24.01.1964
Neðri deild: 44. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Aðalefni þessa frv., sem hér er til umr., er það, að ráðgert er að leggja á nýjan skatt, sem áætlað er að muni nema á þessu ári 210 millj. kr. Ég tel þó, að allar líkur bendi til, að skatturinn muni verða allmiklu hærri, og vík kannske að því nokkuð síðar.

Þessum skatti á að verja þannig, að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að skatturinn renni til þess að greiða beinar ríkissjóðsgreiðslur, sem nema 82 millj. kr., og í öðru lagi að greiða ákveðna styrki til togaraútgerðarinnar í landinu og til frystihúsaeigenda og annarra fiskverkunarmanna, samtals 128 millj. kr. Það er því augljóst, að þessi nýi skattur er jöfnum höndum álagður til að afla ríkissjóði beinna tekna og svo til hins að taka upp í ríkara mæli en áður beinar styrkjagreiðslur til framleiðslunnar. Ég sagði, að um 82 millj. kr. af þessum skatti ættu að ganga til beinna ríkissjóðsgreiðslna. En samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að þeirri upphæð verði varið til að greiða aukið framlag til almannatrygginganna, sem nemur 27 millj. kr., og til þess að greiða verðlækkun á vörum innanlands, sem nemur 55 millj. kr. Greiðslur sem þessar hafa alltaf hingað til verið beinar ríkissjóðsgreiðslur og er í rauninni ekki hægt að blanda saman við sérstakar efnahagsráðstafanir, sem kunna að verða gerðar í sambandi við atvinnuvegi landsins.

Með þessu frv. er því í rauninni haldið fram, að fjárhag ríkisins sé þannig komið, að tekjustofnar hans hrökkvi ekki lengur til að standa undir þeim almennu útgjöldum, sem ríkissjóður hefur staðið undir.

Þá athugasemd vil ég þó gera í sambandi við upphæðina til niðurgreiðslu á vöruverði, þar sem gert er ráð fyrir, að verja eigi í því skyni 55 millj. kr. af þessum skatti, að þar er í rauninni um of lága fjárhæð að ræða, miðað við þær greiðslur til lækkunar á vöruverði, sem í gildi hafa verið.

Samkv. athugasemdum, sem ríkisstj. sendi sjálf frá sér með fjárlagafrv., var því lýst yfir, að niður væru felldar greiðslur vegna lækkunar á vöruverði, sem næmu 92 millj. kr., og þannig voru fjárlögin afgreidd. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því að afla nýrra tekna upp á 55 millj. kr. til þess að halda áfram verðlækkunum á vörum innanlands, en það þýðir, að það á raunverulega að draga úr niðurgreiðslunum frá því, sem var á árinu 1963. Hér er um nokkra vöruflokka að ræða, sem ríkisstj. virðist hafa tekið ákvörðun um að hætta að greiða niður.

Á meðan þessar niðurgreiðslur allar áttu sér stað, bæði á árinu 1962 og 1963, hafði ríkissjóður þegar fengið tekjustofna til þess að standa undir þessum niðurgreiðslum. En nú virðist sem sagt svo komið hjá ríkissjóði, að því er haldið fram, að hann hafi ekki tekjur til þess að halda áfram sams konar niðurgreiðslum á vöruverði og hann hefur haft með höndum á undanförnum árum. Þetta frv. er að mínum dómi ótvíræð viðurkenning af hálfu ríkisstj. á því, að uppbóta- og styrkjakerfið er enn í fullum gangi ásamt með öðrum efnahagsmálaráðstöfunum, sem ríkisstj. stendur fyrir. Það er ekki aðeins það, að þetta frv. gerir nú ráð fyrir því, að sérstakra tekna skuli aflað til ákveðinna uppbótagreiðslna, bæði til fiskkaupenda í landinu og til togaraútgerðarinnar, heldur minnir þetta frv. í þeirri grg., sem fylgir með frv., og þeim gögnum öðrum, sem fylgja til skýringar á þessu frv., einnig á aðrar uppbóta- og styrkjagreiðslur, sem í gangi hafa verið á undanförnum árum. Og ég skal minna á þær greiðslur hér með örfáum orðum.

Það er upplýst, að togaraútgerðin í landinu hefur notið beinna styrkja öll þau ár, sem viðreisnarstefnan hefur þó átt að vera í gildi. Árin 1960 og 1961 og 1962 nema beinar styrkjagreiðslur til togaraútgerðarinnar 193 millj. kr., eins og hér hefur verið upplýst í þessum umr. í öðru lagi hefur allan þennan tíma verið í gildi sérstakt styrkjakerfi varðandi greiðslu á vátryggingum allra fiskiskipa. Þær greiðslur hafa numið á hverju ári að undanförnu um 120–140 millj. kr. Í þriðja lagi liggur svo fyrir, að ríkissjóður greiðir beinar útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir og ráðgerðar greiðslur í þeim efnum á þessu ári, sem nema 115 millj. kr. Og í fjórða lagi eru svo greiðslur til lækkunar á vöruverði innanlands, en þær greiðslur voru s.l. ár um 370 millj. kr. Þessar beinu styrkja- og niðurgreiðslufjárhæðir hafa því numið á undanförnum árum að meðaltali um 650 millj. kr. og fara nú á þessu ári sýnilega yfir 700 millj. kr.

Það er því vitanlega alls fjarri að halda því fram, að með hinni nýju efnahagsmálastefnu ríkisstj., sem upp var tekin snemma á árinu 1960, hafi verið horfið frá styrkja- og uppbótagreiðslum. Þeirri stefnu hefur verið haldið áfram, en ýmislegt nýtt hefur svo verið tekið þar upp til viðbótar því, sem áður var í gildi og aftur hefur verið meira hampað af hæstv. ríkisstjórn í sambandi við hennar efnahagsráðstafanir. Það er því hlægilegt að heyra það af munni hæstv. sjútvmrh. hér í þessum umr., að í rauninni sé ekki um að ræða, að farið sé inn á braut styrkja- eða uppbótakerfisins á neitt svipaðan hátt og áður hafði verið. Slíkt er vitanlega aðeins að lemja höfðinu við steininn og neita staðreyndum. Staðreyndirnar blasa við í þessum efnum. Þessar greiðslur hafa farið fram, sumpart í mjög svipuðu formi og áður var, en í öðrum tilfellum í nýju formi, en þó alveg á ótvíræðan hátt hefur þar verið um beina styrki eða uppbætur að ræða.

