18.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í D-deild Alþingistíðinda. (3437)

214. mál, síldarleit

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur síldarleit á vegum hins opinbera verið stunduð um alllangt skeið í sambandi við veiðar í herpinót. Nokkur fyrstu árin fór þessi leit eingöngu fram úr flugvél. Leitin var þá bundin við aðalveiðitímann fyrir Norðurlandi og bar því aðeins einhvern árangur, að skyggni væri gott og síldin væði, sem kallað er. Árangur þessarar síldarleitar úr flugvél var stundum nokkur, en þá næsta takmarkaður. Fyrir nokkrum árum, þegar veiðileitartæki komu til sögunnar, breyttist öll veiðitækni við síldveiðar. Nú var hægt að finna síldartorfurnar og kasta á þær, án þess að síldin væði. Þessi gerbreyting hefur átt sinn ríka þátt í því, að sumarsíldveiði fyrir Norður- og Austurlandi hefur verið allgóð og stundum ágæt síðustu árin. Og þessari nýju tækni er það vafalaust að þakka, að haust-, vetrar- og vorsíldveiði er nú orðin nokkuð árviss og umtalsverður atvinnuvegur hér fyrir Suður- og Vesturlandi.

Eftir tilkomu fiskileitartækjanna var tekið að gera hér tilraunir með síldarleit á skipum, sem sérstaklega voru til þess útbúin og höfðu það að meginverkefni vissa tíma árs að leita síldar. Þetta gaf fljótt góða raun, og segja má, að núna allra síðustu árin hafi síldarleitin sannað gildi sitt svo rækilega, að ekki verður um villzt. Síldveiðisjómenn og útgerðarmenn eru á einu máli um, að undir forustu vísindamannsins og hins harðduglega leitarstjóra, Jakobs Jakobssonar fiskifræðings, hafi starfsemi þessi fært þjóðarbúinu í auknum síldarafla verðmæti, sem nema milljónatugum, e.t.v. hundruðum milljóna.

Nú má heita fullsannað, að síld má veiða einhvers staðar hér við land svo allt segja allt árið. Það skiptir því orðið afar miklu máli fyrir útgerðina og fyrir þjóðarbúskapinn í heild, að hægt sé að framkvæma síldarleit nokkurn veginn að staðaldri á hentugum og vel búnum skipum. Meðan telja mátti, að síldarleitin væri enn á tilraunastigi og hefði ekki fullsannað gildi sitt til frambúðar, var eðlilegt að notast við leiguskip og þá varðskipin, að svo miklu leyti sem samrýmanlegt var aðalstarfi varðskipanna. Þetta hefur líka verið gert, og við það situr enn. Hins vegar hefur þessi þjónusta í þágu útvegsins nú sannað gildi sitt svo rækilega, eins og ég áðan sagði, að fyllilega virðist tími til kominn, að hér verði bráðlega breyting á.

Leiguskip til síldarleitar eru ófullnægjandi frambúðarlausn. Ríkið þarf að eignast síldarleitarskip af hentugri stærð, ekki færri en tvö, og búa þau hinum fullkomnustu leitartækjum. Fróðir menn og reyndir telja, að þessi skip þyrftu ekki að vera öllu stærri en hin nýjustu og beztu síldveiðiskip, svo sem um 250 smál. En með föstum síldarleitarskipum ynnist margt. Leitarskipin væru tiltæk árið um kring. Þau væri hægt að útbúa betur til þessa sérstaka starfa en leiguskip, sem oft eru í þeirri þjónustu stuttan tíma í senn. Þá mætti gera ráð fyrir, og það skiptir verulegu máli, að á hinum föstu leitarskipum yrðu að miklu leyti sömu áhafnirnar væntanlega vertið eftir vertíð, sem fengju þá mikla þjálfun í þessu vandasama starfi. Loks mætti vafalaust, að vissu marki a.m.k., sameina síldarleit og síldar- og hafrannsóknir, sem okkur er án efa mikilvægt að leggja aukna stund á.

Eins og kunnugt er, vildi það óhapp til í vetur, að varðskipið Ægir varð fyrir áfalli í slipp hér í Reykjavik. Ægir mun hafa verið búinn beztum síldarleitartækjum þeirra skipa, sem hér hafa fengizt við slíka leit. Mér er tjáð, að við þetta áfall hafi tækin í Ægi stórskemmzt, jafnvel eyðilagzt. Nú er sá tími kominn, að menn fara að hugsa til vorsíldveiða hér við Suður- og Vesturland, a.m.k. jafnskjótt og dregur úr hinum mikla þorskafla, sem verið hefur hér við suðurströndina undanfarnar vikur. Þá styttist og óðum sá frestur, sem gefst til að undirbúa sem rækilegasta síldarleit fyrir Norður- og Austurlandi í sumar, en hún þyrfti að geta hafizt um mánaðamótin maí–júní.

Með hliðsjón af þessu, svo og því, sem ég áðan sagði um frambúðarskipan þessara mála, hef ég leyft mér að beina til hæstv. sjútvmrh. fsp. í tveim liðum. í fyrsta lagi spyr ég um þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, til þess að hægt sé með sem beztum árangri að framkvæma síldarleit hér syðra og vestra í vor og nyrðra og eystra í sumar. Í öðru lagi spyr ég, hvaða ráðagerðir kunni að vera uppi um kaup á síldarleitarskipum og frambúðarskipulag síldarleitar. Mér er um það kunnugt, að sjómenn og útvegsmenn telja miklu skipta, að vel sé búið að þessari starfsemi. Á fiskiþingum síðustu ára hafa verið samþykktar till, um málið. Skipstjórar og félög þeirra hafa einnig bent margsinnis á nauðsyn þess að efla síldarleitina og fá til hennar fastan skipakost. Ég vænti þess, að hæstv. sjútvmrh. og hæstv. ríkisstj. öll hafi á því fullan skilning, að hér er um mikilvægt mál að ræða.