrufræðinga okkar eigum við það, hvort þekking okkar á eðli þessara atburða fer nægilega vaxandi, til þess að við getum haft af því nokkurn fyrirboða, áður en slíkir atburðir eiga sér stað. Það er hugmynd okkar flm., að slík upphæð væri föst upphæð á fjárl. fyrir hæstv. ráðh. til þess að vísa á, svo að ekki þurfi að verða neitt hik á því að bregða við, þegar slíkir atburðir eiga sér stað.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér að mælast til þess við hv. alþm., að þeir samþykki þessar tvær litlu till., sem ég hér hef verið að mæla fyrir.