Þegar frv. þetta er athugað, hlýtur að vakna sú spurning, hvort í rauninni sé ástæða til þess að fara að leggja á nýjan skatt, eins og sakir standa nú. Getur verið þörf á því, að ríkissjóður krefjist þess nú, að það verði lagður á nýr skattur til þess að standa undir þeim beinu greiðslum, sem hingað til hafa hvílt á ríkissjóði? Hefur fjárhag ríkissjóðs verið þannig háttað að undanförnu, að það sé í rauninni ástæða til þess að fara nú að leggja á nýjan skatt beint til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð? Nei, það er alveg augljóst mál, að afkoma ríkissjóðs er ekki með þeim hætti, að það sé þörf á nýjum skatti, og þetta varð hæstv. forsrh. í raun og veru að viðurkenna hér, um leið og hann lagði þetta frv. fyrir þingið. Það er rétt, að ríkisreikningurinn fyrir árið 1962 sýnir, að á því ári varð rekstrarafgangur hjá ríkinu sem nam 295 millj. kr. Um þetta verður ekki deilt. Það er rétt, að þessi mikli afgangur er ekki allur í handbæru fé. Beinn greiðsluafgangur, þegar ríkið var búið að standa undir miklum, beinum fjárfestingum, beinn greiðsluafgangur hjá ríkinu var þó á milli 160 og 170 millj. kr. Það hefur verið upplýst hér í umr. á Alþingi, að allmikið af þessu fé sé handbært. Það mun enginn vafi heldur leika á því, að tekjur ríkissjóðs hafa orðið enn þá hærri á nýliðnu ári en á árinu 1962. Rekstrarafgangur ríkissjóðs mun hafa orðið fyllilega eins mikill. Um beinan greiðsluafgang er ekki hægt að segja, því að upplýsingar hafa ekki verið lagðar fram um það. En það getur ekki verið um svo mikla umframeyðslu að ræða hjá ríkinu, að þar sé ekki einnig um mjög verulegan greiðsluafgang að ræða. Það er því vitanlega alveg augljóst mál, að ríkissjóður getur haldið áfram að inna af höndum nauðsynlega verðlækkun á vörum innanlands í sama formi og hann hefur gert, til þess hefur hann alveg fullt bolmagn. Það þarf ekki að leggja á neinn nýjan skatt til þess að halda uppi slíkum greiðslum. Það er líka alveg augljóst mál, að ríkissjóður hefur slíkar tekjur, að hann getur tekið að sér 27 millj. kr. aukagreiðslu til almannatrygginganna vegna hækkunar á elli- og örorkulaunum. Það er engin ástæða til þess að fara að leggja á nýjan skatt af þeim ástæðum. Það er einnig alveg ljóst, að ríkissjóður hefði getað greitt nokkurn styrk til togaraútgerðarinnar af sínum beinu tekjustofnum, þeim sem hann hefur haft, á svipaðan hátt og ríkið hefur gert á undanförnum árum. Það var því engin og er engin ástæða til þess að fara að leggja á þjóðina nýjan skatt vegna þessara greiðslna. Og þá er aðeins spurningin þessi: Var þá óhjákvæmilegt að leggja nýjan skatt á almenning í landinu til þess að afla þeirra 73 millj. kr., sem ráðgert er að styrkja fiskkaupendur í landinu með vegna þeirra kauphækkana, sem urðu í desembermánuði s.l.? Ég held því fram, að það hafi engar ástæður verið til þess, þó að um þær greiðslur hefði verið að ræða, að leggja á nýjan skatt. Það var auðvelt að koma við sams konar stuðningi við fiskkaupendur í landinu eftir öðrum leiðum, leiðum, sem hefðu verið miklu hagkvæmari, og leiðum, sem m.a. fiskkaupendur í landinu höfðu bent á. Það var hægt að lækka vexti fiskkaupendum í landinu til verulegra hagsbóta.

Ég tók eftir því, að hér í umr. í dag vildi hæstv. forsrh. gera lítið úr því, hvað lækkun vaxta hefði dregið fyrir fiskiðnaðinn í landinu. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að hæstv. forsrh. hefur ekki gert sér nægilega grein fyrir því, hvernig þessi mál eru í raun og veru, þegar hann segir þetta. Hann hefur fengið hér rangar upplýsingar um eðli málsins. Vaxtabyrðin, sem hvílir á sjávarútveginum, er svo mikil, að aðeins nokkur lækkun á vöxtunum mundi fljótlega færa útveginum sem heild fyllilega þá upphæð, sem hér er gert ráð fyrir að færa honum eftir skattaleiðinni. Það er rétt, að lækkun vaxta á afurðalánum einum saman dregur vitanlega ekki ýkjalangt. En þó hygg ég, að lækkun framleiðsluvaxta eða vaxta á afurðalánum úr 7%, sem þau eru nú, og t.d. niður í 2% eða 2½%, sem viðurkennt er m.a. af hagfræðingum ríkisstj. að fengi fyllilega staðizt, af því að hér er aðallega um seðlabankalán að ræða og fjárhag þess banka er þannig varið, að hann gæti fyllilega staðið sig við þetta, — slík lækkun, sem næmi 4½–5% á afurðalánunum, mundi tvímælalaust færa sjávarútvegsmönnum ekki minna en 25–30 millj. kr. Endurkeypt afurðalán voru t.d. í októbermánuði s.l. gefin upp af Seðlabankanum 921 millj. kr., tæpar 300 millj. af þeim munu hafa verið til landbúnaðarins. Það er því augljóst, að endurkaupalán sjávarútvegsins hafa á þessum tíma verið fyllilega 600 millj. kr. Og ég tel, að það sé ekki fjarri lagi að áætla, að afurðalán sjávarútvegsins í heild séu í kringum 600 millj. kr. að meðaltali yfir árið. Lánin geta orðið mun hærri og hafa orðið mun hærri stundum, en þau geta líka orðið nokkru lægri á vissu tímabili. En lækkun vaxta mundi líka koma sjávarútveginum að gagni í fleiri tilfellum en aðeins í sambandi við vexti af afurðalánum. Önnur rekstrarlán til útvegsins eru allmikil, og þá mundi ekki muna minna að lækka vextina einnig af stofnlánum útgerðarinnar, en vextir af þeim hvíla nú orðið mjög þungt á útgerðinni.

En auk þess að hægt hefði verið með lækkun vaxta að bæta hag framleiðslunnar verulega frá því, sem verið hefur, hefði einnig átt að fara þá leið, sem ég hef margsinnis bent á í umr. um þessi mál áður, að það hefði átt að lækka útflutningsgjaldið á sjávarafurðum mun meira en áætlað er í þessu frv., og sú lækkun á útflutningsgjaldinu hefði beinlínis átt að sparast með því að breyta um það vátryggingakerfi, sem nú gildir fyrir fiskiskipaflotann.

