11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í D-deild Alþingistíðinda. (3375)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er hér um að ræða svo mikið mál, að það er auðvitað ógerlegt að ræða það efnislega í fyrirspurnatíma. Ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er eingöngu sú, að hér hefur verið bent á það af ýmsum ræðumanna, að í þessari till. eða ályktun Alþingis hafi verið gert ráð fyrir, sem rétt er, að Framkvæmdabankinn annaðist rannsókn þessa máls, m.a. í samráði við stjórn atvinnubótasjóðs. Við stjórn atvinnubótasjóðs hefur ekki verið haft neitt sérstakt samráð um málið enn sem komið er, og skal ég ekkert um það segja, hvort það verður gert eða ekki. Ég skal heldur ekkert um það dæma, hvort hér hafa verið eðlileg vinnubrögð höfð eða ekki. En fram hjá því er auðvitað ekki hægt að ganga, að það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ríkisstj. væri ekki beinlínis falið að gera þetta á þann hátt, sem venja er með þál., heldur er henni aðeins falið að fela tiltekinni stofnun að framkvæma verkið. Hvort það hefur verið illa að því unnið eða ekki, skal ég ekki heldur um dæma, en vildi þó aðeins segja það, sem ég held að okkur hljóti öllum að geta komið saman um, að ef það er ekki meira vandamál en það að stöðva fólksflóttann, sem kallað er, úr heilum landsfjórðungi, en að það taki 4—5 mánuði að komast að niðurstöðu um það, hvaða úrræði séu til þess, þá held ég, að hér væri ekki um eins mikið vandamál að ræða og þessi atvinnumál strjálbýlisins þó raunverulega eru, því að það vitum við og það er vitanlega rétt, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði, að þetta eru þau mál, sem þm. hinna einstöku kjördæma víðs vegar um land hafa árum og áratugum saman verið að fást við og reyna að benda á ein og önnur úrræði til þess að vega þarna upp á móti því jafnvægísleysi, sem oft hefur skapazt.

Um Vestfirði er það að segja, að það hefur verið erfitt ástand að þessu leyti, þó að það hafi að ýmsu leyti samt batnað, að ég hygg, og það vill a.m.k. svo til, að á siðasta ári, — ég býst nú ekki við, að það sé að þakka þessari þál. sérstaklega, en það hefur orðið svo á síðasta ári, að það hefur orðið smávægileg fjölgun fólks í Vestfirðingafjórðungi, þannig að atvinnuhættir þar hafa sem víða annars staðar um landið, eins og við þekkjum, breytzt mjög á seinni árum til batnaðar, og ber vissulega að fagna því. En það breytir ekki hinu, að enn þá er um áð ræða mjög alvarlegt jafnvægísleysi að þessu leyti. En við skulum þó ekki loka sugunum fyrir því, að við getum aldrei búizt við og það er ekki þjóðhagslega endilega rétt að stefna að því, að allar byggðir landsins, sem einhvern tíma hafa byggzt, haldist endilega þannig í byggð, að þaðan flytjist ekki fólk. Það er stefna okkar, sem er auðvitað sjálfsögð og eðlileg, að hafa sem jafnasta byggð um landið allt með þeirri forsendu, að sú byggð haldist, þar sem atvinnuskilyrði og framleiðslumöguleikar eru slíkir, að það sé þjóðhagslega eðlilegt, að þangað sé beint okkar vinnuafli og takmörkuðum starfskröftum. Að málinu verður að vinna á þeim grundvelli, en ekki endilega hinum, að það hljóti að vera voðalegt böl, að einhver afdalabyggð fari í eyði. Ég held, að það sé ekkert böl og það sé ekki annað en eðlileg þróun í hvaða þjóðfélagi sem er. En það er hins vegar alveg rétt, að það verður að vinna að þessum málum á skipulagðari hátt en gert hefur verið og kanna það rækilega niður í kjölinn, hvar aðstæður eru fyrir hendi úti um landið til þess að byggja upp þrosksvænleg athafnasvæði til að hagnýta framleiðsluskilyrði í viðkomandi byggðarlögum, hvort sem er til sjávar eða til landsins, og það mál þarf að taka upp kerfisbundið, ekki aðeins á Vestfjörðum, heldur viðar um landið. Og ég er ekkert fjarri því, að það væri eðlilegt, eftir að atvinnubótasjóður hefur verið lögfestur sem ákveðin stofnun, sem að vísu hefur allt of lítið fé, ef út í þá sálma ætti að fara, að starfssvið þess sjóðs yrði útvíkkað og stjórn hans yrði falið að einhverju leyti að annast slíka kerfisbundna athugun og hafa forustu um aðgerðir til úrbóta á þessum sviðum.

Þá þyrfti sjóðurinn í senn að hafa miklu meira fé og jafnframt yfir að ráða vissum starfskröftum til þess að athuga þessa hluti.

Ég skal taka undir það, að ég álít, að það sé mjög vafasamt, hve mikið við eigum að leita í þessum efnum til erlendra þjóða. Hér er sérstaða töluverð hjá okkur umfram það, sem er hjá öðrum þjóðum, og þó að margt kunni mega af þeim læra, verður fyrst og fremst að byggja á okkar eigin reynslu, þó að ég skuli ekki lasta það, að ábendinga sé leitað annars staðar.

Ég skal ekki, herra forseti, brjóta hér neinar reglur, en vildi aðeins koma þessu hér að og tel rétt, að það sé íhugað, að það er nauðsynlegt að vinna kerfisbundið að þessu, hvort sem það verður stjórn atvinnubótasjóðs, Framkvæmdabanki eða aðrir aðilar, sem það gera, ekki aðeins með hliðsjón af Vestfjörðum, heldur landsbyggðinni í heild, og hvort sem það verður byggt upp á þann hátt að byggja upp sérstakar þéttbýlisstöðvar í strjálbýlinu eða ekki, — það er mjög athyglisverð hugmynd, — eða hvernig sem á annan hátt verður að því unnið. Þetta þarf að gerast, en við skulum ekki loka augunum fyrir því, að þetta er auðvitað löng þróun og tekur miklu lengri tíma en nokkra mánuði að fá í því viðunandi niðurstöðu.