15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í D-deild Alþingistíðinda. (3117)

145. mál, aðstoð frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar till. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 265 um aðstoð frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, var til umr. fyrir páska, — ég hygg, að það hafi verið 18. marz eða fyrir nálega 4 vikum, — og á meðan hv. flm. hennar var að flytja framsöguræðu sina, kvaddi ég mér hljóðs til þess að gera eina eða tvær stuttar athugasemdir, sem mér þótti flutningur málsins gefa tilefni til. Síðan þetta gerðist, er nú, eins og ég sagði, liðinn langur tími, og ræða hv, flm., framsöguræða hans, hefur verið birt, að ég ætla, í tveimur dagblöðum í höfuðborginni, ég held í heilu lagi. Hann lítur því svo á eða flokksmenn hans, að hér sé um meiri háttar mál að ræða, enda er viðfangsefnið, sem hann hefur í huga, vissulega bæði stórt og erfitt og mjög aðkallandi, þótt till., sem hann flytur á þskj. 265, sé e.t.v. ekki að sama skapi stór í sniðum.

Í sambandi við þessa till. ætla ég nú að minna á nokkur atriði, sem máli skipta, til athugunar fyrir þá hv, n., sem væntanlega fær till. til meðferðar, og fyrir aðra hv. alþm., sem þurfa að fjalla um þessa till. og skyld mál, bæði í sameinuðu þingi og deildum þess, en þó sérstaklega til athugunar fyrir sjálfan hv. flm. till. Ekki vil ég hafa á móti því og finnst það ekki nema eðlilegt, að kannaðir séu möguleikar á því að afla fjár á erlendum vettvangi, t.d. hjá samtökum Evrópuþjóða, í þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi í byggð okkar Íslendinga í landi okkar, ef líkur eru til, að þeir, sem fyrir slíkum alþjóðastofnunum standa, láti slíkt til sin taka með eðlilegum hætti. Slíka aðstoð telur hv. flm. nú, að hægt muni að fá hjá svonefndum Resettlement Fund á vegum Evrópuráðsins. Hv. flm. kallar þetta viðreisnarsjóð, enda er hann „viðreisnar“-maður. En það, sem enska nafnið ber með sér eða þetta útlenda nafn, sem hér er tilgreint í till., er, að hlutverk sjóðsins sé að aðstoða fólk, sem þarf að nema land á ný, enda upplýst, að hann sé frá öndverðu hjálparsjóður flóttamanna frá Póllandi og Austur-Þýzkalandi, sem þurftu að byggja upp ný heimili vestar í álfunni eftir styrjöldina. Nú er að vísu einnig upplýst, að sjóðurinn hafi í seinni tíð veitt fé til fjögurra Miðjarðarhafslanda, og vikið að því í grg., og segir flm., að það sé þá veitt til að stöðva fólksflótta, en nokkuð af því virðist hafa verið notað til þess að hjálpa ítölsku fólki til þess að nema land í Ástralíu.

Það má vel vera, að hægt sé að fá hingað fé úr þessum flóttamannasjóði. En ég vil eigi að síður vara við því í fullri alvöru, ef einhverjir láta sér detta það í hug, að þessi vestur-evrópski flóttamannasjóður eða landnámssjóður eða viðreisnarsjóður, hvað sem menn nú vilja kalla hann, muni taka það að sér sem sitt hlutverk að sjá um, að Íslendingar byggi land sitt og verji það þannig á eðlilegan og friðsamlegan hátt gegn ágangi annarra þjóða, enda þótt sjóðurinn kunni að láta eitthvert fé af mörkum, sé þess beiðzt. Hitt kynni að geta skeð í sambandi við umr. á alþjóðavettvangi um þetta innanlandsvandamál okkar Íslendinga, að einhverjum erlendum aðilum yrði það þá ljósara en fyrr, hve mikið land og önnur náttúrugæði eru ónotuð hér á landi, og létu sér þá e.t.v. detta í hug. að Íslendingar gætu sér að meinalitlu látið af hendi t.d. við flóttamenn eða atvinnulitla menn frá ýmsum löndum, en þeir skipta víst milljónum um þessar mundir, meira eða minna af þeim landshlutum, sem nú eiga í vök að verjast vegna fólksfækkunar, — landssvæði, sem útlit sé fyrir að Íslendingar vilji ekki sjálfir byggja eða geti ekki byggt. En ef slíkt ber á góma, þarf áreiðanlega að fara að með mikilli gát, því að þessi fámenna þjóð má því miður ekki við því af þjóðernisástæðum að velta viðtöku fjölmenni af öðrum þjóðernum eða jafnvel kynþáttum.

