09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla í þeim fáu orðum, sem ég segi hér, að reyna að halda mér að þessu máli, en hv. 6. þm. Sunnl. er sýnilega orðið svo brátt að flytja áróðursræðu hér í máli, sem kemur til umr, á eftir, að hann gat ekki stillt sig um að kynna nú þegar skoðun sína á því, ef kannske einhverjir yrðu ekki áheyrendur, sem hefðu heyrt orð hans núna, eða þá til að auðvelda, að það yrði safnað fleiri áheyrendum. Það er meinfangalaust frá minni hendi, þó að manni verði á dálítið að brosa, þegar hv. framsóknarþm. tala með stórfyrirlitningu um gerðardómslög sem þrælalög. Mig minnir, að þeir hafi einhvern tíma staðið að gerðardómslögum, en það vill sumt gleymast, þegar það hentar.

Mér þykir vænt um undirtektir hv. þm, að öðru leyti í þessu máli, og ég verð þ6 að hryggja hann á því, að hann hefur sennilega oftraust á mér um það, að ég hafi ekki staðið að því samkomulagi, sem gert var við AIME. Það höfum við allir í stóriðjunefnd gert og sannast sagna blygðumst okkar ekkert fyrir, vegna þess að þetta samkomulag er að sjálfsögðu rammasamkomulag til þess að draga fram meginefni þessa máls, og var auðvitað ekki nein leið að leggja þetta fyrir Alþingi, án þess að hv. þm. fengju í stórum dráttum að sjá, hvaða hugmyndir væru uppi í sambandi við hugsanlega samaðild Íslendinga og Hollendinga eða þessa hollenzka fyrirtækis að þessu fyrirhugaða fyrirtæki hér. Það er auðvitað engum vanda bundið að finna ýmislegt að þessu bráðabirgðasamkomulagi. Í fyrsta lagi er það nú svo, að það er ósköp hætt við því, að slíkt samkomulag verði aldrei gert, án þess að ýmislegt í því kunni að orka tvímælis, og ég geri ekki ráð fyrir, þegar lokasamkomulag verður gert um þetta fyrirtæki, þá verði það í öllum efnum þannig, að það geti ekki einn og annar sagt, að þetta hefði verið heppilegra á hinn veginn. Það verður jafnan svo. En það, sem er kjarni þessa máls, er, að ég hygg, að það sé alveg óhætt að fullyrða það, að með þessu samkomulagi út af fyrir sig hefur engu verið afsalað af því, sem hér hefur komið fram á Alþingi, að menn telji nauðsynlegt að tryggja íslendingum yfirráðarétt yfir. Það er kjarni málsins. Það er ótalmargt, sem á eftir að fylla út í þetta, og það er alveg rétt, sem hv. þm. segir, að ýmislegt orðalag í þessu er óljóst, og það er beinlínis óljóst vegna þess, að það á eftir að fylla inn í þetta hin endanlegu ákvæði, t.d. eins og atriðið um það, sem hann gerði sérstaklega að umtalsefni, að það er sagt í samkomulaginu, að félögin tvö skuli gera með sér samkomulag, er tryggi sanngjarna skiptingu hagnaðar milli félaganna. Ég sé ekki með góðu móti, að neitt annað orðalag hefði verið eðlilegra á þessu stigi málsins en þetta, því að að sjálfsögðu getur þetta orðalag rúmað hvað sem er í sambandi við það, hvort endanlega verður ákveðin þessi eða önnur skipan mála varðandi skiptingu þessa hagnaðar. Við skulum nú segja, að kísilgúrverksmiðjan skilaði engum hagnaði, þannig að það yrði í rauninni spurning um, hvaða möguleiki væri að borga söluþóknun, og ég er ekki endilega viss um, að það væri undir öllum kringumstæðum eðlilegt að binda þetta við það, að sú söluþóknun yrði greidd, hvernig sem gengi að öðru leyti með rekstur verksmiðjunnar. Ég nefni þetta sem dæmi um það, að ég tel ekki endilega öruggt, að sé heppilegast fyrir okkur, að það sé ákveðið, að sölufyrirtækið fái einhverja ákveðna söluprósentu, sem það skuli fá, hvernig svo sem vegnar og hvernig sem allt gengur. (Gripið fram í.) Já, venjulegast, en ég er að segja, það er ekki endilega víst, að þetta sé. Þess vegna segi ég, að orðalagið sem hér er um, að samkomulag þetta verði gert að lokum af þessum aðilum, það getur rúmað alla þessa möguleika, og það væri ekki eðlilegt, að stóriðjunefnd, sem er ríkisnefnd til undirbúnings málsins og hlýtur að afhenda það í hendur þess bráðabirgðafélags, sem tekur við þessu, geti farið endanlega að binda það félag og þá fulltrúa, sem ríkisstj. skipaði sérstaklega til að annast þetta mál út af fyrir sig, — að stóriðjunefnd fari fyrir fram að semja um útfærslu á einstökum atriðum. Ég nefni aðeins sem annað dæmi, sem er orðið knýjandi nauðsyn að leysa, og það er spurningin um það, hver annist hér alla „prósjekteringu“, ef svo má segja, af þessu fyrirtæki og við hvern verði samið um það. Þetta er atriði, sem hefði í rauninni þurft að vera búið að afgera og hefur komið mikið til athugunar í stóriðjun., en n. hefur verið þeirrar skoðunar, að væri fráleitt að ákveða um það, fyrr en bráðabirgðahlutafélagið væri formlega tekið til starfa, og önnur framkvæmdaratriði hljóta þar einnig til greina að koma.

