18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (3088)

138. mál, ferjubryggjur í Norður-Ísafjarðarsýslu

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja smátilt. á þskj. 246. Till. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela vita- og hafnarmálaskrifstofunni að rannsaka aðstöðu til ferjubryggjugerðar að Eyri í Mjóafirði, að Eyri eða Hvítanesi í Skötufirði og að Eyri í Seyðisfirði í Norður-Ísafjarðarsýslu. Reynist aðstaða hagstæð fyrir ferjubryggjur á þessum stöðum, svo sem öll aðstaða frá náttúrunnar hendi bendir til við fljótlega athugun, skal vitamátaskrifstofan gera nauðsynlega uppdrætti af bryggjunum, svo og kostnaðaráætlanir. Framkvæmdum samkv. áætlun þessari skal lokíð, áður en næsta Alþingi kemur saman“.

Þetta mál snertir það mál, sem stundum hefur borið hér á góma á hv. Alþingi, þ.e. aðstöðu fólksins á sumum stöðum á Vestfjörðum til þess að lifa í sínum átthögum. Ég vil leyfa mér að benda á í sambandi við þetta mál, að í ytri hluta Ögurhrepps og innri hluta Súðavíkurhrepps í Norður-Ísafjarðarsýslu er þannig ástatt enn í dag, að fólkið, sem þar býr, hefur enn þá ekkert af akvegakerfi landsins að segja. Þangað liggur engin akbraut að bæ, þaðan enginn vegarspotti úr hlaði. Bændurnir við Mjóafjörð og Skötufjörð. Hestfjörð og Seyðisfjörð fá enga bifreið í hlaðið með nauðsynjar sínar frá verzlunarstað, og frá þessum bújörðum verða afurðir búanna ekki heldur fluttar landleiðina. Umhverfis alla bæi þessara fjarða, sem ég nú nefndi, er vegleysa, nema um sjóinn. Þeirra eina samgöngutæki er því Djúpbáturinn, sem gengur um Ísafjarðardjúp, Fagranesið. Ég efa það ekki, að þeir, sem góðra samgangna njóta, eiga e.t.v. erfitt með að setja sig í spor þeirra bænda, sem þannig eru settir, og þess er naumast að vænta, að nútímabóndi við venjulega aðstöðu og menningarskilyrði skilji, hvílíka erfiðleika slík aðstaða í samgöngumálum skapar íslenzkum bónda. En mundu menn þó ekki geta gert sér hugmynd um, hversu erfitt það er á fámennu heimili, eins og nú er algengt í sveitum, alveg eins á Vestfjörðum og annars staðar, að setja upp og ofan flutningabát, hvernig sem stendur á sjó, hvernig sem viðrar, þegar Djúpbáturinn kemur að landi, og þá er verkefnið að flytja afurðir bús á skipsfjöl og ná nauðsynjum bús í land, og þetta verður að gerast við þá aðstöðu, að engin bryggja er í flæðarmáli til þess að koma hinum aðflutta varningi. bæði matvörum, tilbúnum áburði, vélum og verkfærum o.s.frv., í hús né heldur til þess að koma afurðum frá búi á bát, til þess að flytja þær í ferjubátinn. En það er þessi aðstaða, sem bændur við vestanvert Djúp, á þessu svæði, sem ég hef hér gert að umtalsefni. eiga við að búa. Þetta fólk er þannig sett, að það hefur ekki rafmagn í þjónustu sinni, það hefur ekki vegi, það hefur ekki bryggjur. Og svo eigum við kannske bara að bíða eftir manninum frá París til þess að vita, hvað valdi því, að þetta fólk geti ekki verið í sínum átthögum og þjónað þar sinni ættjörð með framleiðslustörfum. En ég hefði þó haldið, að það lægi nokkurn veginn í augum uppi, að hér skortir atlmikið á, að þjóðfélagið hafi búið þessu fólki lífvænleg skilyrði, og að við jafnvel þyrftum ekki að bíða eftir neinum sérfræðingi eða spekingi frá Parísarborg til þess að vita um, að barna kreppir skórinn að og á ýmsum fleiri sviðum. sem ég ræði ekki um á þessari stundu.