Í seinni tíð hafa borizt hingað raddir utan úr heimi, sem benda ótvirætt til, að fólk, jafnvel í mjög fjarlægum löndum, sem byggð eru okkur óskyldum þjóðum, sé búið að festa auga á hinu mjög svo fámenna framtíðarlandi með auðug fiskimið, orkulindir og gnótt gróðurmoldar hér á norðurhjara og láti sér jafnframt detta í hug, að hér mundi tekið við því opnum örmum. Mér kemur í hug í þessu sambandi blaðagreinin frá Jamaica í Vestur-Indíum, sem Morgunblaðið birti í íslenzkri þýðingu s.l. sumar, þar sem Jamaicamenn voru hvattir til að leita landvistar hér á Íslandi. Fyrir nokkru heyrði ég skeggrætt um það í útvarpinu á fundi ungra manna, að sendiherra einn frá Vestur-Afríku, en þar eru líka landþrengsli sums staðar, að þessi sendiherra frá Vestur-Afríku hefði nýlega rætt um Ísland í svipuðu sambandi og rætt var í blaðinu í Vestur-Indíum, sem ég nefndi áðan. Og ég tók eftir því, að a.m.k. einn hinna ungu Íslendinga, sem þarna voru að ræða þessi mál, taldi þetta — í gamni eða alvöru, ég velt ekki hvort var — ekki nema sjálfsagt, að við leyfðum þeim, sem það vildu, að flytja inn í landið, að nema hér land. Þetta kann að vera fallega hugsað, en þá ættum við ekki að vera að berjast við að halda uppi íslenzku ríki og varðvelta íslenzka tungu. Þá færi bezt á því að taka niður mynd Jóns Sigurðssonar hér á Austurvelli og koma henni á Þjóðminjasafnið, sem hæstv. ráðh. var að tala um í fyrravetur.

Ég býst ekki við, að hv, flm. þessarar till. geri sér neinar gyllivonir um áhrif þessarar till., sem hann flytur nú um útlenda aðstoð til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þótt samþykkt yrði. En með flutningi till. og alveg sérstaklega í framsöguræðunni, sem hann flutti um þetta mál fyrir 4 vikum, kemur fram, að honum er vel ljóst, að því mikla og aðkallandi viðfangsefni, sem hér er um að ræða. hefur ekki verið sinnt á viðeigandi hátt, að Alþingi eða sá meiri hl., sem hér ræður ríkjum, hefur sýnt tómlæti í þessu máli, svo að ekki sé meira sagt. En í ræðu sinni fyrir 4 vikum komst hv. flm. m, a. þannig að orði:

„Svo mjög sem þessi mál hafa verið á dagskrá hin síðari ár, verður ekki annað sagt en nokkuð hafi skort á raunhæfar aðgerðir til úrbóta. Mér virðist,“ hélt flm. áfram ræðu sinni, „að þetta sé vegna þess, að menn horfast ekki nægilega í augu við þá staðreynd, að til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins þurfa þeir landshlutar, sem höllustum fæti standa, ekkí einungis að njóta þeirra framfara og framkvæmda, sem stuðlað er að um allt land með venjulegum hætti, heldur þurfa þeir sérstakra aðgerða við, sem sérstakt fjármagn þarf til. Þessa hefur ekki verið nægilega gætt í framkvæmd,“ sagði hv. fim.