Það er verið að eyða stórum fjárfúlgum með mjög röngu fyrirkomulagi, sem nú er í gildi á vátryggingu fiskiskipanna. Það nær vitanlega engri átt að þurfa að eyða á hverju ári 120–140 millj. kr. til þess að standa undir vátryggingariðgjöldum fiskiskipaflotans. Þar er eytt allt árið of hárri upphæð, og þar er mönnum einnig nú mismunað á hinn herfilegasta hátt. Með því að breyta hér nokkuð um, hefði verið auðvelt að spara 30–40 millj. kr. á hverju ári. Þessar ráðstafanir hefðu verið miklu eðlilegri og betri fyrir framleiðsluna en að fara þær leiðir, sem lagt er til að fara með þessu frv., því að vitanlega eru megingallar þessa frv. þeir, að gert er ráð fyrir því að leggja á nýjan skatt, sem sennilega kemur til með að nema 240–250 millj. kr. á ári, og það þýðir óhjákvæmilega almenna verðhækkun í landinu. Sú verðhækkun hefur fljótlega sínar afleiðingar. Kaupgjald kemur á eftir og mun hækka, og þetta mun því fyrr eða síðar allt saman skella á útflutningsframleiðslunni í nýjum vanda, þótt síðar komi. Ég hygg, að sjávarútvegsmenn hafi almennt gert sér grein fyrir þessu, og því hafa þeir ekki fyrst og fremst sett fram kröfur um að leysa þennan vanda með því að fara að leggja á nýjan skatt. Þeir hafa bent á önnur úrræði, en ríkisstj. hefur vikið þeim til hliðar og valið þetta.

Nei, um það getur varla þurft að standa hér nokkur deila, að það eru ekki frambærileg rök til fyrir því, að það hafi verið nauðsynlegt að leggja nú á þennan nýja skatt, jafnvel þó að svipaður stuðningur yrði veittur framleiðsluatvinnuvegunum í landinu og gert er ráð fyrir með þessu frv. Það eru auðvitað aðrar ástæður, sem liggja til þess, en bein tekjuþörf ríkisins. Það eru aðrar ástæður, sem liggja til þess, að ríkisstj. hefur valið þessa leið.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. sagði, þegar hann talaði fyrir þessu frv. í dag, að frv. væri flutt vegna loforða, sem ríkisstj. hefði gefið, til þess að takast mætti að leysa vinnudeilurnar í desembermánuði s.l. Hann sagði, að sá skattur, sem hér væri um að ræða, væri því bein afleiðing af kauphækkununum í des. s.1. Og hæstv. forsrh. bætti við, að hann teldi, að það væri æskilegt, — ég skrifaði þetta upp eftir honum, — að það væri æskilegt, að áhrifin af kauphækkunum fengju lýst sér, eins og hann sagði, í framkvæmd, og það væri ekki verið að draga yfir þau á neinn hátt, svo að mönnum lærðist, af reynslunni. Það er vitanlega ekkert um að villast, hvað vakir fyrir hæstv. forsrh. með því að haga orðum sínum á þessa lund. Hann telur, að það sé aðeins æskilegt, að launþegar í landinu og landsmenn almennt fái að kenna á því, hvað það kostar að hækka kaupið í landinu. Það kostar nýjan skatt, það kostar hækkandi verðlag á öllum sviðum. Menn skulu læra af þessari reynslu og hætta því að reyna að breyta kaupinu til hækkunar fyrir vinnandi fólk.

Í þessum efnum talaði hæstv. forsrh. um, að ríkisstj. hefði í undirbúningi aðrar og frekari till. til lausnar á efnahagsvandamálunum, en svigrúm þyrfti að skapast, tími að gefast til að athuga það, hvaða leiðir væru beztar í þessum efnum. En sem sagt, á meðan er verið að athuga um nýjar leiðir, telur hann æskilegt að leggja á nýjan skatt, standa fyrir því, að verðlagið í landinu hækki á nýjan leik, til þess m.a. að launþegar í landinu læri af reynslunni og fari ekki út í nýjar kaupkröfur.

Ég efast ekkert um það, að ríkisstj. mun eins og jafnan áður leggja sig alla fram um að reyna að sannfæra almenning í landinu um, að hækkandi verðlag, aukin dýrtíð, auknir skattar séu afleiðingar af hækkandi kaupi. Hún mun sjá til þess, að hamrað verður á þessu dag eftir dag og viku eftir viku, eflaust í von um það, að henni muni takast að fá launþega í landinu til að una við sitt lága kaup eða sinn litla kaupmátt. En ég hélt satt að segja, að hæstv. ríkisstj. væri búin að halda uppi þessum leik nægilega lengi, hún væri búin að reyna þetta nægilega mikið, til þess að hún væri búin að læra, að þessi leikur heppnast ekki. Launþegar í landinu hafa gert sér fulla grein fyrir því, að t.d. skattlagning eins og sú, sem er ráðgerð í þessu frv., er ekki nauðsynleg vegna kauphækkana, sem fram fóru í desembermánuði s.l. Það eru aðrar hvatir, sem til þess liggja, að lagt er nú til að fara út í þessa nýju skattlagningu. Það voru aðrar leiðir færar í þessum efnum, sem bent hefur verið á, en ríkisstj. vildi ekki fara, því að hún vildi fara aðra leið.

Þetta frv., sýnir að mínum dómi á mjög áberandi hátt afstöðu hæstv. ríkisstj. til efnahagsvandamálanna. Samkv. frv. er gert ráð fyrir því að styrkja fiskkaupendur í landinu nokkuð og togaraeigendur einnig nokkuð, en hins vegar bólar ekki á í þessu frv., að gerðar séu ráðstafanir til þess, að aðrir aðilar, sem eiga í efnahagserfiðleikum og starfa við sjávarútveginn, fái nokkra úrlausn. Það bólar ekki á neinum till. um það, að gerðar séu ráðstafanir án þess, að hægt verði að bæta kjör togarasjómanna. Ríkisstj. veit þó mætavel, að togarasjómenn hafa sagt upp launakjörum sínum fyrir alllöngu og gera kröfur um allverulegar kauphækkanir. Hún veit einnig, að það eru engar líkur til þess, að hægt verði að fá sjómenn á togaraflotann upp á þau kjör, sem sjómennirnir hafa búið við að undanförnu. Hún veit, að það dugir ekki að afhenda togaraeigendum nokkra milljónatugi í styrki, ef ekki fást sjómenn á skipin. En hún gerir þrátt fyrir það enga tilraun til þess að leysa vanda þessara aðila, sem líka eiga sín efnahagsvandamál.

