06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í D-deild Alþingistíðinda. (3458)

218. mál, stóreignaskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrsta spurning hv. þm. er á þessa leið: „Hve miklu nam álagður stóreignaskattur samkv. l. nr. 44 3. júní 1957?“ Þótt spurningin sé einföld, er svarið flókið, því að af þeim skatti, sem upphaflega var á lagður, stendur tæpur helmingur eftir. Dómstólar hafa farið höndum um skattalögin og dæmt sum ákvæði þeirra stjórnarskrárbrot. En ef litið er yfir upphæðir skattsins og þær breytingar, sem þær hafa tekið, þá er sú saga í stórum dráttum á þessa leið:

Álagningu skatts þessa var upphaflega lokið 15. febr. 1958. Var talið, að skatturinn næmi um 135 millj. En mjög fljótt varð vart villu í þessari tölu, og reyndist skatturinn eiga að vera 136.6 millj. kr. Margir skattþegnar kærðu skattálagninguna til skattstjórans í Reykjavík, sem lagði á þennan skatt. Skattstjórinn mun hafa lokið við að afgreiða kærur og reikna út skattinn að nýju í ágúst 1958. Þá var talið, að heildarskatturinn næmi 125.9 millj. kr.

29. nóv. 1958 gekk hæstaréttardómur í máli Guðmundar Guðmundssonar o.fl. gegn fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs. Með þessum dómi voru felldar úr gildi reglur l. nr. 44 frá 1957 varðandi verðmætismat á eign í hlutafélögum og talið, að hlutabréf skyldu við álagningu Þessa skatts metin á sannvirði. Hæstiréttur lagði fyrir skattayfirvöld að leggja skattinn á að nýju miðað við þessar reglur.

Skattstjórinn í Reykjavík hófst nú handa að meta sannvirði hlutabréfa og reikna skattinn að nýju. Var því lokið í marzmánuði 1959. Var nú talið, að heildarskatturinn næmi 113.3 millj. kr.

Þessi skattákvörðun og verðmætismat var síðan kært til ríkisskattanefndar. í maímánuði 1959 ákvað ríkisskattanefnd nýjan grundvöll fyrir verðmætismati á hlutabréfum. Var síðan hafizt handa um að endurreikna skattinn með hliðsjón af úrskurði þessum og öðrum úrskurðum ríkisskattanefndar, er almenna þýðingu höfðu. Þessum endurreikningi var lokið í des. 1959. Var nú talið, að heildarskattfjárhæðin væri alls 73.5 millj. kr.

Í des. 1959 gekk hæstaréttardómur í síðari hluta máls Guðmundar Guðmundssonar o.fl. varðandi skattinn. Voru þá felld úr gildi ákvæði l. nr. 44 frá 1957 um fyrirframgreiddan arf. Þessi dómur hafði í för með sér, að nauðsynlegt var að reikna skatt margra aðila að nýju.

Í okt. 1962 gekk dómur hæstaréttar í máli Eimskipafélags Íslands gegn fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs. Með þeim dómi var stórlækkað verðmætismat skattyfirvalda á hlutabréfum í Eimskipafélagi Íslands.

Eftir þeim upplýsingum, sem nú eru fyrir hendi, nemur skatturinn um 65.8 millj. kr. Hefur hann þá við dóma hæstaréttar og úrskurði skattyfirvalda lækkað úr 136.6 millj. um 70.8 millj. niður í 65.8. Þessi fjárhæð kann að breytast sökum þess, að enn er ólokið málum, sem risu út af þessari skattlagningu.

Önnur spurning hv. þm. er þessi: „Hve mikið hefur verið innheimt af skattinum og hve mikið á árunum 1961, 1962 og 1963 hverju um sig?“ Samkv. l. um stóreignaskattinn skyldi skatturinn greiddur að nokkru í peningum, en að öðru leyti í skuldabréfum til 10 ára. Af skattinum hafa verið greiddar í peningum og með skuldabréfum alls 39 millj. 881 þús., þar af árið 1961 2 millj. 923 þús., árið 1962 542 þús. og árið 1963 mínus 366 þús., þar sem á því ári þurfti að endurgreiða af því, sem áður hafði verið greitt af skattinum. í sambandi við þetta er rétt að upplýsa, að vextir og afborganir af hinum umræddu skuldabréfum, sem þegar hefur verið greitt, nema 13.6 millj. kr.

