29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í D-deild Alþingistíðinda. (3221)

186. mál, ráðstafanir gegn tóbaksreykingum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. í till. þessari er hreyft mjög mikilsverðu máli, og þar sem fyrsta setning till. hljóðar þannig, að gert er ráð fyrir, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir öflugri fræðslustarfsemi um skaðsemi tóbaksreykinga, þykir mér rétt að skýra í örfáum orðum frá því, sem menntmrn. hefur þegar aðhafzt í sambandi við þetta mál og í beinu framhaldi af hinni margumræddu og mjög athyglisverðu skýrslu bandarísku læknanefndarinnar um skaðsemi tóbaksreykinga.

Hinn 28. jan. s.l. boðaði ég alla skólastjóra gagnfræðastigsskóla, framhaldsskóla og sérskóla, sem undir menntmrn. heyra, til fundar til að ræða það mál, hvað unnt væri að gera til að stemma stigu við sígarettureykingum skólafólks. Fundurinn var mjög vel sóttur af hálfu skólastjóranna, og sýndu þeir mikinn áhuga á því vandamáli, sem um er að ræða. Þar sem skoðun ýmissa skólastjóranna var á þá lund, að sjoppurnar svonefndu ættu nokkurn þátt í því að freista unglinga til reykinga, hélt ég nokkru síðar, eða 3. febr., fund með borgarstjóranum í Reykjavík, lögreglustjóranum í Reykjavík, borgarlækni, fræðslumálastjóra og fræðslufulltrúa Reykjavíkurbæjar og skólayfirlækni, Benedikt Tómassyni, til þess að ræða, hvað unnt væri að gera til að stemma stigu við því, að unglingar sæktu svonefndar sjoppur, og stuðla að því, að vist unglinganna þar yrði þeim ekki til skaðsemdar, og var það mál rætt ýtarlega á þeim fundi. 4. febr. varð það svo að ráði í samráði við skólastjóra gagnfræðaskólanna og framhaldsskólanna, að ég hélt fund með fulltrúum nemendasamtakanna í öllum framhaldsskólum í Reykjavík og nágrenni, og sóttu þann fund um 30 skólanemendur, sem til þess höfðu verið kjörnir af sínum skólafélögum í samráði við hlutaðeigandi skólastjóra, og fóru fram á þeim fundi mjög ýtarlegar og gagnlegar umr. við nemendurna sjálfa um þetta mál. Leitaði ég þar sérstaklega eftir því, að samtök nemendanna gerðust virk í þessu máli, í baráttunni gegn tóbaksreykingum. Ég hélt síðan annan fund 18. febr. með skólastjórunum, þar sem ég skýrði þeim frá þeim viðræðum, sem átt höfðu sér stað við borgaryfirvöld Reykjavíkur og við nemendurna, og fóru á þeim fundi fram einnig mjög ýtarlegar umr. um málið fram og til baka

Niðurstaða af þessum fundarhöldum má segja að sé sú, að þegar hefur verið tekin ákvörðun um að efla mjög fræðslustarf um tóbaksreykingar og skaðsemi beirra í skólum ríkisins. Skólayfirlæknir hefur gert útdrátt úr skýrslu bandarísku vísindamannanna um skaðsemi tóbaksreykinga, og hefur skólastjórum og kennurum verið send þessi skýrsla skólayfirlæknisins. Skólastjórarnir tókust það verkefni á hendur að sjá svo um, hver i sínum skóla, að öflugri og skynsamlegri fræðslu í þessu efni yrði haldið uppi, og af hálfu fræðslumálastjórnarinnar hafa verið gerðar ráðstafanir til að afla sérstakra fræðslumynda erlendis frá um skaðsemi tóbaksreykinga, og munu þær verða sendar í skóla ríkisins til stuðnings þessu fræðslustarfi.

Ég taldi rétt að láta þessar upplýsingar koma fram til að undirstrika, að ég tel hér vera um mjög mikið vandamál að ræða, sem þegar hefur verið reynt að snúast nokkuð við, en ég skal fúslega játa, að betur má, ef duga skal, og það get ég sagt, að menntmrn. og fræðslumálastjórnin eru öll af vilja gerð, til þess að fræðslustarfsemi um skaðsemi tóbaksreykinga verði sem öflugust og skynsamlegust f skólum ríkisins.