Sama er að segja um sjómennina á bátaflotanum og vélbátaútvegsmenn. Ríkisstj. vissi mætavel um það, að þessir aðilar höfðu við sín efnahagsmál að stríða ekki síður en fiskkaupendur. Það er vitanlega með öllu gagnslaust fyrir ríkisstj. að afsaka sig með því, að þetta hafi ekki legið skýrt fyrir um það leyti, sem hún var að semja þetta frv. hún veit það mætavel, að það var haft náið samband við hana um það leyti, sem verið var að athuga öll gögn varðandi ákvörðun á fiskverði. Hún átti að fylgjast með því og hefur enda gert það, hvernig afkomumöguleikar bátaútvegsmanna voru og hvernig kjörum bátasjómanna var háttað. En till. ríkisstj. eru um það að bæta nokkuð hag fiskkaupenda, en hún lokar málinu á þá lund, að fyrir útgerðarmenn vélbátanna í landinu sé ekki hægt að gera neitt og fyrir sjómenn á fiskibátunum sé ekki heldur hægt að gera neitt. Það er sem sagt gamla sagan, ef ýmsir atvinnurekendur eða fulltrúar milliliða leita til ríkisstj., þá er hugsanlegt, að hún geti rétt að þeim einhvern styrk eða einhvern aukinn hagnað, en ef í hlut eiga verkamenn, sjómenn eða bændur, er ekki hægt neitt að gera. Þá þýðir kauphækkun þeim til handa það, að efnahagskerfið er allt að ganga úr skorðum. Þá verður að grípa til gengislækkunar eða einhverra annarra ógnarlegra ráðstafana, því að efnahagskerfið þolir ekki slíkt. Þegar fulltrúar kaupmanna á undanförnum árum hafa leitað til ríkisstj. og óskað eftir því að fá að hækka álagningu á vörum, hefur hún orðið við slíkum beiðnum í mörgum tilfellum. Þegar fulltrúar iðnrekenda í landinu hafa farið fram á að mega hækka álagningu á sinni framleiðslu, hefur hún einnig samþykkt það, og í ýmsum tilfellum hefur hún veitt þessum aðilum sjálfdæmi um álagningu. Og þegar eitt af auðugustu félögum landsins, Eimskipafélagið, fór fram á það á s.l. sumri að mega hækka öll flutningsgjöld, þá lét ríkisstj. fulltrúa sína í verðlagsnefnd samþykkja það, að Eimskipafélagið mætti ákveða flutningsgjöldin eins og því sýndist. Og auðvitað hækkuðu flutningsgjöldin í landinu, að því er nú er talið frá 26 og upp í 60% frá því, sem verið hafði. Sem sagt, þegar þessir aðilar hafa leitað til ríkisstj., þá hefur vitanlega orðið með einhverjum hætti, eins og hefur verið sagt, að verða við óskum þeirra, því að þörfin þar var brýn, en hafi hins vegar verið um að ræða að leiðrétta kjör verkafólks og annars vinnandi fólks í landinu, kjör sjómanna og annarra slíkra, hefur verið um andstöðu ríkisstj. að ræða. Það er því eftirtektarvert nú, þegar verið er að fjalla um efnahagsvandamál sjávarútvegsins og sérstakar ráðstafanir til að reyna að tryggja rekstur framleiðslunnar á þessu ári, að þá tekur hæstv. ríkisstj. þannig á málinu. Hún vill leggja á landsmenn nýjan skatt, til þess að hægt sé að veita fiskkaupendum í landinu nokkrar hagsbætur frá því, sem áður var, og hún getur hugsað sér að leggja á landsmenn almennan skatt, til þess að hægt sé að styrkja togaraeigendur, en hins vegar getur hún ekki hugsað sér, að gerðar verði neinar ráðstafanir til að hækka kaup sjómanna á fiskiskipaflotanum, hvorki togarasjómanna né bátasjómanna, og ekki heldur, að hægt sé að bæta hag bátaútvegsmanna.

Fiskverð það, sem nú er í gildi, var ákveðið í desembermánuði árið 1962. Það hefur því staðið óbreytt allt árið 1963. Fiskverðið ákveður í rauninni alveg launakjör bátasjómanna. Þeir hafa því, bátasjómenn, sem stunda þorskveiðar, búið við óbreytt launakjör allt árið 1963. Og nú er nýlega búið að kveða upp dóm um það, að fiskverðið skuli vera óbreytt einnig fyrir yfirstandandi vertíð. Þetta þýðir það, að með þessu er ráðgert, að sjómenn á bátaflotanum eigi að búa við óbreytt kaupgjald, á sama tíma sem flestar starfsgreinar hafa fengið mjög verulegar kauphækkanir og á sama tíma sem verðlag allt í landinu hefur stórhækkað.

Þegar fiskverðið var ákveðið í desembermánuði 1962, það fiskverð, sem nú er í gildi, þá var vísitala matvörukostnaðar talin 146 stig, en nú er þessi sama vísitala talin 180 stig, eða m.ö.o. hefur hækkað um 34 stig á einu ári. Það sjá því vitanlega allir, að kaupmáttur launa sjómanna, sem stunda þorskveiðar á bátaflotanum, hefur farið stórum minnkandi á þessu tímabili, og það eru vitanlega engar líkur til þess, að sjómenn á bátaflotanum uni því að vinna áfram við óbreytt kaupgjald.

Svipað þessu má segja um aðstöðu vélbátaútgerðarmanna. Rekstrarkostnaður bátanna hefur á þessum tíma hækkað mjög verulega í mörgum greinum. Óbreytt fiskverð þýðir því það nú á komandi vetrarvertíð, að afkoma bátanna verður stórum lakari en hún var á síðustu vertíð. Vitanlega getur hæstv. ríkisstj. ekki gengið fram hjá efnahagsvandamálum eins og þessum, þegar hún þykist vera að leysa efnahagsvandamál sjávarútvegsins. Það er vitanlega alveg óhjákvæmilegt, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að hægt verði að hækka fiskverðið, þannig að launakjör þeirra, sem að fiskveiðunum vinna, hækki a.m.k. í hlutfalli við það, sem launakjör annarra vinnandi stétta hafa hækkað á þessu ári.

Ríkisstj. hlýtur að hafa áttað sig á því, að þetta frv., eins og það liggur hér fyrir, gerir auðvitað ráð fyrir því, að sjómennirnir á vélbátaflotanum og sjómennirnir á togurunum eigi einnig að taka sinn þátt í því að borga skatt, sem hér á að leggja á, þrátt fyrir það að launakjör þeirra eigi að standa óbreytt. Slíkt sem þetta er vitanlega ekki framkvæmanlegt. Sjáandi þetta hefði ríkisstj. aldrei átt að leggja fram þetta frv., fyrr en hún var búin að finna einhverja lausn á þessum vanda.

Ég veit, að þeir menn eru til, sem halda, að það saki ekki mjög mikið, þó að fiskverð til sjómanna standi óbreytt frá því, sem það var ákveðið fyrir meira en ári, vegna þess að sjómenn hafi haft svo mikið og gott kaup á síldveiðunum, að þeir þoli að búa við óbreytt kaupgjald allan þennan tíma fyrir störf sín á þorskveiðunum. En hér er vitanlega um að ræða grundvallarmisskilning þeirra, sem þannig hugsa. Það eru auðvitað fæstir þeirra, sem stunda þorskveiðar að vetrarlagi eða þorskveiðar yfir sumar- og haustmánuði, sem geta stundað einnig veiðar á síldveiðiflotanum. Hér er því að verulegu leyti um aðra starfsmenn að ræða. Nokkrir þeirra eru auðvitað jöfnum höndum á sumarsíldveiðum og á þorskveiðum yfir veturinn, en mikill meiri hlutinn getur ekki stundað hvort tveggja. Auk þess er svo það að athuga, að því fer alls fjarri, að allir þeir, sem stunda síldveiðar yfir sumarið, komi með mikið kaup frá borði. Á síldveiðunum s.l. sumar kom fjöldi sjómanna til baka með kaup aðeins samkv. lágmarkskauptryggingu. Þeirra kaup var því sáralítið, þegar frá var dreginn beinn útlagður kostnaður. Það liggur nú einnig fyrir, að aflinn á s.l. sumri gekk svo misjafnt yfir síldveiðiskipin, að þau síldveiðiskip, sem eru undir 100 rúmlestum að stærð, fiskuðu ekki meir en svo, að þau urðu bótaskyld úr aflatryggingasjóði. Þar var talað um aflaleysi. Hlutur þeirra skipverja, sem á þessum skipum voru, var vitanlega ekki mikill, en það er rétt, að á beztu aflaskipunum hefur vitanlega verið um allríflega hluti að ræða.