Þriðja spurning hv. þm. er þessi: „Hve mikið af þessu fé hefur þegar verið afhent byggingarsjóði ríkisins vegna íbúðarhúsalána?“ Byggingarsjóði ríkisins hafa verið greiddar 14 millj. 746 þús. kr.

Ég hef þá svarað spurningum hv. þm., en tel rétt að bæta nokkrum aths. um mál þetta við svörin.

Lögin frá 1957 um stóreignaskatt voru sérstæð og óvenjuleg lög. Eins og hv. þm. er kunnugt, urðu miklar deilur á Alþingi um þau lög. Skal ég ekki rekja þær hér, en það var bent á af gagnrýnendum, að l. væru ósanngjörn, mismunuðu aðilum, væru varhugaverð gagnvart atvinnuvegum þjóðarinnar, þar sem Þau íþyngdu þeim, og að með sumum ákvæðum l. og jafnvel l. í heild væri höggvið nærri stjórnarskránni. En saga þessara l., síðan Alþingi afgreiddi þau, er líka einstæð. Dómstólar landsins hafa árum saman síðan þurft að glíma við bann vanda, hvort þessi lög í heild eða einstök ákvæði þeirra væru brot gegn stjórnarskrá landsins. Hæstiréttur hefur beinlínis úrskurðað, að tiltekin ákvæði l. samrýmist ekki stjórnarskránni. Hæstiréttur dæmdi, að 4. gr. 1. mgr. l. um skattmat á eignum hluthafa í hlutafélögum samrýmdist ekki 67. gr. stjórnarskrárinnar, heldur skyldi miða skatt við sannvirði hlutabréfa. í annan stað úrskurðaði hæstiréttur sem stjórnarskrárbrot ákvæði 2. gr. l. um, að fyrirframgreiddur arfur á árinu 1956 skyldi leggjast við eign þess, er greiðsluna innti af hendi, en l. voru staðfest 3. júní 1957 og áttu því að verka aftur fyrir sig að þessu leyti. Auk þessara lagaákvæða, sem hæstiréttur beinlínis ógilti, metur hann ýmis önnur ákvæði l. með gagnrýni, án þess að hann telji alveg fullnægjandi ástæðu til að fella þau ákvæði úr gildi.

Þar sem hér er um mjög mikilsvert mál að ræða, tel ég rétt að rekja aðeins í stuttu máli nokkur atriði úr dómum hæstaréttar varðandi það.

Í dómi hæstaréttar frá 29. nóv. 1958 segir hæstiréttur svo um mismunun félagsforma, eins og hann kemst að orði:

„Samkv, gögnum málsins eiga hlutafélög samkv. l. nr. 44 frá 1957 að svara til skatts sem nemur röskum 81 millj. kr., en samvinnufélög skulu standa skil á sköttum, sem nema 312 þús. kr.

Með ákvæði 4. gr. 2. mgr. l. er að vísu vikið frá þeim grundvelli, sem eignarskatturinn almennt er reistur á, og verður því ekki neitað, að þessum félagsformum er gert mishátt undir höfði með þessum skattháttum. Allt að einu er ekki unnt að telja lög nr. 44 1957 ógilda réttarheimild af þeim sökum.“

Í sama dómi segir hæstiréttur um verðmætismat við skattaákvörðun:

„1 reglum l. nr. 44 frá 1957 er hvikað í veigamiklum atriðum frá verðmætisreglum hinna almennu eignarskattslaga.