Hann nefndi m.a. starfsemi atvinnubótasjóðs sem dæmi um ófullnægjandi aðgerðir í þessu máli og færði fyrir því rétt rök. Mig furðar ekki á því, þó að þessum hv. flm., þessum hv. þm., sem till, flytur, sé orðið órótt út af meðferð þessa máls á síðustu þingum. Hann er einn af fulltrúum Vestfjarða hér á Alþingi, en Vestfirðir eru sá landshluti, sem öðrum fremur hefur orðið fyrir barðinu á fólksflutningunum suður að Faxaflóa. Á Vestfjörðum fækkaði fólki um 19%, á sama tíma sem meðalfjölgun þjóðarinnar var 51%. Þar eru nú tveir heilir hreppar komnir í eyði. og hnignun má heita almenn, að því er fólksfjölda varðar, í þessum landshluta. Þetta velt hv. þm., og hann skilur, hvert stefnir, þegar ekki er að gert. En hann veit sjálfsagt og skilur fleira. Hann veit það, hv. flm. þessarar till., að hér á hinu háa Alþingi höfum við framsóknarmenn hvað eftir annað flutt frv. til l. um raunhæfar ráðstafanir, svo að ég noti orðalag hans sjálfs, til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Hann þekkir þetta frv. og efni þess. Hann veit, að þar er gert ráð fyrir sérstakri ríkisstofnun, sem helgi sig því verkefni eingöngu að vinna að jafnvægisþróun landsbyggðar, ekki aðeins í nokkra mánuði eða 1—2 ár, heldur áfram á komandi tímum, og henni verði fengið verulegt fjármagn til ráðstöfunar og þá fyrst og fremst ákveðinn hundraðshluti af ríkistekjunum, sem miðað við fjárlög þessa árs mundi verða 46-50 millj. kr. á ári eða 400—500 millj. á 10 árum og meira, ef tekjur ríkisins hækka á þeim tíma. Hann veit og skilur það, hv. þm., að þarna er um raunhæfar aðgerðir að ræða. Ég efast ekki um, að hann geri sér grein fyrir því líka, að þessar aðgerðir eða till. um þær í frv. eru að verulegu leyti byggðar á fordæmi frænda vorra, Norðmanna, sem í meira en heilan áratug hafa á skipulagðan hátt unnið að eflingu þess hluta norskrar landsbyggðar, sem talinn var í mestri hættu, og að þeir fengu fyrir nálega 3 árum þessari jafnvægisstofnun sinni til umráða hvorki meira né minna en 500 millj. norskra króna eða í kringum 3000 milli. íslenzkra króna í þessu skyni. Eftir þessari norsku jafnvægisstofnun eru tillögur okkar framsóknarmanna í frv. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins sniðnar að verulegu leyti. Hann veit það þess vegna, hv. þm., og aðrir hv. þm., að undanfarin ár hafa legið fyrir Alþingi till. um raunhæfar aðgerðir í þessum málum, sem hann nefnir. Hann átti þá ekki sæti hér á Alþingi. Hann veit líka vafalaust, að stjórnarmeirihl. í fjhn. Nd. lét útbýta hér á Alþingi í fyrra rökstuddri dagskrá, þar sem lagt var til að vísa þessu frv, frá á þeim grundvelli, að það væri óþarft, að lögin um atvinnubótasjóð nægðu til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, en sá sjóður fær nú samkv. lögum um hann 10 millj. kr. á ári í tekjur, og starfsreglur hans eru eins og hv. þm. lýsti í ræðu sinni hér .fyrir 4 vikum, en annars er sá sjóður út af fyrir sig þörf stofnun og gagnleg á sínu sviði. Það má bæta því við, að núna í ár hefur sjóðurinn raunar ekki nema 5 millj. kr. til meðferðar, ef ekki verður að gert, vegna þess að hann varð í fyrra að eyða fyrir fram af tekjum sínum. Og það má geta um það til viðbótar við það. sem hv. flm. till. sagði um starfsemi þessa sjóðs að jafnvægismálum, að af þessum fáu millj., sem sjóðurinn hafði til umráða til þess að efla landsbyggðina og koma í veg fyrir óheppilega fólksflutninga. var einni millj. ráðstafað til fyrirtækja hér í Reykjavík, einni milli. hingað til Reykjavíkur, og vita þó allir, að höfuðborgin er ekki staður, sem á það á hættu, að fólk flytjist þaðan í stórum stíl. Þetta dæmi til viðbótar því, sem hv. þm. sagði, sýnir glögglega, hver fjarstæða það var í þessu plaggi, sem ég nefndi áðan. að telja, að atvinnubótasjóðurinn, sem út af fyrir sig er gagnleg stofnun, eins og ég sagði áðan, fullnægði þörfum í þessum efnum, svo að frekari till. um raunhæfar aðgerðir væru óþarfar.