Síldveiðarnar eru vissulega þýðingarmiklar fyrir okkur, en þó er það svo, að þorskveiðarnar gefa í þjóðarbúið miklum mun stærri fjárhæð en síldveiðarnar. Það má því ekki halda þannig á málunum, að sjómenn hætti að vilja stunda þorskveiðarnar, að þeir verði að flýja frá slíkum störfum, vegna þess að þau séu vanborguð. Slíkt yrði vitanlega til þess, að það drægi stórlega úr útgerð landsmanna, og afleiðingarnar yrðu minnkandi þjóðartekjur og stórum minnkandi gjaldeyrisframleiðsla. Ástandið í þessum efnum er mjög alvarlegt nú í dag. Sjómenn í verstöðvunum allt í kringum landið mótmæla því, að fiskverðið verði ákveðið jafnhátt og það var á s.l. ári. Þeir telja, að fiskverðið verði að hækka allverulega. Ýmsir þeirra eru þegar farnir að segja upp plássum sínum og leita eftir vinnu í öðrum störfum. Útvegsmenn eru sjálfir að bindast samtökum um það núna að stöðva reksturinn, ef ekki verður breyting gerð á í þessum efnum. Ríkisstj. má því gera sér fulla grein fyrir því, að hún getur ekki vikið sér undan þessu vandamáli. Það, sem væri eðlilegt að gera af hálfu ríkisstj. í þessum efnum, væri að láta þetta frv. eins og það er bíða, þangað til ríkisstj. hefur komið með till. um, hvernig eigi að leysa hinn hluta vandans, því að verði hann ekki leystur, þá kemur þessi lausn að engu gagni. Þessi atriði verða ekki slitin í sundur. Ákvörðun um ákveðinn stuðning við fiskkaupendur í landinu verður að vera í sambandi við ákvörðun um það, hvernig á að fara með kjör bátaútvegsmanna og hvernig á að fara með kjör bátasjómanna og einnig togarasjómanna.

Ég vil leggja á það ríka áherzlu í þessum efnum, að við þm. Alþb. mótmælum harðlega þeirri ákvörðun, að fiskverð eigi að vera óbreytt frá því, sem það hefur verið í rúmt ár. Við gerum kröfur til þess, að ríkisstj. skerist í þetta mál og geri ráðstafanir til þess, að fiskverðið verði hækkað, svo að launakjör sjómanna geti breytzt eins og annarra starfsstétta í landinu, og við vörum alvarlega við þeirri hættu, sem hlýtur að leiða af því, ef fiskverðinu verður haldið niðri og fiskimönnum neitað um sambærileg kjör við aðra.

Um það er ekki að villast, að það er allmikill vandi, sem liggur fyrir að leysa, m.a. í okkar sjávarútvegsmálum. Vandi togaraútgerðarinnar er mikill, eins og hér hefur verið lýst, og það er hart, að það skuli vera svo komið, að gera verður ráð fyrir því, að styrkja þurfi hvern togara að meðaltali með framlagi, sem nemur um 3 millj, kr. á ári, en skv. þeim till., sem hér liggja fyrir, er raunverulega gert ráð fyrir því, að komið verði yfir til togaraútgerðarinnar með einum eða öðrum hætti um 100 millj. kr. á þessu ári í beinum eða óbeinum framlögum.

Hæstv. sjútvmrh. ræddi hér allmikið um vandamál togaraútgerðarinnar og gaf hér ýmsar upplýsingar um sérstaka athugun, sem fram hefur farið á rekstrarafkomu togaranna undanfarin ár. Hann virðist hallast að þeirri skoðun, sem fram kemur hjá þeirri n., sem athugað hefur um rekstur togaranna, að það væru einkum tvö atriði, sem væru þess valdandi, að hagur togaraútgerðarinnar væri svona bágur. Í fyrsta lagi væri um það að ræða, að íslenzkir togarar hefðu orðið fyrir miklu aflatjóni við stækkun landhelginnar, og hæstv. sjútvmrh. sagði, að fram hefði farið athugun á því og áætlað hefði verið, að hver togari hefði tapað að meðaltali í fiskveiðum vegna útfærslu landhelginnar í kringum 600 tonna veiði á ári. Hin önnur ástæðan, sem fram var færð fyrir þessari bágu afkomu, var sú, að vinnufyrirkomulagið um borð í skipunum væri orðið svo ófullkomið, að íslenzk togaraútgerð væri í rauninni ekki samkeppnisfær við erlenda togaraútgerð. Og það var ekki hægt að heyra annað á orðum hæstv. sjútvmrh. en hann aðhylltist það helzt að fá fram breytingar á þessu vinnufyrirkomulagi um borð í togurunum og á þann hátt mætti kannske spara útgerðinni í rekstrarkostnaði í kringum 1 millj. kr. á skip á ári.

