27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í D-deild Alþingistíðinda. (3287)

801. mál, rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi lét í ljós óánægju með málsmeðferðina, Þ.e.a.s. óánægju yfir því, að hafin væri teikning, enn ein gerð teikningar, með miklum tilkostnaði, án þess að áður væri tekin ákvörðun um, hvort út í smíði skipsins skyldi farið eða ekki. Ég hef nú heyrt þessa skoðun áður frá einum fiskifræðingi og tel ekki ólíklegt, að kannske hafi hv. fyrirspyrjandi verið styrktur í þessari skoðun sinni af honum. En mér finnst vera ósamræmi í þessu og svo hinu: að vilja ekki, áður en út í það er farið að gera endanlegar teikningar, kanna verð og lánsmöguleika, að þá sé tekin ákvörðun um það, sem maður raunverulega veit ekki hvað er. En hitt get ég sagt hv. þm., að hann verður að skilja það, að út í teikningargerðina er farið því aðeins; að miklar líkur séu til, að á eftir fylgi ákvörðun um það, að smíði skipsins verði hafin. Það er að vissu leyti rétt, að það kostar talsvert mikið að gera Þessar teikningar. En Það er náttúrlega algerlega ósambærileg sú teikning, sem áður var gerð af skipaverkfræðingi í FAO, og það, sem nú er verið að gera, því að það var hrein bráðabirgðateikning, en þetta er endanleg og fullkomin teikning, hæf til útboðs, sem nú er verið að gera. Og einmitt af því, að það kostar talsvert mikið fé, þá bendir það auðvitað til þess, að ríkisstj. sé á því máli að halda áfram, þegar teikningin er fengin, útboð hefur farið fram og fjáröflunarmöguleikar kannaðir. Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að það sé um byrjun að ræða, sem haldið verði áfram með, þegar þær upplýsingar liggja fyrir, sem raunverulega eru grundvöllurinn að því, að menn geti tekið ákvörðun í málinu, því að þótt það hafi verið nefnd upphæð eins og 50 millj. kr., þá er það algerlega út í hött. Forstjóri fiskideildarinnar segir mjög varlega, að það sé óvarlegt að áætla verðið minna, en hvort það verða 50, hvort það verða 45 eða hvort það kynni að verða eitthvað meira en 50, liggur alls ekki fyrir, fyrr en útboð hefur farið fram, Ég vildi nú vona fyrir mitt leyti, að kannske yrði upphæðin ekki svona há, eins og þarna er nefnt.

Það er alveg rétt hjá fyrirspyrjanda, að möguleikarnir til þess að hefjast handa um byggingu skipsins nú eru að því leyti betri en áður, að nú hefur safnazt í sjóð, sem svarar nærri 20% af kostnaðarverði skipsins, og líklegt má telja, að það, sem fram yfir er, muni verða fáanlegt að láni. Það er einmitt ástæðan til þess, að hafin hefur verið þessi endanlega teikning af skipinu og undirbúningur undir útboð hafinn, svo að ég verð að segja það, að ég tel, að hv. þm. og fyrirspyrjandi hafi enga ástæðu til þess að vera óánægður með þessa málsmeðferð. Þetta er eðlileg málsmeðferð og miklu eðlilegri en taka fyrst ákvörðun og fá svo að vita á eftir, á hverju hún byggist.