18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í D-deild Alþingistíðinda. (3399)

807. mál, vörukaupalán í Bandaríkjunum

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir skýr og greinargóð svör. Það var afskaplega fróðlegt að fá þessar upplýsingar um það, hversu hárri upphæð þessi lán nema, og er gott að geta rannsakað það nánar, þegar betri tími gefst. Og einnig var gott að fá upplýsingar um það, í hvað framlögin hafa farið. En langmerkilegast við upplýsingarnar að mínu viti var það, sem fram kom um þær fjárhæðir, sem Bandaríkjastjórn hefur fengið endurgreiddar í íslenzkri mynt og hún hefur heimild til að ráðstafa að vild sinni. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðh., námu Marshallframlögin 27.5 millj. Samkv. lauslegum útreikningi mínum mun þetta nema um 74 millj. samkv. núv. gengi. Það kom fram hjá ráðh., í hvað þetta hefði farið. Hann nefndi fyrst og fremst flugherinn, launagreiðslur sendiráðs og byggingarkostnað og annað því um líkt og einnig Efnahagssamvinnustofnun Bandaríkjanna.

Ég vil aðeins geta þess í þessu sambandi, enda þótt ekki sé hægt að fara nánar út í það, að þegar um þetta sama mál var rætt fyrir 9 árum, svaraði hæstv. viðskmrh. fsp. um það, í hvað þetta fé hefði farið, enda þótt hann fengist þá ekki til að nefna neina upphæð. Hann sagði þá orðrétt:

„Hluta af fé þessu hefur verið varið til stuðnings tilrauna og fræðslustarfsemi í þágu íslenzks landbúnaðar og fiskveiða og einnig til styrktar Iðnaðarmálastofnuninni.“

Aðrar upplýsingar fékkst hann ekki til þess að gefa, og mér sýnist í fljótu bragði; að þarna sé nokkur mismunur á svörum hæstv. fyrrv. ráðh. og hæstv. núv. ráðh. Það kom fram í svari ráðh., að Bandaríkjastjórn hefur fengið til eigin ráðstöfunar um 113 millj. Af því kvað ráðh., að 5 millj. hefðu farið til Raunvísindastofnunarinnar, en að öðru leyti hefði þetta fé farið til varnarliðsins og til þarfa bandaríska sendiráðsins. Nú hef ég að sjálfsögðu enga aðstöðu til að vefengja þessar upplýsingar, enda kann vel að vera, að hæstv. ráðh. hafi ekki aðrar upplýsingar í sínum höndum. Hins vegar verður ekki hjá því komizt að geta þess, að það hefur löngum verið á almannavitorði, að þessir peningar hafa viljað fara í fleiri staði en hér voru nefndir. Það hefur verið á almannavitorði, að ýmis pólitísk útgáfustarfsemi hefur verið styrkt, og bandaríska sendiráðið hefur verið í aðstöðu til þess að stunda útlánastarfsemi í íslenzku efnahagslífi. Það hljóta auðvitað allir að sjá, að heilbrigðu efnahags- og stjórnmálalífi er mikil hætta búin, þegar erlendu stórveldi, sem mikilla hagsmuna hefur að gæta hér á Íslandi, hefur verið sköpuð svo einkar auðveld aðstaða til annarlegra fjárhagsáhrifa í þjóðlífi okkar Íslendinga. Að öðru leyti er að sjálfsögðu ekki hægt að ræða þetta mál hér í fsp: tíma, og vil ég endurtaka, að ég þakka ráðh. fyrir upplýsingarnar.