Skal landsnefnd sú, sem starfaði samkv. l. nr. 33 1955, endurskoða mat á lóðum og hækka það, ef henni lízt svo, en við þá hækkun á siðar að bæta 200% álagi.“

Síðar eru í dóminum raktar sérreglur um mat frystihúsa, sláturhúsa, vinnslustöðva sjávarafurða og landbúnaðarafurða, aðrar matsreglur fyrir flugvélar og fiskiskip og enn aðrar fyrir önnur skip. Hæstiréttur segir:

„Með þessu ákvæði (þ.e. 2. gr. 1.) er verið að gera skattgjaldendum mishátt undir höfði: Um ákvæði 3. gr. l. um, að sum skuldabréf skuli undanþegin skattinum, segir hæstiréttur: „Ákvæði þetta getur leitt til mismununar milli skattgjaldenda.“

Og að lokum segir svo í þessum dómi:

„Svo sem greint er hér að framan, fela ýmsar reglur l. nr. 44 1957 það í sér, að þeim skattaðilum, sem greindir eru í hinni almennu eignarskattslöggjöf, einstaklingum og félögum, er gert mishátt undir höfði.

Þykir ekki alveg fullnægjandi ástæða til að telja, að skattastefna l. nr. 44 1957 sé andstæð 67. gr. stjórnarskrárinnar“.

Meðan dómar dundu yfir og hvert ákvæði l. eftir annað var ýmist fellt úr gildi sem stjórnarskrárbrot eða talið höggva mjög nærri því, meðan heildarskatturinn hrynur úr 136.6 millj. kr. niður í tæpan helming, vegna þess að i. og framkvæmd þeirra fá ekki staðizt nema að nokkru leyti og að ýmsum aðilum þurfti að endurgreiða, það þurfti að endurskoða skuldabréf og stórlækka þau, svo að nam mörgum millj. kr., — meðan þessu fór fram, þótti ekki fært að ganga svo að um innheimtuaðgerðir að selja á uppboði eignir manna, sem teknar höfðu verið lögtaki til greiðslu á skattinum. Það mátti búast við nýjum endurgreiðslum og ómerkingum einhverra ákvæða. Þá var farið inn á þá braut, í stað þess að leggja út á þá varhugaverðu leið að hefja uppboð og sölu á lögteknum eignum, að allir aðilar, sem ekki höfðu greitt eða gefið út skuldabréf, skyldu setja fullnægjandi tryggingar fyrir ógoldnum skatti. Það var gert, og eru lögmætar kröfur ríkissjóðs vegna stóreignaskattsins fulltryggðar.

Því er ekki að neita, að vegna þessarar sögu allrar hefur skapazt nýtt misræmi. Vegna allrar þessarar óvissu hefur orðið nokkurt misræmi gagnvart þeim, sem í upphafi greiddu skattinn og gáfu út skuldabréf og hafa síðan innt af hendi tilskildar afborganir og vexti.

En málin eru ekki útkljáð enn, því að málaferli standa enn yfir. Ég vil nefna tvö mál, sem liggja nú fyrir hæstarétti. Annað snýst um bað, hvernig ákveða skuli skattinn, þegar aðili, sem situr í óskiptu búi eftir látinn maka, greiðir börnum þeirra eignir sem fyrirframgreiddan arf, og annað mál snýst um mat á hlutabréfum þess félags, sem þar á hlut að máli. En þrátt fyrir þetta liður nú senn að því, að lokið verði dómum í þessu máli, og þá þarf að finna sem skásta lausn á því, hvernig á að fara með þau slitur af stóreignaskattsl., sem eftir eru eða verða.

Ég vil segja það sem mína persónulegu skoðun, að með hliðsjón af því, hversu langan tíma þetta allt hefur tekið, hversu langur tími hefur farið í þessi málaferli, teldi ég sanngjarnt að lengja nokkuð greiðslutíma skuldabréfanna, sem upphaflega var ákveðinn 10 ár í l. frá 1957. Saga þessa máls ætti svo að verða hv. alþm. til varnaðar í framtíðinni, og vonandi draga menn lærdóm af þessari sorgarsögu, sem hefur orðið elzta löggjafarþingi veraldar til lítils sóma.