En þessi hv. þm., sem er áhugasamur um þetta mál, velt fleira í sambandi við afgreiðslu þessa máls í fyrra. Hann velt, að þáv. þm. Sjálfstæðisfl. á Vestfjörðum, þeir Gísli Jónsson og Kjartan J. Jóhannsson, höfðu áhyggjur af þessari afgreiðslu. Þó að þeir eins og aðrir stjórnarþm. greiddu atkv. með því að lýsa yfir því, að jafnvægislöggjöf væri óþörf, þá sáu þeir missmíði á því að leggja nafn sitt við svo ábyrgðarlítið hjal. Þeir mundu eftir Vestfjörðum. Þess vegna fluttu þeir undir þinglokin sérstaka till. til þál. um að gera skyndiáætlun um ráðstafanir til að stöðva fólksflótta af Vestfjörðum. Þeirri áætlun skyldi samkv. till. ljúka þegar á árinu 1963. Við framsóknarmenn studdum þessa till. að sjálfsögðu, og hún var samþ. á hinu háa Alþingi einróma, að ég ætla. hv. þm. þekkir framhald þessarar sögu. Hann veit, að flm. þessarar till. eru nú ekki lengur þm. fyrir Vestfirði. Honum eru eflaust í fersku minni umr. um þetta mál, þ.e.a.s. Vestfjarðaáætlunina, í fyrirspurnatíma hér á Alþingi fyrir nokkrum vikum. Vestfjarðaþm. einn hv. spurði um Vestfjarðaáætlunina, hvort henni hefði verið lokið um áramótin. Henni var ekki lokið. Málið hafði verið sent suður til Parísar, og þaðan hafði það verið sent til Noregs og útlendir sérfræðingar sagðir væntanlegir, sumir segja árið 1965, e.t.v. einhvern tíma í sumar. En til bráðabirgða hefur því verið slegið föstu, að Vestfirðir eða a.m.k. hluti af þeim skuli teljast þróunarsvæði, sérstakt þróunarsvæði. Það var ekki allítið. Það getur út af fyrir sig sjálfsagt verið gagnlegt fyrir landshluta, sem eyðingarhættan vofir yfir að meira eða minna leyti, að fá á sig þetta fræga nafn: þróunarsvæði. Það er ágætt út af fyrir sig og bak við það viðleitni til heilbrigðrar hugsunar. En hér þarf meira til. Hér þarf raunhæfar aðgerðir, eins og hv. flm. till. komst að orði. Og nú hefur hv. flm. sjálfur tekið sæti á Alþingi, þar sem hann átti ekki sæti í fyrra. Og enn á þessu þingi höfum við framsóknarmenn flutt það frv., sem vísað var frá í fyrra um raunhæfar aðgerðir, og nú með þeirri viðbót, sem er orðin aðkallandi, að heimild sé veitt til sérstakrar bráðabirgðaaðstoðar gegn eyðingu sveitarfélags, sem talin er yfirvofandi.

Þessu frv. var vísað til n. í hv. Nd. hinn 21. okt. 1963. Svo liðu þessir 10 dagar, sem eftir voru af október, og nóvembermánuður og desembermánuður 1963 og janúarmánuður 1964 og febrúarmánuður sama árs. Þá leyfði ég mér að vekja athygli á því hinn 2. marz í hv. Nd., að þetta mál væri búið að vera nokkuð lengi í nefnd, og mælist ég til þess, að hæstv. forseti sæi um, að það yrði afgreitt í n. Svo kom út hinn 16. marz álit frá n., en aðeins frá minni hl. Það hafði loksins verið tekið fyrir til afgreiðslu. og hv. minnt hl. hafði, þegar hann fékk tækifæri til, ákveðið að mæla með frv., en hv. meiri hl. var ekki alveg tilbúinn. Hann þurfti dálítið lengri umþóttunartíma, en ekki mjög langan samt, því að áliti meiri hl. var útbýtt hinn 1. apríl, á fyrsta þingdegi eftir páskana, og var dagsett 20. marz. Þetta álit liggur hér fyrir nú og er mjög í sama stæil og álit hv. meiri hl. fjhn. á Alþingi í fyrra. Það er mjög í sama stíl.