Það er nú ekki tími til þess að fara út í rekstrarmál togaranna hér í löngu máli, og ég skal ekki gera það, en vildi þó aðeins segja það sem mitt álit, að ég álít, að bæði í þeirri skýrslu, sem ég hef fengið að sjá og gerð var af þriggja manna n., sem athugaði um rekstrarafkomu togaranna, og eins af því, sem fram kom hér í ræðu hæstv. sjútvmrh., þá er ég fjarri því að vera þeim sammála um það, í hverju vandamál togaranna séu fyrst og fremst fólgin, eins og nú er komið málum, eða að þær leiðir mundu leysa vandann, sem þar er bent á. Ég held hins vegar, að það sé orðið mjög aðkallandi mál að taka vandamál togaraútgerðarinnar föstum tökum, því að það er vitanlega engin lausn á þessum vanda að halda áfram ár eftir ár að láta af hendi fé með þeim hætti, sem nú hefur verið gert, til þessa rekstrar, án þess að sjáanlegar séu nokkrar grundvallarbreytingar á rekstrinum. Íslenzk togaraútgerð er tvímælalaust að mínum dómi orðin aftur úr í ýmsum efnum, skipin eru orðin allt of gömul flest, og útbúnaði þeirra er mjög áfátt. Ég hygg, að það mundi engum manni detta í hug að láta gera skipin að nýju í því formi, sem þau eru í. Flest þessi skip eru gufuskip, dg það hefur sýnt sig, að rekstur þeirra er á allan hátt miklum mun dýrari og óhentugri en ef um dísilskip væri að ræða. Það er heldur enginn vafi á því, að veiðarfærabúnaði íslenzkra togara er orðið mjög áfátt. Hann stendur orðið langt að baki annarri togaraútgerð víða í heiminum. En það liggja eflaust margar ástæður til þess, að það hefur sótzt frekar hægt að fá fram breytingar í íslenskri togaraútgerð. Það verður að játa það eins og það er, að togaraeigendur hafa allajafna verið fádæmlega íhaldssamir menn á allar breytingar. Þegar núverandi togarar voru keyptir á sínum tíma og voru þá virkilega fyrsta flokks skip, þá voru íslenzkir togaraútgerðarmenn mjög á móti kaupum skipanna, og svo til allir togaraútgerðarmennirnir, sem þá voru í landinu, neituðu með öllu að vilja kaupa dísilskip. Flestir þeirra voru þá beinlínis á þeirri skoðun, að það yrði að kaupa áfram kolakynta togara, eins og við höfðum búið við áður. Ég er ekki í neinum vafa um það, að enn er ríkjandi í þessum efnum of mikil íhaldssemi. En eina afsökun hafa togaraútgerðarmenn sér verulega til hagsbóta, en hún er sú, að efnahagurinn hefur verið mjög þröngur nú í mörg ár og geta þeirra hefur ekki verið rétt mikil til þess að framkvæma meiri háttar breytingar. Og það kemur að því, að ríkisvaldið verður að styðja íslenzka togaraútgerðarmenn eða þá, sem vilja hafa með togaraútgerðarrekstur að gera, verður að styrkja þá og styðja til þess að koma fram beinum stofnbreytingum á togaraútgerðinni.

Og svo má ekki gleyma hinu, að þróunin hefur verið sú á undanförnum árum, að togaraútgerðin hefur verið að dragast meira og meira aftur úr annarri útgerð í landinu með möguleika til þess að fá góða sjómenn. Launakjörin á togurunum hafa engan veginn verið samkeppnisfær við launakjör á öðrum íslenzkum fiskiskipum. Í dag er það hin brýnasta nauðsyn fyrir íslenzkan togaraflota, að hægt sé að hækka laun sjómannanna þar til mikilla muna frá því, sem verið hefur, af því að það, sem útgerðinni er einna nauðsynlegast, er einmitt að geta fengið úrvalssjómenn.

Sú skýring, að íslenzkir togarar hafi tapað mjög mikilli veiði við útfærslu landhelginnar, ég held, að allt of mikið sé gert úr því. Það er að vísu rétt, að þegar togurunum er haldið þannig úti, að miðað er fyrst og fremst við það að veiða fyrir erlendan ísfiskmarkað, þá sækja togararnir allajafna á grunnmið, og í þeim tilfellum munar vitanlega nokkuð um ýmis svæði, sem nú eru innan fiskveiðimarkanna, en voru fyrir utan áður. En áður en þessir erfiðleikar komu til hjá togaraútgerðinni, stunduðu, íslenzkir togarar ekki fyrst og fremst veiðar fyrir erlendan ísfisksmarkað um margra ára skeið. Þá fengu þeir yfirgnæfandi meiri hluta af sínum afla á djúpmiðum við Ísland eða fjarlægum miðum. En til þess hafa verið ýmsar ástæður nú, að íslenzku togararnir hafa ekki einu sinni getað sótt á fjarlæg mið til jafns við togara frá öðrum þjóðum. Til þess liggja ýmsar ástæður.

Ég vil því í sambandi við vandamál togaranna, sem hér hafa nokkuð verið rædd, segja, að það er að vísu sjálfsagt að hlaupa nokkuð undir bagga með togaraútgerðinni, eins og gert hefur verið. En það er kominn tími til þess, að vandamál togaranna verði tekin öðrum tökum en þau hafa verið tekin til þessa. Það er orðin brýn nauðsyn á því, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að hægt sé að breyta rekstri íslenzkra togara til verulegra muna frá því, sem verið hefur.

Sú leið, sem hæstv. ríkisstj. hefur valið til tekjuöflunar í sambandi við þessar efnahagsmálaráðstafanir, er þessi: að hækka söluskattinn úr 3% upp í 5%. Ef miðað er við þá áætlun, sem lögð er til grundvallar í fjárl., ætti 2% hækkun á söluskattinum að nema á heilu ári 236 millj. kr., og ég held, að það sé enginn vafi á því, að tekjurnar af söluskattinum voru áætlaðar mjög varlega við afgreiðslu fjárl. Ég hygg því, að allar líkur bendi til þess, að 2% söluskattur muni í reyndinni gefa í tekjur 240–260 millj. kr. miðað við heilt ár. Og þó að þessi skattur, sem nú er á lagður, standi aðeins í 11 mánuði á þessu ári, af því að hann tekur ekki gildi fyrr en 1. febr., þá er vitanlega hér um að ræða skattaálagningu, sem verður að metast við heilt ár, og sú skattaálagning mundi þá nema, eins og ég sagði, 240–260 millj. kr.

