18.02.1964
Neðri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

131. mál, jarðræktarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umr., en umræðan hefur orðið almennar umr. um landbúnaðarmál og svo hefur að vísu orðið um fleiri umr. hér á hv. Alþingi að þessu sinni, jafnvel þó að óskyld mál hafi verið á ferðinni. T.d. henti það á s.l. hausti, að þegar rætt var hér um till. um þjóðhagsáætlun, þá flutti hæstv. viðskmrh. geysilega mikla landbúnaðarræðu, og hún verkaði svo á hæstv. ráðh., að á þeim sama þingfundi kvaddi sér hljóðs hæstv. forsrh. og á næsta þingfundi á eftir hæstv. landbrh. og sáu svo um, að ekki kæmust aðrir að í ræðustólinn þá að ræða það mál, og síðan hefur verið svo vel frá því máli gengið, að það hefur ekki komið hér á dagskrá, nema þá þannig, að það hefur ekki komið til umr. Hins vegar fór hæstv. viðskmrh. út til Noregs, og útvarpið var látið segja frá því, að hann hefði athugað um samstarf við Norðmenn um aðskilnað á þeli og togi í ferð sinni, þar sem áður var nú búið að tilkynna, að hann væri sérstaklega farinn til þess m.a. að flytja þar fyrirlestur um efnahagsmál — og sumir sögðu til þess að kenna Norðmönnum að koma af stað verðbólgu. En landbúnaðarmálin virtust hafa verið það, sem ráðh. átti sérstaklega að hafa athugað, og ýmsum varð á að hugsa, að nú ætti að reyna að bæta fyrir það, sem ofsagt var í ræðu þeirri, sem hann flutti hér í haust.

Nú hefur það farið svo í sambandi við þessi tvö frv., sem hæstv. landbrh. hefur flutt hér á hv. Alþingi, að það hefur orðið til þess, að almennar umr. hafa orðið um landbúnaðarmálin. Nú síðast talaði hæstv. ráðh. um, að það væri barlómur framsóknarmanna, sem mundi hafa mjög slæm áhrif í landbúnaðinum, og þeim væri um það að kenna, ef eitthvað gengi þar úr leið. Ég vil nú minna þennan hæstv. ráðh. á, að það hafa ekki verið forustumenn Framsfl., sem mest hafa haft orð á því, að bændum í landinu þyrfti að fækka. Guðjón, formaður Iðju, er ekki í forustusveit Framsfl., en hann ræddi um þetta fyrir nokkrum árum, að bændunum í landinu þyrfti sérstaklega að fækka. Og hæstv. ráðh. ætti að athuga það, að ráðunautur ríkisstj. í efnahagsmálum, Jónas Haralz, hefur einnig haft orð á því, að bændunum í landinu þyrfti að fækka. Og hæstv. viðskmrh. sagði hér í ræðu þeirri frá í haust, sem ég vitnaði til, að nauðsyn bæri til að fækka bændum í landinu til þess að fá vinnukraft þeirra í aðrar atvinnugreinar. Landbúnaðurinn stæði hagþróuninni fyrir þrifum og þess vegna þyrfti að fækka bændum, til þess að hagþróunin yrði eðlileg. Og vill svo hæstv. landbrh. halda því fram, að þetta sé fyrir áróður Framsfl., sem skoðanir þessara manna eru slíkar. Og nú hefur einn af fyrrv. frambjóðendum Sjálfstfl. gengið berserksgang um landið til að prédika það, að raunverulega þyrfti að fækka bændunum niður í 1000, þá væri tala þeirra orðin eins og hún þyrfti raunverulega að vera, og það má hver trúa því, sem trúa vill, að þetta sé fyrir áróður Framsfl., þessar endurteknu prédikanir sjálfstæðismanna.

Við skulum ekki vera að blekkja okkur neitt með það, að sú staðreynd er því miður til staðar, að það eru meiri erfiðleikar í landbúnaði nú en verið hefur um langt árabil. Og því miður er það svo, að þar eru ýmsar blikur á lofti, hvað sem hæstv. ráðh. kann að segja hér á hv. Alþingi. Og þegar hæstv. ráðh. talar um, að bændur hafi ekki minni tekjur en aðrir menn í landinu, ætti hann að lesa skýrsluna, sem annað stjórnarblaðið, Alþýðublaðið, birti um tekjur manna í landinu, sem sýndi, að bændastéttin í landinu er tekjulægsta stéttin. Þessum staðreyndum þýðir ekki að mótmæla. Hvað sem hæstv. ráðh. kann að segja hér á Alþingi, verður þeim ekki breytt.

