05.12.1963
Efri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta mikið. Hæstv. ráðh. gaf í lok sinnar ræðu yfirlit um hækkun bóta síðan 1959. Ég dreg þær tölur ekki í efa. Ég gat þess sjálfur, að bætur eins og ellilífeyrir hefðu, miðað við árið 1959, hækkað yfir 80%, og það kemst, eins og hæstv. ráðh. sagði, yfir 100% með 15% hækkuninni. Um þetta er ekki deilt. En ég veit ekki, hvort við deilum um annað. Eigum við að miða við tryggingabæturnar, eins og þær voru 1959, eða við bæturnar, eins og þær urðu 1960? Ég tel, að bæturnar 1959 hafi verið með öllu óviðunandi og að í það horf megi þær aldrei framar komast. Ég tel hitt sönnu nær að miða við hækkunina, eins og hún varð 1960, og þó ættum við að hafa það í huga að gera betur. En ég sýndi fram á það í minni ræðu áðan, að það, sem gert var vel 1960, er að renna út í sandinn. Ég gat þess og sýndi fram á, hvernig vísitalan, hvernig dýrtíðin hefði aukizt um og yfir 70, 80 og 90% eftir því, hvaða lífsnauðsynjar maður miðar við. Þetta kalla ég, að með þessari miklu dýrtíð séu þær bætur, sem fengust 1960 á almannatryggingalögunum, að renna út í sandinn, og ég hygg, að hæstv. ráðh. sé mér sammála um það undir niðri, að það er þetta, sem við eigum að forðast. Það stendur mjög nærri eftir tölum hæstv. ráðh., sem hann las upp í lok sinnar ræðu, að nú í dag, áður en 15% hækkunin er lögð á, séu veigamiklar bætur eins og elli- og örorkulífeyrir komnar á svipað stig og áður. Að vísu eiga svo að koma 15%, en við vitum, að dýrtíðin heldur áfram, a.m.k. næstu mánuðina, og að þau 15% munu þess vegna einnig bráðlega renna út í sandinn.

Þetta held ég, að sé rétt, enda kemur það alveg heim við þær tölur, sem ég nefndi áðan, og þær tölur, sem hæstv. ráðh. las hér upp.