Nú er þetta frv. um raunhæfar aðgerðir í jafnvægismálum sem sé þannig statt, að það hefur ver;ð afgreitt úr fjhn. í Nd. og tveir nm. mælt með því, en þrír hafa mælt gegn því. En þó að þrír þm. séu þarna meiri hl. í n. og séu þar að auki þm. í flokkum, sem styðja núv. hæstv. ríkisstj., er ekki búið að afareiða þetta mál í hv. Nd. Og aðrir þm., jafnvel þó að þeir kunni að vera í sömu flokkum, hafa ekkert um það sagt. að þeir ætli sér að styðja þessa dagskrártill. þessara þriggja hv. stórreykvísku þm., sem skrifa undir meirihlutaálit hv. fjhn. í Nd.

Og þá kem ég að því, sem ég hugsa gott til, að nú hefur hv. flm. þessarar till., sem er áhugasamur um þessi mál, aðstöðu til þess að beita áhrifum sínum. Nú á hann hér sæti á hv. Alþingi. Hann hefur aðstöðu til þess að beita áhrifum sínum á flokksmenn sína, sem hafa ekki greitt atkv. enn þá um þetta mál, og það eru ýmsir menn í þessum flokkum, sem sitja nú á þingi, fleiri en hann, sem áttu ekki sæti á þingi í fyrra og greiddu þá ekki atkv. um það dæmalausa plagg, sem þá var lagt fram af nefndarmeirihl. Og hann hefur aðstöðu til þess að hafa áhrif á hæstv. ríkisstj., þá sem hann nú styður. Og á þessu vil ég byggja mínar vonir um góðan framgang þessara raunhæfu aðgerða í jafnvægismálinu, að þessi hv. nýi þm. Vestf. muni beita áhrifum sínum gegn áhrifum þessara þriggja stórreykvísku þm. í fjhn., sem hafa ekki viljað breyta því, sem þeir einu sinni hafa gert, og borið fram svipaða dagskrártill, og borin var fram í fyrra. Ég vil trúa því. að hann skorti ekki vilja til þess að beita þeim áhrifum, og það er honum raunar atveg skylt að gera sem fulltrúa fyrir landshluta, sem þarna á sérstaklega mikið í húfi. Hann hefur sem sé góða aðstöðu til þess, þar sem hann er á engan hátt háður þeirri afgreiðslu eða tengdur þeirri afgreiðslu, sem var á þessu máli á Alþingi í fyrra. Og ég leyfi mér að beina þeirri áskorun til hans, að hann leggi sig nú allan fram til þess að fá stjórnarmeirihl. eða þá af honum, sem ekki eru búnir að skrifa undir plaggið, til þess að taka eðlilega afstöðu í þessu máli. Af slíku verki mundi vegur hans vaxa, og hann mundi vinna Vestfirðingum og mörgum öðrum mikið gagn. Eitt hefur þessi hv. þm. a.m.k. á valdi sínu, og það er að greiða sjálfur atkv. með hinum raunhæfu aðgerðum, sem við leggjum til að framkvæmdar verði, og þykir mér líklegt a.m.k., að samflokksmenn hans úr Vestfjarðakjördæmi mundu þá leggjast á sömu sveif og hann í þessu máli. Ég bíð þess nú með eftirvæntingu, og það gera áreiðanlega fleiri, bæði innan þings og utan, að í ljós komi, hvað hv. þm. verður ágengt nú næstu daga í sambandi við þetta mikla mál.