Það er svo sem ástæða til, að það hefur verið margt erfitt fyrir bændastéttina í landinu hin síðari árin, og hefur stjórnarstefnan valdið þar nokkru um. Upphaf þessarar stjórnarstefnu voru brbl., sem Alþfl.-stjórnin setti haustið 1959 með stuðningi Sjálfstfl., og áframhaldið hefur svo verið ýmis atriði, sem má minna á, eins og lækkun afurðalánanna, hærri vextir, styttri lánstími, hlutfallslega minni stuðningur við ræktunina í landinu með óbreyttum jarðræktarlögum o.fl., o.fl. Og það þarf enginn að vera hissa á því, þó að þessi stefna segi til sín, og hún hefur líka gert það. Og hvort sem okkur líkar betur eða verr, er ástandið í landbúnaðarmálunum mjög erfitt og vonandi, að það eigi eftir að breytast verulega á næstu árum, og það verður að breytast til batnaðar, ef vel á að fara.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara að ræða sérstaklega um það, hvernig þessu var varið, eða aðstoð ríkisins á tímabili Framsfl., þó að fullkomin ástæða hefði verið til þess, sérstaklega í sambandi við ræðu hæstv. viðskmrh. á s.l. hausti, en vil þó aðeins víkja nokkuð að lánasjóðum landbúnaðarins, sem hæstv. landbrh. virðist eiga afskaplega erfitt með að átta sig á, hver staða þeirra hefur verið, þegar núv. stjórnarflokkar tóku við stjórn í þessu landi.

Framsfl. fór með landbúnaðarmálin óslitið frá 1947, frá byrjun þess árs til ársloka 1958. Þegar Framsfl. tók við þeim málum í ársbyrjun 1947, var hrein eign búnaðarsjóðanna 11.1 millj. kr. En samkv. reikningi sjóðanna í árslok 1958 var hrein eign þeirra 105 millj. kr. Og það er alveg sama, hvernig hæstv. ráðh. veltir þessu fyrir sér. Þetta er staðreynd, sem ekki verður hægt að mótmæla.

Hæstv. landbrh. talaði um það hér í gær, að hv. 1. þm. Austf. hefði ekki af miklu að státa í sambandi við búnaðarsjóðina eða framkomu sína sem ráðh. gagnvart þeim. En hver er nú ástæðan fyrir því, að búnaðarsjóðirnir juku svo eign sína sem raun ber vitni um á þessu tímabili? Ástæðan er m.a. sú, að af greiðsluafgangi ríkissjóðs fengu ræktunarsjóður, byggingarsjóður sveitanna og veðdeildin 52 millj. kr. á þeim árum, sem hv. 1. þm. Austf. var fjmrh. Þetta var m.a. ástæðan fyrir því, að sjóðunum tókst að safna fé á þessu tímabili. Auk þess voru á þessum árum gerðar ráðstafanir til þess, að sjóðirnir fengju gegnum mótvirðissjóðinn nokkra fjárhæð. Þetta var ástæðan fyrir því, að sjóðirnir juku eignir sínar á þessu tímabili.

Hæstv. ráðh. segir, að gengisbreytingin eða erlendu lántökurnar hafi hins vegar gert það að verkum, að eignir sjóðanna hafi engar verið. Nú hefur hæstv. ráðh., oft og mörgum sinnum verið að því spurður, hvort hann telji, að það hefði verið hyggilegra, að búnaðarsjóðirnir hefðu ekki tekið þessi lán, hvort hann telji, að það hefði verið hyggilegra, að búnaðarsjóðirnir hefðu ekki tekið lán til að endurlána á tímabilinu frá 1947–1958. Ég hygg, að hæstv. ráðh. sé mér sammála um það, að fyrir bændurna og fyrir landbúnaðinn í landinu hafi verið betur farið, að þær framkvæmdir áttu sér stað, sem þá voru gerðar, þótt fyrir lánsfé væri. Það er líka staðreynd, að ríkissjóður bar ábyrgð á öllum lántökum þessara sjóða, og það er líka staðreynd, að það, sem ríkissjóður þurfti að greiða árlega vegna gengisbreytinganna og yfirfærslugjaldsins, er álíka upphæð og greitt er fyrir tvo útgerðarmenn á árinu 1963 í ríkisábyrgðir vegna togarakaupa. Það var ekki meiri fjárhæð árlega en gert er, og þeir mega ganga fram fyrir skjöldu, sem telja það meira virði að hafa átt tvo togara hér í landinu heldur en aðstoð við landbúnaðinn.