Ég hygg, að þeir fáu hv. alþm., sem nú heyra mál mitt, hljóti í huga sínum að fallast á, að það er ekkert út í hött að biðja um það, að í svona byggðarlagi séu byggðar einar þrjár eða fjórar ferjubryggjur. Ferjubryggjurnar við Ísafjarðardjúp, sem hafa verið byggðar, nokkrar þeirra, eru engin stórmannvirki, en af þeim hefur fengizt sú reynsla, að ég hygg, að það sé sammæli flestra bænda, sem þeirra njóta, að þarfari umbót og framkvæmd hafi ekki verið gerð, sem meira hafi breytt lífshögum þeirra, fyrir ekki meira fé en þessi mannvirki hafa kostað ríkissjóð. Þess vegna er lagt til í þessari litlu till., að rannsökuð verði bryggjuskilyrði á þrem stöðum við vestanvert Ísafjarðardjúp.

Bryggja að Eyri í Mjóafirði mundi verða útflutnings- og aðflutningsmiðstöð bændanna við Mjóafjörð, þ.e.a.s. bændanna í Hörgshlíð, Heydal, Botni, Eyri og Látrum. Þarna virðist bezta bryggjustæðið vera að Eyri við Mjóafjörð. Sá staður liggur miðsvæðis, og þar er frábærlega hagstæð aðstaða til bryggjugerðar, að svo miklu leyti sem ég hef a.m.k. vit á að meta slíka aðstöðu.

Við Skötufjörð koma helzt til greina 2 bryggjustaðir: að Eyri í Skötufirði eða að Hvitanesi. En þar tel ég rétt, að rannsókn sérfróðra manna alveg sérstaklega skeri úr um það, hvor staðurinn eigi að verða fyrir valinu, hvor staðurinn hafi betri bryggjuskilyrði. Eyri í Skötufirði liggur miðsvæðis eins og Eyri í Mjóafirði, og hygg ég, að þar sé allgóð bryggjuaðstaða. Hún mun aftur vera nokkru erfiðari á Hvítanesi, sem nú er þó aðalviðkomustaður Djúpbátsins. Bæirnir Skarð og Hjallar við Skötufjörð mundu ekki njóta þessarar bryggjugerðar eða sennilega ekki hagnýta sér hana, þeir mundu frekar eiga sókn að ferjubryggjunni í Ögri. En aðrir bæir við Skötufjörð, Kálfavík, Borg, Kleifar, Eyri, Litli-bær og Hvítanes, mundu hafa ótvírætt hagræði af bryggju hinum megin fjarðar, eins og ég áður sagði, annaðhvort að Eyri eða Hvítanesi.

Þá er í þriðja lagi lagt til í þessari till., að ferjubryggja verði staðsett að Eyri í Seyðisfirði í Súðavíkurhreppi. Þar er ágætt bryggjustæði, eins og víðast hvar við hinar vestfirzku malareyrar, aðdjúpt mjög, og mundi þar ekki þurfa annað en lítið steinker og stuttan landgang. Þeirrar bryggju mundu bændurnir á Eyri í Seyðisfirði, bóndinn á Kleifum og bóndinn að Hesti í Hestfirði hafa not.

Ég held, að það sé í raun og veru algerlega óhugsandi að búa án vegasambands, án bryggjuaðstöðu, án raforku, og ef menn ætla ekki vísvitandi að leggja þessar byggðir í auðn, þá ber Alþ. að líta á þessi smávægilegu atriði og láta framkvæmd fylgja. Ég tel, að þetta mál liggi alveg ljóst fyrir hv. þm., og skal ekki hafa um málið fleiri orð. Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.