Ég tel, að þessi skattlagningarleið, sem hér er valin og ríkisstj. telur þá hagkvæmustu, sé einmitt sérstaklega óhagstæð. Það fer ekkert á milli mála, að það er enginn vafi á því, að sá söluskattur, sem er lagður á alla vörusölu í landinu og þjónustu, kemur aldrei allur til skila til ríkisins. Á það hefur oft verið bent hér í umr. á Alþingi, að mjög muni skorta á það, að framtöl ýmissa fyrirtækja í landinu og ýmissa einstaklinga séu rétt, ég man ekki betur en það hafi verið hæstv. viðskmrh., sem sagði hér í umr. einu sinni um þetta mál, að hann teldi, að undan mundi vera skotið tekjum á þennan hátt, sem næmu á milli 500 og 600 millj. kr. á hverju ári. En þetta er vitanlega gert á þann hátt, að framtöl, t.d. verzlunarfyrirtækja og ýmiss konar annarra fyrirtækja, eru ekki rétt, umsetningin er ekki talin réttilega fram. En á hinu leikur hins vegar enginn vafi, að allir þeir, sem heimild hafa til þess að hækka vöruverðið eða þjónustuna sem nemur söluskattinum, þeir hækka útsöluverðið hjá sér sem þessu nemur. Verðlagið í landinu hækkar fyllilega um þessi 5%, sem söluskatturinn á að verða, á því er enginn vafi. En hitt vitum við, að þessi söluskattur kemur ekki allur til skila. Þeir aðilar, sem eiga að innheimta skattinn fyrir ríkið, eru mjög margir, og þeir hafa sumir hverjir aðstöðu til að skjóta þessum skatti undan. Ég man eftir því, að fyrir nokkrum árum voru hér lög í gildi um tvenns konar söluskatt. Annars vegar var um að ræða söluskatt af innflutningi, en sá söluskattur var lagður á í tolli á flestallar innfluttar vörur. Hinn söluskatturinn var lagður á smásöluverzlun og á þjónustu innanlands. Það virtist vera samkomulag manna úr öllum flokkum hér fyrir nokkrum árum að afnema með öllu söluskattinn í smásölu og þjónustu innanlands, vegna þess að það viðurkenndu í rauninni allir, að þessi skattur væri að vísu á lagður, en hann kæmi aldrei allur til skila. En nú virðist hæstv. ríkisstj. hafa tekið sérstakt ástfóstur við þennan skatt, að leggja á þennan söluskatt, sem hún veit að svona er farið með, að þegar t.d. koma til skila af þessum skatti 210 millj. kr., eru allar líkur til þess, að lagðar hafi verið á almenning í landinu 250–260 millj. kr. Þetta er því mesta vandræðaskattlagningarleið, þó að ýmsir þeir, sem eiga að innheimta þennan skatt, séu ekki mikið á móti honum og það hafi jafnvel heyrzt gamansögur um það, að sumir þeirra hafi sagt: Hvers vegna fáum við ekki líka söluskatt á þetta? — ef einhver sérstök vara hefur átt að vera undanþegin. Viðkomandi menn höfðu beinan áhuga á því að fá að leggja söluskattinn á, af því að þeir töldu hann sér heldur til tekjudrýginda. Þessi skattur er að öllu leyti rangur, auk þess sem engin þörf var á því að leggja þennan skatt á landsmenn, eins og ég hef sagt hér áður. .Ég tel, að hægt hefði verið að afla þeirra tekna, sem hér um ræðir, eftir öðrum leiðum, án þess að þurfa að hækka verðlagið í landinu jafnmikið og raun mun verða á samkv. þessum skatti.

En hvað er það í raun og veru, sem veldur öllum þessum efnahagsvanda, sem alltaf er hér við að glíma? Á það hefur verið bent í þessum umr., að meginorsökin er sú, að efnahagsmálastefna ríkisstj. á undanförnum árum hefur verið röng. Efnahagsmálastefna ríkisstj. hefur leitt af sér vaxandi dýrtíð í landinu, sem hefur síðan kallað á kauphækkanir, og auðvitað hafa þær kauphækkanir svo aftur leitt af sér verðhækkanir. Hér er vitanlega um keðjuverkun að ræða, um það er ekki deilt, en um hitt er deilt, hver var orsökin til þess, að skriðan féll. Það ætti þó í rauninni ekki að þurfa að deila um þetta, vegna þess að svo augljós dæmi eru til því til sönnunar, að það var ríkisstj., sem setti dýrtíðarskriðuna af stað, það voru núverandi stjórnarflokkar, sem það gerðu.

Um það er ekki hægt að deila, að launþegar í landinu bjuggu við óbreytt kaupgjald framan af stjórnarferli núverandi stjórnarflokka í 2½ ár. Allt árið 1959, allt árið 1960 og hálft árið 1961 bjuggu launþegar í landinu við óbreytt kaupgjald, en á þessu tímabili hækkaði verðlag í landinu verulega. Og þegar fyrsta kauphækkunin í tíð viðreisnarinnar var samþykkt í júnímánuði 1961, nam sú kauphækkun ekki nándar nærri því að vega upp á móti þeirri verðlagshækkun, sem þá var orðin. Og þannig hefur þetta verið síðan, að þær kauphækkanir, sem hafa verið gerðar, voru rétt aðeins til þess að hamla nokkuð upp á móti vaxandi dýrtíð.

Það er því ekkert um að villast, að það eru efnahagsmálaráðstafanir ríkisstj., sem hafa leitt til hækkandi verðlags í landinu. Það er líka alveg augljóst mál, að ríkisstj. hefur verið alveg óspar á að heimila verðlagshækkanir. Hún hefur ekki þurft að samþykkja ýmsar þær verðhækkanir, sem átt hafa sér stað á undanförnum árum, vegna þess að um kauphækkanir hafi verið að ræða. En hún hefur samþykkt þessar verðhækkanir, þegar í hlut hafa átt þeir, sem hún hefur talið að mættu gjarnan græða. Það er vitanlega sú stefna ríkisstj. að hækka vexti stórkostlega, að heimila frjálsa álagningu í mörgum tilfellum og hækkaða álagningu í öðrum, — það er sú stefna ríkisstj., sem hefur komið fram í því að stórauka álögur æ ofan í æ, m.a. með nýjum sölusköttum, — það er þessi stefna, sem hefur leitt til hækkandi verðlags, aukinnar dýrtíðar og kallað á kauphækkanir. Og ríkisstj. er sem sagt enn við sama heygarðshornið í þessum efnum. Enn þá mætir hún vandamálunum á þann hátt, að hún leggur til, að álögur verði auknar, verðlag í landinu verði hækkað, þó að hún viti mætavel, hverjar verða afleiðingarnar af slíku, og þó að hún verði að viðurkenna, að það voru aðrar leiðir til út úr vandanum.

Afstaða okkar Alþb.-manna til þessa frv. er sú, að við erum á móti meginefni frv., sem fjallar um nýjar álögur. Við teljum, að þá leið eigi ekki að fara. Og við erum alveg sérstaklega á móti því, að söluskatturinn verði hækkaður. Við álítum, að afkoma ríkissjóðs sé með þeim hætti, að ríkissjóður geti staðið undir þeim útgjöldum, sem honum raunverulega tilheyra, og það þurfi ekki að fara að leggja á nýjan skatt af þeim ástæðum. Og við teljum, að það megi veita atvinnuvegum landsins þann stuðning, sem þeir þurfa, eftir öðrum leiðum og hagkvæmari leiðum og meira í samræmi við það, sem útvegsmenn hafa sjálfir gert till. um, heldur en samkv. þeim leiðum, sem felast í þessu frv.

Að lokum langar mig svo til þess að beina hér nokkrum fsp. til hæstv. ríkisstj. til þess að fá nokkru frekari vitneskju um það, hvað fyrir ríkisstj. vakir með vissum ákvæðum í þessu frv.

Í 1. gr. frv. er tekið fram, að stofnlánadeild sjávarútvegsins skuli úthluta þeim 43 millj. kr., sem þar er rætt um, til frystihúsanna í landinu, til þess að þau geti komið á hjá sér framleiðniaukningu, eins og sagt er í þessari grein. Og sagt er, að í þessum efnum skuli stofnlánadeild sjávarútvegsins hafa samráð við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands um skiptingu á þessu fé milli frystihúsaeigenda og farið skuli eftir reglum, sem sjútvmrh. setur. Nú vildi ég spyrja hæstv, sjútvmrh.: Hvernig eru þessar reglur hugsaðar í aðalatriðum? Hér er um það að ræða að skipta á milli líklega 75–80 frystihúsa í landinu 43 millj. kr., og einhverja hugmynd býst ég við að hæstv. sjútvmrh. hafi gert sér um það, hvernig þessi skipting ætti að fara fram.