Og það, sem hér er um að ræða, er ekkert sérmál landbúnaðarins. Með gengisbreytingunni 1961 skapaðist vandamál, sem ríkisstj., sem stóð fyrir þeim breytingum, varð að leysa gagnvart landbúnaðinum eins og öðrum atvinnuvegum. 1 grg., sem fylgdi frv. stjórnarinnar um stofnlánin til landbúnaðarins hér á hv. Alþingi 1961, var gerð sú grein fyrir þessu, að rekstrarhallinn ásamt gengistöpunum til búnaðarsjóðanna væri um 150 millj. kr. Hér á hv. Alþingi fyrir nokkrum dögum voru samþ. lög um aðstoð við atvinnuvegina, sem voru um 150 millj. kr. útgjöld fyrir ríkið. Ríkissjóður var látinn afla sérstakra tekna til að mæta þessu vandamáli atvinnuveganna. En þegar um vandamál, sem snúa að landbúnaðinum, er að ræða, þá eru þau afgreidd með því að kalla þau syndir Framsóknar og ekkert annað. Hæstv. ríkisstj. þarf ekki að taka þetta mál á annan veg en að kenna Framsfl. um það. Það er ekki hennar mál að leysa úr vandamálum, sem skapast gagnvart landbúnaðinum. Og það hefur áður verið á það drepið hér á hv. Alþingi, að í skýrslu Seðlabankans fyrir starfsárið 1961 er skýrt frá því á bls. 19, að í bráðabirgðaákvæðum í l. um Seðlabankann séu þau ákvæði, sem þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í bráðabirgðaákvæðum seðlabankalaganna er fjmrn. heimilað að semja við Seðlabankann um það, að inn á gengisreikning ríkissjóðs, sem varð til vegna gengistaps ríkissjóðs og bankanna 1960, verði greiddar óráðstafaðar innstæður ríkissjóðs vegna mótvirðissjóðs, allt að 62.5 millj. kr., og sérstakar mótvirðissjóðs innstæður Framkvæmdabankans, að upphæð 50 millj. kr. Jafnframt taki Seðlabankinn að sér að greiða eftirstöðvar skuldarinnar á gengisreikningnum. Lagaheimild þessi um gengisreikninginn varð að samkomulagi við fjmrn. ,, að notuð yrði í árslok 1961.“ .

Þannig var nú farið að með gengistöpin, sem bankarnir og ríkissjóður urðu fyrir í sambandi við gengisbreytinguna 1960. Hefði nú ekki verið ástæða til, að þá hefði jafnframt verið séð fyrir gengistapi, sem búnaðarsjóðirnir urðu fyrir og ríkissjóður bar ábyrgð á? Það er alveg sama, hvernig með þetta mál er farið. Þetta mál búnaðarsjóðanna er gert að sérstöku máli, sem hæstv. ríkisstj. lætur eins og sér komi ekki við, og það er lagður sérstakur skattur á bændurna í landinu til að mæta þessum gengistöpum. Gengisbreytingarnar eru gerðar vegna atvinnuveganna, og ríkissjóður og Seðlabankinn eru látnir taka á sig gengistöp, sem urðu vegna þessara gengisbreytinga. Í staðinn fyrir það, að þannig átti einnig að fara að gagnvart búnaðarsjóðnum, þá blæs hæstv. landbrh. sig út hér í hverri ræðunni á fætur annarri og óskapast yfir viðskilnaði Framsóknar á þessum búnaðarsjóðum, þegar hann á að gera grein fyrir því, hvernig hann hefur staðið að því að leysa þau vandamál, sem sköpuðust við gengisbreytinguna 1960 og 1961 hjá búnaðarsjóðunum.

