22.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í D-deild Alþingistíðinda. (3149)

166. mál, bankaútibú á Sauðárkróki

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Bankaútibúum hefur fjölgað töluvert hér á landi að undanförnu. Bankarnir hafa sett upp útibú á ýmsum stöðum, þó að enn séu að vísu nokkuð mörg héruð, þar sem slíkar stofnanir eru ekki. Þetta hefur gerzt án þess, að Alþingi hafi haft nokkur afskipti af þeim málum, eða ég a.m.k. minnist þess ekki, að það hafi verið samþ. nein ályktun hér á þingi um stofnun bankaútibús, a.m.k. í seinni tíð, — ég minnist þess ekki.

Hvað viðvikur Sauðárkróki, þá þykir mér það ákaflega trúlegt, að einhver bankinn muni setja þar upp útibú innan skamms, án þess að Alþingi geri nokkra ályktun um það.

Ég vildi í tilefni af þessari till. spyrjast fyrir um það hjá hv. fim., hvort þeir hafi ekki, áður en þeir báru fram till., rætt þetta mál við stjórnendur banka, og ef svo er, sem mér þykir sennilegt, þá hverjar undirtektir þeir hafi fengið.