29.10.1963
Efri deild: 7. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

39. mál, innlend endurtrygging

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi var flutt frv. samhljóða þessu, en varð ekki útrætt. Það er þess vegna flutt aftur nú, samhljóða nákvæmlega og frv., sem flutt var á síðasta þingi.

Efni málsins er það, að frv. fer fram á heimild til að breyta til um afgreiðslu af innborguðu áhættufé. Þegar þetta fyrirtæki var upphaflega stofnað, var ákveðið, að þessi arðgreiðsla skyldi vera 6%, síðan var þessi upphæð lækkuð ofan í 5% og enn aftur hækkuð upp í 6%. Nú hafa heyrzt raddir um það frá þeim, sem þetta áhættufé hafa lagt til, sumum, að eðlilegt sé, að þessi arðgreiðsla væri hækkuð með hækkandi vöxtum af sparifé. Þess vegna er lagt til í 2. gr., að ef innlánsvextir sparisjóðsdeildar Landsbanka Íslands af sparifé á almennum innlánsbókum án sérstaks uppsagnarfrests verði hærri en 4% yfir árið, þá verði stjórn innlendrar endurtryggingar og slysatryggingar skipshafna o.fl. heimilað, að arðgreiðslan sé 2% hærri en þessir innlánsvextir voru á því ári.

Önnur efnismálsgr. frv. er svo sú, að ef arður verði ekki greiddur af tekjuafgangi og ekki heldur úr arðjöfnunarsjóði, þá getur stjórn félagsins ákveðið, að nota megi arð, sem síðast fellur til, til þess að jafna arðgreiðslur fyrri ára.

M.ö.o.: það, sem hér er um að ræða, er að heimila, að greiddur arður verði hafður allt að 2% hærri en vextir af almennum innlánssparisjóðsbókum Landsbanka Íslands. Þeir, sem eiga eða hafa lagt til þetta áhættuhlutafé, eru að vísu að miklu leyti opinberir aðilar, en þó nokkrir einkaaðilar líka. Ríkissjóður lagði til í upphafi 1.85 millj. kr., 3 tryggingarfyrirtæki lögðu til 136 þús. kr. hvert, en það voru Tryggingastofnun ríkisins, Brunabótafélag Íslands og Sjóvátryggingafélag Íslands. Þetta nemur samtals 2.25 millj. kr. En auk þess hafa svo útgerðarmenn ýmsir lagt til, þegar fyrirtækið var stofnað, samtals 2.7 millj. kr. Og eftir því sem mér hefur skilizt, eru það þeir, sem fyrst og fremst hafa óskað eftir því, að þeir fengju þennan arð af sínu áhættufé. Áhættuféð er raunar meira, en það er ekki innborgað nema þetta, og kemur þess vegna ekki til að greiða arð af öðru fé en því, sem hér er um að ræða. Ráðuneytið telur þetta eðlilegt og rétt, að þessi arðgreiðsla verði heimiluð og á þann hátt, og ég leyfi mér þess vegna að mæla eindregið með því, að þetta verði leyft.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn., þegar þessari umr. lýkur.