Það er víðar en á Vestfjörðum, sem menn fylgjast af áhuga með aðgerðum eða aðgerðaleysi Alþingis í þessum málum. bíða þess með eftirvæntingu, hvort þaðan er að vænta rannhæfra aðgerða eða aðeins skriffinnsku og ályktana, sem fást ekki framkvæmdar. Utan þings og innan hafa að vísu ýmsir haft orð á því í minni áheyrn nú undanfarnar vikur, að þessi till. hv. 4. þm. Vestf. sé ekki neitt merkisplagg, hún sé ekkert annað en framhald af atvinnubótasjóðsfrv. í hittiðfvrra og Vestfjarðaáætlunartill. í fyrra og að hinn raunverulegi tilgangur hennar sé sá einn að draga athygli frá því leiða verki að fella enn á ný frv. okkar framsóknarmanna um raunhæfar frambúðarráðstafanir í þessum málum. En það mun sýna sig, áður en þessu þingi lýkur, hvort sú tilgáta hefur við rök að styðjast. Ég ætla mér ekkí að trúa því að óreyndu, að svo sé.

Ég get tekið undir ýmislegt af því, sem hv. þm. sagði, um aðferðir til þess að efla þá landshluta, sem eiga við beina eða hlutfallslega fólksfækkun að stríða. Mér þótti vænt um, að hann skyldi segja í ræðu sinni, að á Vestfjörðum væri ekki einungis hægt að stöðva fólksflóttann, heldur einnig snúa þróuninni við. Þetta sagði hann. Hann sagði líka, að hagkvæmara væri að búa fólki lífsskilyrði, þar sem það á heima, heldur en láta það taka sig upp og byrja að nýju annars staðar á landinu, og um þetta er ég honum alveg sammála. Ég held, að við séum sammála um, að til þess að efla landsbyggð þurfi fyrst og fremst að efla atvinnulífið og koma upp nýjum atvinnugreinum, þar sem skilyrði eru til þess. Ég held, að það geti haft mikla þýðingu að koma upp sterkum atvinnulífsmiðstöðvum í einstökum landshlutum. Slíkt hefur bæði efnahagsleg og sálræn áhrif. Austfirðingar orða þetta svo, að í landshlutunum þurfi að skapast aðstaða, sem geti hamlað á móti kraftblökkinni við Faxaflóa. Og með Þetta sjónarmið í huga hafa bæði Norðlendingar og Austfirðingar viljað virkja Dettifoss. Á suðurláglendinu vilja menn byggja stóra útgerðar- og útflutningshöfn, Þorlákshöfn. Og ég mundi vissulega vitja ljá því eyra að stofna á Vestfjörðum sementsverksmiðju fyrir erlendan markað, ef skilyrði til þess reyndust fyrir hendi, eða biksteinsvinnslu austur í Loðmundarfirði, ef skilyrði reyndust fyrir hendi til þess. En við megum ekki heldur gleyma gömlu atvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi, og hinum miklu möguleikum fiskiðnaðarins, eða matvælaframleiðslunni. Náttúran hefur gert allt þetta land byggilegt milli fjalls og fjöru, svo að ekki má á milli sjá, hvar lífs- og framfaraskilyrðin eru bezt til sjós og lands. Aflinn af miðunum er lagður á land í meira en 60 höfnum fyrir norðan, austan, sunnan og vestan. Ræktunarland er mikið í hverri sveit á Íslandi svo að segja og jarðhitinn og vatnsorkan er víða. Sama er að segja um byggingarefni og fleira það, sem þarf til þess, að land byggist nú á tímum. Ísland er yfirleitt frá náttúrunnar hendi land til að byggja, ekki land til að vera í eyði að meira eða minna leyti.