Ég verð nú að segja það, að mér finnst fremur einkennilegt að fara að fela seðlabankastjórninni að ákveða úthlutunina á þessu fé. Ég hef satt að segja ekki trú á því, að þeir ágætu menn, sem þar sitja, beri ýkja mikið skynbragð á þessi mál eða séu öðrum fremri til þess að kunna að stjórna því með eðlilegum hætti, hvernig ætti að skipta þessu fé. En hvaða reglur eru hugsaðar í þessum efnum? Á að skipta þessu fé milli húsanna að einhverju leyti í hlutfalli við framleiðslu þeirra eða í hlutfalli við framleiðslugetu þeirra? Á að skipta því á milli húsanna að einhverju leyti með tilliti til efnahags, þannig að þeir fái heldur drýgri hluta af þessu fé, sem eru verr stæðir? Eða hvaða reglur eiga að gilda um skiptingu á þessu fé? Það er vægast sagt mjög óeðlilegt að setja hér lög um skiptingu á fé á þennan hátt, án þess að gerð sé grein fyrir því, hvernig fénu á að skipta í aðalatriðum.

Í 2. gr. frv. er þess getið í sambandi við styrk til togaraútgerðarinnar, að það skilyrði skuli sett fyrir styrknum, að togaraeigendur hafi gert skil við ríkisábyrgðasjóð með vanskil sín við sjóðinn á greiðslu afborgana og vaxta. En væri nú ekki ástæða til þess einnig, að þau skilyrði yrðu sett í sambandi við styrkinn til togaraútgerðarinnar, að samningar tækjust einnig við sjómenn á togaraflotanum um launakjör þeirra? Eða á kannske að fara hér eitthvað svipað að og raunverulega gerðist á árinu 1962, þegar togararnir lágu mánuðum saman, að þeir fái raunverulegan styrk út á það að liggja, því að það var það, sem þá gerðist raunverulega? Ég álít, að hið eðlilega væri, að styrkveitingin til togaranna væri bundin einnig því skilyrði, að samkomulag tækist við togarasjómenn um kjör þeirra á skipunum, því að styrkurinn væri sem sagt greiddur til þess að tryggja rekstur skipanna.

Um 5. gr., sem fjallar um söluskattinn, vildi ég mega beina þeirri fsp. til hæstv: fjmrh., hvort hann telji ekki vera tök á því, að settar séu einhverjar nýjar reglur og þær tilkynntar eða opinberaðar, sem mættu verða til þess að tryggja það, að álagður söluskattur komi allur til skila. Ég man, að á það var minnzt á sínum tíma, að það mætti t.d. birta opinberlega, hvað hinir einstöku aðilar hefðu skilað miklum söluskatti. Ég veit, að í mörgum byggðarlögum landsins væri mjög fróðlegt fyrir menn að fá að sjá, hvað t.d. einstaka fyrirtæki eða kaupmenn hefðu skilað miklum söluskatti, hvað veltan hjá þeim hefði verið mikil. Það væri þá hægt kannske að gera þar nokkurn samanburð á miðað við opinber fyrirtæki, sem þar hafa rekstur og maður veit að verða að segja nokkurn veginn rétt til um sína veltu. Væri þetta ekki hægt? Væri ekki hægt að setja þarna einhverjar reglur, sem gætu orðið til þess að tryggja það, að söluskatturinn kæmi betur til skila? Og væri ekki einnig hægt, þar sem um svona miklar fjárhæðir er að ræða, að hér verður um að ræða 5% söluskatt, sem mun nema nærri 600 millj. kr. á hverju ári, væri ekki ástæða til þess, að látin yrði fram fara sérstök bókhaldsathugun, bein bókhaldsathugun hjá mörgum fyrirtækjum í landinu, þeim að óvöru til þess að kanna það, hvernig ástatt er með bókhaldið, m.a. varðandi þessa ríkissjóðsinnheimtu, sem þarna fer fram? Gæti nú ekki hæstv. fjmrh. hugsað sér, að slíkar ráðstafanir sem þessar yrðu gerðar?

Í bráðabirgðaákvæðum þessa frv. er minnzt á rekstur aflatryggingasjóðs, einkum varðandi styrkgreiðslur til togaranna. Nú langar mig að beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvmrh.: Hvernig er nú ástatt um fjárhag aflatryggingasjóðs, og þá með sérstöku tilliti til þeirra greiðslna, sem á undanförnum árum hafa átt sér stað úr sjóðnum til togaraútgerðarinnar í landinu, því að það er alveg augljóst mál, að togaradeildin í aflatryggingasjóði getur ekki hafa haft tekjur til þess að standa undir öllum þessum greiðslum? Hafa aðrar deildir aflatryggingasjóðs lánað fé til greiðslu til togaranna, og hvernig er þá þessum fjárhag varið nú? Hvernig stendur aflatryggingasjóður að vígi til að taka nú á sig stórar greiðslur, m.a. til togaraútgerðarinnar?

Þá vildi ég einnig beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvmrh., hvort hann telji ekki, að tími sé nú kominn til þess, að sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að reyna að koma rekstrarmálum togaraútgerðarinnar í viðunandi horf til frambúðar. Eða hafa sérstakar ráðstafanir verið gerðar af ráðh. í þessa átt?

Í 6. gr. frv. fer ríkisstj. fram á að fá heimild til að mega draga úr framkvæmdum á vegum ríkissjóðs frá því, sem þau eru ráðgerð í fjárl., ef henni sýnist, að atvinnuástandið í landinu gefi tilefni til slíks. Nú vildi ég spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvort hún telji, eins og horfurnar eru nú, að ástæða sé til að búast við því, að gripið verði til þessarar heimildar. Telur hún ástandið í atvinnumálum landsins nú þannig, að rétt sé að draga úr framkvæmdum þeim, sem ráðgerðar hafa verið á fjárlögum? Eða vill hún eingöngu hafa þennan möguleika festan í lög, ef nýtt ástand kynni að skapast í atvinnumálum landsins, eða telur hún, að nú þegar sé ástandið þannig, að það gefi tilefni til þess að nota slíka heimild sem þessa?

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum nú að sinni, en vildi að lokum leggja sérstaka áherzlu á það, að ég tel, að ríkisstj. hefði átt að fresta um sinn afgreiðslu þessa máls, þar til hún treystir sér til að koma fram með tillögur til lausnar á öðrum vandamálum sjávarútvegsins, sem nú blasa við, og þá fyrst og fremst varðandi ákvörðun á fiskverði og ákvörðun um nauðsynlega kauphækkun til sjómanna, jafnt á togurum sem fiskibátum. Ég vildi sem sagt leggja það til, að ríkisstj. frestaði afgreiðslu þessa máls, þangað til hún treysti sér til að taka á hinum hluta vandamálsins.