11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í D-deild Alþingistíðinda. (3378)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Því miður varð ég að vera fjarverandi í upphafi fundarins og fylgdist ekki með þessum umr., en ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að rétt í því, að ég kom hér inn í salinn, var hv. 3. þm. Reykv. (EOl) rétt einu sinni eð gefa yfirlýsingu um, að Alþb. og Alþfl. hefðu báðir sameiginlega í vinstri stjórninni viljað koma upp áætlunarráði, sem hefði átt að stjórna Seðlabankanum, en Framsfl. hefði komið í veg fyrir þetta. Þetta er hrein þjóðsaga og úr lausu lofti gripið, og ég vil ekki láta þetta standa ómótmælt. Ég hef mótmælt þessu áður af hendi hv. þm.

En fyrst ég er kominn, vil ég bæta því við, að Framsfl. hefur ævinlega verið mjög hlynntur áætlunargerð, eins og þráfaldlega hefur komið fram í till, hans og framkvæmdum. Enn fremur vil ég taka undir þær raddir, sem hér hafa komið fram um að hraða sem mest þeirri athugun, sem á að fara fram, og mér fyndist eðlilegast að skipa sérstaka, innlenda aðila til þess að framkvæma þetta verk.

Það er sagt hér, að þetta mál hafi verið sent Framkvæmdabankanum, og ég dreg ekki í efa, að það sé rétt. Ég á sæti í stjórn þess banka, og mig rekur ekki minni til, að þetta mál hafi nokkurn tíma verið lagt fyrir bankaráð þess banka, og mér hefur ekki verið kunnugt um meðferð þess af hálfu þeirrar stofnunar, þó að ég eigi sæti í bankaráðinu. Og ég held, að mér sé óhætt að segja það alveg hiklaust, að hefði þetta mál komið fyrir stjórn þeirrar stofnunar, hefði ég ekki lagt til eða fylgt því, að það væri afgreitt í þeirri stofnun með því einu að senda það til Efnahagsstofnunarinnar, heldur hefði ég viljað hafa á því annan hátt.