En hér þarf að leggja fram fjármagnið, afi þeirra hluta, sem gera skal, og skilja lífsnauðsyn þess fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, að það sé gert. Og við þurfum, Íslendingar, að gera okkur grein fyrir því, hvernig við eigum að haga vinnubrögðum okkar. Hér er ekki hægt að fara eftir neinum algildum formúlum. Jafnvægi í byggð landsins verður að skapast með lífandi samstarfi milti stjórnarvalda landsins og hlutaðeigandi byggðarlaga, og æskilegast er, að byggðarlögin sjálf geti átt frumkvæðið að meira eða minna leyti. Þannig er það í Noregi, og af Norðmönnum er áreiðanlega ýmislegt hægt að læra á þessu sviði eftir meira en 12 ára reynslu, sem þeir hafa af sinni jafnvægisstofnun. Ég ætla, að það hafi verið 1951 eða 1952, sem löggjöfin var sett, hin fyrsta, um Norður-Noregsáætlunina. Þessi stofnun þarf t.d. að taka tillit til húsnæðismálanna í hlutaðeigandi byggðarlögum. Stundum er hægt að fá inn í byggðarlag, svo að nefnt sé dæmi, kunnáttumann, sem er bráðnauðsynlegt að fá, ef húsnæði er til reiðu, annars ekki. Það getur oltið á því. Jafnvægisstofnunin, þegar hún kemst á fót, — og það gerir hún fyrr eða síðar, það getur ekki hjá því farið, — getur þurft að taka þátt í því að stofna atvinnufyrirtæki. Þannig er það líka í Noregi. Jafnvægissjóður þeirra Norðmanna eða það, sem nú heitir Distrikternes Utbygningsfond, hefur heimild til þess að leggja fram hlutafé í atvinnufyrirtæki í byggðarlögum, þar sem talin er brýn þörf á, að slíkt atvinnufyrirtæki komist á fót, og það tekst ekki á annan hátt. Og hún verður að geta brugðið skjótt við, ef eyðingarhættan gerir skyndilega vart við sig. Hún verður að vaka yfir nýjum möguleikum, og hún verður að reka leiðbeiningar- og fræðslu- og hvatningarstarfsemi. Hún verður að fylgjast með þróuninni og þróunarmöguleikunum í öllum byggðarlögum landsins. Eitt af því, sem Norðmenn hafa gert, er að veita fyrirtækjum, sem leggja fé í atvinnutæki í Norður-Noregi, heimild til sérstaks frádráttar á skattaframtali þess vegna. Þetta hefur þegar borið allmikinn árangur þar. Allmikið fjármagn hefur leitað til Norður-Noregs vegna þessara sérstöku ákvæða um hlunnindi fyrir það fjármagn, sem þangað er veitt í atvinnufyrirtæki. Og það gerist fleira athyglisvert í þessum efnum erlendis, ekki sízt í Noregi. Nýlega var t.d. skýrt frá því hér í fréttum, að þar væru uppi áform um að flytja einar 20 ríkisstofnanir burt úr höfuðborginni Osló og staðsetja þær í byggðarlögum úti um landið, einmitt það sama, sem ýmsir menn hafa verið að stinga upp á, að gert yrði hér á landi. Norðmenn hafa séð, að það er ekki nauðsynlegt að safna öllum þessum ríkisstofnunum saman í höfuðborginni, þær gætu verið eins vel settar annars staðar. En þær geta hins vegar verið mikil lyftistöng menningar og framfara.

Það er ekki aðeins í Noregi, sem menn hafa jafnvægismálin í huga, eins og getið var um hér í umr, á Alþingi alveg nýlega um þetta jafnvægismál í hv. Nd., þegar það var þar til umr. siðast. Frá því hefur verið sagt hér í blöðum, að t.d. bæði í Englandi og í Frakklandi hafi stjórnarvöld þann hátt á í ýmsum tilfellum, að þegar einhver vill setja atvinnufyrirtæki á stofn, sé það skilyrði sett, að fyrirtækið sé staðsett í byggðarlagi, þar sem talin er þörf á að efla atvinnulífið vegna jafnvægis í byggð landsins. Þeir fá ekki, þessir menn, segir í þessum blaðafregnum, alltaf að byggja upp atvinnufyrirtæki í Lundúnaborg eða París, þar sem þeir kysu helzt, heldur er það skilyrði sett, að þeir byggi það upp annars staðar, þar sem það er talið hafa, að dómi stjórnarvalda, hagfelld áhrif á þróun landsbyggðar.

