12.03.1964
Neðri deild: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

20. mál, loftferðir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Loftferðir eru nú svo ríkur þáttur í samgöngumálum þjóða, að brýna nauðsyn ber til, að um þær og allt, er að þeim lýtur, gildi lög og reglur til sköpunar fyllsta hugsanlegs öryggis. Einnig hér á Íslandi eru loftferðir orðnar þýðingarmikill þáttur samgöngumála. Við Íslendingar höldum nú uppi víðtæku áætlunarflugi innanlands til ómetanlegs hagræðis fyrir landsmenn alla. Jafnframt halda 2 íslenzk flugfélög, Flugfélag Íslands og Loftleiðir, uppi áætlunarferðum við umheiminn, Flugfélagið aðallega milli Íslands og Evrópulanda, en Loftleiðir bæði til Evrópu og Norður-Ameríku.

Flugsamgöngurnar hafa þannig algerlega rofið einangrun Íslands og fært landið í þjóðbraut á alþjóðasamgönguleiðum.

Það má vera okkur Íslendingum mikið fagnaðarefni, að við höfum síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk eignazt glæsilega sveit ungra flugmanna, sem tryggja þjóðinni nú ekki aðeins fullkomnar og öruggar samgöngur innanlands og á milli landa, heldur hafa þeir og verið þjóð sinni og landi til sóma víða um heim fyrir dugmikla og örugga flugstjórn. Millilandaflugið er orðið að merkilegum þætti í íslenzku atvinnulífi.

Tildrög þess frv., sem hér liggur fyrir til nýrra loftferðalaga, eru í stórum dráttum þau, að Alþ. samþ., árið 1956 till. til þál. um endurskoðun loftferðalaga frá Gunnari Thoroddsen. Var sú till. svo hljóðandi:

Nd. Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun löggjafar um loftferðir. Skal endurskoðunin við það miðuð, að sett verði heildarlög um þetta efni, lögtekin þau atriði alþjóðareglna um flugmál, sem þurfa þykir, og settar skýrar reglur um innanlandsflug, m.a. um flug yfir bæjum og þéttbýli og flug kennsluvéla.“

Í samræmi við þessa till. fól hæstv. núv. flugmálaráðh. Gizuri Bergsteinssyni hæstaréttardómara að gera drög að frv. til nýrra loftferðalaga. Var það lagt fyrir Alþ. á s.l. hausti. Fylgir því ýtarleg grg., þar sem m.a. er skýrt frá helztu alþjóðasáttmálum, sem gerðir hafa verið um loftferðir. Brýn nauðsyn er talin vera til þess, að hin einstöku ríki samræmi svo sem mögulegt er innanlandslög sín hinum alþjóðlega loftferðarétti. Meðal frændþjóða okkar á Norðurlöndum hafa starfað nefndir að þessu verkefni allt frá árinu 1948. Hafa þessar norrænu nefndir unnið saman og gert uppköst að loftferðalögum, sem í flestum aðalatriðum eru samhljóða og eru reist á alþjóðasjónarmiðum. Á grundv. elli þessa samstarfs hafa nú verið sett lög í Svíþjóð og í Danmörku, og frv. til slikra laga hefur verið til meðferðar í Noregi og mun hafa öðlazt lagagildi hinn 1. jan. 1962.

Frv. það til nýrra loftferðalaga, sem hér liggur fyrir, er sniðið eftir hinum norrænu lögum og alþjóðareglum, m.a. Chicagosáttmálanum, sem undirritaður var af hálfu Íslands 7. des. 1944 og fullgiltur af okkar hálfu hinn 21. marz 1947.

Samgmn. d. hefur haft þetta mál til meðferðar og haldið um það fjölda funda. N. hefur leitað um það umsagna flugmálastjórnarinnar, samtaka flugmanna, forráðamanna flugfélaganna og póst- og símamálastjórnarinnar. Hafa allir þessir aðilar látið n. í té ýtarlegar umsagnir um frv. Má segja, að þeir séu allir sammála um, að frv. marki merkilegt spor í loftferðalöggjöf Íslendinga, enda þótt einstakir aðilar hafi bent á ýmis atriði, sem betur mættu fara.

Samgmn. hefur orðið sammála um að flytja allmargar brtt. við frv., og liggja þær fyrir á þskj. 349. Til nokkurra atriða hefur n. þó ekki tekið endanlega afstöðu, en mun gera það á milli 2. og 3. umr. Hafa einstakir nm. einnig óbundnar hendur gagnvart brtt., sem fram kunna að koma.

Ég mun nú gera í stuttu máli grein fyrir þeim brtt., sem n. flytur og ég hef áður skýrt frá. 1. brtt. er við 3. gr. frv., en í c-lið hennar segir, að þá er sérstakar ástæður séu til, sé flugmálaráðh. rétt að veita loftfari, sem eigi er svo farið sem í 1. mgr. segir, heimild til loftferða um íslenzkt yfirráðasvæði með því skilorði, að telja megi nauðsynlegt, svo sem til öryggis. N. leggur til, að í stað flugmálaráðh. í gr. komi ríkisstj. Er talið eðlilegra, að ríkisstj. í heild veiti slíka heimild, þar sem um svo þýðingarmikla ráðstöfun geti verið að ræða.

2. brtt. er við 28. gr. frv., og er þar lagt til, að orðin „unz bætt er úr spjöllum samkv. reglum, er ráðh. setur. Annars helzt ógildingin“ í næstsíðustu málsgr. falli niður. Er með þessari brtt. lagt til, að ógilding lofthæfisskírteinis haldist, unz flugmálastjórnin lýsir loftfar lofthæft.