Varðandi svo endanleg eignarhlutföll, skiptingu þeirra milli AIME og Íslendinga, þá hygg ég, að það séu einnig möguleikar til margvíslegra samninga um það. Það þótti nauðsynlegt í grundvallaratriðum að slá föstum einhverjum prósentum til þess að ganga út frá, en ég er ekki fjarri því, að þeir aðilar geti hugsað sér aðra skiptingu og ýmislegt í því efni, sem þeir hefðu kannske kosið að hafa á annan veg, ekki til þess að ganga á okkar rétt. Og ég vil taka það alveg skýrt fram, svo að það liggi fyrir hér, að það hefur aldrei í viðræðum við þennan hollenzka aðila komið fram nokkuð það, sem gefi ástæðu til að halda, að hann vilji fara a$ misnota sér aðstöðu sína á einn eða neinn hátt í sambandi við þetta mál. Á vissum stigum hefur verið takmarkaður áhugi hjá þeim, það eru vissir aðilar, sem hafa verið miklir áhugamenn í þessu, og það eru ekki hv að sízt sumir tækniaðilar, sem þar eru starfandi og hefur fundizt þetta vera merkilegt og skemmtilegt viðfangsefni að leggja út í, en hins vegar á ýmsum stigum verulegar efasemdir hjá ýmsum aðilum um það, hversu hagkvæmt þetta væri. Og eins og hv. 6. þm. Sunnl. sagði og það alveg réttilega, þá hygg ég, að að öllum öðrum ólöstuðum eigi Baldur Lindal efnaverkfræðingur mestar þakkir skilið fyrir það, að þessu máli hefur þokað svo sem hér er raun á, vegna þess að á vissu stigi málsins var talið í rauninni, að þetta væri ekki fyrirtæki, sem ætti sér neina framtíð eða væri neinn grundvöllur undir, og það var fyrst og fremst fyrir þolgæði hans, eftir að í rauninni erlendar athugunarstofnanir, sem þetta önnuðust, höfðu lýst efasemdum í málinu, að hann tók sig sjálfur til og gerði sérstakar rannsóknir og athuganir, sem var svo hægt að sannfæra aðra aðila um, sem um málið fjölluðu, að væru réttar og öruggar, að þetta mál var ekki gefið upp á bátinn.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja frekar um málið, því að það er í rauninni ekki tilefni til þess, en aðeins leggja áherzlu á það, að varðandi samkomulagið við AIME hlýtur auðvitað öll nánari útfærsla þess að vera í höndum þeirra stjórnarfulltrúa, sem af hálfu íslenzka ríkisins verða skipaðir í stjórn bráðabirgðafélagsins, en svo sem hér er gert ráð fyrir, er ætlazt til, að ríkissjóður verði í fyrstu atrennu einn aðili að þessu máli ásamt AIME, meðan bráðabirgðafélagið starfar, til þess að fá svigrúm til þess að athuga á því stigi, hverjir aðrir aðilar kynnu hér heima a0 vilja gerast aðilar að þessu. Og það verður að sjálfsögðu hlutverk þeirra fulltrúa, sem í þessa bráðabirgðastjórn fara af hálfu íslenzka ríkisins, að ljúka samningum við hið hollenzka fyrirtæki, þannig að grundvöllur fáist til stofnunar kísilgúrfélagsins sjálfs, og það er vissulega vonandi, að það geti allt orðið með þeim hætti, að það geti orðið til farsældar og uppfyllt þær vonir, sem við öll tengjum við það, að þessi framkvæmd, sem hér er um að ræða, geti orðið upphaf annarra og meiri hluta í eflingu iðnrekstrar og atvinnulífs í okkar landi.