Það, sem hingað til hafa verið kölluð byggðarlög eða héruð, kalla hinir ungu fræðimenn okkar í hagvísindum nú þróunarsvæði. Íslenzkt landslag afmarkar þessi byggðarlög, eða — ef menn vilja heldur nota nýja orðið — þróunarsvæði, með náttúrlegum hætti. í hverju byggðartagi svo að segja hefur á öldinni sem leið myndazt þéttbýliskjarni, venjulega við fjörð eða vík, þar sem sjómenn leggja afla á land og verzlun er rekin fyrir byggðarlagið, byggð á samgöngum á sjó í öndverðu, en í seinni tíð sums staðar einnig á krossgötum í héraði, t.d. eins og á Selfossi, á Egilsstöðum og víðar. Þessum krossgötumiðstöðvum byggðum á viðskiptum og iðnaði fer væntanlega fjölgandi og þarf að fjölga. Þessa þéttbýliskjarna þarf að efla. Ég sé ekki, að ástaeða sé til að amast við neinum þeirra. Ég sé ekki, að ástæða sé til að amast við nemum þessara þéttbýliskjarna, sem þegar hafa byggzt upp víðs vegar um landið. En hitt er auðvitað eðlilegt og hagkvæmt, að nokkrir þeirra vaxi meira en aðrir. Einn þeirra, þ.e.a.s. höfuðstaður Norðurlands, Akureyri, hefur nú skilyrði til þess að vaxa til jafnvægis við höfuðborgina. En það gerist ekki af sjálfu sér. Jafnvel Akureyri hélt ekki sinni eðlilegu fólksfjölgun á áratugnum 1950—1960. Hin æskilega þróun þéttbýliskjarnanna og nálægs strjálbýlis eða sveitabyggða gerist ekki af sjálfu sér. Blind lögmál fjarmagns og viðskipta, sem hafa nútímatæknina í þjónustu sinni, og fólksflutningar, sem þau lögmál stjórna, eru ekki í neinu samræmi við félagsleg og þjóðleg markmið. En því aðeins vegnar þjóðinni vel til frambúðar, því aðeins heldur hún sjálfstæði sínu og menningu, að hin félagslegu og þjóðlegu markmið ráði, að landnáms- og landsbyggðarhugsjónin sé höfð í heiðri, að nauðsyn landsbyggðar sé viðurkennd.

Maðurinn, sem skóp bæði fjármagnið og tækni vorra tíma, er herra þeirra, ef hann vill og hefur manndóm til. Það er stundum sagt, að unga fólkið hér á landi sé sinnulaust og eigingjarnt, og auðvitað bera þeir þess merki, sem hafa vaxið upp og mótazt andlega í skugga tveggja heimsstyrjalda. En ef við hér í þessum sal gerum það upp við okkur, að þjóðinni sé lífsnauðsyn að byggja landið, og tökum upp raunhæfar ráðstafanir í stað hálfyrðakukls og sýndarmennsku, tel ég, að æskan muni ekki láta sinn hlut eftir liggja að velta því máli brautargengi. Landsbyggðin er landvörn okkar Íslendinga. Það er ekki óalgengt, að aðrar þjóðir, jafnvel þær, sem ekki eru taldar mikilsmegandi, verji svo sem eins og 20% af ríkistekjum sínum til þess að vera við því búnar að verja land sitt með vopnum, ef til kæmi, og sumar kosta miklu meira til. Við Íslendingar erum enn þá lausir við útgjöld af því tagi, og með sérstöku tilliti til þess ætti okkur ekki að vaxa í augum, þó að við þyrftum að verja í bili fjármunum, sem um munar, til þess að efla hina friðsamlegu landvörn, sem er engum til meins, en miðar að því að skapa verðmæti og bæta landið og auka hina sameiginlegu eign þjóðarinnar.

Þetta, sem ég nú hef mælt, vildi ég nú sagt hafa í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir frá hv. 4. þm. Vestf., og í tilefni af þeirri ræðu, sem hann flutti hér fyrir 4 vikum og var þannig á margan hátt, að ég vænti þess enn, að hann leggi sig fram ekki aðeins til þess að reyna að fá einhvern styrk úr einhverjum flóttamannasjóði úti í Evrópu til þess að leysa byggðajafnvægismál okkar Íslendinga, heldur til þess, að við Íslendingar gerum sjálfir á okkar löggjafarþingi raunhæfar ráðstafanir, eins og hann orðaði það, í þessu máli.