3. brtt., við 33. gr. frv., er aðeins orðalagsbreyting, þar sem gert er ráð fyrir, að orðið „sérfróður“ komi í stað orðsins „verkvís“.

4. brtt. er við 52. gr. frv. Leggur n. til, að tvær breyt. verði gerðar á þeirri gr. Samkv. a-lið brtt. er lagt til, að á eftir 1. mgr. gr. komi ný gr., svo hljóðandi:

„Flugstjóri og flugverjar, sem teljast til áhafna loftfara svo og flugumferðarstjórar, mega ekki neyta áfengis síðustu 18 klst., áður en störf eru hafin, né heldur meðan þeir eru að starfi. Varðar það að jafnaði missi skírteinis um stundarsakir, þó eigi skemur en 3 mánuði, eða fyrir fullt og allt, ef sakir eru miklar og brot ítrekað.“

Þetta ákvæði, sem n. tekur hér upp, er nú reglugerðaratriði. N. taldi það hins vegar svo þýðingarmikið, að skynsamlegt og rétt væri að taka það upp í sjálf lögin. Að öðru leyti þarfnast þessi brtt. ekki skýringar. Öllum er ljóst, hversu þýðingarmikið það er, að fyllstu reglusemi sé gætt af hálfu þeirra manna, sem gegna flugstjórnarstörfum og halda í hendi sér lífi og örlögum mikils fjölda fólks.

Í síðari brtt. n. við 52. gr. er lagt til, að ráðh. setji í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna til að tryggja fyllsta öryggi. Hér er einnig um sjálfsagt atriði að ræða. Á miklu veltur, að flugmenn njóti nauðsynlegrar hvíldar, þannig að þeir séu jafnan vel upplagðir og færir um að gegna hinu ábyrgðarmikla starfi sínu.

5. brtt. er við 56. gr. frv. Er lagt til, að 1. málsl. gr. orðist svo: „Flugöryggisþjónustu skal veita loftferðum til öryggis og léttis.“ Er þessi brtt. aðeins við það miðuð, að slík þjónusta er nú þegar fyrir hendi hér á landi. Í gr. er hins vegar gert ráð fyrir, að hana skyldi „setja á stofn.“

6. brtt. n. er við 84. gr. frv. Er þar lagt til, að aftan við fyrri málsgr. bætist orðin: „þar á meðal um farm- og fargjöld“. Felur þessi breyting það í sér, að þegar leyfi er veitt til loftferða innanlands, skuli það veitt um tiltekinn tíma og bundið þeim skilyrðum, sem nauðsynleg þykja, þ. á m. um farm- og fargjöld.

7. brtt. n. er við 140. gr. frv., og er þar lagt til; að 3. mgr. gr. orðist svo:

„Skylt er flugmálaráðh, að skipa rannsóknarnefnd kunnáttumanna til að kanna orsakir flugslyss, ef manntjón hefur orðið.“

Hér er um að ræða allveigamikla breytingu. Meginregla 140. gr. frv. er, að flugmálastjórnin skuli láta fara fram rannsókn á flugslýsum. N. taldi hins vegar rétt að gera þá breyt. á frv., að flugmrh. væri skylt að skipa sérstaka rannsóknarnefnd kunnáttumanna til að kanna orsakir flugslyss, sem manntjón hefði af orðið.

8. brtt. er afleiðing af brtt. við 140. gr., og sama er að segja um 9. brtt. við 144. gr. frv. 10. brtt., sem er við 150. gr. frv., felur aðeins í sér leiðréttingu.

11. brtt. felur hins vegar í sér allveigamikla breyt. Með henni er lagt til, að 8. mgr. 184. gr. frv. falli niður, en sú mgr. er svo hljóðandi:

„Nú er maður skv. 81. gr. l. nr. 26 1958 sviptur rétti til að stjórna vélknúnu ökutæki, og er flugmrh. rétt að svipta hann rétti til að hafa á hendi starfa í loftfari um þann tíma, sem dómur sviptir hann rétti að stjórna ökutæki, enda veiti hið refsiverða athæfi, sem valdið hefur ökuleyfissviptingunni, ástæðu til að ætla, að hann misnoti flugverjaréttindi sín. Aðili getur krafizt þess, að réttmæti sviptingarinnar sé borið undir dómstóla. Ákvæði greinar þessarar taka til þess máls.“

Sú skoðun kom fram í samgmn., að ákvæði þetta væri of harkalegt gagnvart flugmönnum, og var talið. að ákvæðið í 5. mgr., gr. fullnægði í þessum efnum, en í henni segir á þessa leið:

„Nú telur flugmálastjórnin, að efni séu til að svipta mann rétti til að starfa í loftfari, og er henni rétt að svipta hann rétti til bráðabirgða, þó svo, að dómari sá, sem málið ber undir, getur, hvenær sem er og áður en málið er dæmt til fullnaðar, ógilt ákvörðun flugmálastjórnar.“

Samgmn. taldi m.ö.o., að þetta ákvæði væri fullnægjandi.

Um 12. og síðustu brtt. n., sem er við 190. gr. frv., vil ég svo að lokum segja þetta: Í l. nr. 49 1947 er ákveðið, að um stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettu loftfari skuli fara eftir reglum um fasteignir, að svo miklu leyti sem þeim verður við komið. Í brtt. við 190. gr. felst, að þetta ákvæði skuli halda gildi, þar til sett hafa verið ný lög um þetta efni.

Samkv. framansögðu leggur samgmn. einróma til, herra forseti, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég hér hef gert grein fyrir, og vísað svo breyttu til 3. umr.