27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í D-deild Alþingistíðinda. (3277)

74. mál, Listasafn Íslands

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Deilur um listir og listastefnur hafa lengi tíðkazt hér á landi sem annars staðar. Er alkunna, að menn greinir oft mjög á um listir samtíðarinnar, og mun svo löngum verða. Hitt er viðurkennt í hverju menningarþjóðfélagi, að listir hafa mikilvægu hlutverki að gegna, en eigi þær að fá notið sín og ná sem mestum þroska, þarf þrennt að koma til: Listamennirnir verða að hafa algert frelsi til listsköpunar. Þeir verða að öðlast sem bezta aðstöðu til að gegna köllun sinni. Og loks þarf að gera þjóðfélagsþegnunum kleift að kynnast listum, nálgast þær fordómalaust og njóta þeirra.

Sem betur fer erum við Íslendingar sæmilega á vegi staddir að því er fyrsta atriðið varðar, frelsi til listsköpunar. Það er a.m.k. ekki skert með beinum afskiptum, boðum eða bönnum ríkisvaldsins. Helzt takmarkast það að einhverju leyti af þröngsýni og íhaldssemi gagnvart ungum listastefnum, almennum skilningsskorti á því, að líf og hreyfing er nauðsynleg í listum, en kyrrstaða og endurtekning leiðir til afturfarar. En framsæknir listamenn láta slíka dóma ekki á sig fá. Þeir halda sína braut, sé þeim ekki beinlínis þröngvað til hlýðni.

Að því er varðar annað atriðið, aðstöðu listamanna til að rækja köllun sína, skortir vissulega mjög á, að nóg sé gert af opinberri hálfu til að æta hana hér á landi. Ég mun þó ekki ræða það mál nánar hér.

Um þriðja atriðíð vildi ég hins vegar fara nokkrum orðum, það viðfangsefni að færa listirnar nær fólkinu, leitast við að gera þær að virkum þætti í menningarlífi þess. Á þessu sviði er mikið verk óunnið í íslenzku þjóðfélagi, en einmitt þar getur hið opinbera lagt verulegt af mörkum og því er vissulega skylt að gera það. Ég vænti þess að geta, áður en langt um líður, fjallað um þessi mál nokkuð almennar og rækilegar en kostur er að þessu sinni.

Í sambandi við þá fsp. mína til hæstv. menntmrh., sem hér liggur fyrir, hef ég kosið að minna á eitt atriði aðeins, atriði, sem þó er næsta mikilvægt, hinn tilfinnanlega skort á viðhlítandi húsakynnum yfir myndlistarsafn þjóðarinnar. Þeirri staðhæfingu er oft varpað fram, bæði í ræðu og riti, að íslenzkar bókmenntir og listir séu rislágar um þessar mundir, nú séu ekki vor á meðal listamenn, sem jafnist á við snillinga genginna kynslóða. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta séu helber sleggjudómar, og það má hiklaust staðhæfa, að á sviði myndlistar hefur orðið hér ævintýraleg þróun á undraskömmum tíma. Í listasafni þjóðarinnar eru nú á annað þúsund verk íslenzkra myndlistarmanna, öll til orðin á þessari öld. Og þó að listgildi þeirra sé að sjálfsögðu misjafnt, eru þar á meðal mörg öndvegisverk. Mun og mega telja, að Listasafnið geymi nokkuð góða þverskurðarmynd af íslenzkri myndlist, einkum málaralist, á 20. öld. En sá hængur er á, að meiri hluti þessara verka er hvergi til sýnis, sakir þess að listasafnsbygging er engin til. Listasafnið hefur, eins og kunnugt er, fengið inni til bráðabirgða á einni hæð Þjóðminjasafnsins, býr þar við hin mestu þrengsli í húsakynnum, sem Þjóðminjasafnið þarf mjög á að halda til eigin nota. Mörgum hefur lengi verið ljóst, að hér þarf úrbóta við. Við þurfum að eignast hús yfir Listasafnið. Slíkt listasafnshús þarf að rísa á hentugum stað, þar sem rými er nóg um langa framtið og aðstaða góð til að byggja yfir listaverk þjóðarinnar í áföngum, en það tel ég hiklaust rétt að gert verði frá upphafi ráð fyrir, að þannig skuli byggt.

Árið 1945, þegar hinn ágæti listamaður, Jóhannes Sveinsson Kjarval, varð sextugur, samþykkti Alþingi 300 þús. kr. fjárveitingu til Kjarvalshúss, þ.e. til byggingar, sem vera skyldi íbúð og vinnustofa meistarans og að einhverju leyti sýningarhúsnæði á verkum hans. Framkvæmdir í byggingarmálum þessum drógust þó á langinn. Alllöngu síðar komst Kjarvalshús aftur á dagskrá og Alþingi veitti til þess nokkurt fé a.m.k. tvívegis. Árið 1959 afsalaði Jóhannes Kjarval sér þessu fé, sem þá mun hafa verið orðið 1.1 millj, kr., og æskti þess, að það yrði stofn að byggingarsjóði íslenzks listasafns. Síðan hygg ég, að árlega hafi verið á fjárlögum veitt nokkur upphæð til byggingar listasafnshúss. Þá gerðist það og á s.l. ári, að byggingarsjóður Listasafnsins hlaut góða og mikla dánargjöf, en þar er um að ræða hluta í fasteign, sem talin er nokkurra milljóna kr. virði.

Ég hef leyft mér að bera hér fram fsp. til hæstv. menntmrh. um byggingarmál Listasafnsins, og er hún í þrem liðum. í fyrsta lagi, hve mikið fé sé nú tiltækt í byggingarsjóði safnsins, í öðru lagi, hvort aflað hafi verið lóðar eða réttara sagt landrýmis fyrir listasafnsbyggingu, og í þriðja lagi, hvort einhverjar aðrar ráðstafanir hafi verið gerðar í byggingarmátum safnsins. Þar á ég m.a. við, hvort athuganir hafi farið fram á því, hvernig hentugast verði að leysa þessi byggingarmál, hvort ráðamenn og sérfræðingar þeirra hallist að því að reisa eitt stórhýsi og þá e.t.v. á tiltölulega þröngri byggingarlóð, sem takmarkaði vaxtarmöguleika safnsins í framtíðinni, eða hvort menn hallist fremur að hinu, sem ég tel miklu æskilegra, að Listasafninu verði tryggt tiltölulega stórt landrými, þar sem hægt yrði að byggja í áföngum stóra sambyggingu, helzt með fögrum garði umhverfis, skreyttum höggmyndum og öðrum þeim listaverkum, sem þola að standa úti. Ef hallazt væri að þeirri lausn Þessara mála, mætti án efa hefja byggingarframkvæmdir miklu fyrr en ella. Það væri og stórum æskilegri frambúðarlausn heldur en hitt að byggja dýrt stórhýsi í einum áfanga, sem þó yrði trúlega of lítið og ófullnægjandi, áður en mjög langir tímar liðu. Ég tel miklu skipta, að byggingarmál Listasafnsins verði tekin föstum tökum og að því stefnt að bæta úr brýnni þörf sem allra fyrst og á sem hagkvæmastan hátt. Til að vekja athygli á þessari nauðsyn er fsp. mín fram borin.