Og svo kemur hæstv. ráðh. og segir: Ekki var nú hæstv. fyrrv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, að sjá fyrir þessum þætti í fjárlagafrv. fyrir árið 1959, vegna yfirfærslugjaldsins, sem þá var á fallið. — Hvað var mikið á fallið til útborgunar vegna yfirfærslugjaldsins í árslok 1958? Það var 1.9 millj. kr. Hæstv. landbrh. veit vel, að hv. 1. þm. Austf. gekk ekki frá fjárlagaafgreiðslunni fyrir árið 1959 og hefði þess vegna getað gert þar ýmsar breytingar, ef hann hefði stjórn á fjármálunum áfram, eins og hæstv. núv. landbrh. lét gera breytingar á áætlun til raforkumála á þinginu í haust, en það var ekki í fjárlagafrv., þegar það var lagt fram. Og þessi hæstv. ráðh. veit það ósköp vel, að margar brtt. bera ráðh. fram í hinum stærri málum, meðan fjárlfrv. er í meðferð Alþingis. Þess vegna segir þetta enga sögu, og það er staðreynd, að sú ríkisstj., sem stóð fyrir gengisbreytingunni 1960 og 1961, átti að leysa þennan þátt vandamálsins, sem skapaðist við þá breytingu, og getur engum um kennt. Hitt er svo annað mál, að hér erum við að ræða um stórmál. Ég er sannfærður um, að það er fátt, sem hefur jafnmikil áhrif í landbúnaðarmálunum núna og uppbyggingin, og ég er líka sannfærður um það, að framtíð landbúnaðarins verður ekki tryggð á eðlilegan hátt, nema okkur takist að leysa betur uppbyggingarþáttinn en enn er.

Í öllum þeim umr., sem hér hafa farið fram á hv. Alþingi um landbúnaðarmál, og meira að segja í hinni frægu ræðu hæstv. viðskmrh., er það niðurstaðan, að landbúnað verðum við að hafa og við getum ekki reiknað með því að flytja inn landbúnaðarvörur. En við skulum gera okkur grein fyrir því, að landbúnaðurinn á ekki eðlilega framtíð í þessu landi frekar en aðrar atvinnugreinar, ef fólk, sem landbúnað stundar, lifir ekki við sambærileg kjör og annað fólk. Til þess að það megi verða, eru það þrjú meginatriði, sem við verðum að hafa hugföst. Það er í fyrsta lagi verðlag á landbúnaðarafurðum. En ég er sannfærður um, að við getum aldrei leyst þann þátt, að fólk, sem landbúnað stundar, njóti sambærilegra kjara eftir verðlagsleiðinni einni. Þess vegna verða bein afskipti ríkissjóðs að koma þar til. Ég er sannfærður um, að við eigum meira og minna að fara inn á það, að ríkissjóður styrki með beinum framlögum ræktunina í landinu, enda er ræktunin í landinu ekkert sérmál bændastéttarinnar. Það er skylda hverrar þjóðar að rækta sitt land, og við eigum að ganga lengra í því en við höfum gert að rækta landið og styðja þá, sem að ræktuninni vinna. Og þriðji höfuðþátturinn er aðstoðin við uppbygginguna.

Hvað sem hæstv. landbrh. segir, er það staðreynd, að þeir, sem nú standa í uppbyggingunni, verða að leggja fram fleiri krónur en nokkru sinni fyrr með hærri vöxtum í þann hluta af uppbyggingunni, sem stofnlánin ná ekki til, auk þess sem það er líka staðreynd, að vextirnir á lánum stofnlánadeildarinnar til uppbyggingarinnar núna eru allt of háir. Ég er því sannfærður um, að það, sem verða okkar verkefni í byggingarmálum landbúnaðarins á næstunni, eru hlutfallslega hærri lán og lengri lán og lægri vextir. Enda er það staðreynd, að þessi þáttur er ekkert sérmál landbúnaðarfólksins, heldur þjóðarinnar allrar. Því hefur sem við búum að landbúnaðinum, því öruggari framleiðslu og því ódýrari framleiðslu fáum við. Þess vegna eigum við ekki að horfa á þessi landbúnaðarmál sem sérmál landbúnaðarins, heldur málefni þjóðarinnar í heild, og þess vegna eigum við ekki, þegar við gerum ráðstafanir í efnahagsmálum, að láta þá landbúnaðinn taka á sig skakkaföll vegna aðstoðar við aðra atvinnuvegi, eins og gert var með gengisbreytingunum 1960 og 1961.

Fram undan eru mikil og stór verkefni í landbúnaðinum, og það verður að búa þannig að þessari atvinnugrein, að fólkið, sem þá atvinnu stundar, búi við sambærileg kjör og annað fólk í landinu og atvinnugreinin verði örugg og hagkvæm fyrir þjóðina í heild.