04.03.1965
Neðri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

138. mál, læknaskipunarlög

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er til umr., er farið inn á nýjar brautir til þess að reyna að leysa úr stórkostlegum vanda, þ.e.a.s. skorti á læknisþjónustu á ýmsum stöðum úti á landi. í aths. við frv. kemur fram, að frá síðustu aldamótum hafi alltaf reynzt örðugt að hafa öll læknishéruð skipuð læknum samtímis og hafi jafnvel stöku læknishéruð verið læknislaus árum saman. Enn fremur er frá því skýrt í aths., að á undanförnum árum hafi þetta ástand farið síversnandi þrátt fyrir verulega beina fjölgun læknismenntaðra manna. Því ber sannarlega að fagna, að hæstv. ríkisstj. skuli með frv. þessu gera alvarlega tilraun til þess að bæta úr hinum tilfinnanlega læknaskorti, sem ekki þarf að lýsa, hver áhrif hefur haft, ekki einasta á afkomu og líðan þeirra, sem nú byggja þá landshluta, sem ekki fást læknar í, heldur og á alla framþróun þeirra byggðarlaga, sem hér eiga hlut að máli.

Ég vil sérstaklega fagna þeim nýmælum, sem upp eru tekin í þetta frv. til að bæta launakjör héraðslækna. Hér er farið inn á þá braut að leggja til, að héraðslæknum í tilteknum læknishéruðum verði greidd staðaruppbót, er nemi hálfum launum í hlutaðeigandi læknishéraði. Einnig er gert ráð fyrir fleiri kjarabótum til héraðslækna í frv. Hér er vissulega tekin rétt stefna og það er ánægjulegt, að hæstv. ríkisstj. virðist vera að gera sér það ljóst, að til þess að bæta úr læknaskortinum dugi ekki önnur ráð, en að bæta verulega kjör læknanna. Og ég vil nota þetta tækifæri til að benda á, að þetta sama á við um margar aðrar starfsgreinar ríkisins, en héraðslækna. Það er ástæða til að vekja athygli hv. alþm. á því, að það alvarlega ástand, sem ríkir í ýmsum greinum við starfrækslu ýmissa ríkisstofnana, stafar einmitt af því, að launakjör opinberra starfsmanna eru lakari, já, mun lakari, en hjá sambærilegum starfsmönnum á frjálsa launamarkaðinum.

Það þarf ekki að fara lengra, en í aðra starfsgrein heilbrigðismálanna til þess að benda á, að einmitt í þeirri starfsgrein er hreinn voði fyrir dyrum vegna skorts á starfskröftum. Á sjúkrahúsum landsins skortir tilfinnanlega hjúkrunarkonur, eins og sakir standa. Mér er sagt, að sá skortur hafi gengið svo langt, að loka hafi þurft sumum deildum Landsspítalans á tímabilum af þessum sökum. Nú er það alkunna, að í smíðum eru hér í Reykjavík tvö stór sjúkrahús og enginn sér það fyrir í dag, hvernig leysa eigi þann vanda, þegar þessi sjúkrahús taka til starfa, að fá nægilegt starfslið til þess að starfa í þessum sjúkrahúsum og þá sérstaklega hjúkrunarlið.

Svipað ástand er í fjölmörgum öðrum starfsgreinum ríkisins og þarf ekki annað en nefna t.d. kennslumálin í því sambandi. Það skortir mjög á, að kennarar með réttindum séu nægilega margir til þess að skipa þær kennarastöður, sem hér á landi eiga að vera lögum samkv. og þannig mætti lengi telja. Til þess að leysa þann vanda, sem af þessu stafar, þarf einmitt að fara inn á þá braut í enn ríkari mæli, en hér er gert með þessu frv., þ.e.a.s. að bæta launakjör starfsmanna.

Í aths. við þetta frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæðið um staðaruppbót kann í fljótu bragði að þykja varhugavert, þar sem það gæti orðið til þess, að aðrir opinberir starfsmenn á afskekktum stöðum krefðust sambærilegra hlunninda. Hér kemur þó naumast rökstuddur samanburður til greina.“

Ég er ekki sammála því, sem fram kemur hér í þessum aths., að það sé nein hætta á ferð, þó að öðrum starfsmönnum ríkisins úti um land verði greidd staðaruppbót, eins og frv. gerir ráð fyrir um héraðslækna. Þvert á móti er það skoðun mín, að með því að taka upp greiðslu staðaruppbótar til starfsmanna ríkisins almennt úti um land yrði leystur mikill vandi fyrir fólkið úti á landi og þjóðarheildina. Nágrannaþjóðir okkar hafa þegar gripið til þeirra úrræða að greiða staðaruppbætur, ekki aðeins til lækna, heldur einnig til annarra starfsmanna í tilteknum landshlutum. Og ég sé satt að segja ekki voðann t því, að slíkt fyrirkomulag verði tekið upp almennt hér á landi. Það er líka sannfæring mín, að sú muni raunin verða, að slíkt fyrirkomulag verði tekið upp og mér finnst satt að segja, að hæstv. heilbrmrh. eigi ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu, heldur ætti hæstv. ríkisstj. að beita sér einmitt fyrir þeim úrræðum til þess að leysa úr þeim starfsmannaskorti, sem er víða úti um land og er tilfinnanlegur fyrir fólkið, sem þar býr.